Download as txt, pdf, or txt
Download as txt, pdf, or txt
You are on page 1of 10

---- SAGA HEFST ----

LITLA MÚSIN OG STÓRA MÚSIN


eftir Sigurð Árnason

Fyrsta bókin, sem Inga eignaðist var Staf-


rófskverið eftir Laufeyju Vilhjálmsdóttur.
Það sem vakti einna mesta athygli hennar í
þeirri bók, var mynd af tveimur músum.
Og kvöld eitt í rökkrinu spurði hún pabba
sinn, hvort hann gæti ekki sagt sér söguna af
þeim.
Pabbi: "Ég man ekki til, að ég hafi heyrt
nokkra sögu um þær". Inga: "Geturðu þá ekki
búið til sögu um þær?"
Pabbi: "Ég veit nú ekki, hvernig það tekst.
Ég hef aldrei séð þessar mýs nema á mynd".
Inga: "Það er enginn vandi. Þú skalt byrja
að segja okkur hana núna, og svo getur þú
haldið áfram annað kvöld og hitt kvöldið,
þangað til sagan er búin".
Pabbi: "Jæja, það er víst ekkert undanfæri".
Inga: "Íbi, komdu að heyra söguna af litlu
músinni og stóru músinni í stafrófskverinu".
Það var einu sinni lítil mús, sem átti heima í
lítilli holu. Holan hennar lá inn í moldar-
vegg á íbúðarhúsi, og sneri opið inn í stofu,
þar sem börn voru oft að leika sér. Að framan
var holan næsta mjó, en náði langt inn í
vegginn, og innst í henni voru tvær afholu,
sín til hvorrar hliðar.
Í annarri þessari holu geymdi litla músin það,
sem hún gat dregið að sér af matvælum og
leifum, eftir hverja máltíð og kallaði hún
þessa holu forðabúrið sitt. Í hinni holunni
svaf hún á dálitlu fleti, sem gert var úr
heystrám og ullarrusli. Þessa holu kallaði
hún svefnherbergið sitt. Á daginn var litla
músin alltaf inni. Fyrri hluta dagsins svaf
hún, en þegar hún vaknaði fór hún fyrst að
éta, þar næst að skoða efni sín og raða niður
í forðabúri sínu. Forðinn hennar var aðal-
lega: brauð, fiskur, kæfa og kjöt, mest af
því reytt niður í smámola og bita. Átti hún
mikið af þessu, var af nágranna músum álitin
vel efnuð, og talin í heldri músa röð.
Þegar kvöld var komið, og allir háttaðir í
húsinu, fór litla músin að búa sig til úti-
ferðar, því að nú þurfti hún að leita sér
fanga, og fá sér ferskt loft. Þegar hún kemur
út í dyrnar á holunni, skimar hún í allar
áttir og hlerar, til þess að komast eftir,
hvort allir væru nú sofnaðir. Og ef hún
heyrði ekkert og sá ekkert varhugavert, hélt
hún áfram. Fyrst gekk hún fram og aftur um
gólfið og leitaði að brauði, sem kynni að hafa
fallið niður af borðinu hjá börnunum eða
mjólk, sem hellst hefði niður á gólfið. Og ef
hún fann eitthvað þess kyns, sem oft kom
fyrir, þá reytti hún brauðið í mola og bar það
inn í forðabúr sitt, en sleikti upp mjólkina.
En fyndi hún ekkert á gólfinu, þá hafði hún
það til, ef stofudyrunum var ekki læst, að
skreppa fram í eldhús, og þar fann hún vana-
lega sitt af hverju. Og ekki bar það ósjaldan
við, að hún kæmist alla leið inn í búr og
eftir þá nótt var ekki mikið autt pláss í
forðabúrinu hennar. En ef litla músin heyrði
einhvern hósta eða barn gráta, stökk hún
lafhrædd inn í holuna sína og þorði ekki að
fara út þá nótt.
Þyrfti hún að heimsækja nágrannamýs sínar eða
fara í heimboð til þeirra, vissi hún um ýmsar
glufur og göt nálægt dyrum hússins, sem hún
faldi sig í þangað til hún komst út. Og eins
þegar hún kom aftur. Þannig lifði litla músin
í allsnægtum og undi vel hag sínum.
En þá var það einn vetur, að snjór var mikill
og frost. Allar músaholur úti á húsveggjum og
grjótgörðum voru fullar af snjó og frosnar inn
til botns. Mikill bjargarskortur var hjá
flestum músum, því að öllum kjöllurum var
harðlæst, og allar rifur og smugur vel
byrgðar, svo engin mús komst þar inn.
Forðinn, sem mýsnar höfðu dregið að sér til
vetrarins, var uppétinn. Og eitt kvöld bar
það við, þegar allir voru háttaðir og sofnaðir
í húsinu, þar sem litla músin átti heima, að
stór mús kom til hennar, heilsar henni vin-
gjarnlega og segist nú ætla að leita á náðir
hennar, holan sín sé fennt full af snjó, svo
að hún komist ekki inn í hana. Hún sagðist
vera bjargarlaus og ekki hafa smakkað mat í
tvo daga, auk þess væri sér mjög illt, bæði af
hungri og kulda. "Og vona ég, að þú sjáir nú
aumur á mér, og lofir mér að vera hjá þér í
nokkra daga, þangað til veðrið batnar, ég skal
einhvern tíma reyna að endurgjalda þér það".
Litla músin virti hana fyrir sér um stund.
Henni leist ekki sem best á þessa stóru mús,
því að auk þess sem hún var hrikalega stór, þá
var hún mjög illa til reika, blaut og úfin,
hárið langt og víða í sneplum. Voteygð var
hún, með gröft í augnakrókunum, tennurnar voru
stórar, skakkar og brenglaðar. Eyru hafði hún
líka stór, og var víða rifið upp í þau.
Litla músin vildi því sem fyrst verða laus við
hana, og sagði: "Því miður get ég ekki orðið
við bón þinni. Fyrst og fremst er holan mín
svo þröng, að þú kemst ekki inn í hana. Svo
hef ég ekki nema eina svefnholu, og hún er
ekki nógu stór handa tveimur. Ég hef heldur
ekki nema lítið eitt að éta handa sjálfri mér,
og mundi það brátt verða uppétið af okkur
báðum, og við báðar verða í sömu vandræðum og
þú ert nú".
"Gætum við ekki stækkað holuna þína?" sagði
stóra músin. "Ég hefi góðar klær og er fljót
að rífa með þeim, en þú verður að gefa mér að
éta, áður en ég byrja. Og þó þú hafir ekki
nema eina svefnholu, þarf það ekki að vera til
fyrirstöðu, því að ég get legið í aðalholunni,
eða hvar sem vera skal. En hvað forða þinn
snertir, þá skal ég ekki éta af honum nema
aðeins eina máltíð. Svo segir þú mér, hvar þú
ert vön að leita fanga, og skal ég þá draga að
handa okkur báðum".
"Ég vildi síður breyta holunni minni", svaraði
litla músin. "Mamma mín bjó hana til og sagði
mér, að ég mætti ekki breyta henni, því að hún
nægði mér, og ég lofaði henni því. Holan mín,
eins og hún er nú, er snotur og hlý, en ef
henni væri breytt, mundi hún aflagast, og mér
finnast hún óvistleg. Auk þess ert þú svo
stríð hærð, að þú styngir mig með hárunum í
hvert skipti, sem þú kæmir við mig. Ég skal
því gefa þér dálítið að éta, og svo verður þú
að fara".
"Á ég að trúa því", sagði stóra músin, "að þú
viljir ekki lofa mér að vera í nokkrar nætur.
Ég get ekkert leitað fyrir mér, hungruð og
magnþrota, eins og ég er. Það liggur ekkert
annað fyrir mér en að deyja úr hungri og
kulda. Reyndu að fara nærri um kjör mín, og
gera þér í hugarlund, hvernig þér falli að
vera úti í svona veðri, svöng og köld".
En litla músin get ekki farið nærri um kjör
hennar. Hún hafði aldrei verið úti í vondu
veðri, hún hafði aldrei verið svöng, eða legið
í holu hálffullri af snjó, aldrei hafði hún
heldur verið lasin. Hún gat því ekki skilið
kjör stóru músarinnar, og hélt að hún ýkti
þetta allt saman. Og með því að hún var líka
eigingjörn og nísk að eðlisfari, þá vildi hún
fyrir hvern mun losna við stóru músina, og
svaraði því með þykkju:
"Eins og ég þegar hefi sagt þér, þá get ég
ekki orðið við þessari bón þinni. Þú hlýtur
að geta rótað snjónum út úr holunni þinni, og
svo ert þú svo kunnug úti, að þú getur fundið
eitthvað handa þér að éta. Ég skal því gefa
þér dálítið af brauðmolum, og svo verður þú að
fara".
Stóra músin sá nú, að það mundi enginn árangur
hafa að eyða fleiri orðum við litlu músina.
Hún þáði ekki brauðmolana, sem litla músin
ætlaði að gefa henni, kvaddi stuttlega og fór.
Litla músin fór nú inn í holu sína, en ekki
var henni alls kostar rótt innan brjósts. Hún
hafði ekki skilið vel, hvað hún átti að gera.
Henni hafði nú fundist þetta rétt í svipinn,
en þegar hún nú var komin inn í holuna sína,
og allt var kyrrt í kringum hana, en hún
heyrði álengdar þytinn í storminum, og snjó-
ganginn úti þá vaknaði hjá henni meðaumkun með
stóru músinni. Því skaut upp í huga hennar,
að stóra músin myndi, ef til vill deyja, og
væri það sér að kenna.
Við það varð hún hrædd, og þorði ekki um það
að hugsa, en fór að mæla sjálfri sér bót með
því, að telja sér trú um, að hún hefði ekki
getað breytt öðruvísi. Mamma sín hefði bannað
sér að gera nokkrar breytingar á híbýlum
sínum. En hvernig, sem hún leitaðist við að
mæla sér bót, gat hún þó ekki orðið alveg
róleg. Hún tók það þá til bragðs að leggjast
í flet sitt og reyna að sofna. Þá mundi þessi
órósemi líða frá, hélt hún.
Lengi vel gat hún ekki sofnað, því að alltaf
voru sömu hugsanirnar að ónáða hana. Um síðir
sofnaði hún þó, en sá svefn varð ekki langur,
því að eftir dálitla stund vaknaði hún með
andfælum. Hana hafði dreymt, að hún var stödd
úti, einhvers staðar á víðavangi í vondu
veðri, og vissi ekki hvað hún átti af sér að
gera. Holuna sína vissi hún ekkert um. Kom
hún þá að grjótgarði, og ætlaði að skríða inn
um dálitla glufu, sem þar var, en í því sér
hún, að stóra músin er þar fyrir, og henni
sýndist hún líta svo illilega til sín, að hún
varð dauðhrædd, og í því hrökk hún upp.
Nú er að segja af stóru músinni. Hún hafði
gert sér góðar vonir um, að litla músin mundi
skjóta yfir sig skjólshúsi dálítinn tíma. En
þetta brást, eins og við höfum nú heyrt. Og
hrygg í huga og örmagna af sulti og þreytu,
hélt hún út úr húsinu. Stormurinn hrakti
hana, og snjógangurinn ætlaði að kæfa hana.
Hún vissi ekkert hvað hún átti af sér að gera,
heldur ranglaði í hugsunarleysi meðfram hús-
unum. En ekki leið langt um, áður en hún
kemur auga á dálitla holu, í einum stað í
kjallaramúr. En hola þessi var hátt upp í
múrnum, svo að hún varð að stökkva upp í hana.
Stóru músinni kom nú til hugar, að grennslast
eftir, hvort hún mundi nú ekki geta komist í
gegnum holu þessa inn í kjallarann. Hún tók
því undir sig stökk, en af því að hún var svo
máttfarin, náði hún ekki upp í holuna, en rak
sig á múrinn og féll aftur á bak niður í
snjóinn. En ekki meiddi hún sig til muna.
Svo hímdi hún þarna dálitla stund, til að ná
sér eftir byltuna, tekur síðan undir sig annað
stökk, og herti sig nú eins og hún gat, í
þetta sinn auðnaðist henni að ná holunni, og
sér til mikillar gleði fann hún þar ýmislegt
matarkyns, þar hékk talsvert af harðfiski, þar
var líka kæfukrukka, sem stóð opin, kartöflur
og rófur voru þar í pokum og einnig poki með
hveiti í. Nú þótti stóru músinni sér borgið.
En varlega varð hún að fara, þar sem hún hafði
aldrei komið þarna fyrr, því vel gat kisa
verið þar að læðast, og stokkið á hana, þegar
minnst varði.
Hún fór því gætilega að öllu. Fyrst fékk hún
sér dálítið af kæfu, svo reif hún í sig
fiskinn, og þegar hún var orðin vel mett,
hresstist hún brátt. Nú var komið undir
morgun, og varð því stóra músin að fara að
hugsa um skýli handa sér til dagsins. Fyrst
hugkvæmdist henni, að hafast við í holunni í
múrnum, sem hún fór í gegnum inn í kjallarann
og skreið því þangað.
En þar var þá svo mikill kuldasúgur, að hún
gat ekki hafst þar við til lengdar, og sofið
þar. Stökk hún því inn í kjallarann aftur.
Rétt í þeim svifum heyrir hún, að eitthvað
kemur við kjallarahurðina, og við það brá
henni svo mjög, að hún hleypur í ofboði milli
tveggja tunna, sem stóðu þar í einu horninu.
Nú kom maður inn í kjallarann, en ekki kom
hann nærri staðnum, sem stóra músin hafði
falið sig í, en ekki þorði hún að hreyfa sig
og ekki að anda, nema með mestu varúð.
Þegar maðurinn var farinn, fór hún að skoða
sig um þarna í horninu. Þar fann hún þá
dálítinn ullarlagð, sem dottið hafði ofan af
annarri tunnunni, líka var þar gamalt jólatré.
Úr ullinni bjó hún sér til bæli, en notaði
jólatréð til þess að skýla sér fyrir augum
þeirra, er um kjallarann kynnu að ganga.
Nú undi stóra músin vel hag sínum. Var það
henni mikil gleði, að vera nú ekki upp á neina
komin. Hún hafði hingað til lifað sjálfstæðu
lífi, af sínum eigin tannafla. Mömmu sína
hafði hún misst, þegar hún var á unga aldri,
og varð hún sjálf að sjá fyrir sér þá þegar,
og það hafði henni tekist allt fram á þennan
dag.
Oft höfðu mýs leitað til hennar í vandræðum
sínum, og hafði hún hjálpað þeim á margan
hátt, bæði með því að gefa þeim góð ráð og
bendingar viðvíkjandi kisu, og einnig að benda
á, hvar helst væri fanga að leita.
Nú er ekki að orðlengja það, að þarna í
kjallaranum átti stóra músin heima fram á
sumarmál.
Rétt fyrir sumardaginn fyrsta var allur snjór
farinn, holur allar auðar, haugar flestir
þíðir.
Stóru músina fór þá að langa út, því að alltaf
þótti henni harla ófrjálst að vera þarna inni.
Og eina góðviðrisnótt stökk hún upp í gömlu
holuna og fór út.
Ó, hvað henni þótti nú gaman að koma út. Hiti
var í veðri, hvergi sást snjór, og stóru
músinni fannst allt vera svo nýstárlegt. Hún
var nú full og feit, og sem ung í annað sinn.
Hana langaði helst til að fara að leika sér.
Hvílíkur munur, eða þegar hún fór inn í
kjallarann um veturinn, hungruð, horuð og
máttfarin algjörlega vonlaus um nokkra björg.
Hvað leið nú gömlu holunni hennar. Það væri
nú gaman að vita, hvort hún væri nú eins og
þegar hún skildi við hana síðast, hugsaði hún.
Brátt fann svo stóra músin holuna sína og var
hún með sömu ummerkjum og áður, nema hvað
henni fannst hún dálítið óvistleg og köld. En
að litlum tíma liðnum fór hún að kunna þar vel
við sig eins og fyrr.
Að nokkrum vikum liðnum, eignaðist stóra músin
fjóra litla mýslinga. Hún hlynnti vel að
þeim, og færði þeim mat á hverjum degi. Þetta
var henni mikið ánægjustarf, því að henni
þótti vænt um mýslingana sína, og oft lék hún
sér við þá.
En þá bar það til eina nótt, litlu eftir mitt
sumar, í miklum rigningarúða, og kalsaveðri,
þegar stóra músin var að róta til í haug, og
leita þar að einhverju matarkyns til þess að
færa ungunum sínum, að hún sér litla mús
skammt frá sér.
Þegar hún verður hennar vör, hættir hún strax
að leita. Kemur þá þessi litla mús til
hennar, heilsar henni, og segir, að nú sé
komið illa fyrir sér. Hún kvaðst nú enga holu
eiga, vera svöng og blaut. Fer þá stóra músin
að spyrja ókunnu músina, hvernig standi á
þessu. Sagði þá litla músin henni alla raun-
arsögu sína:
"Ég átti heima í holu í litla húsinu, sem stóð
þarna langt í burtu og undi vel hag mínum.
Mamma mín hafði búið til holuna, og sagt mér,
að ég ætti alltaf að eiga þar heima. Og þar
lifði ég í góðu yfirlæti, átti mikið af
matvælum og allt, sem ég þurfti með.
En snemma í sumar tók ég eftir því, að það var
oft verið að berja í húsinu á daginn. Ég gaf
mig ekkert að þessu fyrst í stað, en brátt
komst ég að því, að verið var að rífa húsið.
Og nú er húsið með öllu horfið, og veggurinn,
sem holan mín var í, allur sundurtættur og
holan eyðilögð. Ég veit því ekki, hvað ég á
af mér að gera. Ekki hef ég smakkað mat í tvo
daga, er orðin banhungruð, ég er líka renn-
blaut, og mér er dauðkalt.
Aldrei fyrr hef ég orðið svo blaut, og aldrei
fyrr svo svöng. Ég hitti um daginn nokkrar
mýs, sem voru kunningjamýs mínar, meðan ég
átti heima í holunni minni, bað þær hjálpar,
en þær vildu enga hjálp veita, og ráku mig
nærri því að segja í burtu með ónotum. Þær
báru mér á brýn, að ég væri aumingi, er ekki
gæti bjargað mér, þó hásumar væri, að ég kynni
ekki að leita mér matar eða finna mér holu, og
þó væri enginn hlutur hægri, sögðu þær.
Ekki vænti ég nú, að þú viljir gera svo vel og
hjálpa mér, lofa mér að vera hjá þér í holunni
þinni, og kenna mér að leita mér bjargar. Ég
skal vera þér hlýðin, og gera allt fyrir þig,
sem ég get".
Stóra músin virti hana nú fyrir sér. Það var
sannarleg hryggðarmynd að sjá litlu músina.
Hún eins og dregin af sundi, mjó og rytjuleg,
og svo var látbragðið og svipurinn vesældar-
legur, og lítilsigldur, að stóra músin gerði
bæði, að aumkast hana, og þykja hún brosleg.
En eftir litla stund tók hún svo til máls:
"Já, vesalingur, ég sé, að þú átt mjög bágt,
og get vel skilið, að þar sem þú hefur aldrei
verið úti, og þekkir ekki háttu okkar alþýðu-
músanna, þá muni þér veitast örðugt, að fella
þig við lifnaðarhætti okkar, en ef þú getur
gert þér það að góðu, að vera í holunni hjá
mér, og þiggja hið litla, sem ég hef fram að
bjóða, þá er þér það velkomið.
Ég veit sjálf, hvað það er, að eiga bágt, því
að í vetur var ég nærri dauð úr hungri og
kulda. Þá leitaði ég á náðir lítillar músar,
en hún vildi enga hjálp veita mér, og hefði ég
þá eflaust orðið úti og dáið, en mér vildi það
til, að ég komst inn í kjallara, þar sem fólk
geymdi matvæli sín. En ekki var það litlu
músinni að þakka. Þó er ég alls ekki reið við
hana, ég er viss um, að hún hefur iðrast þess,
að hún hjálpaði mér ekki".
Þetta var stóra músin að segja eins og við
sjálfa sig um leið og þær gengu heim að
holunni. Hún virtist ekki beina því að litlu
músinni, sem gekk við hlið hennar, heldur lét
sem hún þekkti hana ekki, og hefði aldrei séð
hana fyrr. Þegar þær komu heim, hlupu ungar-
nir strax út í holudyrnar á móti mömmu sinni.
En þeim hnykkti við, er þær sáu ókunna mús með
henni. En stóra músin sagði þeim að vera
óhræddum. "Þessi vesalings mús er bæði köld
og svöng, og ég vona, að þið verðið góðar við
hana", sagði mamma þeirra. Urðu þá ungarnir
strax mjög vingjarnlegir við litlu músina og
buðu hana velkomna.
Þegar svo litla músin var búin að fá sér að
éta og drekka, fór stóra músin að laga til
bæli handa henni, til að leggja sig í. Nú
hlýnaði henni brátt, en ekki gat hún sofnað.
Hún var eins og utan við sig, átti svo bágt
með að átta sig á öllu því, sem hafði komið
fyrir hana þessa síðustu daga.
Hún, sem alltaf hafði verið svo sæl og ánægð í
holunni sinni og átt nóg af öllu, en nú búin
að missa holuna sína og allan sinn mikla
matvælaforða. Því hafði hana aldrei órað
fyrir. Og svo þessi mikli hrakningur. Hún
hafði leitað á náðir nágrannamúsanna. Þeim
hafði hún svo oft boðið heim til sín, og þær
þegið heimboð hennar, og verið hinar vingjarn-
legustu, meðan allt lék í lyndi fyrir henni.
En nú hefðu þær ekki viljað sinna henni hið
allra minnsta, eða hjálpa henni á nokkurn
hátt. Að síðustu hafði hún komið til þessarar
fátæku rosknu músar. Og þó að hún ætti lítið
til, og auk þess mörgum ungum fyrir að sjá, þá
hafði hún þó tekið svona vel á móti sér.
Henni kom allt í einu til hugar, það sem stóra
músin hafði verið að tala við sjálfa sig á
leiðinni heim: "Dauð úr hungri... í vetur...
Einhver lítil mús... Ekki viljað hjálpa
henni..." Litla músin kipptist við. "Gat það
verið... Þessi mús... ?" Nú fór henni að
verða í meira lagi órótt. "Jú... þetta var
líklega svona... jú..." Og nú rann upp
lifandi í huga hennar mynd stóru músarinnar í
vetur. Og hvert orð, sem þeim hafði farið á
milli, fór nú eins og nálastungur um hana.
"Þetta gat hún ekki þolað... hún gat ekki
þegið, að stóra músin hjálpaði sér. Hvernig
gat hún litið í þessi rólegu og alvarlegu
augu, sem gerðu hana svo smáa fyrir öllu, sem
á undan var gengið. Hún gat ekki haldist við.
Hún varð að komast burtu hið allra bráðasta,
svo að enginn yrði hennar var og aldrei framar
að verða á vegi stóru músarinnar.
Reis hún þá hljóðlega upp í bælinu. Skimaði
og hleraði hvort hún heyrði eða sæi nokkra
hreyfingu til stóru músarinnar eða unganna
hennar. Og þegar hún ekki heyrði neitt, nema
rólegan anddráttinn, læddist hún fram úr
bælinu og stökk út í holudyrnar. En í því hún
rak hausinn út, kemur rigningargusa beint
framan í hana, með svo miklu afli, að hún
hörfaði inn í holuna aftur. Það fór hrollur
um litlu músina. Að þurfa nú að fara út í
óveðrið, og hafa enga holu vísa til að skríða
inn í, ekkert að éta, og þekkja engan, sem hún
gæti leitað til. Hún stóð þarna dálitla
stund. Nei, það gat hún ekki lagt út í.
Og við þessar óttalegu tilhugsanir hvarf
hræðslan við stóru músina, og allur hennar
fyrri ásetningur um að flýja. Réð hún þá af
að flýta sér sem mest inn í holuna aftur, og
reyna að fara svo hljóðlega, að enginn hefði
orðið þess var, að hún ætlaði að strjúka.
Þetta tókst henni, eftir því sem hún komst
næst. En það er ekki alveg víst, að stóra
músin hafi sofið eins fast og hún hélt.
Daginn eftir fóru þær báðar út að leita að
lífsbjörg handa sér og ungunum. Stóra músin
var mjög glöð og talaði mikið, en litla músin
var fálát og virtist eins og eitthvað gengi að
henni. Stóra músin lét í fyrstu ekki á því
bera, að hún tæki eftir fáleikum hennar, og
ætlaði að hafa það af, með því að rabba nóg
við hana. En þegar það tókst ekki, segir hún
blátt áfram:
"Gengur nokkuð að þér? Mér virðist þú vera
eitthvað svo dauf og þegjandaleg núna".
Þetta kom nokkuð flatt upp á litlu músina.
Hún hafði frá því hún kom á fætur verið að
hugsa um að segja stóru músinni frá hugar-
ástandi sínu, en hafði ekki komið sér að því,
eða ekki vitað hvenær eða hvernig hún ætti að
byrja á því. - En nú allt í einu létti henni
mikið og segir við stóru músina: "Þú getur
varla trúað því, hvað mér líður illa. Þú
hefur verið svo góð við mig, síðan ég kom til
þín í gær. En það hef ég sannarlega ekki átt
skilið, því að músin, sem þú baðst að hjálpa
þér í vetur, þegar þú varst holuvillt, svöng
og lasin, var engin önnur en ég. Mér var svo
órótt í nótt, þegar ég komst að þessu, að ég
ætlaði að hlaupa í burtu frá þér. Ég skamm-
aðist mín svo mikið fyrir breytni mína, að mér
fannst ég ekki geta þegið góðgerðir þínar".
Meira gat hún ekki sagt fyrir gráti. En stóra
músin, sem alltaf hafði vitað, hvað að hinni
gekk, fór til hennar, lagði kinnina við
vangann á henni og sagði blíðlega: "Ég hef
vitað það, síðan fyrst ég sá þig í gær, að þú
varst hin sama mús, sem ég leitaði til í fyrra
vetur, en það hefur ekki aftrað mér frá því að
gera þér gott. Og nú skaltu vera róleg. Ég
fyrirgef þér það. Þú þekktir þá ekki mína
hagi. Nú máttu vera hjá mér, svo lengi sem þú
vilt, og ég skal reyna að breyta við þig eins
og þú værir ein af ungunum mínum. Ég veit, að
þú ert góð að náttúrufari, og verður nú héðan
af ævinlega hjálpfús þeim, sem bágt eiga. Og
taktu nú aftur gleði þína. Við skulum ekki
minnast á það framar".
Litla músin tók nú um hálsinn á stóru músinni,
og kyssti hana með tárin í augunum og lofaði
að vera ávallt góð þeim, sem bágt ættu. Svo
varð hún brátt aftur glöð og kát, og hjálpaði
stóru músinni á allan hátt, eins og hún gat.
En stóra músin kenndi henni að afla sér matar,
og gæta sín fyrir kisu.
Og þegar litla músin hafði verið hjá henni
lengi, og lært af henni allt það, er búskap
alþýðumúsa lýtur, gerði hún sér holu og fór að
búa sér. En oft heimsóttu þær hvor aðra og
vinátta þeirra hélst til æviloka.
Inga: "Svo hefur Loftur einhvern tíma séð þær
saman, tekið af þeim mynd og látið hana í
stafrófskverið".

---- LOK SÖGU ----

You might also like