Meistari Hinna Blindu - Sýnishorn

You might also like

Download as doc, pdf, or txt
Download as doc, pdf, or txt
You are on page 1of 24

1.

Óp þeirra sem ennþá lifðu þögnuðu eitt af öðru og þrátt fyrir öll höfuðhöggin vissi
hann hvað það þýddi fyrir hann sjálfan.
Mennirnir stóðu enn yfir honum með vopnin reidd, ef svo ólíklega vildi til að
hann hefði ennþá afl til að hreyfa sig. Logarnir lýstu upp þá sem voru nógu nærri til
að horfa niður á hann. Sá grimmasti, renglulegur maður með tagl og djúpstæð augu,
glotti við tönn, eins og hann væri að njóta lúmsks brandara með sjálfum sér.
Hann var ekki æðstur í þessum flokki, en hinir virtust sýna honum fyllstu
virðingu, og hann var sá eini sem hafði mælt orð af vörum síðan árásin hófst.
"Leitt með hnéð," sagði maðurinn mjúklega, og gaf hnénu umrædda létt spark.
Hann var of veikburða til að svara með meiru en veiklulegri stunu.
"Þú getur engum nema sjálfum þér um kennt," sagði næstum-því-foringinn í
sama rólega tóninum. "Þú hefðir bara átt að láta hlutina hafa sinn gang. Það er engin
undankomuleið. Ekkert sem getur komið í veg fyrir það sem bíður þín." Maðurinn
setti hæl á slasaða hnéð og sneri honum í því. "Þetta er algjörlega sjálfum þér að
kenna, heimski litli maður."
Hann stundi meira, og reyndi að gera upp á milli stolts og veikrar vonar um að
kvalarinn myndi sætta sig við sársaukamerki og stoppa.
"Vail," sagði þrekinn, sköllóttur maður með ljótt ör þvert yfir andlitið. "Hann
verður að halda meðvitund aðeins lengur."
"Ég geri mér fulla grein fyrir því, Sofan," svaraði Vail, án þess að líta af
fórnarlambi sínu. "Ég veit hvað ég er að gera."
Pyntingin hélt áfram, þangað til eitthvað breyttist. Það tók hann nokkur
augnablik að átta sig á hvað það var: Dauðaöskrin voru þögnuð, og ný heyrðist aðeins
einstaka kjökur. Það var búið að sjá um síðustu þorpsbúana.
Vail lokaði augunum, og sældarlegt bros lék um varir hans.
"Ah. Lognið á eftir storminum. Ég elska það." Hann opnaði augun og leit á
þann sem lá við fætur hans. "Þú veist hvað tekur við, er það ekki? Fyrst við höfum nú
næði?"
Jú, hann vissi það. Og líkami hans var of lemstraður til að gera nokkuð í því.
Hann gat ekkert gert nema legið kyrr og finna óttann flæða um sig, þegar mennirnir
viku fyrir hávöxnu verunni sem nálgaðist. Meira að segja Vail steig til hliðar.
"Hann er þinn, Herra. Eins og þú fyrirskipaðir."
Veran kom nær.

--------------------

Lyktin af brunnum við var það fyrsta sem hann skynjaði.


Hægt og rólega fór hann að taka eftir fjarlægu hljóði, eins og hægum
trommuslætti. Eitthvað slóst taktfast utan í eitthvað annað.
Bank-bank-bank.
Þorstinn kom næst. Kverkarnar voru skraufþurrar. Þegar hann byrjaði síðan að
reyna að hreyfa sig, kom sársaukinn. Allsstaðar. Honum leið eins og risastórum
marbletti. Eins og hver einasti vöðvi hefði verið laminn með lurkum.
Hann stundi og lá grafkyrr. Og þegar verkirnir byrjuðu að réna, byrjuðu
spurningarnar.
Hvað gerðist? var sú fyrsta.
Hann opnaði augun, og gretti sig þegar dagsbirtan stakkst í þau. Hann eyddi
nokkrum augnablikum í að venjast henni og skoðaði umhverfi sitt.
Þetta hafði verið þorp. Þar til mjög nýlega.
Hann var umkringdur brenndum leifum timburkofa. Lítið var eftir annað en
grunnarnir og fallnir veggir. Hann reyndi að rifja upp nafn staðarins, en hugur hans
var enn vankaður, og minnið brást honum.
"Halló?"
Eina svarið við veiklulegu tístinu var hrafnskrunk í fjarska, og bankið sem hélt
áfram. Hann leit niður og skoðaði ástandið á sjálfum sér. Hann lá á bakinu á harðri
mold, klæddur í rifna, gráa ullarpeysu og skinnbuxur. Ótal blóðugar skrámur voru
sjáanlegar í gegnum götin.
Hann prófaði að hreyfa handleggina. Þeir voru lemstaðir og aumir, en virtust
óbrotnir. Hægri löppin, ekki eins illa farinn og handleggirnir, virkaði líka. Það var
annað mál með þá vinstri. Minnsta hreyfing framkallaði vítiskvalir í hnénu sem stóð
út úr stóru gati á skálminni. Þegar hann skoðaði nánar sá hann að það var ekki bara
marið og bólgið, heldur var hnéskelin úr lið.
"Úff..."
Hann náði að setjast upp og með erfiðismunum tókst honum að skríða
afturábak uns hann gat hallað sér upp að hálf hrundum vegg. Nokkur andartök liðu á
meðan hann jafnaði sig á stuttu ferðalaginu, og skoðaði rústirnar frá betra sjónarhorni.
Kofarnir höfðu verið litlir og varnargirðingin sem hann sá handan þeirra var
allt annað en tilkomumikil. Þorpið hafði verið ómerkilegt, og illa undirbúið undir árás.
Var ég hérna þegar þetta skeði? Hvernig... hvernig komst ég hingað?
Hann lagði hönd yfir augun og reynda að einbeita sér, reyndi að muna. Ekkert.
Minningar hans voru eins og skugar, sem runnu úr greipum hans sama hvað hann
reyndi. Hann gafst upp, og áttaði sig með vaxandi skelfingu á því hversu miklu hann
hafði í raun glatað.
Hver er ég?

--------------------

Hann sat upp við vegginn í dágóða stund og starði í tómt hyldýpið sem fortíð hans
var. Það var skelfilegt.
Nafn hans. Heimili. Foreldrar. Allt var horfið. Hvert sem hugur hans leitaði
fann hann aðeins tómarúm og þoku.
Hvað hafði eiginlega gerst?
Handan við götuna settist hrafn ofan á bjálkaenda sem stóð upp úr rústunum.
Fuglinn blakaði vængjunum og krunkaði hástöfum, og hristi hann úr hugleiðingum
sínum.
Hann andvarpaði. Það myndi ekki gera nokkurt gagn að sitja á rassinum, ekki
frekar en skaddaða hnéð myndi gera ef ekkert yrði að gert.
Hann krækti fingrunum gætilega í gatið á buxnaskálminni og víkkaði það, þar
til marin, þrútin hnéskelin stóð alveg uppúr. Hendur hans rannsökuðu helaumt beinið
sem skjagaði út til vinstri. Fingurnir gripu um það, og hjarta hans jók hraðann á sama
tíma og kvíðapyttur opnaðist í maga hans.
Jæja... það þýðir ekkert að láta þetta bíða.
Hann gretti sig, og kippti beininu aftur á sinn stað. Hann tók andköf þegar
slösuð liðböndin mótmæltu hástöfum, og loftið yfirgaf lungu hans í hvæsi.
"Þetta var slæmt," muldraði hann. Eða ætlaði sér að gera. Hást urgið sem kom
upp úr honum minnti hann á næsta atriði: Vatn.
Hann skreið með erfiðismunum að spýtu sem hafði víst verið hluti af vegg
fyrir stuttu síðan. Hún myndi duga sem hækja í bili. Hann studdi sig við veggpartinn
og náði að standa í góðu löppina. Eftir stutta hvíld prófaði hann að taka skref áfram.
Logandi sársauki fylgdi hverri hreyfingu, en hann var þó allavega á hreyfingu.
Bank-bank-bank.
Hljóðið kom aftur, og hann gekk á það niður götuna og inn í mitt þorpið. Hann
haltraði framhjá hálf-hruninni rúst, og stóð þá á litlu torgi með grjóthlaðinn brunn í
miðjunni. Það var engin vinda, bara fata bundin við stiku í jörðinni. Hann lagði allan
þungann á hægri löppina, beygði sig eftir fötunni, og kastaði henni í brunninn.
Fatan stoppaði. En það var ekkert skvamp.
Ha?
Hann studdi hægri hendinni á brúnina, sem náði honum ekki upp í mitti, og
hallaði sér yfir.
Brunnurinn var fullur af líkum.
Tveim metrum fyrir neðan opið stóð lítil, föl hendi upp úr hrúgunni, teygð í átt
að himninum eins og í hinstu beiðni um hjálp. Hún gat aðeins tilheyrt barni, og var
þakin skurðum. Við hliðina á henni var hauslaust lík, með spjótsodd út úr bakinu.
Hann kippti sér undan og hallaði sér upp að brunnveggnum. Ógleði skall á
honum eins og höggbylgja og hann kúgaðist.
Í einhverjum afkima hugarins hafði hann rænu til að vera þakklátur fyrir að
fatan skyldi hylja andlit barnsins. Hann gat samt ímyndað sér lítil augu, frosin opin,
full af hryllingi og ótta síðustu augnablikanna.
Bank-bank-bank.
Hljóðið kom aftur. Hann kipptist til og horfði í áttina sem það kom úr. Handan
við torgið stóð hálfhrunin bygging. Veggurinn sem sneri að torginu var farinn, og
fyrir innan sá hann í bakið á manneskju sem kraup við bjálka.
Bank-bank-bank. Manneskjan barði höfðinu í bjálkann.
"Halló?"
Hann ýtti sér frá brunninum og haltraði yfir torgið, í átt að húsarústinni. Ef
manneskjan heyrði í honum, þá sýndi hún þess engin merki. Þegar nær dró sá hann að
þetta var karlmaður, ber að ofan, með dökkt hár. Bakið á honum var þakið ljótum
skurðum.
Hann stoppaði við hrunda vegginn, og dofinn hugur hans reynandi að klóra
fram viðeigandi orð.
Bank-bank-bank.
"Mikael..." sagði maðurinn skyndilega, í lágri, rámri röddu. "Þeir komu...
vegna þííín..."
"Hva-hvað?" var eina svarið sem hann gat kreist út, og blóð hans kólnaði.
"Þeeeir... komu út úr... myrkrinu. Við áttum... ekki möguleika. Þeir... skemmtu
sér... með okkur... en þetta snerist allt... um þig. Vail tók það... skýrt fram. Og síðan...
sá Myrki, hann..." Bank-bank-bank, "tók svolítið frá mér."
Mikael hlustaði orðvana og skelfingu lostinn. Hann? Hafði öll þessi tortíming
verið vegna hans?
Krjúpandi maðurinn stóð upp með kvalarstunu.
"Hann lét mig horfast í augu við sig." Hryllingur skreið inn í annars dauðu
röddina. Maðurinn sneri sér við, og Mikael æpti af ógeði
Augntóftir mannsins voru tómar, umkringdar brenndu holdi. Það var eins og
eldur hefði kviknað inní höfuðkúpunni.
"Ég horfði í augu hans!" öskraði hann. "Hann tók það! Hann tók allt!"
Mikael gapti, frosinn, og starði í brunnar tóftirnar. Honum fannst eins og þær
horfðu til baka.
"Þeeeir... tóku þá sem þeir drápu ekki... yfir hæðirnar... og það er þér að
kenna!"
Mikael endurheimti rödd sína og tók hikandi skref inn í húsið. "He-heyrðu...
leyfðu mér að..."
Maðurinn gaf frá sér brjálæðislegt garg, og gerði atlögu. Mikael brá og
skjögraði afturábak. Uppgefinn líkaminn og sködduð löppin gátu ekki borið hann
hratt yfir, og öskrandi maðurinn náði honum á augnabliki.
Hann lyfti spýtunni fyrir hreinasta viðbragð og barði henn í höfuðið á
árásarmanninum. Spýtan brotnaði og maðurinn féll.
Ég sló blindan mann í höfuðið!
Maðurinn æmti og byrjaði að standa upp. Mikael reyndi að færa sig hljóðlega
úr leiðinni sem hann hafði hlaupið í, í von um að forðast aðra árás. Án hækjunnar var
löppinn hinsvegar ekki vandanum vaxin, og hann hrasaði afturábak.
Hann skall á afturendann um leið og maðurinn reis upp á fjóra fætur. Mikael
skreið afturábak í dauðans ofboði þegar sá blindi æpti eins og brjálað, sært dýr.
"Ég heyri í honum! Hann kallar! En ég leyfi honum ekki að nota þig!"
Brjálæðingurinn tók á rás beint á hann. Mikael var kominn upp að brunninum, greip í
brúnina og náði að hífa sig upp, rétt áður en maðurinn skall á hann og þeir féllu báðir
brunnkantinn.
Mikael lenti með bakið á fötunni, hann heyrði hold rifna, og blóð spýttist
framan í hann um leið og árásarmaðurinn skall urrandi ofan á honum. Mikael missti
andann, en áður en hann gat fyllt lungun af lofti gripu hendur þess blinda um
kverkarnar á honum.
Mikael reyndi að rífa og klóra í fingurna. Þeir högguðust ekki, og maðurinn
hertri takið með styrk hins vitfirrta. Með slasaða löppina átti hann ekki möguleika á
að rísa upp með brjálæðinginn ofan á sér. Lungun loguðu, blóð dunaði fyrir eyrunum,
og skelfing heltók hann. Hann lyfti hægri hendinni, tróð fingrunum í augntóftirnar og
ýtti upp. Blindi maðurinn kveinkaði sér reiðilega, en linaði ekki takið.
Sjón Mikaels fylltist af móðu, en með því að ýta höfði mannsins til hliðar sá
hann hvaðan allt blóðið kom: Maðurinn hafði fengið spjótið í gegnum sig.
Mikael greip um skaftið, skók það harkalega til og frá með öllum sínum
kröftum, og tókst að stækka sárið og auka blæðinguna.
Djúpt urg kom upp úr þeim blinda, og tak hans linaðist ögn. Högg í andlitið
losaði það meira, og Mikael tókst að koma góða hnénu á milli þeirra. Hann ýtti
brjálæðingnum frá sér, eins langt og spjótsoddurinn leyfði, á meðan maðurinn öskraði,
hvæsti, og klóraði í andlitið á honum.
Af hverju deyr hann ekki?!
Hann notaði hægri höndina til að verjast árásunum, og greip um blóðugan
oddinn. Það hafði komið brestur í skaftið, og ótti og hryllingur gáfu honum styrk til að
brjóta það í sundur.
"Miikaaeeelll!!" var hinsta orð mannsins áður en Mikael rak oddinn í hálsinn á
honum.
Ljósrautt blóð sprautaðist framan í Mikael á meðan andstæðingur hans tók
hinstu andköfin, hóstaði blóði, og þráaðist við að reyna að kyrkja hann. Krafturinn á
blóðrennslinu minnkaði samt hratt, liturinn dökknaði, og loks kom hinnsti kippurinn.
Hann var allur.
Mikael lá kyrr og ofandaði. Undir honum var stafli af líkum, myrtu fólki. Utan
við brunnin voru brunnar leifar af þorpi. Og ofan á honum... vissi hann ekki hvað,
nema að það hafði fallið fyrir hans hendi. Og kennt honum um þessar hörmungar.
Hvers vegna? hugsaði hann, leit af líkinu og upp í himininn. Hvað vildu þeir
mér?
Himnarnir svöruðu engu. Þeir settu bara skýin í gang, og steyptu regni ofan í
brunninn.

--------------------

Mikael lá þarna um stund með opinn munninn og drakk sig regnvatnið, safnaði
kröftum. Hann hafði ekki gleymt fötunni sem stakkst ennþá óþægilega í bakið á
honum, en hann vildi ekki sjá það sem lá undir henni. Þetta var líka steypiregn, og
með smá þolinmæði svalaði það þorsta hans ágætlega.
Þegar hann loks treysti sér til, hóf hann að losa sig undan líkinu. Það var
klaufalegt og sársaukafullt ferli, en á endanum gat hann hallað sér utan í
brunnvegginn.
Hann gerði sitt besta til að hunsa þá staðreynd að hann sat á haug af dauðu
holdi, en sú fyrirætlun varð að engu þegar hann sló höndinni utan í kalda
barnsfingurna sem stóðu enn uppúr hrúgunni. Mikael rumdi í viðbjóði, dró góðu
löppina að sér, og lagði báðar skjálfandi hendurnar í kjöltu sér.
Hann neyddi sig til að dreifa athyglinni með því að íhuga næsta skref. Hann
gat teygt sig upp í brún brunnsins, en efaðist um að hann hefði styrk til að draga sig
upp. Ekki án þess að hafa einhverja viðspyrnu, og steinarnir í veggnum voru sléttir og
orðnir blautir.
Regnið hélt áfram að dynja niður.
"Vail", morðingjar út úr myrkrinu, "hinn myrki", blóðbað... hvað hefur þetta
með mig að gera?
Líkt og áður bauðst ekkert svar. Aðeins hrafnskrunk í fjarska.
Hann leit á... manninn, sem hann hafði drelið svo nýlega. Regnið var hægt og
rólega að skola blóðinu af honum, svo hroðalegir skurðirnir urðu betur sýnilegir.
Hann hafði verið pyntaður. Hvers vegna? Og hvað hafði eiginlega komið fyrir
hann? Þetta hafði ekki verið eðlilegt! Hvernig gat nokkur maður barist af slíkum ofsa
með spjót í gegnum...
Spjótið.
Mikael stóð upp með góðu löppinni og bjó sig undir ógeðfellt verk. Hann
byrjaði að draga skaftið út úr mönnunum tveim sem það lá í gegnum. Hann lokaði
augunum og reyndi að hlusta ekki á klessuleg hljóðin.
Subbulegt skaftið losnaði á endanum. Án oddsins var það aðeins hærra en
Mikael. Hann stakk öðrum endanum í gat í veggnum, og lagði hinn á vegginn beint á
móti, þannig að skaftið hallaði.
Þessu næst stakk Mikael spjótsoddinum í beltið sitt og dró djúpt andann. Hann
lagði hægri hönd á skaftið, hina á vegginn, og stökk upp. Hægri löppin náði fótfestu á
skaftinu og hendur hans gripu um brúnina. Hann hunsaði þúsund verkina sem erfiðið
olli og náði að hífa sig upp með hörkunni. Hann kom olnboga yfir kantinn, síðan
hinum. Hann dröslaði svo hægri löppinni upp með erfiðismunum og dró þá vinstri
nógu langt til að hann gæti látið sig detta yfir brúnina. Hann skall í svaðið sem
úrhellið hafði skapað og tók andköf þegar hnéið fékk á sig hnykk
Mikael leyfði sér að kasta mæðinni í smástund, teygði sig síðan ofan í
brunninn og dró spjótsskaftið upp. Það var svert og þungt og myndi virka vel sem
göngustafur... og sem vopn, ef til þess kæmi. Hann lagði þunga sinn á skaftið og
haltraði frá brunninum.
Nú þegar bankið var all rækilega þagnað var hans eigin fótatak, í stöðugum
regndyninum, einu hljóðin sem fylgdu honum um þorpið. Það hafði verið lítið,
íbúarnir varla mikið fleiri en hundrað og húsin höfðu staðið þétt saman.
Morðingjarnir gátu vel hafa einfaldlega kveikt í nokkrum þeirra og látið eldinn
dreifast af sjálfsdáðum á meðan þeir sáu um íbúana.
Smáatriðin voru sennilega ekki mikilvæg. Það sem skipti máli var að
tortímingin hafði verið algjör. Rústirnar sem sá blindi hafði komið úr voru
heillegastar, og samt voru þetta varla meira en nokkrir plankar sem rétt náðu að hanga
saman. Mikael ætlaði að fara að líta út fyrir varnarvegginn þegar hann kom auga á
nokkuð sem stóð undan hrundum vegg.
Hann haltraði þangað, kraup varlega niður, tók utan um loppuna og togaði.
Undan brakinu kom dauður hundur. Megnið af honum var brunnið til ösku, en hann
yrði að duga.

--------------------

Mikael sat á meltunni í heillegasta húsinu. Hundajötið hafði ekki verið ánægjuleg
máltíð, en það sefaði að minnsta kosti hungurverkina og færðu honum smá orku.
Hann hafði kíkt varfærnislega undir fötin og kannað ásandið á skrokknum á
sér. Ástæðan fyrir því að honum leið eins og risastórum marbletti reyndist vera sú að
þannig var það nokkurn veginn. Útlimir hans og búkur voru þakin ljótum skrámum og
áverkum í alls kyns litum. Handleggirnir voru sérstaklega slæmir.
Eru þetta kannski varnaráverkar?
Hann hafði líka fundið nokkuð undarlegt sem hann kunni engin skil á. Yfir
hjartastað hans var stórt, undarlegt merki, eða rún. Það var á litinn eins og ljós
fæðingarblettur en var samt alltof reglulegt í laginu og myndin of flókin til að vera
það. Það var dálítið aumt viðkomu og hversu mikið sem hann hugsaði gat Mikael ekki
fundið neina merkingu í því.
Þrátt fyrir allt þetta virtust samt engin bein vera brotin, og ef hann færi varlega
með vinstri fótlegginn ætti hann að geta ferðast. En hvert? Þorpið hafði staðið í
dalsbotni, með þverhnípt fjöll til austurs og vesturs, og hæðir til norðurs sem lágu að
fjöllum í fjarska.
Samkvæmt þeim blinda hafði verið farið með þá sem voru ekki drepnir yfir
hæðirnar. Þær voru brattar og klettóttar, og með hnéð svona var hann ekki í neinu
ástandi til að klífa þær, hvað þá fjöllin. Það var þá ekki um annað að ræða en að halda
út um hliðið og suður eftir dalnum. Semsagt í þveröfuga átt við fólkið sem hafði
svörin.
En hann gat hvort eð er ekki verið um kyrrt. Og kannski, ef hann færi suður,
gæti hann komist framhjá hæðunum. KANNSKI gæti hann orðið á undan drápurunum
og föngum þeirra á áfangastaðinn handan hæðanna.
Mikael íhugaði þetta. Ef hæðirnar voru eins illfærar og þær virtust vera, og ef
fangarnir hægðu á föngurum sínum, var fjarlægur möguleiki á að hann kæmist þetta á
undan þeim. Ef vesturfjöllin teygðu sig ekki of langt. Og ef þeir væru í raun að fara
yfir fjöllin, sem hann vissi svo sem ekkert um. Það voru mörg önnur ef. Þetta var veik
von.
En hvað annað gat hann gert? Hann varð að vita hvað hafði skeð. Mikael varð
að vita hver hann var. Hann varð.
Sem stóð voru eigur hans rifnar buxur, peysa, brók, belti, spjótsoddur, og
spjótsskaft. Þetta var ekki nóg.
Nú þegar hann hafði fundið sér takmark, fann Mikael aukinn styrk smjúga um
sig, og stóð upp í leit að einhverju gagnlegu.

--------------------

Rifin skikkja. Poki. Tinnusteinn tekinn úr eyðilögðu eldstæði. Löng reim af hráskinni.
Klútar sem hann gat bundið um bera fæturnar með hráskinni. Þetta var allt sem
Mikael fann sem gæti komið að einhverju gagni. Það yrði að duga. Það olli honum
reyndar áhyggjum að hafa ekki flösku eða annað ílát undir vatn. Hann yrði að halda
sig nálægt vötnum og lækjum. Ef eitthvað slíkt væri þá í leiðinni.
Skikkjan fór um axlir hans og tinnusteinninn og leifarnar af hundakjötinu í
pokann sem hann batt fyrir með hráskinninu. Spjótsoddurinn var kyrr í beltinu. Og þá
var það komið.
En hann hikaði, klofinn á milli löngunar til að yfirgefa þennan hræðilega stað
og þörf fyrir...
Mikael hengdi haus og dró hönd í gegnum hárið. Hann varð að gera þetta,
hversu óþægilegt sem var. Og því lengur sem hann dró það á langinn, því verra yrði
það.
Hann haltraði til baka að torginu. Brunnurinn var á sínum stað og beið. Mikael
nálgaðist hann hikandi, setti stafinn frá sér, lagði hendur á brúnina og hallaði sér fram.
Blindi brjálæðingurinn stökk upp með skerandi öskri.
Mikael lokaði augunum, og hristi ímyndina úr huganum. Regnvatnið flæddi
niður andlit hans meðan hann leitaði að réttu orðunum. Þau komu ekki og á endanum
gafst hann upp, opnaði munninn, og lét kylfu ráða kasti.
"Ég... ég veit ekki hvort ég þekkti ykkur," sagði hann óstyrkri röddu. "Voruð
þið ættingjar mínir? Vinir? Færði ég einhvern veginn þessa hörmung yfir heimili
mitt? Eða var ég ókunnugur ferðalangur sem vandræðin eltu hingað? Ég veit það
ekki."
Hann hikaði, og fann kverkarnar þrengjast, en hann var hræddur við að missa
taktinn og hélt áfram.
"Ég veit ekki hver gerði þetta, eða hvers vegna. Ég... veit ekki af hverju
nokkur gerir svona. Og það er ólíklegt að ég finni svör. En... a... það sem ég vildi... ef
sá, sá sem ég drap hafði rétt fyrir sér... ef ég ber einhverja ábyrgð á þessum hryllingi...
ef ég ber einhverja ábyrgð á dauða ykkar, þá... þá þykir... mér það leitt. Mér þykir það
leitt. Þetta er... það sem ég vildi segja. Það eina sem ég get sagt."
Mikael tók sér stafinn í hönd og steig frá brunninum, en stoppaði.
"Ég vona að... að þið hvílið í friði."
Þá var það komið, og Mikael gekk af stað í suðurátt. Þegar hann átti leið fram
hjá einum rústunum sá hann nokkuð sem hann hafði ekki tekið eftir áður. Hann gróf
spegilbrotið upp úr brakinu og leit í það. Þar mætti honum ungt andlit, einhversstaðar
á trítugsaldri. Þykkt rauðbrúnt hár, og grá augu. Það var ekkert sérstaklega
athyglisvert við þetta andlit. Það bar bara andlit.
Það hafði enga þýðingu fyrir hann. Vakti ekki upp neinar minningar. Það
tilheyrði ókunnugum manni. Hann lét brotið detta og hélt áfram.
Handan við hliðið voru akrar. Handan þeirra var gisið skóglendi og stígur sem
lá inn í það. Stígurinn leiddi hann fljótlega upp á stóran hól. Gangan var erfið fyrir
slæma hnéið, en minningin um brunninn rak hann vægðarlaust áfram.
Þegar upp á topp var komið snéri hann við. Brunna þorpið var grátt og vart
greinanlegt í úrhellinu. Eins og vofa.
Hvað ef þetta voru einmitt ættingjar mínir, og fjölskylda? Hvað ef þetta er
heimili mitt sem ég er að yfirgefa?
Minnisleysið hlífði honum við persónulegri sorg, en það var lítil huggun.
Mikael hélt göngunni áfram.
Þorpið hvarf í regnið.
2.

Þykk skýin huldu stjörnurnar og það virtist næstum því vera hægt að snerta þau í
þessari hæð. Eina birtan kom frá varðeldunum sem megnið af fólkinu sat í kringum.
Hann sneri sér frá þeim og að mönnunum þrem sem nálguðust: Vail, Sofan,
og þeim sem þeir héldu á milli sín. Þetta var ungur maður, rétt kominn af barnsaldri,
með andlit þakið freknum. Og fullt af ótta. Hann hafði séð hina. Og þegar Vail og
Sofan ýttu honum fram fyrir meistara sinn leit hann undan og klemmdi aftur augun.
"Sýndu mannasiði, Rui," sagði Vail hæðnislega og þvingaði hann til að krjúpa
með hrottalegu sparki. "Hann er ungur og hraustur, Herra," hélt hann áfram. "Hann
mun duga vel."
Það var satt. Hendur gripu um andlit Ruis, kræktu nöglunum undir augnlokin
og rifu þau upp. Stuna Ruis breyttist í öskur þegar hann horfðist í augu við Hinn
Myrka.

--------------------

Mikael skaust upp í vökuheiminn, kaldur inn að beini í morgunrekjunni. Hann var
ringlaður, og kærulaus hreyfing kallaði fram andstyggilega áminningu frá hnénu.
Hann áttaði sig. Þetta var fyrsta nóttin hans eftir að hann yfirgaf þorpið. Hann hafði
skakklappast í suðurátt þangað til kvöldaði og úthaldið þvarr, og og hann leitaði skjóls
í kjarrinu.
Þetta var draumur! Bara draumur, ekkert annað! sagði hann sjálfum sér á
meðan hann reyndi að róa andardráttinn, sem var næstum eins hraður og dúndrandi
hjartaslátturinn.
Hann varð var við verki í fingrunum og leit niður. Hendurnar voru krepptar í
sömu stellingu og hendurnar í draumnum höfðu verið þegar þær opnuðu augu
mannsins. Mikael brá og rétti úr fingrunum en þá byrjuðu hendurnar að skjálfa í
staðinn.
Hann þvingaði sig til að draga djúpt andann. Martröðin hafði níst djúpt, og
vakið upp einhverja hræðilega óttatilfinningu sem hann kunni ekki skil á. Hann greip
stafinn og ýtti sér á fætur. Tími til að halda af stað. Hann virtist hugsa minna þegar
hann var á ferðinni.
Regninu hafði loksins slotað og vindinn lægt, svo eyru hans námu hljóð sem
hafði farið fram hjá þeim kvöldið áður. Vatnsniður, lengra frá veginum.
Skógurinn var nógu gisinn til að Mikael kæmist í gegnum hann nokkuð
vandræðalaust og eftir stutta göngu mætti honum afar kærkomin sjón: Lítill lækur,
sem rann í suðurátt. Flöskuskorturinn yrði kannski ekki vandamál þrátt fyrir allt.
Hann kraup á bakkanum og dýfði höndunum ofan í. Vatnið var tært og kalt og
hann bæði drakk það og skvetti framan í sig í von um að skola burt áhrifum
draumsins.
Önnur ánægjuleg sjón var stór sveppaþyrping steinsnar frá læknum. Mikael át
nokkra, týndi eins marga og hann kom í pokann og hélt svo af stað í aðeins betra skapi
en áður. Bara ef lækurinn héldi þessari stefnu gæti hann komist út úr dalnum án þess
að þorsti yrði vandamál. Ef hann beygði í aðra átt . . . ja, þá yrði hann bara að takast á
við það vandamál þegar þar að kæmi. Hann þurfti vatn, jafnvel þótt það væri vitaskuld
auðveldara að fylgja stígnum.
Mikael var að týna sveppi upp í sig á göngunni stuttu eftir hádegi, þegar hann
sá veginn. Hann lá í austur og vestur í skógarþykkninu, og í gegnum lækinn. Ef
stígurinn hefði ekki verið steinlagður, hefði Mikael sennilega ekki komið auga á hann
fyrir þykkum gróðrinum.
Mikael beygði góðu löppina nógu mikið til að geta snert steinana. Þeir voru af
ýmsum stærðum og gerðum, greinilega ekki hellusteinar, en mikil notkun virtist hafa
smám saman troðið þá niður í jörðina.
Hann óð yfir lækinn og eftir stutta göngu lá stígurinn inn í rúmgott rjóður. Þar
stóð stór bygging, byggð úr múrsteinum og nokkrum viðarbjálkum sem voru að mestu
fúnaðir í sundur. Umhverfis húsið voru mosavaxnar leifar af mikilli girðingu en
skógurinn var hægt en bítandi að endurheimta svæðið. Gras óx víða út á milli
steinanna í veggjunum, klifurjurtir teygðu sig upp veggina og ung hrísla stóð í
dyragættinni.
Þrátt fyrir allt þetta voru veggirnir enn sterkir, merki um kunnáttuna sem hafði
farið í að reisa þá. Þetta hlaut að hafa verið afar tilkomumikil bygging á sínum tíma.
Þegar hann gekk nær sá Mikael hrundar leifar af útsýnisturni og af stærð hans að
dæma hlutu fjögur hæstu trén í skóginum að hafa verið notuð í hann.
Eitthvað synti upp úr myrkviðum hugar Mikaels og sagði honum að þetta hlyti
að hafa verið virki. Og í virki var möguleiki á að einhver vopn hefðu orðið eftir þegar
íbúarnir yfirgáfu það.
Hann haltraði inn um dyrnar. Þakið hafði verið gert úr timbri. Margir
plankanna höfðu grotnað í sundur og lágu nú á þykku laufteppi sem huldi megnið af
steinlögðu gólfinu. Staðurinn angaði af mold og dýrum.
Á báðar hendur voru herbergi af svipaðri stærð og lögun og inni í þeim voru
leifar af gömlum rúmum. Fyrir utan að vekja þá spurningu hvers vegna staður sem
hafði hýst fjölda manns hafði verið yfirgefinn, var ekkert áhugavert við bygginguna.
Hann gekk lengra inn og kom að stóru herbergi á hægri hönd. Það reyndist innihalda
fullt af stórum leirpottum, tunnum og hrundum hillum og leit út fyrir að hafa verið
matarbúr. Mikael gekk lengra inn í húsið eftir gangi sem lá eftir því miðju, fann
svefnherbergi og eitt herbergi fullt af bókahillum. Náttúruöflin höfðu ekki verið blíð
eftir að þakið eyðilagðist og þegar Mikael reyndi að taka eina bókina upp molnaði hún
í höndunum á honum.
Hann fór til baka sömu leið og hann hafði komið og gekk inn í miðju virkisins.
Þar voru tvíbreiðar dyr sem hrundu þegar hann ýtti á þær, og Mikael steig inn í
borðsal sem hlaut að hafa rúmað að minnsta kosti hundrað manns í einu.
Athygli hans dróst að veggnum andspænis dyrunum. Þakið var heillegra í
þessum hluta hússins, svo veggteppið sem hékk þvert yfir vegginn var í þokkalegu
ásigkomulagi. Forvitnin dró Mikael nær, og það rann upp fyrir honum að þetta var
nokkurs konar ofin sögubók. Nákvæmar myndir af fígúrum og stöðum fylgdu
textanum. Fyrstu myndirnar virtust sýna einhverskonar hörmungar.
"Sundrungin rústaði Gamla Heiminum," sagði textinn. "Logar féllu af
himnum ofan á borgir úr gleri og stáli, á meðan forynjur gengu um götur þeirra.
Lönd færðust úr stað, hinir dauðu risu úr dvala sínum, og öll ill öfl veraldar
komu úr felum. Mannkyni var rekið á flótta, og gert að stefnulausri hjörð sem
Dauðaherrarnir veiddu að vild."
Myndirnar sem fylgdu þessum orðum voru afar skrautlegar. Borgir með
risavöxnum turnum brunnu, lík hrönnuðust upp í haugum, blóð flæddi í ám, og
ófreskjur sem Mikael kunni ekki að nefna voru hvarvetna.
"Flón og brjálæðingjar gengust undir stjórn myrkravaldanna, snerust
gegn meðbræðrum sínum og rifu niður síðustu leifar gömlu þjóðanna. Þetta voru
næstum því hinir hinstu tímar. En þá kom Frúin, og leiddi mikinn flótta út úr
myrkvuðu löndunum. Það var löng og erfið leið, en Frúin laðaði til sín alla sem
þráðu skjól frá hryllingnum og á endanum komu þau til vesturstrandanna."
Myndirnar sýndu gríðarlegan fólksfjölda sem streymdi úr rústuðum borgunum
og ferðaðist í gegnum eyðilegt landslag undir forystu kuflklæddrar konu með lampa í
hönd. Mannfjöldinn nam loks staðar við hvíta strandlengju og settist þar að.
"Þjóðin Eina var stofnuð, og skírð Jukiala í höfuðið á Frúnni. Þjóðin
stækkaði og dafnaði, varð að vonarneista í rústuðum heimi og styrktist með
hverju landi sem hún enduheimti."
Sýnt var hvernig voru reistar á víð og dreif, mun minni en þær sem höfðu
verið brenndar, byggðar úr steini og umkringdar varnarveggjum. Þessir veggir
reyndust koma að góðum notum þegar skuggalegur her réðist á þessa nýju þjóð.
"Dauðaherrarnir komu að austan og færðu tvö skelfileg stríð með sér, en
máttugir herir okkar ráku þá á brott. Jukiala hefur staðist tímans tönn, og með
styrk verndara okkar stendur hún sem sverð og skjöldur alls mannkyns."
Mikael leit í kringum sig. Miðað við ástandið á þessum stað, hafði téð sverð
og skjöldur séð betri tíð. Kannski gæti hann spurt einhvern út í þetta þegar hann
kæmist til mannabyggða.
Veggteppið virtist vera það eina áhugaverða í öllu virkinu. Mikael leitaði í
hverju einasta herbergi sem var fært inn í eftir hrun þaksins, en fann ekkert eggvopn
sem hafði ekki ryðgað til bana fyrir löngu síðan.
Hann hélt ferðinni áfram.

--------------------

Það var fimmta morguninn sem hann vaknaði og fann að eitthvað hvíldi á bringunni á
honum. Mikael opnaði augun og horfðist í augu við biksvart andlit. Hrafninn sem stóð
ofan á honum krunkaði hástöfum.
"Burt!" hrópaði Mikael. Honum brá illa, og hann sveiflaði hendinni. Fuglinn
tók á loft, gargandi reiðilega. Hann settist á grein rétt hjá, og hvessti augun á hann.
"Fuglsfjandi . . ." tautaði Mikael og nuddaði augun.
Morgunmaturinn samanstóð af sveppum, og krækiberjum sem hann hafði
fundið kvöldið áður. Svo drakk hann vel úr læknum og skolaði á sér andlitið til að
vakna almennilega.
Hann lagði af stað en leit við rétt áður en svefnstaður hans hvarf sjónum.
Hrafninn sat enn á sínum stað og horfði á eftir honum.
Skrítið.
Dagurinn leið eins og næstu á undan. Fjöllin á hægri hönd lækkuðu hægt og
bítandi, skógurinn varð eldri og þéttari og hnéð kvaldi hann í hverju skrefi. Það var
ekki fyrr en undir kvöld sem eitthvað markvert gerðist.
Maðurinn var svo kyrr að Mikael tók ekki eftir honum í fyrstu. Hann stóð í
skugga stærðar trés, gamall maður klæddur í snjáð ullarföt og gæru. Hann bar spjót í
hægri hendinni og vísaði ryðguðum oddinum upp í loftið. Hann var með hníf í beltinu
og tvær dauðar kanínur í vinstri hendinni. Hár hans var hvítt með nokkrum gráum
blettum, og lárétt ör klauf aðra augabrúnina.
Maðurinn horfði á Mikael hlutlaus á svip. Nokkur augnablik liðu í þögn þar til
Mikael áttaði sig á að maðurinn beið eftir að hann segði eitthvað.
"Halló," sagði hann eftir smá hik.
Gamli maðurinn kinkaði kolli.
"Komdu sæll, ferðalangur," sagði hann, röddin eins rólyndisleg og andlitið.
"Þú virðist vera í erfiðleikum."
Já, hann gerði það sennilega, þó skrámurnar á smettinu væru byrjaðar að gróa.
"Ég bý í kofa, hérna stutt frá. Það er lítið dagsljós eftir, og ég hef sjaldan hitt
ferðalang sem kunni ekki að meta arineld af og til. Þú mátt gista, ef þú vilt."
"Aa . . . þakka þér."
"Ég heiti Broon."
"Ég er . . . ég er Mikael."
Broon kinkaði aftur kolli.
"Fylgdu mér, Mikael."
Gamli maðurinn sneri á hæli og gekk hægum skrefum inn í skóginn. Mikael
elti. Það var enginn stígur, en Broon virtist rata fullkomlega. Það leið ekki á löngu þar
til þeir stigu inn í rjóður þar sem niðurníddur kofi stóð. Eða kannski var niðurníðsla
ekki rétta orðið, ekki frekar en ef það hefði verið notað um gamla manninn sjálfan.
Kofinn hafði verið byggður úr steinum, torfi og greinum fyrir löngu síðan og
náttúran var búin að setja mark sitt á hann. Steinarnir og greinarnar, voru þakin mosa
og gras óx úr torfinu. Grófhlaðinn skorsteinn stóð upp úr þakinu, og fyrir framan hann
rann lækur sem hafði verið stíflaður nægilega mikið til að myndast hafði lítil laug.
Á meðan Broon losaði hnútinn sem hélt hurðinni aftur, leit Mikael í kringum
sig og kom þá auga á þúst sem lá undir tréi. Á henni miðri var stór steinn. Þetta líktist
gröf.
Hann fylgdi Broon inn.
Kofinn var eitt rými. Þarna voru tvö rúmflet úr upphrúguðum gærum og tveir
stólar við gróft borð. Þarna var líka bekkur, þakinn ýmiskonar tólum og tveir pottar.
Broon benti Mikael að setjast og kraup sjálfur niður fyrir framan arininn. Eftir stutta
stund logaði eldur glatt.
Í bjarmanum tók Mikael eftir því sem skreytti veggina. Þarna hékk brotinn
viðarskjöldur sem hafði greinilega gengið í gegnum margt, ryðgaður hjálmur í enn
verr ásigkomulagi, hálft sverð, slitinn bakpoki, og lítið sverð sem hékk í slíðri.
"Þetta eru bara minjagripir um fyrra líferni, ekkert merkilegra en það," sagði
Broon, hans fyrstu orð síðan þeir lögðu af stað frá trénu.
"Meira lífernið," svaraði Mikael, ekki viss um hvað annað hann gæti sagt.
Broon gaf frá sér lítið hljóð, sem mátti skilja sem annaðhvort samþykki eða neitun.
Sá gamli settist niður, dró hnífinn sinn úr beltinu og byrjaði að verka
kanínurnar. Hann virtist ekki ætlast til frekari samræðna, og Mikael sat þögull um
stund og naut hlýjunnar.
"Þekkirðu . . . þorpið, norður í dalsbotninum?" spurði hann loks.
Broon leit upp frá kanínunum en hendur hans héldu verkinu áfram. "Ég veit af
því, en hef aldrei komið þangað. Aldrei haft neina ástæðu til. Skógurinn sér mér fyrir
öllu sem ég þarf."
Engar spurningar. Engin forvitni.
"Það . . ." Hryllilegi brunnurinn skaust upp í huga hans. "Það er dautt.
Íbúunum var slátrað."
Einu svipbrigði Broons voru að lyfta augabrúnunum eitt andartak.
"Það er leitt að heyra." Hann var þögull í smástund áður en bætti svo við:
"Ertu þaðan?"
"Ég . . ." Var hann það? Og ætti hann að segja sannleikann? ALLAN
sannleikann? "Ég veit það ekki."
Mikael dró hönd yfir andlitið og í gegnum hárið, og fann örvæntinguna rísa
upp á yfirborðið nú þegar hann hafði einhvern til að deila henni með.
"Það kom eitthvað fyrir mig," viðurkenndi hann. "Ég man ekki eftir neinu,
NEINU sem gerðist fyrr en ég vaknaði þar fyrir fimm dögum. Daginn eftir drápin."
"Mér þykir það leitt." Broon talaði af samúð . . . en ekki undrun.
Hann virtist líka vera viljugur til að tala, þó svo hann sæktist ekki sérstaklega
eftir því. Sagan rann því upp úr Mikael nokkurn veginn af sjálfu sér: Hryllingur
brennda þorpsins, brunnurinn, eini eftirlifandi íbúinn og ásökun hans á hendur
Mikaels, ferðin þaðan og hingað og virkið sem hann hafði rekist á. Á meðan Broon
fláði og verkaði kanínurnar sagði Mikael frá öllu. Nema undarlegu rúninni á bringu
hans. Honum fannst einhvernveginn eins og hún væri einkamál. Og hann var smeykur
við hana.
Það fylgdi því undarleg tilfinning að létta á öllu. Innri spennan sem hafði fylgt
honum hvert skref virtist réna aðeins, en þegar hann viðurkenndi vandræði sín upphátt
neyddi hann einnig til að horfast í augu við þau.
Broon kinkaði aðeins rólega kolli á meðan Mikael kláraði og skar kjötið af
kanínunum.
"Ég hef því miður ekki svörin sem þig vantar, Mikael. Ég hef búið hér, fjarri
amstri heimsins, í árafjölda ég hef ekki haft fyrir því að telja. Og ég býst ekki við því
að fara héðan. Mínir ferðadagar eru löngu liðnir."
Vonarneistinn í brjósti Mikaels dó. Lausnin yrði ekki svona einföld.
"Þannig að þú hefur alls enga hugmynd um hverjir frömdu ódæðið? Eða hvert
þeir stefna?"
"Nei. Það eru mörg undarleg mein í þessum heimi og ég hef ekki verið svo
óheppinn til að komast í tæri við þau öll. Við lifum á . . . myrkari tímum en þetta
veggteppi var ofið á."
"Veggteppið? Veistu eitthvað um það?"
Broon yppti öxlum.
"Ég hef ekki séð það sjálfur, en miðað við lýsingu þína þá segir það satt frá.
Að minnsta kosti í aðalatriðum, miðað við það sem ég hef lært á langri lífsleið. Fyrir
mörgum öldum urðu hamfarir sem sumir, eins og þessi vefari, kalla Sundrungina. Hún
breytti ásýnd heimsins, og gömlu þjóðirnar urðu aðeins rústir og minningar. Jukiala
reis í þeirra stað, sameinaði mannkynið gegn óvinum þess og hélt eins mikilli reglu og
hægt var. Forynjur voru reknar aftur inn í skuggana og ránsmönnum og brjálæðingum
óbyggðanna var haldið fyrir utan landamærin."
"En síðan gerðist eitthvað," sagði Mikael.
"Svo sannarlega. Fyrir nokkrum mannsöldrum hófst Rökkurstríðið. Smáatriðin
eru afar breytilega á milli sögumanna, en það sem skiptir máli er að Jukiala sjálf
sundraðist. Hún tvístraðist í ótal lítil brot, sem mörg hver hafa háð stríð sín á milli alla
tíð síðan. Þessa dagana hugsa þjóðir og borgríki ekki út fyrir eigin landamæri, hvað þá
þau svæði sem hafa orðið stjórnleysi að bráð. Í óbeisluðum óbyggðum og skuggum
stórborga leynast enn á ný . . . " Broon stundi þungan, "óhreinir andar, djöflar,
yfirnáttúrulegar skepnur og afturgöngur og hvers kyns hryllingur þrífst og dafnar í
öngþveitinu sem aðeins Jukiala gat haldið í skefjum hér áður. Við nútímafólk lifum í
heimi . . ." gamli maðurinn þagnaði og virtst eitt augnablik bæði þreyttur og reiður. " .
. . einstaklinga. Áður ríkti samstaða, en nú hugsa flestir aðeins um sjálfa sig og sína
nánustu."
"En þú býður mér mat og húsaskjól," sagði Mikael. "Og þú hefur ekki beðið
um neitt í staðinn."
Broon sneri sér að honum.
"Já, Mikael. Því þótt svo heimurinn sé harður og kaldur, þá er það engin
afsökun fyrir mig að vera eins, eða hvað?"
Mikael hristi höfuðið. "Nei. Nei, ég er sammála."
Broon horfði rannsakandi á hann, eins og hann væri að kanna eitthvað.
"Gott," sagði hann, og sneri sér aftur að verki sínu. "Ég er gamall maður í
gleymdum skógi í strjálbyggðum hluta landsins. Og þú . . . þú gætir vel orðið síðasta
manneskjan sem ég hitti. Ég er . . . glaður yfir því að sú manneskja skuli vera
ágætlega innrætt."
Mikael var ekki viss hvernig hann ætti að svara, hvort hann ætti að þakka fyrir
ummælin eða hvað, svo hann lét nægja að kinka kolli.
"Þess utan . . ." hélt Broon áfram, "þá gæti þrátt fyrir allt enn verið vonarneisti
í allri þessari niðurníðslu. Því þó svo það séu mörg hræðileg mein í þessum heimi,
sem hafa ekkert að gera með mennskan breyskleika og illsku, þá eru til öfl sem standa
gegn þeim."
"Standa gegn?"
"Já. Ég . . ." Augu gamla mannsins urðu fjarræn, eins og hann væri að teygja
sig aftur yfir marga áratugi til að endurlifa ljóta minningu. "Ég hef vitað það nánast
frá upphafi. Allt frá því . . . þarna um veturinn . . . fjörutíu og fimm árum fyrir
orrustuna um Dreyrahæð."
Mikael ætlaði að minna hann á að hann hafði ekki hugmynd um hvað það
þýddi, en Broon hélt áfram.
Kannski er ég ekki sá eini sem þarf að . . . létta á mér, hugsaði Mikael.
"Og ef þér er sama þó þú hlustir á sögu á meðan ég útbý kvöldmat," Broon
kastaði kjötinu í pottinn, "skal ég segja þér frá því."
3.

Ég fæddist í litlu þorpi, langt, langt í burtu. Nafn þess skiptir varla máli, frekar en
staðsetningin. Ég er líklegast sá eini sem man þau atriði ennþá.
Móðir mín dó við að færa mig í heiminn og faðir minn hvarf í veiðiferð, svo
ég var alinn up af þorpsbúunum og flutti á milli fjölskylda, eins og hefð var að gera
við munaðarleysingja.
Ég var átta vetra gamall þegar versti snjóstormur í manna minnum skall á
þorpinu. Hann æddi úr norðurátt af gríðarlegum ofsa, svo maður sá ekki fram fyrir
nefið á sér. Veðrið stóð í fleiri vikur og sýndi engin merki um að ætla að slota. Þeir
sem reyndu að veiða í matinn sneru sjaldan aftur og aldrei með bráð. Leiðtogar okkar
stóðu fyrir skömmtun á matarvistum þorpsins til að við lifðum ofsann af og nokkrir af
eldri þoprsbúunum gengu út í storminn til að við hin hefðum meira að borða.
Ég man sérstaklega eftir einum. Ori hét hann og hafði verið mikill og öflugur
veiðimaður á sínum tíma. Hann var uppspretta visku og reynslu fyrir allt þorpið,
hávaxinn og átti enn eftir brot af þeim styrk sem hann hafði búið yfir á yngri árum.
Eftir að rottur komust í forðabúr okkar varð Ori mjög þögull og tók að stara í
átt að skóginum, þó svo trén sæjust ekki í snjókomunni. Ég gekk eitt sinn að honum,
og spurði á hvað hann væri að horfa. Hann leit ekki á mig, en svaraði, "Þorpið okkar
angar af hungri og ótta. Örvæntingu. Og ég er hræddur um að það muni laða til okkar
óvelkomna athygli." Hann sneri sér loks að mér. "Ekki syrgja mig, Broon. Ég verð að
fara, og mun ekki snúa aftur sama hvernig fer. En ef ég bregst, þá munu margir syrgja.
Biddu, ungi maður. Biddu til forfeðranna að þorpi okkar verði sýnd miskunn."
Gamli veiðimaðurinn dró síðan upp lúna spjótið sitt, og sagði ættingjum sínum
að hann væri á förum. Flestir voru þakklátir, eins og vera bar gagnvart þeim sem gáfu
líf sitt fyrir þorpið, en sumir syrgðu. Ori var snöggur að sussa á þá og bað um
olíulampa sem skilnaðargjöf. Fólkið samþykkti fúslega og kvaddi hann.
Ori kveikti á lampanum, lyfti honum hátt á loft og gekk út í storminn í átt til
skógar. Ég er ekki alveg viss, en ég held að hann hafi snúið sér við rétt áður en
stormurinn gleypti hann og litið á mig í hinsta sinn.
Síðan hvarf hann að eilífu.
Stormurinn hélt áfram. Á nóttunni sváfum við öll hnipruð saman til að halda á
okkur hita og hlustuðum á ýlfur vindsins á meðan hann skók litlu húsin okkar.
Það var snemma morguns, sex dögum eftir að Ori fór, sem ég og annar
drengur vorum sendir út til að safna snjó svo móðir drengsins gæti brætt hann yfir
eldinum. Drengurinn hét Jörundur og sá um að halda á pottinum á meðan ég mokaði
snjó í hann með höndunum.
Það var lítið hægt að sjá eða heyra. Því grunaði mig ekki neitt fyrr en Jörundur
var skyndilega gripinn aftanfrá og andliti hans barið utan í vegg. Höfuð hans brotnaði
og skildi eftir blóðuga dæld á veggnum.
Ég leit upp og sá . . . veru. Ég greindi hana illa í snjókomunni, en hún var
upprétt eins og maður og virtist hafa nokkurn veginn sama vaxtarlag. Hún var með
mikinn makka af úfnu hári sem þaut og blakti í vindinum. Veran horfði á mig í
augnablik, greip síðan um ökkla Jörundar og hvarf með hann út í storminn.
Ég var aðeins barn, en ég vissi strax að hvað sem ætlunarverk Ora hafði verið,
þá hafði það mistekist.
Veiðimennirnir voru kallaðir til, gripu vopn sín og eltu veruna, en veðrið varð
þeim ofviða. Fótsporin sáust ekki nógu lengi til að hægt væri að fylgja þeim, og þeir
máttu ekki fara of langt frá þorpinu.
Næsta morgun vaknaði ein fjölskylda með dyr hússins opnar, snjó á gólfinu og
auðan blett í rúminu. Veran hafði komið um nóttina og haft með sér móðurina.
Mennirnir leitu aftur en komu enn tómhentir til baka.
Og svona var það. Kvikindið kom ýmist um nætur eða snemma morguns og
drap og tók með sér þorpsbúa. Karlmennirnir reyndu að standa vörð, en stormurinn
gerði því auðvelt fyrir að komast fram hjá þeim. Stundum tók veran vörð. Eitt sinn
skildi hún eftir handlegg, með höndina frosna fasta um spjót.
Að lokum höfðu of fáir kjark til að vera utandyra á nóttunni svo fólk víggirti
sig inni í húsunum og vonaði að skepnan réðist til inngöngu í eitthvert annað hús.
Einn maður lét þó ekki bugast. Hann var gríðarlegur beljaki og safnaði saman
stórum bálkesti í miðju þorpinu þegar kvölda tók og stóð þar á meðan við hin
lokuðum okkur inni og kölluðum hann flón.
Ég held að ætlun hans hafi verið að laða veruna til sín og berjast við hana í
bjarmanum af bálinu. Um morguninn fundust frosnar tætlur af görnum hans. Þann
morgunn yfirgaf síðasti kjarkur okkar þorpið.
Um nóttina vaknaði ég af ljótum draumum við skraphljóð að utan. Þetta
hljómaði eins og einhver drægi neglur eða klær eftir húsveggnum. Skepnan gekk fram
með húsinu og dró hendina eftir veggnum . . . sennilega til þess eins að valda
skelfingu. Um morguninn reyndist hún hafa ráðist á fjölskylduna í næsta húsi.
Það er hræðilegt að lifa í ótta. Að vita að maður er á valdi einhvers sem er
máttugara en þú og að þín eina von er að það sýni þér ekki áhuga.
Að lokum var svo komið að næstum helmingur þorpsbúa höfðu verið dregnir
út í storminn, sumir þeirra enn öskrandi og spriklandi. Nú gerðist veran djörf og settist
að í einu húsinu eftir að hafa drepið íbúana. Hún hélt sig þar að degi til og kom út á
tveggja eða þriggja daga fresti, að nóttu til, til að nærast. Sumir reyndu að flýja út í
storminn. Við sáum þau aldrei aftur. Tveir menn reyndu að læðast inn í húsið að degi
til. Við sáum þá aldrei framar heldur.
Þorpið okkar var að deyja.
En svo skeði það.
Dag einn hætti ég mér út um hádegi. Veran hafði aldrei komið út á þeim tíma
svo með fljótfærni bernskunnar að vopni harkaði ég af mér til að gá til veðurs.
Storminum var ekki að slota, bara að lægja aðeins í smástund áður en hann sótti í sig
veðrið aftur. En það dugði til að ég heyrði fótatak nálgast mig.
Ég fraus, og velti fyrir mér hvort skepnan hefði sigrast á óbeit sinni á
dagsljósi. Hvort við myndum nú lifa í algjörri skelfingu hvert einasta augnablik. En
skuggamyndin sem nálgaðist mig út úr snjókomunni tilheyrði ekki verunni sem hafði
dregið Jörund á brott með sér. Þetta var greinilega maður. En ekki þorpsbúi.
Hann var klæddur í þykkan vetrarfrakka, hafði hettu yfir höfðinu og var
þakinn snjó eftir langa göngu. Hann stefndi á húsið sem bölvuð skepnan hafði sest að
í og það vildi svo til að ég stóð í vegi hans. Hann stoppaði þegar hann kom að mér og
dró hettuna aftur.
Hár hans var langt og hvítt eins og tunglið, þó hann hefði ekki andlit gamals
manns og augu hans pírð og einbeitt.
"Þú getur sagt fólki þínu að þessu ljúki í dag." Röddin var hrjúf og köld. Hún,
og nístandi augun, hræddu mig.
Án frekari málalenginga gekk hann fram hjá mér og dró sverð undan
frakkanum. Ég hljóp inn í hús og sagði fréttirnar.
Það leið ekki löng stund þar til allir eftirlifandi þorpsbúar stóðu hnípnir saman
fyrir utan húsið. Hurðin stóð opin. Ef einhver hljóð komu að innan gleypti vindurinn
þau, svo öllum brá þegar aðkomumaðurinn birtist skyndilega í dyrunum. Hann gekk
út rólegum skrefum og þerraði sverðið á annarri erminni.
Ein af konunum öðlaðist loks kjark til að tala.
"Hvað . . . hvað gerðist?"
Maðurinn slíðraði sverðið án þess að líta á hópinn.
"Þetta er búið. Það er dautt. Gerið það sem þið viljið við hræið. Það mun ekki
rísa aftur."
Síðan dró hann aftur upp hettuna og gekk af stað. Stormurinn var um það bil
að gleypa hann þegar einn karlmaðurinn kallaði, "Hvað heitirðu?"
Aðkomumaðurinn svaraði ekki og hvarf sjónum.
Þegar agndofa þorpsbúarnir fóru loksins inn í húsið fundu þeir skepnuna.
Steindauða. Henni var umsvifalaust kastað á bálköst og allir fylgdust með þegar
logarnir átu kvalara okkar.
Tveimur vikum síðar slotaði loks veðrinu. Helmingur okkar hafði lifað
hremmingarnar af . . . en þorpið sjálft var sært banasári. Við gátum ekki kallað þennan
martraðastað heimili okkar lengur. Við tókum eins mikið af eigum og vistum og við
gátum borið og héldum í suðurátt. Heimili forfeðra okkar létum við náttúruöflunum
eftir.
Enginn viss hver aðkomumaðurinn var, hvaðan hann kom, eða hvert hann fór.
Og ekkert okkar sem lifði af þessar hræðilegu vikur lagði mikla orku í að komast að
því. Við vildum gleyma. Öllu.
Og brátt mun ég deyja . . . og taka minningarnar um þessa atburði með mér.
Ég er sá síðasti.
4.

Broon lauk við söguna. Mikael hafði hlustað án þess að tjá sig, og étið kássuna sína í
hljóði. Það teygðist úr þögninni á meðan Broon át sinn skammt.
"Þannig að... þú hefur enga hugmynd um hver hann var?" spurði Mikael loks.
Broon slafraði í sig síðustu skeiðinni, og þurrkaði sér um munninn með
handarbakinu.
"Nei. Ég hef heyrt óljósar sögur af öðru eins frá fornri tíð, en veit hvorki hver
bjargaði okkur, né hverju hann bjargaði okkur frá. En smáatriðin er málinu
óviðkomandi, held ég. Það sem skiptir máli er lærdómurinn sem ég dró af þessari
reynslu: Að það eru hræðileg, hræðileg öfl í þessum heimi sem eru manninum
sterkari. En líka að þau öfl eiga sér óvini sem geta barist gegn þeim, og að hingað til
hefur mannkynið haldið velli."
"Þetta er semsagt vonin sem þú nefndir?"
"Já, þó svo hún sé ekki mjög augljós. Miðað við það sem ég hef séð i gegnum
árin kjósa slíkir verjendur, hvort sem þeir eru menn eða eitthvað annað, að dyljast í
skuggunum."
"Ertu semsagt að segja mér að örvænta ekki?"
"Það er undir sjálfum þér komið, Mikael. Þú verður að ákvarða eigin afstöðu."
Mikael kinkaði kolli. Þetta var auðvitað rétt hjá honum.
"Takk fyrir máltíðina. Hún var góð tilbreyting frá berjum og sveppum."
Broon hummaði.
“Varðandi stöðu þína... Ég hef aldrei farið norður fyrir þetta svæði. En ég hef
heyrt að hæðirnar við dalsbotninn leiði upp í fjöll í vesturátt sem eru svo að segja
ókleif. Það er skárra fyrir austan. Þar eru nokkur smáþorp en handan þeirra er ekkert
nema þverhníptir klettar.”
“Heldurðu að drápararnir hafi komið þaðan?”
“Varla. Svona einangraðir staðir blanda mikið saman blóði. Það er yfirleitt
mikil vinátta og samheldni milli nærliggjandi þorpa. Það á hins vegar að vera gamall
stígur yfir fjöllin, til norðurs og suðurs, sem er löngu hætt að nota. Ef þær sögur eru
sannar finnst mér líklegast að drápararnir stefni í norðurátt. En hvað þeir munu gera
þegar þeir koma niður úr fjöllunum get ég ekkert sagt um.”
"En get ég náð þeim?" spurði Mikael hraðmæltur. "Get ég farið umhverfis
fjöllin?"
"Já. Ef þú heldur áfram í suðurátt og út úr dalnum muntu finna þorpið Porlan
til vesturs. Þaðan geturðu fylgt vegi norður. Hvort þér tekst að komast þetta í tæka tíð
er hinsvegar annað mál."
Vonarneistinn var næstum því kvalarfullur. Það var möguleiki. Hann GÆTI
hugsanlega náð þeim."
"Heldurðu að ég geti beðið einhvern um hjálp?"
"Ég efa það, Mikael, ég efa það. Eins ég sagði, þá lifum við ekki í tímum
mikillar samkenndar. Eða landi, ef út í það er farið."
"Hvað áttu við?"
“Þetta land sem við erum í kallast Jaðarinn, og er við austustu mörk gamla
Jukialasvæðisins. Austan við þau er ekkert nema Eyðilöndin, þar sem ekkert
náttúrulegt þrífst. Hvað liggur handan þeirra veit enginn. Og þó Jukiala hafi náð
fótfestu hérna var Jaðarinn aldrei meira en hálf-taminn. Eftir Sambandsslitin varð
ástandið bara verra. Borgríkin ráða ennþá yfir megninu af láglendinu, en hálendið
hefur alltaf tilheyrt Vegraine-mönnum.”
“Vegr... ha?”
“Þau eru sögð vera afkomendur þeirra sem héldu sig í auðninni eftir
Sundrungina. Einhver hræðileg illska hefur tekið sér bólfestu í þeim og eitrað þau í
gegnum kynslóðirnar. Spillt þeim. Ekki hugsa um þau sem eðlilegt fólk, Mikael. Þau
eru dýrsleg, sögurnar af grimmd þeirra og blóðþorsta nánast ótrúlegar. Það er reyndar
tíður siður fólks að lýsa óvinum sínum sem skrímslum, en í þessu tilviki er það
sanngjörn lýsing. Það er eins og þau hati allt,” sagði Broon með þunga. “Þegar þau
standa ekki í ættbálkastyrjöldum við hvort annað ferðast þau út fyrir landssvæði sín
og ráðast á þorp, eða sitja fyrir ferðalöngum. Oft virðist tilgangurinn ekki einu sinni
vera rán, heldur bara tilgangslaus dráp.”
Broon leit á vegginn, og vopnin og brynklæðin sem þar héngu.
“Eða þannig var það allavega. Fyrir sirka...” Gamli maðurinn hikaði, og
husgaði ákaft. “Það hljóta að vera liðin... tuttugu ár? Tuttug og fimm? Jæja, hvenær
sem það var, þá reis upp fyrir mörgum árum Vegraine-maður sem gat sameinað þessa
dreifðu, stríðandi ættbálka. Maður sem var kallaður Grolf Axarhönd. Á sléttum, við
vötn og í fjöllum lögðu ættbálkarnir deilur sínar til hliðar og flykktust undir borða
Grolfs, í Gorgorfjöllunum. Ég veit ekki hvernig hann fór að því. Kannski bjó hann
yfir ótrúlegum sannfæringarkraft, eða kannski var hann bara nógu snjall og grimmur
til að öðlast virðingu allra hinna höfðingjanna. Það leit svo sannarlega þannig út þegar
hann atti sameinuðu ættbálkunum í stríð við gervallan Jaðarinn og slátraði öllu sem
fyrir varð.”
“Var það svona slæmt?”
“Ó, já. Axarhandarstríðið jafnast kannski ekki á við fornu alheimsstyrjaldirnar,
en var engu að síður það versta í langan tíma. En það er best að ég haldi mig við
efnið.” Hann ræskti sig. “Herferð Grolfs varð til þess að mikið af sjálfstæðu
borgunum og þorpasamfélögunum gerðu með sér hernaðarbandalag. Það var þekkt
sem Tólf Borga Bandalagið, vegna borganna tólf sem mynduðu kjarnann. Stríðið stóð
í fjögur ár og barst um marga vígvelli og lönd. Borgir brunnu, landssvæði voru
hernumin og glötuð og hernumin á ný, en eftir orrustuna um Ragnarsfall tók að halla
undan fæti hjá Vegraine-mönnum. Meginkjarni hers þeirra mætti svo Bandalaginu í
lokaorrustu á Dreyrarhæð. Það var mesta slátrun okkar tíma og sagt er að blóðið hafi
runnið í lækjum, þar sem hvorugur herinn hopaði.”
Broon leit niður á kreppta hnefa sína.
“Hræðilegt. Gjörsamlega hræðilegt.” Hann andvarpaði. “En hvað um það,
orrustan var hnífjöfn lengi vel. Það sem réði úrslitum var að Grolf var veginn. Dauði
leiðtoga þeirra braut baráttuanda Vegraine-manna og brestur kom í samstöðu þeirra.
Þeir tvístruðust og lögðu á flótta. Bandalagið bar sigur úr býtum.”
“En gátu þessi samfélög þá ekki líka haldið uppi bandalagi eftir stríðið?”
spurði Mikael.
“Bandalagið leið gífurlegt mannfall, Mikael,” sagði Broon rólega. “Mörg
samfélög misstu megnið af vopnfærum mönnum sínum. Jú jú, Bandagið hélst saman í
einhvern tíma. Það voru meira að segja umræður um að elta hina sigruðu upp í fjöllin
og útrýma þeim að eilífu. En árstíðirnar liðu, fólk sneri sér að því að lækna sár og
endurreisa bæi og borgirnar tólf fóru að huga að eigin vandamálum. Ja, fyrir utan
verslun, en hún hefur nú alltaf verið í gangi. Það var aðeins sameiginlegur óvinur sem
sameinaði þá."
Broon þagnaði skyndilega, eins og hann hefði áttað sig á einhverju og lítið
bros kviknaði á vörum hans.
"Ja hérna, við himinn og vinda, ég get teygt lopann."
Mikael kom sjálfum sér á óvart með því að brosa aðeins. "Já," svaraði hann,
og það hlakkaði í Broon. "En ég er forvitinn, svo það er í lagi."
"Jæja, fínt. Mér þætti leitt ef fyrsta gesti mínum í mörg ár leiddist."
"Tja, smá leiðindi eru vægt verð fyrir heita máltíð og þak yfir höfuðið."
Þeim tókst báðum að hlæja.
"En hvað sem því líður," hélt Broon áfram, "þá var staðan sú, rétt áður en ég
settist að hér, að Vegraine-ættbálkarnir voru farnir að styrkjast á ný, þó svo þeir væru
enn leiðtogalausir. Það sem ég er að reyna að segja er að fólk hefur nóg á sinni könnu
og mun ekki taka vel í að elta uppi dularfulla drápara. Ég er hræddur um að þú verðir
að treysta á eigin getu í þessu máli, Mikael. Fyrir tíu árum hefði ég kannski farið með
þér... en líkami minn hefur hrörnað."
Mína eigin getu? hugsaði Mikael og súra skapið sneri aftur. Getu haltrandi,
ringlaðs ræfils sem skortir undirstöðuþekkingu á umhverfi sínu?
Þeir sátu í þögn um stund. Á endanum stóð Broon upp og bætti í eldinn. Síðan
teygði hann sig upp í hillu og tók niður litla flautu. Hann settist því næst á annað
rúmið. Mikael færði sig yfir á hitt. Það var ekki beint mjúkt sem ský, en mun betra en
köld jörðin.
"Er þér sama þó ég spili?" spurði Broon. "Það léttir á mér á löngum kvöldum."
"Alveg sama. Spilaðu."
Mikael datt ekki í hug að segja manninum fyrir verkum á hans eigin heimili og
leist auk þess vel á tónlist til að dreifa huganum.
Broon hóf að spila. Lagið var rólegt og fullt af sorg. Á meðan hann sofnaði,
hægt og rólega, velti Mikael fyrir sér hver sagan á bak við það væri.

--------------------

Veðrinu hafði slotað aðeins hérna fyrir norðan, en var samt langt frá því að vera
notalegt. Sterkir vindar börðu miskunnarlaust allt sem fyrir varð og ísköld súld hafði
tekið við af úrhellinu. En auðvitað var öllum ferðalöngunum sama. Dökkklæddu
mennirnir voru alltof agaðir til að kvarta og vissu betur en að sýna merki um
veikleika og fólkið sem þeir ráku áfram var of niðurbrotið af ótta, sorg, og illri
meðferð til að æmta.
Af og til hrasaði einhver og þar sem þau voru öll bundin saman dró
viðkomandi einn eða tvo niður með sér. Þeim aðila var þá refsað og þvingaður til að
halda áfram. Þeir sem sögðust vera of veikburða til að halda áfram var bent á
skjögrandi verurnar sem mynduðu eigin fylkingu. Og þann sem gekk fremst, Hinn
Myrka, sem stoppaði af og til og renndi augunum yfir þjóna sína og fanga. Allir litu
undan, nema skjögrandi, kveinandi verurnar. Skaðinn var skeður.
Það var eina hvatningin sem aðframkomnir fangarnir þurftu til að finna
neista af styrk og halda áfram.
Hinn Myrki var ánægður. Sendiförin hafði gengið prýðilega, brátt myndu þau
koma að fjöllunum og það höfðu ekki verið neinir örðugleikar. Hann sneri sér við og
gaf merkið um að stoppa.
Fangarnir hrundu niður eins og máttlausar strengjabrúður, gjörsamlega
uppgefnir. Einn leit sérstaklega illa út. Hann hafði hrasað og dottið oftar en hinir, og
leit ekki út fyrir að geta lifað af frekari refsingar. Hann hafði reynst veikburða.
Gagnslaus. Eða... næstum því gagnslaus. Allir höfðu eitthvert gagn.
Hinn Myrki leit á Vail og benti á fangann. Renglulegi maðurinn var eins og
ávallt, ólmur í að vinna verkið. Hann dró langan, boginn hníf úr slíðri sínu, og gekk
yfir að fanganum.
Ung kona, með eins augu og maðurinn, sá Vail nálgast og gat sér til um
fyrirætlanir hans. Hún mótmælti og sárbændi. Vail þaggaði niður í henni með
hrottalegu bakhandarhöggi án þess svo mikið sem að hægja ferðina.
Hann kraup niður og gekk úr skugga um að maðurinn hefði næga meðvitund
til að vita af sér. Hann gaf síðan Sofan merki um að halda honum kyrrum og byrjaði
að skera. Hnífurinn var beittur og maðurinn afar veikburða. Það var fljótlegt verk að
skera stórt stykki úr lærinu á honum.
Vail brosti aðeins yfir öskrum mannsins og kastaði stykkinu til nærstadds
undirmanns. Viðkomandi rak tein í gegnum það og lagði yfir einn af nýkveiktu
varðeldunum.
Allir höfðu eitthvert gagn.
En þetta eina stykki myndi ekki duga handa öllum svo Vail hélt áfram að skera
á meðan hann spjallaði léttilega.

--------------------

Einhver hélt um öxlina á honum og hristi. Þegar hann braust inn í vökuheiminn áttaði
Mikael sig á að það var Broon.
"Mikael, þú varst með martröð."
Inn á milli andkafanna tókst Mikael að þakka honum. Gamli maðurinn lagðist
orðalaust í eigið rúm og var byrjaður að hrjóta eftir smástund.
Mikael lá þarna, baðaður köldum svita og starði út í myrkrið. Smáatriði
draumsins voru að dofna með hraði, en andlit mannsins á meðan honum var slátrað,
sat í honum. Þegar hann opnaði aftur augun var Mikael smástund að átta sig á því að
hann hafði sofnað aftur. Það var tekið að birta.
Broon kom inn, nýbúinn að fylla pott af vatni og setti hann yfir eldinn.
"Ég myndi venjulega spyrja hvort þú hefðir sofið vel, en það væri sennilega
kjánalegt af mér," sagði sá gamli á meðan hann fleygði ýmsum jurtum í pottinn.
Mikael umlaði eitthvað. Hann var ekki viss hvort Broon var að sækjast eftir að
vita hvað hann hefði dreymt eða bara að spjalla. Hvort sem það var langaði hann ekki
að ræða það.
Broon var ekki lengi að útbúa morgunmat en Mikael gat ekki annað en fundist
sem hann sjálfur væri að slóra. Hann klæjaði í fæturnar eftir að leggja af stað.
"Þú ert eflaust áfjáður í að halda áfram," sagði Broon frá arninum, "en ég held
þú sért betur settur með góða máltíð í maganum en að strunsa beint af stað."
"Tja... það er sennilega rétt hjá þér," svaraði Mikael.
Broon kláraði eldamennskuna og setti tvær skálar á borðið ásamt stökkum
kökum. Mikael át með hraði og þegar hann kláraði tók hann eftir því að gamli
maðurinn horfði á hann. Eða hendurnar á honum allavega.
"Manstu virkilega alls ekki neitt?"
Mikael var um það bil að svara neitandi, en áttaði sig á því að það var ekki
alveg satt.
"Ja... ég... ég virtist vita hvað ég ætti að gera við hnéskelina, þegar ég vaknaði.
Eins og ég þekkti handbragðið. En fyrir utan það, nei."
Broon hugsaði sig um, stóð svo upp og gekk að vopnum prýddum veggnum.
Hann teygði sig í litla sverðið og tók það niður.
"Þetta er sax. Ekki alveg almennilegt sverð, en slíkt á ég ekki lengur." Hann
hélt um slíðrið og vísaði meðalkaflanum að Mikael. "Prófaðu að toga í það."
Mikael hlýddi eftir augnabliks hik og vafði hægri hendinni utan um snjáð,
leðurhúðað handfangið og dró út meira en hálfan meter af beittum málmi.
Blaðið var greinilega mikið notað og hafði verið brýnt ótal sinnum. Það var
breitt, þungt, með eina egg og endaði í hárbeittum oddi.
Hann hreyfði það hægt í gegnum loftið og prófaði þyngdina. Síðan gerði hann
það aðeins hraðar og fann líkama sinn færast í stellingu sem gerði sveifluna
auðveldari og stöðugri. Hann hjó í þriðja sinn, með banvænum hraða og fann örla
fyrir kunnugleika, eins og handleggur hans væri vanur þessu.
Þarna var smá neisti af minningu, af fortíð og Mikael hélt áfram að sveifla og
stinga vopninu af ákafa í átt að ímynduðum óvini. Neistinn varð ekki að báli. Það kom
ekkert frekar upp á yfirborðið. En þegar hann loksins hætti fannst honum samt sem
hann hefði endurheimt lítið brot of sjálfum sér.
"Mig grunaði þetta," sagði Broon. Mikael hafði gleymt honum eitt augnablik.
"Þú ert stríðsmaður, Mikael. Ég þekki slíka yfirleitt í sjón. Og það virðist eitthvað lifa
eftir af því og öðrum athöfnum sem þú varst vanur að framkvæma."
Stríðsmaður?
"Söx eru yfirleitt álitin ódýrir staðgenglar sverða, en þetta er vönduð smíð og
hefur þjónað mér vel. Því miður lítur út fyrir að þú munir þurfa á því að halda."
Mikael leit af vopninu á hann.
"Ég er að gefa þér það, Mikael."
Mikael hélt áfram að horfa á hann. Hann hafði ekkert til að gefa í staðinn.
"Ég hef enga þörf fyrir það lengur, Mikael. Mínir stríðsdagar eru liðnir, sem
ég er hæstánægður með. Það er betra að saxið þjóni einhverjum tilgangi, frekar en að
það ryðgi á vegg gamals manns."
Það var auðvitað rétt hjá honum, sama hvað samviskan sagði. Mikael festi
slíðrisbeltið um sig, og stakk saxinu í.
"Þakka þér fyrir," sagði hann af einlægni. Sá gamli hafði sennilega stóraukið
lífslíkur hans.
Broon kinkaði kolli og sneri sér aftur að veggnum. Hann tók niður stóra, lúna,
stagbætta bakpokann, stóran vatnssekk og hníf.
"Ég hef svo sem ekkert að gera við þetta heldur. Taktu það."
Mikael gat ekki annað en tekið við hlutunum í þögn, óviss um hvernig hann
gæti þakkað almennilega fyrir. Bakpokinn hafði mörg hólf og vasa og hafði verið
bættur og saumaður svo oft að það var erfitt að sjá hvaða partar voru upprunalegir.
Hann opnaði pokann úr þorpinu og færði allt úr honum yfir í bakpokann.
Broon tók spjót sitt í hönd og gekk út með sínum hægu skrefum. Mikael tók
stafinn sinn og haltraði á eftir honum.
"Leyfðu mér að sjá þig fylla sekkinn, til að vera viss um að hann leki ekki."
Lækurinn var ískaldur og frískandi þegar Mikael stakk höndunum ofan í hann.
Sekkurinn fylltist og hann hengdi hann þvert yfir búkinn.
"KRÚNK!"
Mikael kipptist til og sneri sér við. Stór hrafn stóð í nokkurra skrefa fjarlægð
og horfði á hann. Eins og hann byggist við einhverju.
Gæti þetta verið sami fuglinn?
"Er þetta kunningi þinn?" spurði Broon.
"Nei, ég..." Mikael hugsaði sig um. "Ja, ég get svo sem ekki vitað það." Hann
tók eitt skref í átt að hrafninum, sem stóð grafkyrr.
"Heyrðu... reyndu að rétta út handlegginn," stakk gamli maðurinn upp á.
Mikael rétti fram handlegginn, og hrafninn flögraði á loft og settist á hann.
Stór fuglinn horfði í augu Mikaels af undarlegri ákefð. Kunnuglegri ákefð, sem bjó
yfir vitund. Broon steig varlega nær, og rétti Mikael eina af kökunum sínum.
Mikael tók við henni, braut hana í nokkur stykki og færði þau hikandi nær
gogg hrafnsins. Hann réðist samstundis á framréttann matinn og kláraði hann á
smástund. Svo prílaði hann svo upp handlegg Mikaels og kom sér fyrir á hægri öxl
hans.
"Mér sýnist þú aldeilis þekkja hann," sagði Broon. "Eða hann þekkja þig,
allavega. Þú hlýtur að hafa alið hann upp sem gæludýr."
"Já... hann virðist svo sannarlega kumpánalegur," sagði Mikael, á meðan hann
reyndi að venjast návist fuglsins. Það leit út fyrir að hann yrði ekki alveg einn á ferð
sinni, sem var kærkomin breyting.
"Ég verð að spyrja þig að nokkru, Mikael," sagði Broon. "Þó það sé ekki í eðli
mínu að hnýsast."
"Spurðu."
"Þú átt þér takmark: Að finna varmennin sem rústuðu þessu þorpi, fólkið sem
þeir tóku og endurheimta fortíð þína. En..." Broon hikaði, eins og hann ætlaði að fara
að segja eitthvað óþægileg. "Hvað ef þú nærð því ekki? Hvað ef þeir fara eitthvert þar
sem þú getur ekki elt eða ef þú týnir þeim, eða eitthvað. Hvað muntu gera þá?"
Já, hvað myndi hann gera? Mikael fylltist skrítnum ótta við tilhugsunina. Ótta
við að missa það eina sem gat vísað honum á hver hann var. Ótta við að fá aldrei svör.
Vita aldrei af hverju þorpinu hafði verið slátrað. Það rann upp fyrir honum hversu
mikið réðist í rauninni af þessu takmarki hans. Hversu sárlega hann þurfti að ná því.
"Broon... mér... ég veit það ekki. Mér dettur ekkert í hug." Hann heyrði
hræðsluna í eigin rödd og Broon virtist sjá eftir því að spyrja.
"Mér þykir leitt að valda þér hugarangri. Ég efast um að lifa næsta vetur af og
fannst ég einhvernveginn þurfa að spyrja."
"Æi, ekkert að afsaka. Ég... a... ég vona bara að ég muni aldrei þurfa að svara
þessari spurningu."
"Ég vona það líka. Því ég hef lifað flækingslífinu, með það eitt að takmarki að
elta sjóndeildarhringinn. Og sá stígur liggur ekki neitt, Mikael. Það er ekkert líf fyrir
nokkurn mann. Hvað sem gerist, reyndu..." Broon andvarpaði, "Reyndu að finna
einhvern tilgang. Eitthvað til að halda í. Eitthvað til að fylla þetta nýja líf þitt, ef þú
getur ekki endurheimt það gamla."
Gamli maðurinn var ekki að leita að samúð, en Mikael fann samt sárlega til
með honum. Hann bar með sér að hafa lifað erfiðu lífi.
"Ég skal reyna það, Broon. Ég skal reyna."
Broon kinkaði hægt kolli, þó áhyggjurnar virtust ekki hafa yfirgefið hann.
"Jæja... þú þarft að eltast við takmark þitt og ég þarf að huga að héragildrum."
Mikael horfði á þreytulega, stóíska manninn og lét það renna upp fyrir sér að
þeir myndu líklega aldrei hittast framar.
"Þakka þér. Fyrir allt saman." Honum datt ekki neitt annað í hug til að segja.
Broon lyfti hendinni í kveðju.
"Vertu sæll Mikael. Ég vona að þú finnir svör þín og að þau verði þér að
skapi. Megi áar þínir vera með þér."
Við svo búið snerist hann á hæl og gekk inn í skóginn. Skógarþykknið gleypti
hann og fótatak hans fjaraði út.
Hrafninn krunkaði og Mikael lagði aftur af stað.

You might also like