Um Tilurð Fóstbræðrasögu

You might also like

Download as docx, pdf, or txt
Download as docx, pdf, or txt
You are on page 1of 8

Um tilurð Fóstbræðrasögu

Inngangsorð

Drjúgt hefir verið deilt um tilurð Fóstbræðrasögu. Sagan er varðveitt í fimm skinnhandritum frá miðöldum
(fjögur þeirra eru að hluta til eða með öllu glötuð) og í ógrynni pappírshandrita frá seinni öldum. Flestir
fræðimenn eru sammála um að munnleg hefð hefir að einhverju leyti mótað söguna áður en hún var færð í
letur. Þrátt fyrir það, eru þeir eigi á eitt sáttir um hvernig munnmælasagnir hafi orkað í því ferli.
Auk þess hafa margar deilur risið meðal fræðimanna um túlkun nokkurra efnisgreina sögunnar sem rjúfa
eðlilegu framvindu hennar og hafa þess vegna verið kallaðar úturdúrar eða klausur. Fyrri fræðimenn
aðhylltust þá kenningu að klausurnar væru ekki upprunalegar, þeim hefði verið skotið í seinna þegar stíll
Íslendingasagna vék undan innrás erlendrar bókmenntagreinar sem ruddi sér til rúms hérlendis eftir miðja 13.
öld. Þessari skoðun var í fyrsta sinn hafnað í útgáfu sögunnar hjá Íslenzka Fornritafélaginu árið 1943.
Nokkrir fræðimenn hafa síðan rökstutt þessa skoðun en málið er enn umdeilt.
Ekki einfaldar rannsóknirnar sú staðreynd að fræðimönnum hefir reynzt býsna torvelt að ákvarða með
vissu aldur Fóstbræðrasögu. Hæpið er að taka afstöðu til uppruna klausnanna án þess að gera sér grein fyrir
aldri sögunnar.
Hér verður farið stuttlega yfir helztu skoðanir fræðimanna varðandi tilurð Fóstbræðrasögu. Í lokaorðum er
stungið upp á að líta á málið frá öðru sjónarhorni sem felst í því að meta betur þátt munnmælasagna.

Handrit

Elztu handritin sem varðveita Fóstbræðrasögu eru eftirfarandi (Jónas Kristjánsson 1972, 13-27):

1. Hauksbók frá öndverðri 14. öld (H)


2. Möðruvallabók frá um miðbik 14. aldar (M)
3. Membrana Regia frá um miðbik 14. aldar (R)
4. Flateyjarbók frá ofanverðri 14. öld (F)
5. Bæjarbók frá þriðja fjórðungi 14. aldar (B).

Um varðveizlu sögunnar í þessum handritum er þess að gæta:

Í H vantar fyrsta þriðjung sögunnar framan af.


M geymir nú einvörðungu brot af henni (upphafið). Beztu pappírsuppskriftir af M, gerðar þegar hún var
heilli en nú, eru AM 566 b 4to (um 1700) og Add. 5317 (18. öld). Í þeim vantar síðasta þriðjung sögunnar.
R er nú með öllu glötuð en hægt er að endurgera heila texta hennar úr pappírsuppskriftum frá um 1700 (AM
142 fol., AM 566 a 4to, Thott 1768 b 4to, AM 761 b 4to).

1
Sagan í F hefir geymzt heil en henni hefir verið steypt í Ólafs sögu Helga. Textinn er mestmegnis óblandaður
og varðveittur í þremur stórum brotum en undir lokin er Fóstbræðrasögunni blandað saman við Ólafs sögu
Helga og erfitt að aðgreina aðra frá hinni.
B er Ólafs sögu Helga handrit sem varðveitir einnig Fóstbræðrasögu þar sem söguhetjurnar hennar voru
hirðmenn Ólafs. Af B eru nú eingöngu fjögur blöð eftir en hægt er að endurgera síðari hluta sögunnar úr
pappírsuppskriftum.
Auk þessara handrita sem hefir verið sagt frá er fjöldi af fleiri pappírsuppskriftum sem hafa eingöngu gildi
innan textafræðirannsókna.

Klausur

Þegar maður les texta Fóstbræðrasögu úr H blasir við að hann er tiltölulega frábrugðinn öllum hinum
útgáfunum. H-gerðin er miklu styttri og laus við útúrdurana sem einkenna MFRB-útgáfuna. Til að mynda
verður hér sýnt hvernig farið er með dráp Þorgeirs í H og F:

H-texti (Hauksbók 383):

Aller mæltu eitt vm hans vorn ok frꝍknleik at engi þottiz hans iamníngia fvndid hafa. hann hio hart ok tiðvm ok varv
hanum lengi | sin hog bði fyri skiolld ok bryniv. þeim Þorgrimi sottiz (seint) þvi at harfengra var fyri en þeim kom i
hvg ok varð þeim hann dyrkeyptr þvi at Þormoðr hefir sva ort at hann va þar .xííj. menn aðr hann let lif sítt en .íj. eru
nefndir í Þorgeirs drapv.

F-texti (Flateyjarbók 253):

Allir menn ágættu vörn hans, þeir er vissu, hversu röskliga hann varðist, ok mæltu allir eitt um hans fræknleik, at menn
þóttust engan hans jafningja fundit hafa. Þorgeirr hjó hart ok tíðum af öruggum hug ok miklu afli, því at meiri raun var
at ráða at Þorgeiri undir högg hans en at leoni, þá er teknir eru frá henni hvelparnir. Er hon þá grimmust í sínu eðli.
Almáttigr er sá, er svá öruggt ok óhrætt hjarta gaf í brjóst Þorgeiri, ok eigi var hans prýði af mönnum gör né honum í
brjóst of borin, heldr af hinum hæsta höfuðsmið. Nú reyndist þeim Þorgrími ok Þórarni svá, at meiri mannraun væri at
sækja Þorgeir en at klappa um júgr konum sínum. Þá sóttist þeim seint, ok varð þeim hann dýrkeyptr, því at Þormóðr
hefir svá um ort, at Þorgeirr yrði fjögurra manna bani, áðr hann væri veginn, en tveir menn eru nefndir í Þorgeirsdrápu,
þeir er hann vá.

Af sýnishorninu hér að ofan sést glöggt hvað H-frásögnin er miklu styttri en F sem færir hér ekki minna en
þrjár klausur. Svipaða afstöðu milli handritanna er að líta í öllum texta sögunnar sem þau hafa
sameiginlegan.
Árið 1927 gaf Björn K. Þórólfsson út Fóstbræðrasögu með orðamun úr öllum helztu handritum. Hann tók
undir skoðun Finns Jónssonar og Hofkers að H-textinn væri upprunalegastur („den oprindeligste endnu

2
bevarede“, Björn 1925-27, III). Þessari skoðun til stuðnings færði hann þau rök að H-textinn bæri einkenni af
sígildri sögulist með skýrri og hnitmiðaðri (objektiv) frásögn, með stuttum og innihaldsríkum setningum
(Björn 1925-27, IV). Þessi sannfæring ríkti lengi einráð. Björn M. Olsen ritaði (vitnað í ÍF VI, LXXIII):
„Það væri blindur maður, sem ekki sæi, að þessar málalengingar í M eru ekki annað en klerklegar
hugleiðingar („reflexionir“) út af hinu einfalda efni, sem stendur í Hb [...]“.
Sigurður Nordal (ÍF, LXX-LXXVII) var fyrstur manna til að setja fram tilgátu um að klausurnar væru
upphaflegar í sögunni. Hann gizkaði á að H-textinn væri styttur og að styttingin hefði komið sérstaklega
niður á klausunum, einna mest þar sem „þær stungu í stúf við þroskaðan sögustíl.“ Auk þess þóttist hann
finna leifar af klausunum í H-útgáfunni, til að mynda, þar sem sagt er frá krufningu á hjarta Þorgeirs. En
málið var að Sigurður hélt að Fóstbræðrasaga væri meðal elztu Íslendingasagna. Til þess að samræma
skoðun um fornan aldur sögunnar við getgátuna um að klausurnar væru upprunalegar (því þær virtust ekki
hæfa Íslendingasögum í árdögum) leiddi hann getum að því að höfundurinn væri sérvitringur, hugsanlega af
klerklegri stétt með áhuga á líffræði. Þessu til stuðnings benti hann á að í íslenzku handriti á latínu væri að
finna heimild nokkurra líffræðilegra klausna 1. Erlendur lærdómur væri meira metinn á Íslandi á 12. öld
fremur en á 13. þegar íslenzka sagnlistin blómstraði.
Þrátt fyrir viðleitni Sigurðar sannfærðust fræðimenn varla um að klausurnar væru upprunalegar. Jónas
Kristjánsson tók þá málið til nýrrar og rækilegrar skoðunar og bætti ýmsum rökum við til að styðja getgátu
Sigurðar. Þessar voru aðalhugmyndir Jónasar (1972, 59-80):
a) Klausurnar hlytu að vera í sameiginlegu forriti allra söguhandrita.
b) H-textinn geymdi leifar af þremur klausum.
c) Svipaðs orðalags gætti í 18. klausunni og í ýmsum stöðum sögunnar sem ekki töldust með
klausunum. Staðir þessir væru einnig í H.
d) Mörk klausna og sögu væru óskýr. Víða væri að finna í sögunni smágreinar sem mætti kallazt
klausur. Sumar þeirra kæmu einnig fyrir í H.
Efir að Jónas fjallaði um klausurnar sannfærðust sumir fræðimenn um að þær væru upprunalegar. Sørensen
sem árið 1997 gaf út söguna á dönsku var meðal þeirra. Í sínum útgangsorðum að útgáfunni tjáði hann
(Sørensen 1997, 144-145) ekki einungis sinn stuðning við þá kenningu að klausurnar væru upprunalegar
heldur einnig að F-útgáfan væri næst frumsögunni þrátt fyrir að F væri miklu yngri en H og M 2.
Þetta viðhorf um uppruna klausnanna hefir engu að síður ekki hlotið hylli allra fræðimanna. Peter Hallberg
(1976, 253-258) stundaði rækilegar tölfræðilegar rannsóknir um málnotkun íslenzkra fornsagna til að
tímasetja Fóstbræðrasögu. Í sömu grein fjallaði hann einnig um klausurnar sem að hans mati væru
„einkennilega laust tengdar við textann umhverfis þær“, þar af leiðandi væru þær varla eftir „frumhöfundinn“
sjálfan. Peter rannsakaði notkun „cursusar“ í íslenzkum fornritum til að rökstyðja nánar þessa skoðun.

1
Siguður vakti athygli á því að þótt handritið væri frá 1387, væri efni þess miklu eldra.
2
Sú var einnig skoðun Sigurðar Nordals (ÍF VI, LXXV-LXXVI). F hafi verið skrifað eftir handritum sem hafi verið í
eða úr Þingeyraklaustri en þaðan hafi frumtextinn komið. Munkarnir hefðu ef til vill endurskrifað söguna oftar en einu
sinni en hefðu „rjálað lítið við frumtextann“. Úlfar Bragason (2000, 268-274) tók í sama streng.
3
Cursus er hugtak úr latneskri ritlist en hann sýndi að cursus sæist miklu oftara í klausunum en í
sögutextanum. Ályktun Peters var að klausurnar gætu ekki verið upphaflegar annars hefði frumhöfundurinn
notað hann jafnoft í sögutextanum fyrst hann væri „svo hrifinn af cursus“.
Þessu svaraði Jónas (1976, 262) með því að klausurnar væru samt sem áður samofnar sögunni og það væri
eigi undrunarvert að cursus væri notað meira í klausunum því þar ríkti lærdómsstíll.
Eins og hefir verið rakið, er málið umhverfis uppruna klausna Fóstbræðrasögu straumiða allra fræðilegra
umræðna þar sem beiti stjórnlaust röksemdanna í byr óðum tízkunnar sekkur í blákaldan sæ óvissunnar 3.
Mætti því taka undir lokaorð Jónasar (1976, 262):
„Seint mun verða úr því skorið með vissu hvort þær eru eftir sjálfan höfund sögunnar eða einhvern yngri
uppskrifara [...]“
Miklu fleiri fræðimenn hafa fjallað um klausurnar. Hér er ekki rými til nánari umræðu en í næstu
efnisgreinum verður aftur vikið að málinu.

Aldur

Örðugt hefir fræðimönnum reynzt að ákvarða aldur Fóstbræðrasögu. Hér verður stiklað á stóru um
óþrotlegar vangaveltur þeirra um efnið.
Til að tímasetja Fóstbræðrasögu virðist í fljótu bragði hægt að beita eingöngu þremur þeirra fjögurra
mælikvarða sem Jónas Kristjánsson skýrgreindi (1972, 293):
a. Aldur handrita
b. Skyldleiki við önnur rit sem unnt er að tímasetja
c. Áhrif frá nýlegum atburðum (sem sagan segir frá) sem kunnugt er hvenær gerzt hafa
Eins og fyrr segir er Hauksbók elzta handritið sem varðveitir söguna. Aldur þess skipar um það bil árið
1300 sem terminum ante quem. Af þessu atriði og áhrifum frá riddarasögum sem unnt er að sjá í öllum
gerðum sögunnar, ályktaði Björn Þorólfsson (1925-27, X) að sagan væri frá tímabilinu 1250-1300 (því stíll
riddarasagna á Íslandi hefði ekki skotið upp kolli fyrr en árið 1250).
Hvað varðar atriði c. sem skýrgreint er hér að ofan, er unnt að nefna að í sögunni (í M-, F og R-gerðum) er
vikið að skálasmíð nokkurri og sagt er frá að „þili“ þessa skála héldust þar til Magnús biskup inn síðari sat í
Skálholti. Þar sem þessum biskupsdómi lauk árið 1237 mætti nota 1237 sem terminum post quem til að
tímasetja söguna. Í H-gerð sögunnar stendur þó Árni biskup inn síðari í stað Magnúsar en kunnugt er að Árni
sá hafi farið með embættið til 1320 (ÍF VI, 184). Misræmis þessa sem gætir milli handritanna vekur grun um
að söguritarinn hafi séð umrædda veggklæðningu á tíma Árna biskups og hafi svo uppfært sögutextann.
Sigurður Nordal varaðist þess vegna að nota þetta atriði til aldursákvörðunar. Hann tímasetti
Fóstbræðrasögu um 1200 vegna sambands milli hennar og ýmissa gerða Ólafs sögu Helga. Hann taldi að
Elzta saga Ólafs Helga og Fóstbræðrasaga væru óháðar. En hann gerði ráð fyrir tilvist einhverrar *Miðsögu

3
Mætti velta vöngum yfir hvort þessi setning sé klausa enda er orðalagið ótamt fræðimönnum. Veldur sérvizka sjálfs
höfundar þessa rits að þvílíkt orðafar sé notað í fræðigrein eða er það innskot yngri ritara?
4
Ólafs sem hefði haft áhrif á Helgisöguna og á gerð Styrmis fróða. Auk þess rökstuddi Sigurður að Snorri hafi
haft bók Styrmis í hendi þegar hann samdi sína Ólafs sögu í síðasta lagi milli 1225 og 1230. Vegna þessarar
áhrifa keðju komst Sigurður að því að *Miðsaga væri frá um það bil 1210. Þar sem hann hélt að í *Miðsögu
hefðu verið kaflar úr Fóstbræðrasögu, varð ályktunin sú að Fóstbræðrasaga væri frá um aldamótum 1200 (ÍF
VI, LXXI-LXXII)4.
Jónas Kristjánsson véfengdi þessa ályktun. Hann varði drjúgum hluta af sinni ritgerð (1972, 144-223) til að
fjalla um samband milli ýmissa gerða Ólafssögu og Fóstbræðrasögu. Hans niðurstöður voru í grófum
dráttum að engin *Miðsaga Ólafs hefði verið til auk þess að Ólafs saga Snorra hefði líklega verið eldri en
Fóstbræðrasaga, þar af leiðandi hin síðari væri samin eftir 1230 (ibid. 297). Jónas studdi þessa skoðun annars
vegar með þeim rökum að hægt væri að virða vitnisburð skálasmíðarinnar (ibid. 294-296) en hins vegar tók
hann undir skoðun Bjarnar Þorólfssonar um unglegan blæ sögunnar (ibid. 298)5. Skoðun Sigurðar sem hélt
að sagan væri forn en klausurnar upprunalegar þótti Jónasi (ibid. 298) mótsagnakennd.
Röksemdarfærsla Jónasar hefir ekki verið óumdeild. Peter Hallberg dróg sterklega í efa að þessi
aldursákvörðun væri rétt. Hann sýndi að hátíðni í notkun á töluorðinu „einn“ væri alls ekki afgerandi um
hvað varðaði aldur sögunnar og Jónas viðurkenndi það í sínum andsvörum (Skírnir 150, Peter 239-248;
Jónas 260). Auk þess leitaðist Peter (ibidem 248-253) við að sýna að eldri textar hneigjast til að nota
sagnorðið „hitta(sk)“ fremur en „finna(sk)“. Fóstbræðrasaga virtist að Peters mati tilheyra flokki eldri texta
(frá öndverðri 13. öld) en Jónas (ibidem 261-262) mótmælti að þær tölur væru marklausar til
aldursákvörðunar vegna ósamræmis milli Fóstbræðrasöguhandritanna hvað varðar notkun á umræddum
tveimur sagnorðum.
Þyngri á metum virðist vera gagnrýni Sørensens. Hann endurvakti kenningu Sigurðar Nordals varðandi
sérvizku Fóstbræðrasöguhöfundar. Hann velti fyrir sér hvort sagan væri „førklassisk“ (Sørensen 1999, 157-
160). Hann vakti athygli á að vitnisburður sögustíls vó þyngst í aldursákvörðun Jónasar til síðari hluta 13.
aldar og mat þessa ályktun ekki „afgørende“ (ibidem 1999, 161). Hans rök fólust í því að menntaðir
(uddannede) Íslendingar eða Norðmenn hefðu getað þekkt útlenskar bókmenntir á frummálinu, ef til vill
nokkrum áratugum áður en þær voru þýddar. Mætti af þessu vænta að Fóstbræðrasagan kynni að vera frá
1220 eða 1230.
Fleiri fræðimenn, eins og Klaus von See, hafa ritað um tímasetningu Fóstbræðrasögu en hér verður staðar
numið. Í næstu efnisgrein er litið á málið frá öðru sjónarhorni.

Fleiri höfundar og munnmælageymsla

4
Mætti vekja athygli á að Sigurður færir í því bindi engin rök fyrir að útiloka að Fóstbræðrasaga sé enn eldri en 1200.
5
Auk þess hélt Jónas að hátíðni í notkun á „einn“ sem óákveðnum greini/óákveðnu fornafni væri vísbending um að
sagan væri ung (1972, 282-285). Um það er nánar rætt hér að neðan.
5
Fræðileg umræða um uppruna klausna og aldur Fóstbræðrasögu hefir leitt fræðimenn í bendu. Sú flækja
mætti leysast ef viðhorfi næstu rannsókna yrði breytt. Að þessu lúta framlög Kroesen og Kratz sem lítils
róms hafa notið til þessa.
J. Kroesen (1962; summary 142-147) sannfærðist af kenningu Sigurðar Nordals um aldur sögunnar. Hún
taldi engu að síður að klausur gætu ekki verið gamlar. Auk þess fannst henni að viðhorf söguhöfundar væri
mótsagnakennt. Hún tók undir skoðun sem birtist í grein eftir Hannes Pétursson og benti á að
söguhöfundurinn sveiflaðist milli tveggja afarkosta. Annars vegar fyllist hann aðdáunar á hetjudáðum
Þorgeirs án þess að fella neinn siðferðilegan dóm um hegðun hans en hins vegar sýndu klausur og aðrir hlutir
textans rammkristnilegar lífsskoðanir. Á þessum atriðum og fleiri sterkum stíltilbrigðum í sögunni byggði
Kroesen upp sína kenningu sem fólst í því að tveir hefðu höfundar verið að móta Fóstbræðrasögu. Í anda
Sigurðar kenningar hefði fyrri höfundur verið að smíðum í kringum 1200 en síðari hefði breytt sögunni
nokkrum áratugum seinna, í síðasta lagi fyrr en hún birtist í H um 1300.
H. Kratz (1955, 121-136) ritaði hins vegar grein um þátt munnmælageymslu í tilurð Fóstbræðrasögu.
Niðurstaða Kratzs var sú að H-gerð sögunnar og hin (M-F-R) rynnu ekki af sameiginlegu handriti. Þær
byggju þvert á móti á tveimur mismunandi munnmælageymslum sem hefðu verið uppistaða tveggja óháðra
handrita, X1 og X2. En af X1 rynni H en af X2 fæðist fyrirrennari M, F og R. Kratz fjallaði ekki um aldur
sögunnar en hugmyndir hans brutu bannhelgi bókfestukenningar 6. Að gera ráð fyrir tveimur mismunandi
upprunalegum handritum Fóstbræðrasögu fól í sér að torvelt væri að tala um Fóstbræðrasögu sem smíð eins
höfundar.

Lokaorð

Fræðimenn sem fjallað hafa um tilurð Fóstbræðrasögu hafa rekizt við málefni sem hefir þeim reynzt ókleift
að svara. Flestir hafa haldið að af brunni munnmælasagna hafi verið ausið til að móta söguna í þeim gerðum
sem eru okkur kunnugar. En er kemur að þeirri spurningu, hvernig eigi að meta þátt munnmælasagna, fer
hver fræðimaður sína götu.
Gísli Sigurðsson hefir sýnt í sínum rannsóknum um tilurð Austfirðingasagna að viðhorf fræðimanna til
uppruna fornsagna hefir áhrif á niðurstöður þeirra rannsókna. Ef við gerum ráð fyrir að Íslendingasögur séu
ekki höfundarverk og metum þátt munnmælasagna mikils, gætu efni og persónur sem eru sameiginleg í fleiri
en einni sögu verið skýrð á annan veg en með rittenglsum (Gísli Sigurðsson 2002, 129-247). Til dæmis, ef
við lítum á kafla sem eru sameiginlegir í Fóstbræðra- og Grettissögu, og gerum ráð fyrir að munnmælasögur
séu á bak við þá, þurfum við sennilega ekki að fallast á skoðun fyrri fræðimanna sem töluðu um rittengsl.
Slíkar hugmyndir verða ekki sannaðar hér en vænta má að fræðimenn ættu að endurskoða allar sínar
hugmyndir um tilurð Fóstbræðrasögu ef þessum forsendum yrði beitt í rannsóknum.

6
Um afstöðu bókfestukenningu til sagnafestukenningar, sjá Gísli Siguðurðsson (2002, 18-22).
6
Hér er eingöngu rými til að leggja lauslegan uppdrátt að slíkum rannsóknum. Gagnlegt er að líta á
Fóstbræðrasögu sem forngrip eins og Torfi Tulinius 7 hefir gert í sinni bók um Egilssögu. Föllumst við á
kenningu Kratzs um tvær munnmælauppsprettur Fóstbræðrasögu, verða forngripirnir tveir.
Næsta skref er að leitast við að skilja hvernig menn til forna notuðu þessa forngripi eða með öðrum orðum
hvernig menn sögðu eða lásu þessar Frumfóstbræðrasögur. En þótt við lítum á fornsögur sem forngripi fyrir
nauðsynja sakir, voru þær það ekki í augum fornmanna. Þeir breyttu og aðlöguðu þær samkvæmt þörf 8. Ekki
má heldur útiloka að munnmælagerðir frumsögunnar hafi verið færðar í letur snemma en svo hafi ritaðar
gerðir hennar haft áhrif á aðrar munnmælagerðir og öfugt. Ferlið kynni að hafa verið mjög flókið.
Síðasta skref er að skýrgreina kjarna allra þessara gerða, sérstaklega ætti að velta fyrir sér hvort kjarni þessi
felst í vísum Þormóðar9.
Þegar lögð væru skýr drög að ferli sem felst í tilurð Fóstbræðrasögu, gætu viðhorf fræðimanna um aldur
sögunnar breyzt verulega. Spurning um hvenær sagan sé samin yrði óviðeigandi þar sem hana væri ekki unnt
að tímasetja eins og nútímahöfundarverk. Maður ætti heldur að líta á hana sem ferli, sem „verk“ í sífelldri
mótun. Það sem fræðimenn ættu að tímasetja væri þá hvenær þetta ferli hæfist og hvenær lyki. Ferlið þrýtur
hugsanlega ekki þegar sagan er færð í letur. Það héldi fremur áfram þar sem ritarar væru enn að breyta henni.
Áður en þessari ritgerð lýkur þykir vert að skálda tvö ný orð til að skýrgreina hugtakakerfið sem hefir
lauslega verið vísað á hér að ofan. Orð þessi eru „berundur“ og „ljúkundur“. Í þessum anda væri „höfundur“
sá sem hefur upp sögu. Síðari menn breyta henni og bera hana áfram til nýrra kynslóða: þessir væru
berundar. Ferlið heldur áfram þar til menn hætta að breyta sögum og á þær er litið sem forngripi. Ljúkundar
væru þessir sem keðjunni ljúka.

7
Þessi hugmynd er undirstaða sem öll bók Torfa hvílir á. Henni er sérstaklega lýst í innganginum (Torfi Tulinius 2004,
11-13)
8
Í samfélaginu sem meðhöndlaði fornsögur voru þessir gripir sífellt endurnotaðir, enda um nytjasamfélag að ræða.
Frægir safngripir eins og Bjarnastaðahlíðarfjalir, sem einu sinni voru hluti af elztu leifar íslenzkrar myndlistar úr
kristnum sið, fengu síðar ný og breytt hlutverk: sumar urðu árefti í skemmu, þil í búri og svo framvegis (Pétur
Gunnarsson 2004, 16-17).
9
Jónas Kristjánsson (1972, 114-126) fjallaði rækilega um þetta mál og sýndi að flestar vísur Fóstbræðrasögu eru ekki
yngri en frá síðari hluta 12. aldar. Auk þess færði hann rök fyrir að ekki væri unnt að útiloka að þær væru frá þeim tíma
er Þormóður var uppi.
7
HEIMILDASKRÁ

Frumheimildir

Flateyjarbók II. bindi. 1945. Akranes: Flateyjarútgáfan.

Hauksbók. 1892-96. København: Det kongelige nordiske oldskrift-selskab.

Aðrar heimildir

Björn K. Þórólfsson (útg.). 1925-27. Fóstbrœðra saga. København: Samfund til Udgivelse af Gammel Nordisk Litteratur.

Gísli Sigurðsson. 2002. Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar. Tilgáta um aðferð. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

P. Hallberg. 1976. „Enn um aldur Fóstbræðra sögu“. Skírnir 150, 239-260.

ÍF VI = Björn K. Þórólfsson og Guðni Jónsson (útg.). 1943. Vestfirðinga sǫgur. Íslenzk fornrit VI. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.

Jónas Kristjánsson. 1972. Um Fóstbræðrasögu. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Jónas Kristjánsson. 1976. „Andsvör um aldur Fóstbræðra sögu“. Skírnir 150, 260-263.

H. Kratz. 1955. „The “Fóstbrœðrasaga” and the oral tradition“. Scandinavian Studies, vol. 27, nr. 3. University of Massachusetts, 121-136.

J. M. C. Kroesen. 1962. Over de Compositie der Fóstbrœðra Saga. Leiden: Universitaire Pers Leiden.

Pétur Gunnarsson. 2004. “Leikmunadeild þjóðarleikhússins”. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni, red. Árni Björnsson og Hrefna
Róbertsdóttir. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 15-17.

Sørensen, P. M. 1997. Sagaen om Fostbrødrene. [Frederiksberg]: Dansklærerforeningen.

Sørensen, P. M. 1999. „Modernitet og traditionalisme. Et bidrag til islændingesagaernes litteraturhistorie med en diskussion af Fóstbrœðra sagas
alder.“ Die Aktualität der Saga. Festschrift für Hans Schottmann. Berlin: de Gruyter, 149-162.

Torfi Tulinius. 2004. Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag: ReykjavíkurAkademían.

Úlfar Bragason. 2000. „Fóstbræðra saga. The Flateyjarbók version“. Studien zur Isländersaga. Festschrift für Rolf Heller. Berlin: de Gruyter, 268-
274.

You might also like