Download as pdf or txt
Download as pdf or txt
You are on page 1of 16

Eftirfarandi grein var sótt af Tímarit.is þann 30. mars 2018 klukkan 01:49.

Titill
Siðfræði gagnrýninna félagsvísinda
Höfundar
Markovi?, Mihailo
Vilhjálmur Árnason (1953)
Tímarit
Tímarit Máls og menningar
45. árgangur 1984
3. tölublað
Bls. 269-283
Vefslóð
http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000557058

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn á og rekur Tímarit.is. Safnið áskilur sér engan rétt á því
myndefni sem birtist á vefnum. Öll endurnot á stafrænum myndum af efni sem fallið er úr höfundarrétti
eru heimil án endurgjalds eða leyfis frá safninu.
Birting á Tímarit.is á efni í höfundarrétti er skv. samningi við rétthafa. Safnið á því ekki höfundarrétt
að efni sem birt er á vefnum. Öll endurnot, bæði á texta og stafrænum myndum, á efni sem enn er í
höfundarrétti eru því óheimil án leyfis viðkomandi rétthafa.
Mihailo Markovic

Siðfræði gagnrýninna
félagsvísinda
i
Eitt mikilvægasta málefni okkar daga er hvort vísindamenn og tæknifræð-
ingar beri félagslega ábyrgð á verkum sínum. Staðreyndin er sú að gildi
tækni og vísinda er orðið tvíbent. Fyrir um hundrað árum veigruðu jafnvel
róttækustu menntamenn sér við að gagnrýna vísindin þótt þeir fyrirlitu allar
aðrar stofnanir samfélagsins. Rússnesku níhilistarnir, eins og Pisarev og
fylgismenn hans, réðust gegn öllum hefðbundnum verðmætum — jafnt
heimspekilegri hughyggju, kristinni trú og siðferði, sem ríkinu og fjölskyld-
unni. Þeir voru sannfærðir um að einræði og fáfræði væru rætur alls ills, og
þeir trúðu að byltingin myndi afnema hið fyrrnefnda og hið síðarnefnda
yrði upprætt með vísindum. Söguhetjur Túrgenjevs í Fedur og synir trúðu
því að í þjóðfélagi framtíðarinnar myndu vísindin leysa allan vanda og
lækna öll sár. Bjartsýni af þessu tagi er nú horfin. En auðvitað svífur andi
upplýsingarinnar enn yfir vötnum og eitt meginhreyfiafl nútímaþjóðfélags
er trúin á vísindin og afrakstur þeirra: vald yfir náttúrunni, efnisleg gæði og
áhrifaríka skipulagningu í þjóðfélaginu. Á hinn bóginn verður fólk æ
tortryggnara á framþróun vísinda vegna ýmissa fylgifiska hennar. Hér
mætti nefna minnkandi tengsl manna á milli í tækniþróuðum þjóðfélögum,
vísindalegar tilraunir sem leitt gætu til gereyðingar, aukna möguleika á að
ráðskast með einstaklinga, algenga notkun á vísindamönnum, aðferðum
þeirra og tækni, í þágu afturhaldsafla, og sjúklega neyslu sem getur leitt
bæði til eyðingar nauðsynlegra auðlinda og til lífshættulegrar mengunar á
náttúrlegu umhverfi.
Þessar nýju aðstæður krefjast skjótra viðbragða af hálfu vísindamanna.
Þeir eiga um tvo kosti að velja. Annaðhvort geta þeir risið upp gegn þessu
ástandi eða sætt sig við það eins og það er, talið það eðlilegt og haldið áfram
að draga skörp skil milli ábyrgðar á sköpun þekkingar og á notkun hennar.
Staða þessara þekkingarframleiðenda einkennist af því annars vegar að þeir
láta sér á sama standa um grundvallarmarkmið rannsókna og um það
heildarsamhengi þar sem afurðir hugsunar þeirra öðlast endanlega merk-

269
Tímarit Máls og menningar
ingu, og hins vegar af því að þeim er ekki leyft að eiga aðild að ákvörðunum
um það hvernig eigi að nota þær. Þeir eiga þess kost að sætta sig við stöðu
sína eða ekki.
Velji þeir síðari kostinn, verður að koma til grundvallarbreyting á afstöðu
vísindamanna til verkefnis síns. Þeir verða að láta af ríkjandi vísindahyggju
og tileinka sér hugmyndina um gagnrýnin vísindi og aðferðafræði þeirra. I
stað hefðbundinnar hlédrægni og afskiptaleysis verða að koma alvarlegar
áhyggjur af misnotkun vísindaiegrar þekkingar í mannfjandsamlegum til-
gangi.
Fallist vísindamenn aftur á móti á fyrri kostinn, geta þeir litið áfram á
þessi mál útfrá þröngri verkaskiptingu og reynt að skorast undan ábyrgð
með þeim rökum að vísindaleg hlutlægni eigi ekkert skylt við siðferðilega
afstöðu. Þeir geta reynt að verja sig með því að annaðhvort hljóti rannsókn
að vera hlutlaus um verðmæti og siðferði eða niðurstöður hennar verði ekki
hlutlægar heldur litaðar af tilteknum skoðunum.
Boðorðið um hlutleysi vísinda á sér ekki langa sögu. Allt fram til loka 19.
aldar var litið svo á að gagnrýnið mat á veruleikanum væri réttmætt hlutverk
vísindalegrar rannsóknar. Gagnrýnið mat studdist við tvær heimspekilegar
hugmyndir. O n n u r var hugmyndin um náttúrlegt skipulag og náttúrlegan
rétt manna. Þessi hugmynd átti upptök sín í stóískri heimspeki til forna en
tók ýmsum breytingum sérstaklega á 17. og 18. öld (í meðförum Bodins,
Althusiusar, Gotiusar, H o b b e s , Leibniz, Kants o. fl.). Hin var framfara-
hugmyndin sem kom fyrst fram með upplýsingunni og var allsráðandi á 19.
öld. Það var hægt að gagnrýna öll efnahagsleg, pólitísk og réttarfarsleg
skilyrði í Ijósi náttúrlegs skipulags og framfara. Þetta voru óneitanlega
óljósar hugmyndir sem hvíldu á grunnfærnum, einhliða og ósannanlegum
forsendum. Raunar var þeim beitt jafnt til þess að réttlæta sem gagnrýna
ríkjandi ástand. Til dæmis var því haldið fram að auðvaldsskipulagið væri
það hagkerfi sem hæfði best mannlegu eðli og leiddi til skjótastra framfara.
Hin sterka andstaða gegn þessum hugmyndum, samfara kröfunni um að
hreinsa vísindin af öllum gildisdómum og einskorða þau við hreina lýsingu
og útskýringu á raunverulegum aðstæðum, var því að hluta til afleiðing af
aukinni aðferðafræðilegri nákvæmni. Að hluta til var hún einnig til marks
um þá tilhneigingu afturhaldsafla að útrýma allri gagnrýni úr vísindum og
vísa öllu mati, áformum og ákvörðunum yfir á svið stjórnmálanna. Engu að
síður hefur engin viðmiðun komið í staðinn fyrir hugmyndirnar um fram-
farir og náttúrlegt skipulag. Ríkjandi heimspekistefna á 3. og 4. áratug
þessarar aldar — rökfræðileg raunhyggja — leit svo á að allar staðhæfingar
um verðmæti væru einber tjáning tilfinninga og segðu okkur ekkert um
heiminn. Ein afleiðing þessa var sú að heimspekin einangraðist algjörlega frá

270
Siöfræöi gagnrýninna félagsvísinda
lifandi þjóðfélagsumræðu; hlutverk hennar var ekki lengur að gagnrýna og
marka stefnuna heldur skyldi það einskorðast við rökgreiningu tungumáls-
ins. Það féll hins vegar í hlut vísinda að kanna raunveruleg, skynjanleg
fyrirbæri og sýna, þegar best lét, fram á reglubundin tengsl þeirra. Allt mat í
ljósi þarfa, tilfinninga eða siðferðilegra mælikvarða var álitið óskynsamlegt
og ekki við hæfi vísinda.
Þessi áhersla á siðferðilegt hlutleysi vísinda hefur framfarahlutverki að
gegna við sérstakar sögulegar aðstæður. Max Weber hélt því réttilega fram
að þegar frelsi manna til vísindalegra rannsókna væri skert, gæti skírskotun
til reglunnar um siðferðilegt hlutleysi bjargað heiðri og sjálfsvirðingu
fræðimannsins því hún gerir honum kleift að einangra sig frá siðlaus-
um markmiðum ráðandi afla. Við slíkar aðstæður og í þeim skilningi kann
hlutleysi vísinda um verðmæti að gegna jákvæðu, afhjúpandi hlut-
verki.
N ú á tímum virðist aftur á móti ljóst að þjóðfélögum stafi ekki mest hætta
af einræðis- og alræðisstjórnum heldur af því andlega tómarúmi sem fyllt er
upp í með trú á vald og velgengni, með hugmyndum um neyslu og nær
sjúklegri trú á áhrifamátt tækja, ásamt lífshættulegu skeytingarleysi um
mannleg markmið og skynsemi. Þegar svo stendur á gegnir reglan um sið-
ferðilegt hlutleysi fremur því hlutverki að dylja vandann en hinu gagnstæða.
Með áhugaleysi sínu um langtíma stefnumörkun og djúpstæðri vantrú á
allar hugmyndir um róttækar þjóðfélagsbreytingar, stuðla vísindin einungis
að því að auka þetta firrta vald, að ná stöðugt áhrifameiri tæknilegum tökum
á náttúrlegum og sögulegum ferlum innan ríkjandi kerfis. „Hreina",
ógagnrýna smáskammtaþekkingu er alltaf hægt að túlka og hagnýta á þann
veg sem ráðamönnum kemur best. Það samfélag sem hefur sett hin hlut-
lausu vísindi í öndvegi er svipt öllum möguleika á gagnrýninni sjálfsvitund.

II
I rauninni er sjálft hugtakið, hlutleysi vísindalegrar rannsóknar um verð-
mæti, villandi. I öllum félagslegum athugunum er gengið útfrá tilteknum
verðmætum og viðmiðunum; spurningin er aðeins: af hvaða tagi eru þau?
Akveðin þekkingargildi eru grundvallaratriði í vísindalegri aðferð: skýr-
leiki, vandvirkni, sveigjanleiki, frjósemi og skýringarmáttur hugtakakerfis-
ins, nákvæmni í ályktunum, staðfesting og hagnýting kenninga, o. s. frv.
Aðferðafræðilegar stefnur fela í sér mismunandi forgangsmynstur þessara
verðmæta. Að velja á milli rökgreiningar, fyrirbærafræði og marxisma, að
aðhyllast raunhyggju, rökhyggju eða innsæisstefnu, að taka útskýringu
fram yfir skilning — merkir ekki bara það að tileinka sér ákveðið tungutak,

271
Tímarit Máls og menníngar
hugsunarhátt og tilteknar þekkingar- og verufræðilegar frumreglur, heldur
líka að taka ákveðin þekkingargildi fram yfir önnur.
Auk þekkingargilda felast jafnan ýmis önnur verðmæti í fræðilegum og
aðferðafræðilegum forsendum félagsvísindamanna, hversu hlutlausir sem
þeir leitast við að vera. Til dæmis ganga verkhyggjumenn að því vísu að
þjóðfélagið sé stöðugt kerfi þátta sem tengjast vel innbyrðis. Hver og einn
þáttur eigi sér ákveðið hlutverk og stuðli að viðgangi kerfisins. Rétt
starfsemi kerfisins veltur á samkomulagi um grundvallarverðmæti. Regla í
þjóðfélaginu er meginskilyrði þess að starfsemi kerfisins gangi vel. Öll
frávik frá þessari reglu eru til marks um bilun, afbrigðileika, sjúkdóm.
Gagnstætt þessu gengur marxískur félagsfræðingur útfrá því að við lifum á
tímaskeiði sem stefnir í ákveðna átt: hlutbundin mannleg starfsemi mun
verða frjáls, stéttbundið þjóðfélag mun verða stéttlaust. Öll þjóðfélagskerfi
séu því meira og minna óstóðug, þau sýni skýr einkenni upplausnar, margar
stofnanir sinni greinilega ekki hlutverki sínu. Þau eru þjóðfélög ósamkomu-
lags og stéttabaráttu. Það er því litið svo á að frávik og óánægja í
óheilbrigðu þjóðfélagi geti vel verið fjarri því að vera sjúkleg; þau kunni
raunar að vera byltingarkennd og til marks um andlega heilbrigði. H é r
rekast því greinilega á andstæð viðhorf til þess verðmætakerfis sem er
innbyggt í samfélagsgerðina. Með því að leggja áherslu á stöðugleika,
samræmi og reglu reynir verkhyggjan að verja verðmætakerfið. Með því að
gera ráð fyrir óhjákvæmilegri, róttækri breytingu á samfélagsgerðinni og
aðhyllast gagnrýni og uppreisn, leitast marxisminn við að kippa stoðunum
undan þeim kröfum sem verðmætakerfið gerir um réttmæti og sýna fram á
að a. m. k. sumar grundvallarforsendur þess hafi ekki almennt gildi heldur
endurspegli þarfir og sérhagsmuni ráðandi afla. Þannig eru t. d. einkaeign,
efnahagsleg samkeppni, vinnan sem slík (hvort sem hún er firrt eða ekki),
regla, borgaraleg hlýðni, þjóðareining, skoðanafrelsi án frelsis til þess að
taka ákvarðanir, í reynd verðmæti handa vissum útvöldum á ákveðnum tíma
og við sérstök skilyrði. Það samrýmist ekki vísindalegri hlutlægni að
aðhyllast þau skilyrðislaust. Það er rétt að sem einstaklingar tilheyra
vísindamenn ákveðinni þjóð og tilteknum þjóðfélagshópi; þeir hafa hlotið
menntun sína í ákveðinni hefð og félagslegu andrúmslofti. Erfiðasta og
ábyrgðarmesta verkefni þeirra sem þjálfa unga vísindamenn er því að hjálpa
þeim að sjá útyfir þennan þrönga sjóndeildarhring og gera sér grein fyrir því
að vísindin eru sammannleg afurð.
Reyndar felast ákveðin algild siðferðileg verðmæti í hugtökunum hlut-
lægni og rökvísi sem eru undirstöður vísindalegrar aðferðar. (Geiger hitti
naglann á höfuðið þegar hann hélt því fram að mjög náin tengsl væru á milli
fræðilegrar kunnáttu [Fachkönnen] og fræðilegrar samvisku [Fachgewis-

272
Siðfrxði gagnrýninna félagsvísinda
sen]). Hlutlægni gerir ráð fyrir heiðarleika sem grundvallarreglu í starfi
fræðimannsins. Þessi regla krefst þess að menn ýti miskunnarlaust öllum
persónulegum hagsmunum til hliðar, að þeir séu samvinnuþýðir um allt sem
að rannsókninni lýtur, að þeir séu reiðubúnir að taka sannleikann fram yfir
samtryggingu, og að þeir séu lausir við hleypidóma af öllu tagi, s. s.
félagslega og trúarlega fordóma. Hlutlægni vísindalegrar rannsóknar er háð
ákveðnum þjóðfélagslegum skilyrðum sem aftur geta oltið á því að ýmis
verðmæti séu í heiðri höfð. Hér á ég við verðmæti eins og þau að samfélagið
sé opið gagnvart öðrum þjóðum og að almennt umburðarlyndi sé ríkjandi í
stjómmálum og menningu (sem útilokar þó ekki baráttu gegn hjátrú og
hleypidómum). Auk þess mætti nefna frjálst flæði upplýsinga (sem felur í sér
tjáningar- og umræðufrelsi, frelsi til þess að ferðast og til þess að kanna
hvaða vísindalega áhugavert vandamál sem er), sjálfstæði vísinda gagnvart
öðrum þjóðfélagsþáttum og sérstaklega stjórnmálum, og almenna andstöðu
við alræðisviðhorf. Þetta felur í sér að eina kennivald vísinda yrðu þekking
og hæfileikar og að andríki og smekkvísi yrðu allsráðandi í þjóðfélaginu.
Höft á mannlegum samskiptum, fjandskapur við öndverðar heimspekistefn-
ur og aðferðafræði, hvers konar einveldi sem ritskoðar skrif fræðimanna og
ráðskast með rannsóknir þeirra en hyglir auðsveipum stuðningsmönnum,
eru hins vegar þættir sem draga stórlega úr hlutlægni og vísindaleg starfsemi
almennt setur ofan.
En það eru önnur félagsleg skilyrði hlutlægni sem sýna hvað best tengsl
hennar við mannúðarstefnu. Svo lengi sem vísindaiðkun er forréttindi lítils
minnihlutahóps og er algjörlega einangrað og sérhæft svið, merkir orðið
„hlutlægur" oft það sem sérfræðingar hafa komið sér saman um. Hópur
athugenda og gagnrýnenda stækkar hins vegar í réttu hlutfalli við þann
fjölda fólks sem aflar sér menntunar sjálft og hefur áhuga á vísindum.
Dómgreind almennings á hlutlægt gildi rannsókna og kenninga verður því
næmari og gagnrýnni.
Svipaða greiningu mætti gera á hugtakinu vísindaleg rökvísi. Öll rökvísleg
hegðun er gildishlaðin: hún felst í því að velja þann kostinn sem líklegastur
er til að ná settu marki. I fæstum tilvikum eru markmiðin rannsökuð; það er
gengið að þeim sem vísum eða þau eru sett innan sviga, en það skapar þá
blekkingu að tæknileg skynsemi taki enga afstöðu til verðmæta og sé því
siðferðilega hlutlaus. Svo er auðvitað ekki. Fjölmargar nýjar afurðir hins
hárökvísa framleiðsluferlis gefa einungis af sér meiri gróða fyrir fram-
leiðandann en fullnægja mannlegum þórfum ekki betur. Rannsókn á þeim
gildum sem dyljast í sjálfu hugtakinu „rökvísi" vekur spurninguna um
endanleg markmið vísindalegra rannsókna. Það er nú orðið deginum ljósara
að sum mestu afrek vísindanna á þessari öld hafa verið misnotuð að

273
Tímarit Máls og menningar
einhverju marki, að margar þarfir mannsins hafa verið vanræktar og að
ótrúlega miklu efni, þekkingu og starfsorku hefur verið kastað á glæ í því
skyni að fullnægja duttlungum og gerviþörfum. Vísindin þarfnast því
skýrrar og gagnrýninnar sjálfsvitundar og nýrrar mannúðarstefnu.

III
Fræðilega séð er meginvandinn við að móta slíka nýja stefnu sá að renna
stoðum undir þá staðhæfingu að siðferðilegar viðmiðanir hennar séu al-
gildar.
Hægt er að setja fram þrjár skynsemisreglur sem sýna að þetta er réttmæt
staðhæfing.
I fyrsta lagi sýnir saga heimspeki og menningar að fremstu hugsuðir eru
að mestu sammála um tiltekin grundvallarverðmæti eins og frelsi og jafn-
rétti, frið og félagslegt réttlæti, sannleika og fegurð. Þetta er í sjálfu sér engin
sönnun, en það er vísbending um að tiltekin viðmið mannlegs lífs séu algild.
I öðru lagi setur gagnrýnin heimspekileg mannfræði fram kenningu um
manninn, eðlislæga hæfileika hans og eiginlegar þarfir, sem gerir okkur
kleift að draga ályktanir um mannleg verðmæti og mikilvægi þeirra. Þessi
kenning er greinilega ekki bara vísbending heldur einnig viðmiðun um
verðmæti. Vísbendingin felst, til dæmis, í fræðilegum rökstuðningi fyrir
þeirri skoðun að ákveðnir hæfileikar (svo sem til að nota tákn og tjá sig,
leysa ný vandamál og þroska með sér sjálfsvitund) búi í öllum mönnum, að
þeir fái að njóta sín við hagstæð skilyrði á tilteknu þroskaskeiði og að þeir
geti farið í súginn ef slík skilyrði eru ekki fyrir hendi. Viðmiðunin felst í því
að tekin er afstaða til þess hvaða hæfileikar séu manninum eðlislægir og að
gerður er greinarmunur á eiginlegum og óeiginlegum þörfum. Algildi
þessarar viðmiðunar fengist staðfest ef hægt væri að sýna fram á að allir
eðlilega þroskaðir einstaklingar hafi í raun sams konar tilfinningalegar þarfir
og óskir jafnt á tilteknum úrslitastundum tilverunnar, s. s. við ástvinamissi
og í þjáningu, sem almennt í félagsstarfi eða ástarsambandi svo dæmi séu
tekin.
I þriðja lagi hefur mannúðarsálfræði komist að niðurstöðu um algild
mannleg verðmæti í ljósi rannsókna á heilbrigðu og sjálfstæðu fólki. Inn-
takið í aðferðafræðinni er að hægt sé að skilgreina heilbrigði útfrá hátterni
án þess að nota sértæk, fræðileg hugtök. Abraham Maslow skilgreinir „heil-
brigðan, sjálfstæðan einstakling" með eftirfarandi eiginleikum sem lýst er
útfrá reynslu: hann er heilsteyptur persónuleiki með þroskað raunveru-
leikaskyn, hann er opinn fyrir nýrri reynslu, ræktar sjálfræði sitt og
sköpunargáfu, hefur örugga sjálfskennd, tekur hlutlægar ákvarðanir, hefur

274
Siðfrœði gagnrýninna félagsvísinda
hæfileika til þess að láta hið hlutstæða og hið óhlutstæða virka saman, er
lýðræðislegur og getur þótt vænt um aðra. 1 Það sem aftur á móti einkennir
geðsjúklinga er upplausn persónuleikans, þótt lífsstarfsemin geti verið í
tiltölulega stöðugu jafnvægi. Þessi aðferð gerir mannúðarsálfræðingum
kleift að umorða spurninguna „Hver œttu verðmæti manneskjunnar að
vera?" og spyrja í staðinn: „Hver eru verðmæti heilbrigðrar manneskju?"
Þetta þrennt, hin sögulega, heimspekilega og sálfræðilega niðurstaða,
gerir okkur kleift að fjalla á skynsamlegan hátt um sammannlegan grundvöll
gagnrýninna félagsvísinda.
Af þessum almennu hugleiðingum getum við dregið þá niðurstöðu að
félagsvísindamaðurinn eigi a. m. k. þriggja kosta völ: a) að vera málpípa
hins opinbera hugmyndakerfis í tilteknu þjóðfélagi; b) að reyna að stunda
rannsóknir sem stjórnast eingöngu af þekkingarfræðilegum viðmiðunum og
ýta öllum siðferðilegum lögmálum, eða efnahagslegum, pólitískum og
menningarlegum hugsjónum, til hliðar; c) að leggja stund á gagnrýna
fræðimennsku með hliðsjón af sammannlegum verðmætum.
Það er ekki erfitt að útskýra af hverju margir félagsvísindamenn kjósa
hlutverk málpípunnar. I besta falli geta þeir átt samleið með hinni opinberu
hugmyndafræði, átt sér sömu hugsjónir og markmið og ráðandi öfl. I versta
falli gerast þeir taglhnýtingar vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því hvað
þeir fá að launum: feita stöðu fyrir fylgispekt, útskúfun fyrir óhlýðni. En
hvert svo sem tilefnið er þá komast þeir fræðimenn, sem ákveða að laga
vinnu sína að hugmyndafræðilegum kröfum, ekki hjá því að skrumskæla
reglur vísindalegrar aðferðar sem vilja vera sannleikanum samkvæmar og
hafa almennt, hlutlægt gildi. Öll hugmyndafræði er hins vegar fölsk réttlæt-
ing sem ber yfirbragð skynseminnar; þar eð hún þjónar afmörkuðum sér-
hagsmunum þá gefur hún óhjákvæmilega villandi mynd af félagslegum
tengslum undir yfirskyni vísindalegs sannleika.
Þeir fræðimenn sem krefjast siðferðilegs og hugmyndafræðilegs hlutleysis
geta forðast verstu misbeitinguna. Þessi afstaða birtist í mörgum og ólíkum
m y n d u m . Við blasir að það er mikill munur á afstöðu þess fræðimanns sem
leitar hælis í öryggi hreinna vísinda en hafnar á laun hinu opinbera verð-
mætamati í þjóðfélagi kúgunar og annars sem lítur á sig sem eiganda
tiltekinnar vöru, þekkingar og tækni, og er til reiðu hverjum þeim sem vill
greiða það verð sem upp er sett. Eða berið saman vonsvikinn uppgjafa upp-
reisnarsegg, sem hefur sannfærst um að öll siðferðileg afstaða sé merkingar-
laus, og handbendi ríkisstjórnar eða fyrirtækis sem er stoltur af félagslegu
hlutverki sínu og leitast við að skapa „jákvæða" þekkingu í þeim verkefnum
sem ríkið felur honum. Loks mætti nefna þá manngerð sem Berthold Brecht
lýsir í Hugsuðinum. Eins og önnur persóna Brechts, Fræðimaðurinn, vill

275
Tímarit Máls og menningar
hann hvorki berjast, segja sannleikann né þjóna nokkrum; hann á sér „bara
eina dyggð: hann ber uppi þekkinguna." Það sem sameinar afstöðu þessara
ólíku aðila er flótti frá ábyrgð á því hvernig þekkingin er notuð.
Enginn fræðimaður getur lengur skotið sér undan þessari ábyrgð. Mesta
misbeiting vísinda í sögunni, smíði kjamorkusprengjunnar, kallaði þegar
fram mótmæli margra fremstu vísindamanna þess tíma: bréf Einsteins og
Szilards, Franck skýrsluna, bænarskjalið til forseta Bandaríkjanna 17. júlí
1945, og síðar Pugwash hreyfinguna, aukna þátttöku vísindamanna í sam-
tökum friðar- og umhverfisverndarsinna og menningarstarfsemi Sameinuðu
þjóðanna og Unesco. Ný alþjóðleg samábyrgð hefur verið að þróast meðal
menntamanna á síðustu áratugum. Gagnrýnin vitundarvakning, sem teygir
sig út yfir landamæri þjóða, kynþátta, stétta og trúarbragða, er að eiga sér
stað og taka á sig mynd sammannlegrar afstöðu. Fyrsta Pugwash yfirlýsing-
in, sem undirrituð var af Bertrand Russell og Albert Einstein, er hvað
táknrænust fyrir þessa alþjóðlegu grasrótarhreyfingu menntamanna: „Við
tölum ekki í nafni tiltekinnar þjóðar, heimsálfu eða trúar, heldur sem
manneskjur, meðlimir mannkynsins sem vafi leikur nú á að eigi sér framtíð.
Fæst okkar eru hlutlaus, en sem manneskjur hljótum við að hafa það
hugfast að ef leysa á deilu austurs og vesturs á þann veg að nokkur geti
hugsanlega við unað, hvort sem hann er kommúnisti eða and-kommúnisti,
Asíubúi, Evrópumaður eða Ameríkani, hvítur eða svartur, þá verða þessi
mál ekki útkljáð með styrjöld.
Sem manneskjur skírskotum við til allra manna — munið eftir mann-
kyninu og gleymið öllu öðru." 2

IV
Mörgum fræðimönnum verður órótt þegar þeir standa frammi fyrir áskor-
un af þessu tagi og það er full ástæða til þess að vera á verði. I fyrsta lagi
getur sjónarmið heildarinnar verið svo afsleppt að það sé ekki sanngjarnt
gagnvart neinu tilteknu sjónarmiði eða kröfu. Það er mjög þægileg og að
sama skapi óábyrg afstaða bæði fyrir skynsemina og siðgæðið að fegra öll
deilumál og þykjast vera „hlutlaus" allsherjardómari sem fordæmir alla
aðilja frá sjónarmiði „Mannkyns". Auðvitað samrýmast sum sjónarmið
mannlegum hagsmunum, þroska og sjálfstæði betur en önnur. Það er hins
vegar óhugsandi að efla þessa sammannlegu hagsmuni án þess að taka
ákveðna afstöðu í hverju tilviki fyrir sig. Stundum gæti það þýtt að fordæma
þyrfti alla, en í öðrum tilfellum fæli það í sér virkan stuðning við þá sem
berjast fyrir mannkynið í heild um leið og þeir vinna að eigin markmiðum.
Það sem við þurfum á að halda er ákveðin og söguleg en ekki óákveðin og
óaðstæðubundin alhyggja.

276
Siðfrxði gagnrýninna félagsvísinda
I öðru lagi hefur mannhyggja svo oft, bæði í sögunni og í orðabókum,
verið tengd manngæsku, umburðarlyndi, kærleika, miskunnsemi og góð-
verkum, að margir félagslegir umbótamenn og byltingarsinnar eru tregir til
þess að leggja nafn sitt við hana, jafnvel þótt málstaður þeirra sé tvímæla-
laust í þágu heildarinnar. Oljósar hugmyndir um sammannlega hagsmuni og
mannlegt umburðarlyndi gætu reynst vera liður í tilraunum ráðandi afla til
að draga úr áhrifamætti róttækrar gagnrýni á þjóðfélagsgerðina og sveigja
herská öfl í átt til meinlausrar góðgerðarstarfsemi. Akveðin algildis- og
manngildisstefna á alls enga samleið með þessari yfirborðslegu og útvötn-
uðu mannhyggju.
Frá upphafi forngrískrar menningar hefur hið algilda, hið mannlega og
hið gagnrýna haldist í hendur með einum eða öðrum hætti. Samkvæmt
Heraklítosi, til dæmis, er maðurinn eins og fangi eigin heimsmyndar svo
lengi sem hann reiðir sig eingöngu á persónulega reynslu sína og langanir.
Hugsunin gerir honum kleift að henda reiður á logos, hinni sönnu gerð
veruleikans, og öðlast þannig aðgang að heimi sem er sameiginlegur öllum
hugsandi mönnum. Með þessum hætti losna menn úr einstaklingsprísund-
inni og verða vakandi verur. Hjá Platóni, stóískum heimspekingum og
mörgum öðrum klassískum hugsuðum, rekumst við á svipað samspil
þriggja meginstefja: a) að algild formgerð veruleikans sé til; b) að þetta
algildi sé ekki með öllu utan mannsins því hann geti uppgötvað og tileinkað
sér það; og c) að hægt sé að vinna sig úr einstaklingsbundnu ástandi og
öðlast hlutdeild í því algilda með því að ástunda gagnrýni: manneskjan lifir í
draumi, í helli, í fangelsi, þar til gagnrýnin hugsun (þar sem skynsemi og
tilfinningar eru eitt)3 hefur þau áhrif að hún vaknar, losar sig úr ánauð og
kemst til manns. Það sem helst skilur á milli þessarar fornu mannhyggju og
hinnar nýju er sú áhersla sem hin síðarnefnda leggur á sógulega þætti og þar
með á verklega vídd mannlegrar tilveru. Hinn algildi maður þróast í tíma
sem virkur einstaklingur; klofningin milli raunveruleika og möguleika
mannsins tekur á sig nýja mynd á hverju tímaskeiði sögunnar og tilgangur
gagnrýninnar er ekki bara að vekja manninn til vitundar heldur að sigrast í
verki á öllum þeim félagslegu aðstæðum þar sem manninum er haldið niðri
og möguleikar hans nýtast ekki.
Loks er þriðja ástæðan sem sumir fræðimenn hafa til þess að hafna mann-
hyggju, jafnvel þegar hún felur í sér gagnrýni eða einmitt vegna þess. Það er
sú staðreynd að ýmsir fræðimenn sem kenna sig við mannhyggju fullnægja
ekki þeim kröfum sem gerðar eru um aðferðafræðileg og vísindaleg vinnu-
brögð eða taka jafnvel áberandi andvísindalega afstöðu. Hér er rétt að gera
greinarmun á tvenns konar gagnrýni mannhyggju á vísindahyggju, því
tilefnin og rökin fyrir gagnrýninni eru gjörólík. Önnur á rætur í hefðbundn-

277
Tímarit Máls og menningar
um mannlegum fræðum sem hefur alltaf staðið á sama um alla hagnýtingu
þekkingar og gildi framkvæmda. Þetta viðhorf má rekja til afstöðu forn-
Grikkja til vinnunnar og þeirrar skoðunar að tbeoria skipti sérstaklega máli
í því skyni að fullnýta möguleika mannsins, en ekki sem tæki til þess að
hrinda ákveðnum hagnýtum markmiðum í framkvæmd. Hugtakið human-
itas hjá Cicero merkir þá heild sérmannlegra eiginleika sem hægt er að rækta
í hverjum einstaklingi með viðeigandi menntun. Þess vegna var það jafnan
markmið mannlegra fræða í háskólum miðalda, á endurreisnartímanum og
síðar, að leggja rækt við andlega hæfileika og byggja upp nauðsynlegan
menningargrundvöll í viðkomandi þjóðfélagi. Það voru mannleg fræði sem
skópu valdastétt evrópskra menntamanna í margar aldir, en þau féllu úr
forsæti sínu sem námsgrein við upphaf iðnbyltingarinnar þegar hin öra og
síaukna þróun tæknivísinda hófst. Togstreitan milli mannlegra fræða og
náttúruvísinda birtist nú í nýrri mynd. Mannhyggjusinnar gera skarpan
greinarmun á lögmálsbundnum og merkingarbundnum vísindum og halda
því fram að vísindalegum lögmálum verði ekki komið yfir mannlegt samfé-
lag. I stað þeirrar aðferðar sem leitast við að útskýra lögmál verði merking-
arskilningur að koma til; formlegar og tölvísindalegar aðferðir séu því
villandi, tilgangslausar og þar fram eftir götunum. Vísindahyggjumenn
svara því til að réttnefnd vísindaleg rannsókn hljóti að fylgja skýrt af-
mörkuðum aðferðafræðilegum reglum, beita samviskusamlegum vinnu-
brögðum og komast að niðurstöðum sem allir geti gengið úr skugga um
með athugunum og tilraunum. Mannhyggjusinnum hættir aftur á móti til
ónákvæmni, þeir reiða sig á ósannanlega huglæga þætti (innsæi, ímyndun,
skilning, o. þ. h.) sem leiða til vafasamra og huglægra niðurstaðna.
Forsvarsmenn vísindahyggjunnar draga eflaust upp mjög einsýna og ein-
faldaða mynd af vísindum sem getur hvorki gert grein fyrir verðmætum né
þeirri viðleitni, þeirri skapandi starfsemi sem vísindin eru. En þeir hafa
mikið til síns máls þegar þeir gagnrýna tilraunir til þess að draga skarpa
markalínu milli vísinda og mannlegra fræða. Það er einungis stigsmunur á
náttúru- og félagsvísindum. Það er lykilatriði í gagnrýninni samfélagskenn-
ingu að afhjúpa þá möguleika sem leynast í félagslegum aðstæðum. Þetta
krefst mjög nákvæmrar rannsóknar á því hvaða tilhneigingar eru ríkjandi í
núverandi aðstæðum og hver framvindan muni verða. Án slíkrar rann-
sóknar verða gagnrýnin mannvísindi hættulega óljós og óákveðin. Ef við
vitum ekki nákvæm deili á þjóðfélagslögmálum og félagslegum stað-
reyndum þá þekkjum við ekki þá þætti sem ráða því hvaða félagslegar
aðgerðir geta náð árangri.
Gagnrýni vinstri manna á vísindahyggjuna á sér aðrar ástæður, þótt hún
þjáist af sömu tvíhyggjunni milli vísinda og mannlegra fræða. Meðlimir

278
Sidfrneði gagnrýninna félagsvísinda
Frankfurtarskólans, og sérstaklega Max Horkheimer, hafa hafnað allri
kenningasmíð í nafni „neikvæðrar díalektíkur". Rökin eru þau að allar
jákvæðar kenningar stuðli að viðgangi kerfisins. Hlutverk neikvæðrar þjóð-
félagskenningar hljóti því að einskorðast við gagnrýni á félagslegan veru-
leika og vísindalegar kenningar. Tilvistarheimspekingar nota svipuð rök.
Þeir halda því fram að þegar kveðið sé á um vísindaleg lögmál þjóðfélagsins
þá sé um leið verið að ákvarða skilyrði þess að það geti starfað og haldið sér
við; þannig þjóni vísindin óbeint íhaldssömu hlutverki.
Styrkur þessarar rökfærslu er að hún vísar til þess sem gerist oftast í raun,
þótt það gerist eingöngu vegna þess að flestir fræðimenn kunna því vel að
þjóna kerfinu. I sjálfu sér aftrar vísindaleg aðferðafræði engum fræðimanni
frá því að setja fram lögmál sem lýsir skaðlegri tilhneigingu í kerfinu. Sígilt
dæmi um þetta er lögmál Marx um lækkun meðalgróðahlutfallsins. Reyndar
virðist sjálf krafan um vísindalega hlutlægni leggja hverjum þjóðfélagsfræð-
ingi þá skyldu á herðar að sýna fram á btebi þau skilyrði sem afkoma og
eðlileg starfsemi kerfisins veltur á og þau skilyrði sem eru fyrir hendi til þess
að því verði breytt og nýtt kerfi komi í staðinn. En þetta þýðir það í fyrsta
lagi að vísindaleg kenningasmíð þarf ekki að verja kerfið, og í öðru lagi að
tvísýn hugsun er ekki dæmd til þess að einskorðast við neikvæða gagnrýni.
Raunar virðist sjálft hugtakið „neikvæð díalektík" vera villandi. Neikvæði
tvísýnnar gagnrýninnar hugsunar felst í því að uppgötva óhjákvæmilegar
takmarkanir tiltekins kerfis og jafnframt leiðirnar til þess að sigrast á þeim.
Þessi tvöfalda neitun (Aufhebung) leiðir af sér nýtt kerfi sem á að vera hægt
að lýsa (fyrir Hegel er þetta niðurstaðan). Ferli gagnrýninnar hugsunar
lætur auðvitað ekki staðar numið við þetta nýja kerfi. Ef framtíðarsýn
mannhyggjunnar á að verða eitthvað meira en trú eða von, þá þarfnast hún
vísinda í því skyni að sigrast á útópískum einkennum sínum. Hún þarf að
breyta fræðilegum hugsjónum í virka starfsemi.

V
Þegar fræðimenn axla ábyrgðina og fallast á siðfræði mannhyggjunnar, þá
skuldbinda þeir sig ekki einungis til þess að vísa veginn til félagslegrar
baráttu heldur einnig til þess að taka þátt í henni. Hvers eðlis skuldbinding
þeirra er veltur að sjálfsögðu á eðli þeirra vandamála sem framþróun
nútímavísinda hefur skapað.
Brýnasta verkefnið er að berjast með öllum tiltækum ráðum fyrir stöðvun
og útrýmingu mannfjandsamlegrar tækni. Einkum og sér í lagi þýðir þetta
baráttu fyrir afvopnun og fyrir nýrri tæknivæðingu án mengunar.
Mun yfirgripsmeira verkefni er virk andstaða gegn misbeitingu þeirrar

279
Tímarit Máls og menningar
þekkingar sem við höfum yfir að ráða, því þeir sem afla þekkingar eru ekki
bara í fullum rétti til þess að hlutast til um hagnýtingu hennar heldur ber
þeim skylda til þess.
Við þekkjum þegar sum verstu dæmin um misbeitingu þekkingar og get-
um þess vegna stundum greint sjúkdómseinkenni á fyrstu stigum rann-
sóknar. „Sjúklegur" á hér við rannsókn í mannfjandsamlegum tilgangi, svo
sem til að eyða lífi, eitra umhverfið eða heilaþvo fólk. Auðvitað er siðlaust
að taka þátt í slíkri rannsókn með fullri vitund um markmið hennar. Það er
rétt að hagnýtur tilgangur tiltekinnar rannsóknar kann að vera óþekktur eða
óviðkomandi því hvernig niðurstöður verða notaðar seinna. En í öðrum
tilvikum vita menn vel, eða gætu vel vitað, hver hann er, og þá er það
siðferðileg skylda fræðimannsins að leggja niður vinnu. Ef hann vill vera
siðferðilega heill og forðast fræðilegan saurlifnað þá hlýtur hann að hafna
þátttöku í samsæri þar sem glæpir gegn mannkyni eru vísindalega skipu-
lagðir, mannréttindi eru fótum troðin, og vonir manna um frelsi og þroska
eru skipulega lagðar í rúst. Það eru ýmsar leiðir til þess að neita að nota
þekkingu sína og hæfileika í þessu skyni; allt frá fordæmi uppreisnarmanns-
ins sem fylgir ráði Goethes: „Hunsaðu valdið, haggastu ekki, sýndu styrk
þinn," til óvirkara andófs þess sem fylgir Fræðimanni Brechts: „Þjónaðu
ekki ráðandi öflum en berðu samt ekki fram hávær mótmæli. Ég get ekki
látið brjóta mig á bak aftur, ég verð að lifa af hin ráðandi öfl."
Það er meira en mál til komið að vísindamenn hugsi skipulega um það
hvernig þeir ætla að neita að misnota þekkingu sína, en um leið verða þeir að
gerbreyta samtökum sínum. Hingað til hafa þessi samtök annaðhvort verið
fræðileg og stuðlað að útbreiðslu þekkingar eða þau hafa verið hagsmuna-
samtök líkt og verkalýðsfélög. Nú á dögum ber brýna nauðsyn til að
bindast samtökum í baráttunni gegn misnotkun (og sóun) vísindalegrar
þekkingar, og þar eð þessi misnotkun nær til heimsins alls verður einungis
hægt að ná árangri með alþjóðasamtökum fræðimanna.
Eflaust er einnig þörf á slíkum samtökum í þeim tilgangi að verja
fræðimenn sem eru ofsóttir vegna siðaskoðana sinna, sérstaklega fyrir glæpi
eins og að gagnrýna kerfið, bjóða opinberri hugmyndafræði byrginn, fletta
ofan af stofnunum og náðarforingjum eða kunngera staðreyndir, sem fólk á
rétt á að þekkja, um það hvernig pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg öfl
móta líf þess.
Auðvitað getur siðferðisstyrkur einstaklingsins aldrei oltið á tilvist og
áhrifamætti einhverra samtaka. En samtök geta virkjað almenningsálitið og
þau sýna víðtæka samábyrgð. Það er gott að vita að maður er ekki einn.
Siðferðisreglur eru í eðli sínu félagslegar en ákvörðunin að breyta í samræmi
við þær og taka áhættuna sem því fylgir er einstaklingsbundin og sjálfráð.

280
Siðfræði gagnrýninna félagsvísinda
Ákveðin skilyrði draga úr ósjálfstæði og auka á nauðsynlegt sjálfræði
einstaklingsins. Öll tengjast þau breytingum á vitund hans og lífsstíl sem
birtast í aukinni sjálfskennd og staðfestu. Eftirtaldir þættir virðast skipta
meginmáli:
1. A ð endurmeta á gagnrýninn hátt þau gildi og hlutverk, sem okkur hafa
verið innrætt í uppeldi og kennslu, með það fyrir augum að móta nýja og
heilsteypta lífsstefnu. Án slíkrar tilraunar til gagnrýni og sjálfsuppbyggingar
gæti fræðimann skort þann styrk sem siðferðileg sannfæring krefst. Eins og
allir aðrir er hann sér meðvitaður um ýmsar siðareglur sem stjórna breytni
hans, en hann kann að vera líklegri til þess en aðrir að gera sér grein fyrir því
að þessar reglur skortir bæði einingu og skynsamlegan grundvöll, að þær
koma úr ýmsum áttum og mynda annarleg, óáreiðanleg öfl í vitundarlífi
hans. Slík upplausn við rætur siðferðisvitundarinnar leiðir til tækifærissinn-
aðrar breytni og flótta. Sjálfstæð lifsskoðun [Weltanschauung] er því for-
senda þess að geta tekið þá áhættu sem sjálfráð siðferðileg afstaða felur í sér.
2. Að losna við gerviþarfir, t. d. fyrir völd, auð og óþarfar neysluvörur,
ómerkilega titla og mannvirðingar, eða falska vínáttu. Slíkar gerviþarfir eru
tímasóun og valda stöðugum kvíða, auk þess veikja þær manneskjuna og
gera hana ósjálfstæða. Siðferðilegt frelsi felur í sér að maður sé reiðubúinn
til þess að verða fyrir aðkasti og ofsóknum. Spinoza var einhver frjálsasti
maður síns tíma vegna þess m. a. að hann vann fyrir sér með því að hreinsa
sjóngler. Fræðimenn sem leggja allt upp úr stöðuhækkunum, mannvirðing-
um og pólitískum áhrifum, og vilja hafa það sem þægilegast, ferðast á
kostnað hins opinbera og viðhalda falskri vináttu með öllum ráðum — þeir
hafa ekki efni á frelsi til þess að taka siðferðilega afstöðu.
3. A ð gera vísindalega vinnu og viðleitni að raunverulegum starfsvettvangi.
Gerviþarfir koma í stað eiginlegra þarfa, þær eru nauðsynlegar til þess að
hlúa að andlega snauðu lífi. Ef fræðimaður lítur á rannsóknir sínar sem
markmið í sjálfu sér, sem fullnægir sköpunarþrá hans og hæfileikum, getur
hann skipulagt líf sitt á einfaldan, heilbrigðan hátt sem mun veita honum
það sjálfstæði og siðferðilega sjálfræði sem nauðsynlegt er.
Það mætti líka nefna önnur skilyrði, svo sem að hafa áhuga á vísindum og
menningu almennt, vera opinn fyrir breytingum, fylgjast með nýjum félags-
legum þörfum og vera hæfur starfsmaður. En þetta eru hvorki nauðsynleg
né nægjanleg skilyrði: það frelsi sem felst í siðferðilegri athöfn getur ekki
ráðist af þeim. En þau eiga sinn þátt í því að skapa persónulega aðstöðu þar
sem mörgum hindrunum til sjálfsákvörðunar hefur verið rutt úr vegi.

281
Tímarit Máls og menningar

VI
Við gerum þá kröfu til vísindamanna að þeir axli ábyrgðina sem því fylgir að
skapa þekkingu og tækni. En þeir eiga líka sérstakrar ábyrgðar að gæta sem
kennarar.
Þeir kennarar sem eru færir um það eitt að veita upplýsingar og einfalda
tækniþjálfun gætu vel orðið óþarfir fyrr en varir: kennsluvélar gætu leyst þá
af hólmi. Hins vegar munu nemendur alltaf hafa þörf fyrir lifandi samband
við kennara sem getur gert ýmislegt sem engin vél mun nokkurn tíma geta
vegna þess að það er ekki einber endurtekning og verður ekki forritað. Hér
verða nefnd nokkur dæmi:
1. Hæfileiki til þess að setja upplýsingar í víðara samhengi: lýsa þeim
sögulegu aðstæðum og félagslegu og sálfræðilegu skilyrðum sem mótuðu
þekkinguna, þeirri vísindalegu aðferð sem skóp hana, og þeirri þýðingu sem
hún mun hafa fyrir rannsóknir í framtíðinni. Þetta víðara samhengi, sem
kennarinn getur sett fram, lýtur ekki fyrirfram ákveðnum reglum; hægt er
að byggja það upp á ýmsa vegu sem ráðast af samræðum og samskiptum
kennara og nemenda hverju sinni. Það veltur því ekki einungis á þekkingu
og menntun kennarans heldur einnig á áhuga nemenda.
2. Skapandi túlkun þekkingar. I stað þess að troða þekkingu í nemendur
ætti kennari að leitast við að tengja hana heimspekilegri sýn á veruleikann í
heild.
3. Hæfileiki til þess að vekja áhuga nemenda, víkka sjóndeildarhring þeirra
og örva þá til gagnrýninnar hugsunar. Kennari má því ekki einskorða sig við
tæknilegar spurningar um leiðir að viðteknum markmiðum heldur þarf
hann að vekja nemendur til umhugsunar um markmiðin sjálf, kosti þeirra
og galla.
Fræðimaður verður að vera ákveðin manngerð til þess að geta verið far-
sæll kennari; ekki bara lærður vel og menntaður heldur líka heilsteyptur
persónuleiki sem vinnur að því að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd.
Nemendur fyrirgefa það ef skoðanirnar eru óraunsæjar eða óhóflega raun-
sæjar. Það sem þeir geta ekki fyrirgefið, og það með réttu, er ósamkvæmni í
hugsun, orðum og gerðum.
Sá kennari sem vill vera þeirri hugsjón vaxinn sem starf hans krefst mun
því ekki láta sér nægja að starfa í tiltölulega þröngum hópi menntamanna
heldur lætur hann sig skipta málefni samfélagsins í heild. Þetta þarf ekki
endilega að fela í sér stjórnmálaafskipti í þröngri merkingu; það getur birst í
hvers konar frumkvæði um andlegar og siðferðilegar umbætur í samfélaginu
sem stuðla að sköpun nýrrar menningar og hæfa betur kröfum tímans.
Þátttaka í opinberum málum er mikilvægur tengiliður milli fræðilegrar

282
Sidfrœði gagnrýninna félagsvísinda
hugsunar og félagslegrar starfsemi. Félagslegur veruleiki hverrar þjóðar býr
yfir möguleikum sem hægt er að nýta ef allir hugsandi menn vinna saman að
því markmiði. Ef ábyrgðarleysi og auðsveipni einkenna gerðir fræðimanna
er hins vegar líklegt að þjóðin staðni og henni hnigni.
Fræðimenn og kennarar hafa tækifæri til þess að hafa áhrif á gang
mikilvægustu félagsmála með tvennum hætti: annars vegar beinlínis með
athöfnum sínum og hins vegar óbeinlínis með því að mennta þá sem vilja
breyta heiminum.
Starfsemi af þessu tagi rýfur löggenga atburðarás blindrar sögulegrar
framvindu og á það skilið að kallast „sköpun sögunnar" eða einfaldlega
„virk starfsemi": praxís.
Vilhjálmur Arnason þýddi

Athugasemdir
1. Abraham Maslow, Toward a Psychology of Being (New York: Van Nostrand
Reinhold, 1968), bls. 157.
2. Russell, Einstein, „Appeal for the Abolition of War, Sept. 1955," í Grotsius og
Rabinowitch (ritstj.), The Atomic Age (New York og London 1963), bls. 535 —
41.
3. I grískri hugsun gætir mjög ríkrar skynsemishyggju en hún er gjörólík hinni
köldu, tæknilegu skynsemi sem einkennir nútíma vísindi. Samkvæmt Platóni er
sönn heimspekileg ástrída undirrót allrar heimspeki.

Mihailo Markovic er prófessor í heimspeki við Belgradháskóla í Júgóslavíu og


meðlimur í Serbísku vísindaakademíunni. Meðal bóka hans má nefna Dialektik der
Praxis, From Affluence to Praxis og The Contemporary Marx. Hin síðastnefnda er
safn greina um „mannúðlegan marxisma" og meðal þeirra er greinin hér á undan,
„Ethics of a Critical Social Science", sem birtist upphaflega í International Social
Science Journal volume XXIV, no. 4, 1972.
Prófessor Markovic er einn úr hópi júgóslavneskra heimspekinga sem hafa barist
gegn stalínismanum og dólgamarxisma í hvaða mynd sem er og teflt fram gegn
honum hugmyndum um mannúðlegan sósíalisma. Áhersla þeirra á kröfu Marx um
„látlausa gagnrýni á allar ríkjandi aðstæður" hefur ekki alltaf átt upp á pallborðið hjá
stjórnvöldum í Júgóslavíu, en vegna samstöðu sinnar og festu hefur hópurinn haldið
velli. Þau viðhorf sem fram koma í „Siðfræði gagnrýninna félagsvísinda" eru um
margt dæmigerð fyrir afstöðu þessa hóps.
Mihailo Markovic hefur tekið virkan þátt í ýmsum alþjóðasamtökum fræðimanna
um frið og mannlegar framfarir. Asamt félögum sínum við heimspekideild Belgrad-
háskóla stofnaði hann tímaritið Praxis árið 1964, en það kemur nú út á Englandi
undir ritstjórn Richards J. Bernstein og Mihailos Markovic. I rúm 20 ár hefur júgó-
slavneski praxíshópurinn einnig starfrækt Korkcula sumarskólann sem er vettvangur
þjóðfélagslegrar umræðu meðal marxískra heimspekinga á Vesturlöndum. — V.Á.

283

You might also like