B Tur Me Segli Og Allt Icelandic Edition

You might also like

Download as pdf or txt
Download as pdf or txt
You are on page 1of 196

GERÐUR KRISTNÝ

BÁTUR MEÐ SEGLI OG ALLT


Bátur með segli og allt
© Gerður Kristný 2004
Kápuhönnun: Ragnar Helgi Ólafsson
Vaka-Helgafell
Reykjavík 2016
Öll réttindi áskilin.
Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO
1. útgáfa 2004
2. útgáfa (kilja) 2005
3. útgáfa (rafbók) eftir 2. útgáfu 2016
Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á
annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda.
ISBN: 978-9979-2-2411-2
Vaka-Helgafell er hluti af Forlaginu ehf.
www.forlagid.is
1
PÖNTUNIN HAFÐI MISFARIST í bakaríinu því á miðju kaffiborðinu var
súkkulaðikaka með sykraðri áletrun: ARON SNÆR 6 ÁRA . Skærir litirnir í
stöfunum báru með sér loforð um karamellur í kílóavís, stærðarinnar pakka
og stórfiskaleik. Þótt þetta ætti ekki alveg við hafði mamma samt tekið við
kökunni. Pabbi minn hét Gunnar Pálsson og hafði orðið 68 ára. Þetta var
ekki afmælisdagurinn hans, heldur jarðarfarardagurinn. Honum hafði verið
stúkað oní dimma holu og mokað yfir.
Mamma stóð sig eins og sú hetja sem hún hafði verið slegin til í
minningargreinunum. Það hefði mátt halda að sumar þeirra væru um hana,
svo fyrirferðarmiklar voru lýsingarnar á henni Magdalenu sem staðið hafði
eins og klettur við hlið manns síns meðan á veikindum hans stóð. Hvergi
var minnst á ofsakennd grátköstin eða lygnan kæruleysisdoðann sem oftar
en ekki var afleiðing lyfjanna sem heimilislæknirinn var svo ljúfur að gauka
að henni. Stundum brá fyrir á henni sama slaka svipnum og ég kannaðist
við frá því ég var unglingur. Þá leit ég undan. Mamma var í nýjum kjól,
dökkbláum, og ég hafði valið handa henni hárauðan varalit. Hún bar
höfuðið hátt, hafði fengið vinkonu sína til að hjálpa sér við að setja
dökkbrúnan lit í hárið og var á þönum um íbúðina. Báðar stofurnar voru
fullar af fólki. Vinir og starfsfélagar pabba og ættingjar mömmu komu til að
votta okkur samúð sína. Enginn að austan. Ég gekk einn hring um húsið til
að fullvissa mig um það. Mjakaði mér afsakandi á milli gesta sem sumir
brostu góðlega til mín og hrósuðu kaffinu eins og ég væri ábyrg fyrir
kaffiplantekrunni. Kannski var fólkið dáið. Ég veit ekki af hverju ég bjóst
við að sjá það. Mér hafði tekist að þverfóta fyrir föðurfólki mínu hér á
heimilinu hingað til. Satt best að segja hafði ég aldrei hitt neitt af því. Ég
gerði hins vegar alltaf ráð fyrir því að það myndi mæta í jarðarförina hans
pabba, kannski sjö eða átta manns, dreypa á kaffinu, dökkklætt og alvarlegt
á svip, og tala hvert við annað um fólk og staði sem við hin þekktum ekki.
Við Gubba systir reyndum að standa okkur í uppáhellingunum. Hvíta
skyrtan hennar varð strax alsett kaffiblettum og hún hafði farið í að minnsta
kosti tuttugu ára gamla hörmung af mömmu í staðinn, græna satínblússu
með einhverju fáránlegu stykki að framan sem dinglaði til og frá. Sjálfri
fannst henni flíkin eflaust í lagi. Hún hefur aldrei kunnað að klæða sig. Eða
kannski var hún svona utan við sig af sorg. Hún hafði varla hætt að vola
síðan presturinn kallaði pabba „manninn með gullhjartað“. Ég sá fyrir mér
að massíft gullhjartað hlyti að hafa íþyngt pabba alla ævi og að lokum sigið
sífellt nær magaæxlinu. Sjálfri hafði mér tekist að stramma mig af en hafði
servíettu uppi í erminni til vonar og vara. Allan daginn hafði ég staðið mig
að því að finnast eins og pabbi væri hér enn. Þegar ég var í eldhúsinu fannst
mér ég heyra í honum inni í stofu og þegar ég var þar fannst mér röddin
berast innan úr borðstofunni. Þar stóðu nokkrir gamlir skólabræður hans í
hnapp og ég fékk sterklega á tilfinninguna að ef greiðast myndi úr honum
hlyti ég að koma auga á pabba í stólnum undir hestamyndinni hans Jóhanns
Briem þar sem hann las alltaf blöðin. Þegar ég kom nokkru síðar inn í
borðstofuna sat þar einhver kona og stangaði úr tönnunum á sér með
nöglunum.
Gunnar Birnir, sonur Gubbu, að verða 8 ára, hélt sig inni í herberginu
sínu og svaraði engu þegar ég bankaði á dyrnar. Þegar ég opnaði lá hann
spariklæddur í rúminu með heyrnartól á hausnum tengd við
fermingargræjurnar hennar Gubbu. Hann tók þau af sér þegar hann varð
mín var.
„Abba. „The Winner Takes It All“,“ sagði hann eins og ég hefði spurt
hann að því. Ég laut niður við rúmið og strauk honum yfir hárið. Hann hafði
grátið.
„Viltu ekki köku, elskan?“
„Nei,“ sagði Gunnar Birnir og hnykkti til höfðinu. Ég dró að mér
höndina og smellti kossi á ennið á honum áður en ég fór aftur fram.
Hann hafði viljað vera út af fyrir sig síðan pabbi dó. Pabbi snarbreyttist
þegar Gunnar Birnir fæddist. Það var stórmerkilegt. Allt í einu sá hann
ástæðu til þess að koma heim úr vinnu um miðjan dag til að vera með
drengnum, nokkuð sem hefði verið algjörlega óhugsandi þegar við Gubba
vorum litlar.
Það sló andartaksþögn á gestina í hvert skipti sem Gubba í grænu
hörmunginni skaust rauðeygð inn í stofu að skenkja þeim meira kaffi.
Konur hölluðu ósjálfrátt undir flatt á meðan hún hellti í bollana þeirra og
hvísluðu: „Takk, elskan, þú stendur þig svo vel.“ Eitthvað kumraði líka í
körlunum en engin orðaskil heyrðust. Eiríkur Eyjólfs, sem rekið hafði
lögfræðistofuna með pabba þar til hann veiktist, tók loks orðið: „Þér gengur
vel í skólanum, væna.“
„Já, já, mér gengur ágætlega,“ tautaði Gubba.
„Og þú átt einn vetur eftir.“
Systir mín kinkaði kolli.
„Bara að hún haldi áfram í námi,“ sagði mamma og strauk kökumylsnu
úr öðru munnvikinu. Einhverra hluta vegna bar meira á giftingarhringnum
hennar á horuðum baugfingrinum en áður.
Eitt andartak fannst mér hún hljóta að vera að skjóta á mig fyrir að hafa
ekki lokið BA -ritgerðinni í íslenskunni. Ég ætlaði að fara að svara, greip
andann á lofti og var farin að púsla saman tilsvari í huganum, eitthvað um
að það hefði engin áhrif á launaumslagið, þegar ég sá að mér.
Munaðarlausir kökudiskar lágu á innskotsborði. Ég greip þá með mér inn í
eldhús áður en ég yrði mér til skammar. Þó náði ég því að sjá Eirík kinka
kurteislega kolli við svari mömmu. Báðir synir hans, fyrrverandi
Hlemmarar með hanakamb, eru lögfræðingar og reka saman stofu við
Suðurlandsbrautina. Þeir hafa ekki verið til vandræða síðan þeir hættu að
sniffa 15 ára gamlir.
Dökkklæddir eldri menn og stilltar konur supu kurteislega á kaffinu og
gæddu sér á smartísskreyttri kökunni. Til að byrja með snerust umræðurnar
um það hvað pabbi hefði verið einstakur maður og hvað hann hefði staðið
sig vel í veikindunum, en síðan var farið að ræða stjórnmál, kjarasamninga
og annað sem grásprengdir menn vilja ræða þegar þeir koma saman.
Eiginkonurnar röbbuðu um kanilkeiminn af kaffinu, hvísluðu
hughreystandi orðum að mömmu og buðust annað slagið til að aðstoða
okkur Gubbu í eldhúsinu. Ég afþakkaði. Ljósu dragtirnar gáfu ekki beint til
kynna að þær hefðu mætt til að standa í uppvaski eða uppáhellingum. Pabbi
hafði gert þeim þann greiða að deyja að vori og því gátu þær mætt í
ljósgulum og bleikum drögtum í jarðarförina. Svart fer eldra fólki illa. Það
dregur fram hrukkurnar.
Við urðum allar fegnar þegar gestirnir sýndu loksins á sér fararsnið.
Gubba rétti körlum frakka og konum pelsa. Heilt minkabú hvarf út í kalt
vorkvöldið. Eiríkur kvaddi síðastur. Ég hélt uppi frakkanum fyrir hann. Þá
fyrst tók ég eftir því hvað hann hafði elst. Hann ætlaði að stinga hendinni
sem hélt á hattinum inn í ermina og virtist eilitla stund að átta sig á því hver
fyrirstaðan væri. Loks tók hann hattinn í hina höndina en ætlaði þá að stinga
henni inn í ermi.
„Æ, hvenær varð þetta svona flókið?“ sagði hann lágt og brosti
vandræðalega.
„Svona, þetta er allt í lagi,“ sagði ég, tók af honum hattinn og lagði hann
á stól á meðan hann fór í frakkann, svartan og þykkan. Um leið og hann var
kominn í varð hann aftur eins og ég þekkti hann, virðulegur eldri maður.
Eiríkur sneri sér við, setti í brýnnar og sagði: „Oddfríður mín, pabbi þinn
var góður maður,“ rétt eins og einhver hefði verið að halda öðru fram.
Ég ætlaði að segja eitthvað en kom allt í einu ekki upp orði. Það var eins
og maðurinn sæi hvernig mér leið því áður en ég vissi af hafði hann þrifið
mig í fangið og þrýst mér að sér. Það var greinilega enn kraftur í gamla
manninum. Ég náði varla andanum. Dauf angan af mýkingarefni og
sterkum gamaldags rakspíra fyllti vitin. Það rann upp fyrir mér hvað þetta
hlyti að hafa verið erfiður dagur fyrir hann. Þeir pabbi unnu hlið við hlið í
næstum 40 ár. Þeir hittust eða töluðust við næstum hvern einasta dag.
Eiríkur hafði þekkt pabba minn mun betur og lengur en ég.
„Ef þig vantar eitthvað, væna, geturðu alltaf leitað til mín,“ hvíslaði
Eiríkur að mér.
Þegar hann loksins sleppti sá ég blika á tár í augnkrókunum. Ég
klökknaði. Það er vont að sjá gamalt fólk gráta. Maður býst við að öll árin
sem það hefur lagt að baki ættu að hafa hert það.
Inni í eldhúsi var Gubba þegar byrjuð á uppvaskinu. Kvöldbirtan féll inn
um gluggann og það sló grænum fölva á andlitið á henni af blússunni. „Af
hverju gátu þau aldrei fengið sér uppþvottavél?“ tautaði hún þegar ég
birtist.
Ég greip viskustykki og tók til við að þurrka. Það voru mörg ár síðan við
höfðum vaskað upp saman og ég var búin að gleyma gassaganginum í
systur minni. Hann rifjaðist þó fljótt upp fyrir mér þegar gusurnar fóru að
ganga yfir sparifötin mín. Ég þurfti að sæta lagi til að teygja mig í blauta
diskana í grindinni svo ég fengi ekki yfir mig holskeflu af vatni eða yrði
fyrir uppþvottaburstanum. Þögnin var hálfþrúgandi. Mér létti þegar mamma
kom og fór að raða í skápa.
„Einhvers staðar úti í bæ er sorgmæddur drengur,“ sagði hún annars
hugar með undirskál í höndunum úr danska stellinu sem þau pabbi fengu í
brúðargjöf. „Greyið hann Aron Snær.“
2
ÉG VAR ALLTAF sannfærð um að mamma færi fyrst. Það lá bara í loftinu.
Síðan færi Gubba og þá yrðum við pabbi tvö eftir í heiminum. Við gætum
skotist í mjólkurbúðina, súkkulaðibúðina og ávaxtabúðina, sest upp í
sporvagninn og hrópað: „Bing! Bang! Frá, frá!“ Stelpan í kjallaranum, sem
ég held að hafi heitið Gréta, spurði mig einu sinni hvort ég myndi frekar
vilja búa hjá pabba eða mömmu þegar þau skildu. Eftir að pabbi hennar
yfirgaf heimilið fannst henni ekki annað koma til greina en að það sama ætti
fyrir öllum að liggja. Þetta var ekki óvenjuleg spurning miðað við allar
hinar sem við lögðum hvor fyrir aðra. Einhvern tímann spurði ég Grétu
hvort hún gæti hugsað sér að éta mömmu sína ef hún væri að deyja úr
hungri og hefði ekkert annað. „Fengi ég eitthvað að drekka með?“ spurði
hún og þegar ég játti því var hún ekki frá því að sér tækist að koma konunni
niður. Ég þurfti hins vegar ekkert að velta því hið minnsta fyrir mér hjá
hvoru foreldra minna mig langaði meira til að búa. Eftir að hafa athugað
hvort eldhúsglugginn yfir mér væri ekki örugglega lokaður sagðist ég vilja
búa hjá pabba. Þótt hann væri skapofsamaður var hægt að læra á hann.
Maður þurfti bara að gæta sín að vera ekki fyrir honum og láta ekki mikið í
sér heyra. Það sem var erfiðast var í raun að halda sér frá Gubbu því það
voru venjulega rifrildi okkar sem komu pabba í vont skap. Mamma var
óútreiknanlegri. Minnstu svipbrigði gátu komið henni úr jafnvægi. Hún
gerði heldur aldrei neitt skemmtilegt með okkur Gubbu. Reyndar fannst
þeim Gubbu gaman að elda saman en þá var mér greinilega ofaukið. Mér
var líka alveg sama. Hvað er skemmtilegt við að sulla drasli í pott og hræra
í? Það besta sem mamma vissi var að vera heima að leggja sig og þá varð
allt að vera hljótt í húsinu. Pabbi átti það aftur á móti til að fara með okkur
systurnar í þrjúbíó að sjá Disney-myndir á sunnudögum. Stundum skildi
hann okkur bara eftir og kom aftur að sækja okkur en stundum horfði hann
á myndirnar með okkur. Ef engar nýjar myndir voru í bíó var farið á
Mokka. Þá byrjaði hann á því að kaupa helgarblöðin af sölukrökkunum í
Austurstræti og brýndi fyrir okkur að maður ætti alltaf að kaupa af þeim í
staðinn fyrir að fara í sjoppurnar. Síðan var boðið upp á vöfflur með sultu
og rjóma á Mokka. Pabbi pantaði tvær, borðaði aðra sjálfur en skipti hinni
hnífjafnt á milli okkar systranna. Við fengum okkur ekki bita fyrr en við
höfðum talið ferningana á hvorri sneið til að geta verið hárvissar. Gubba
gúffaði í sig kræsingunum eins og langsoltið Eþíópíubarn en ég gætti mín á
því að borða hægt eins og pabbi. Hann byrjaði alltaf helgarblaðalesturinn á
pistli Flosa í Þjóðviljanum og átti það stundum til að hlæja upphátt. Ég
reyndi nokkrum sinnum að lesa pistlana en skildi ekki hvað var svona
fyndið þótt ég gæti vel ímyndað mér að það væri gaman að vera svona
maður sem skrifaði í blöð og fengi aðra til að hlæja. Í Tímanum festist
pabbi helst við greinar sem tengdust sagnfræði á einhvern hátt, helst seinni
heimsstyrjöldinni, og átti það til að kippa þeim síðum úr og geyma.
Helgarpóstinum fletti hann alltaf grafalvarlegur og þegar einhverjir kallar
sem hann þekkti settust hjá okkur töluðu þeir oftast um fréttirnar þar. Þessir
kallar heilsuðu pabba yfirleitt með orðunum: „Hvað segir
lögfræðingurinn?“ eða: „Jæja, er Flosi góður í dag?“
Á veggjunum inni á Mokka héngu myndir eftir Flóka eða einhverja aðra
menn sem þá voru lifandi en eru það ekki lengur. Þeir teiknuðu konur með
há kinnbein, ber brjóst, sítt hár og langa fingur. Mig langaði líka til að geta
teiknað þannig konur, fékk lánaðan penna hjá pabba og reyndi að rissa
dökkhærða dömu á servíettu. Þegar teikningin tókst ekki ákvað ég bara að
verða svona kona. Gubbu fannst konurnar ógeðslegar svona berar.
„Oj, þessi er eins og norn,“ sagði hún og benti. „Og hún er með hár eins
og á þér.“
„Hættu þessu,“ sagði pabbi svo hastarlega að Gubba hrökk við. „Þetta er
list en auðvitað skilur þú það ekki. Það erum bara við Oddfríður sem
skiljum svoleiðis lagað.“
Hann blikkaði mig og ég blikkaði hann. Gubba ók sér í stólnum. Hún var
búin með vöffluna sína og varð bara að bíða róleg þar til við pabbi lukum
við okkar. Gott á hana.
Þótt ég nái því vissulega endrum og sinnum að hafa brjóstin ber eins og
konurnar á myndunum á Mokka get ég enn ekki sagt að ég skarti háum
kinnbeinum eða löngum fingrum og sítt hár fer mér engan veginn. Samt sá
ég mig alltaf fyrir mér með sítt, uppsett hár þegar ég reyndi að ímynda mér
hvernig ég myndi bregðast við þegar mér yrði sagt að pabbi væri dáinn. Þá
hafði okkur verið sagt að við gætum átt von á því að hann færi með
haustinu. Lát hans kom því öllum að óvörum. Mér fannst að mér hlyti að
verða tilkynnt það um miðja nótt. Síminn hringir og ókunnug rödd heyrist
segja: „Faðir þinn er látinn.“ Þannig gerðist þetta auðvitað ekki og ég vildi
að ég hefði aldrei þurft að sjá pabba dáinn. Það væri mun betra ef dáið fólk
hyrfi bara um leið og það gefur upp andann. Heppilegast væri að geta skilið
eftir sig einhvern þægilegan ilm. Ástvinirnir kæmu að auðu rúmi, fyndu lykt
af lúxsápu, vindlum, kjötsúpu eða nýslegnu grasi, einhverju sem tengdist
hinum látna, og vissu um leið hvað hefði gerst. Ég hefði getað komið að
rúminu í gamla herberginu mínu yfirgefnu og fundið lykt af nýbökuðum
vöfflum.
3
EF ÁSLAUG GEIRFELLS , vinnuveitandi minn, hrykki upp af myndi hún skilja
eftir sig ilmský af Boucheron. Þegar sögufrægir skartgripaframleiðendur
snúa sér að ilmgerð er aðeins von á góðu. Snyrtivöruverslunin Þrúður
stendur á besta stað í Bankastræti og heitir eftir fyrri eiganda verslunarinnar,
konu sem Áslaug vann lengi hjá og þoldi aldrei. Nafnið var hins vegar orðið
svo rótgróið þegar hún keypti búðina að það borgaði sig ekki að breyta því.
Okkur Áslaugu hefur komið vel saman frá því ég byrjaði að vinna hjá
henni. Enda eins gott, hún er nefnilega ekki aðeins vinnuveitandi minn
heldur líka leigusali. Ég bý í kjallara undir íbúðinni hennar við Karlagötuna.
Þangað flutti ég inn til fjallmyndarlegs sagnfræðinema, Björns Hafsteins,
þegar ég var enn í íslenskunni. Um leið og hann hafði lokið BA -ritgerðinni
fór hann út til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Hann skildi mig ekki aðeins
eftir í ástarsorg, heldur líka þessari fínu íbúð — svo ekki sé talað um
leigusalann. Eldhúsið og baðherbergið eru lítil en stofan er ágæt og
svefnherbergið frekar rúmgott. Það besta er að ég hef sérinngang. Þá fyrst
fær maður á tilfinninguna að maður sé drottning í eigin ríki. Ég ætlaði samt
ekkert að vera þarna lengi. Pabbi skildi eftir arf handa mér. Bankabók með
dálaglegri upphæð svo ég gæti átt fyrir fyrstu útborgun í íbúð. Um leið og
ég fengi að vita upphæðina færi ég að svipast um eftir eigin íbúð. Ég hef
ekkert heyrt frá Birni Hafsteini síðan ég fékk bílinn hans pabba lánaðan til
að skutla honum út á völl en þá sjaldan ég bregð mér í Bónus hitti ég alltaf
mömmu hans sem segir mér nýjustu tíðindi frá Ameríku. Nú er hann víst að
fara að gifta sig stúlku að nafni Amber sem þegar hefur alið honum
tvíburana Joshua Kára og Donald Óðin. Það er langt þangað til ég verð
tilbúin í þann pakka. Eiginlega var eins gott að hann fór. Ég gat heldur ekki
séð að pabba þætti hann merkilegur pappír, hann Björn Hafsteinn, þótt hann
gerði sér stundum far um að ræða við hann um sagnfræði, en pabbi vildi
bara tala um Íslendinga sem störfuðu með þýska hernum á tímum seinni
heimsstyrjaldarinnar á meðan Björn Hafsteinn var í miðri BA-ritgerð um
kynbundnar sjálfsmyndir í þjóðernisorðræðu búðsetufólks á norðanverðu
Snæfellsnesi.
Áslaug rak upp stór augu þegar hún mætti til vinnu daginn eftir
jarðarförina og sá að eins og endranær hafði ég opnað búðina og var að
þurrka af ilmvatnsglösunum sem höfð eru á bakka á afgreiðsluborðinu.
„Finnst þér ekki við hæfi að taka þér frí í dag, elskan?“ spurði hún og
skáskaut augunum á mig undan ljósum toppnum. Hún setti hægri hönd
undir höku og þá vinstri á mjöðm eins og hún gerir alltaf þegar hún er að
tala um eitthvað alvarlegt.
„Við hæfi?“
„Já, nú hann pabbi þinn ... þú veist.“
„Hvað með hann?“
„Nú, hann ...“
„Áslaug, segðu það bara. Hann dó.“
„Já, það er það sem ég er að reyna að segja. Viltu ekki taka þér frí út
vikuna?“
Ég afþakkaði. Það var gott að geta dreift huganum. Síðan þurfti líka að
fara yfir snyrtivörustandana, þessa stóru sem standa úti á miðju gólfi og
minna karlmenn oft á stjórnstöð í geimskipi. Veit ekki hvað ég hef heyrt það
sagt oft. Kannski jafnoft og þeir hafa tekið upp eitthvað sakleysislegt eins
og augnabrúnagel og spurt: „Hvað gerir maður við þetta?“ Æ, maður kaupir
þetta bara, hefur inni í baðherbergisskáp og hendir því síðan þegar maður
finnur það næst eftir fimm ár.
Undanfarna viku hafði ég verið heima, svona til að vera til taks vegna
jarðarfararinnar en hefði betur sleppt því. Það hafði ekki verið nein sérstök
þörf fyrir mig. Gubba og mamma sáu um tilstandið. Þær pöntuðu kistuna,
völdu sálmana og tilkynntu vinum pabba lát hans eins og þær hefðu aldrei
gert neitt annað. Ég hringdi tvisvar á dag til að athuga hvort þörf væri á mér
og þá sjaldan mamma var ekki að leggja sig og komst í síma fékk ég að vita
að allt væri undir kontról. Ég var algjörlega orkulaus þessa viku. Mér fannst
ég hljóta að vera með einhverjar kommur. Samt fannst mér ég verða að gera
eitthvað. Einu sinni rauk ég í sund, sat smástund úti í potti en pillaði mig
fljótlega aftur inn í sturtu. Mér fannst ekki passa að ég sæti þarna innan um
stolta smábarnaforeldra og skólafólk í pásu frá próflestrinum á meðan pabbi
minn lá dáinn úti í bæ.
Áslaug stóð enn við búðarborðið og rótaði með vísifingri í öskjunni með
tilboðsnaglalökkunum. Öðru hvoru gjóaði hún á mig augunum.
„Ég hringi í þig ef mig skyldi langa til að skjótast,“ sagði ég. Þá loks tók
hún við sér, tautaði „jæja, elskan“ og lét sig hverfa.
Fáeinum dögum áður en pabbi dó fór ég með Áslaugu á fund hjá
heildsölu þar sem kynnt var japanskt rakakrem sem jafnframt hafði
megrandi áhrif því lyktin örvaði meltinguna. Án þess að þora að segja það
berum orðum hafði konan sem hélt kynninguna enga trú á þessari frábæru
nýjung. „Við vitum alveg að lykt getur haft rosaleg áhrif á líðan okkar og nú
er sem sagt búið að gera rakakrem með lykt sem megrar okkur og ég meina
why not? Ha?“
Kynningargestir, konur á ýmsum aldri, kinkuðu þægar kolli, enda eins
gott því í lok hverrar kynningar fengum við alltaf gjöf. Þegar ég hef farið á
svona vakningarsamkomur hef ég yfirleitt fengið krem fyrir feita húð sem
ég fæ bólur af, ilmvötn sem valda mér hausverk eða bláan maskara sem ég
hætti að nota þegar ég var 14 ára.
Boðið var upp á glærusýningu sem ætlaði engan endi að taka og Áslaug
var við það að sofna. Höfuðið seig niður á bringu. Hún var nýkomin frá
París og hafði keypt sér Chanel-tösku. Þessa klassísku svörtu með gylltu
keðjunni. Maður getur greinilega haft ágætlega upp úr því að eiga
snyrtivörubúð. Kannski ætti ég að stefna á að eignast mína eigin í staðinn
fyrir að vinna hjá öðrum. Áslaug hrökk við þegar taskan skall í gólfið og
brosti afsakandi til sessunauta okkar, auglýsingastjóra frá einhverjum
kvennatímaritum, alvarlegra kvenna með Saga Boutique-skartgripi. Við
létum okkur hafa það að horfa á hverja glæruna á fætur annarri. Sumar voru
á ensku en aðrar höfðu verið þýddar yfir á íslensku að hálfu leyti. Það hefði
enginn komist upp úr tíu ára bekk í Melaskóla með jafnslæma
máltilfinningu og þýðandinn. Glærurnar fjölluðu meðal annars um
efnasamsetningu kremsins og síðan var farið svo nákvæmlega yfir
meltingarstarfsemi mannsins að okkur fannst við vera staddar í fylgd
fæðunnar mitt í skeifugörninni. Kynningargestir sátu sem steinrunnir. Ég
dró upp blað og blýant og glósaði hjá mér skuldir og laun næstu
mánaðamóta. Ég var tíu þúsund krónur í mínus. Getur verið að einhver eyði
í gegnum mig?
Í lok kynningarinnar mátti bera fram spurningar. Allir vildu vita hvort
kremið yrði nokkuð dýrt. Konan sagði að svo yrði ekki. „Það verður að vera
kleift fyrir venjulegt fólk að koma höndum yfir þessa vöru,“ sagði hún hægt
eins og hún hefði lært setninguna utan að fyrr um daginn án þess að hafa
hugmynd um hvað hún þýddi.
„Hvað ef maður vill bara fá rakann af kreminu en ekki megrast?“ spurði
Áslaug sem hafði allt í einu rankað við sér.
„Ha?“ sagði kynningarkonan svo ég setti upp fyrir hana auðvelt dæmi:
„Ef maður hefur til dæmis verið lengi veikur og má ekki við því að missa
fleiri kíló.“
Konan fékk kippi í aðra kinnina, náði samt að hafa stjórn á sér og sagði
loks: „Kreminu var tekið alveg rosalega vel í japönskum fjölmiðlum. Ég
vona að það sama verði uppi á teningnum hér á landi, ég meina why not?“
„En ef kona sem notar kremið er alltaf með barnið sitt í fanginu, það
finnur lyktina og fer allt í einu að hríðhorast?“ spurði Áslaug. „Er þetta
ekkert pínulítið vanhugsað hjá Japönunum?“
Konan horfði stjörf á hana í fáeinar sekúndur og leit síðan hjálparvana á
hinar konurnar sem voru svo stilltar og hljóðar að þær hlutu eiginlega að
vera veikar. „Íslendingar eru svo langt á eftir öðrum þjóðum,“ sagði hún
skjálfrödduð, „en eftir að hafa verið að lesa allt þetta efni um þetta frábæra
krem hef ég lært rosalega mikið um mannslíkamann. Þetta minnti mig bara
á það þegar ég var að læra undir landspróf. Finnst ykkur þetta ekki hafa
verið fræðandi?“
Hún bandaði hendinni í átt að sýningartjaldinu og kynningargestir
kinkuðu kolli. Why not?
Þegar kom að okkur Slaugu að fá gjöf frá heildsölunni voru þær allar
búnar og konunni sem hélt kynninguna virtist ekkert finnast það neitt miður.
Við fórum bara tvær saman á Kaffi Reykjavík þar sem Áslaug splæsti á
okkur bjór fyrir háttinn.
Það var farið að grynnka svolítið á Ysatis. Þær verða allar vitlausar í
svona léttan ilm með vorinu. Ég glósaði hjá mér að minna Áslaugu á að tala
við umboðið. Síðan kveikti ég á útvarpinu til að ná fréttum af taprekstri
sjúkrahúsanna og undirmönnuðum deildum. Obsession er sígildur ilmur. Ef
því væri stillt út í glugga ætti að vera hægt að selja það í útskriftargjafir. Ég
ætlaði að úða því á úlnliðinn á mér en pumpan sneri öfugt og ég fékk blett
framan á bláu peysuna mína. Obsession var ekki jafngott og mig hafði
minnt. Yfir mig hvolfdist allt í einu þessi líka gífurlegi leiði. Hann byrjaði í
hjartanu og ég fann þarna sem ég stóð með bölvað glasið í hendinni hvernig
hann breiddist út um mig, fram í tær og fingurgóma. Ég þurfti að vera ein.
Mig langaði út í sveit. Eða til útlanda. Kannski langaði mig samt mest bara í
ljós. Ég hringdi í Áslaugu og sagðist verða að fara. Hún spurði einskis,
sagðist bara vera á leiðinni. Á meðan ég beið eftir henni seldi ég tveimur
unglingsstúlkum sinn varalitinn hvorri. Annar hét Happy, hinn hét Tiger. Ég
var hvorugt; þær ekki heldur.
Á Snorrabrautinni hringdi farsíminn. Motorola-hlunkur sem pabbi hafði
átt og gefið mér fáeinum mánuðum áður. „Ætli ég þurfi nokkuð að nota
hann neitt á næstunni,“ sagði hann. Takmarkalaust örlætið kom mér alltaf í
jafnopna skjöldu. Þarna var hann líka nýbúinn að láta mig vita af sjóðnum
sem hann hafði ánafnað mér svo ég gæti loksins keypt mér íbúð. „Þína
fyrstu íbúð,“ sagði hann hátíðlega.
Kristín vinkona vildi fá að vita hvernig ég hefði það. Hún er utan af landi
og kann sig oftast. Ég sagðist hafa það ágætt en hún hljómaði sjálf frekar
dauf. „Nýbúin í prófum og gekk ekkert sérstaklega vel. Ég veit að maður á
að hugsa jákvætt en mér gekk bara einfaldlega illa,“ sagði Kristín. Hún
hefur verið í BA -námi í dönsku í fimm ár og prófin koma alltaf jafnflatt upp
á hana. „Gott ef ég er síðan ekki með einhverja sýkingu þarna niðri,“ bætti
hún við. „Ég fór í Bláa lónið með einhverjum gaur sem ég kynntist á
djamminu og hef verið hálfskrítin síðan. En hvernig var?“
„Hvernig var hvað?“
„Nú, jarðarförin, manneskja.“
„Bara eins og þær eru.“
Þetta var reyndar fyrsta jarðarförin mín en ég hafði séð þær nokkrar í
bíómyndum. Það eina sem hafði verið öðruvísi var að íslenskar konur hafa
ekki tamið sér að mæta með jafnmyndarlega svarta hatta á höfðinu og þær
gera í mafíósamyndum.
„Veistu, mér fannst hann pabbi þinn svo fínn kall.“
„Já, takk fyrir það.“
„Nei, í alvöru. Hann var alveg frábær.“
Svo kom löng þögn. „Eigum við ekki að fara að hittast bráðum?“ spurði
ég svo.
„Jú, endilega, þegar ég hef jafnað mig. Heyrðu, heldurðu að
kynsjúkdómar geti lifað í svona volgu vatni eins og er í Bláa lóninu?“
„Ég hef aldrei heyrt það.“
„Nei, þá hef ég smitast einhvern veginn öðruvísi.“
„Það bara hlýtur að vera. Farðu til læknis.“
„Þetta endar eflaust með því. Sjáumst, bros.“
Bros?
Dimmiterandi unglingar flykktust reikulir í spori framhjá mér,
margfaldaður Ástríkur og fáeinir Strumpar ráku lestina. Við Kristín höfðum
líka verið Strumpar. Hún náði að skemmta sér svo vel að strax upp úr
klukkan fimm var hún búin að míga á sig. Hún treysti sér ekki með
búninginn í hreinsun, laug því að búningaleigunni að honum hefði verið
stolið og borgaði offjár fyrir.
Heima beið mín hvítur liljuvöndur frá gamalli bekkjarsystur sem ég
kallaði Tótu táfýlu allan barnaskólann. Þá fyrst hvarflaði að mér að þessi
leiði sem hvolfst hafði yfir mig hefði eitthvað að gera með það að ég hafði
misst hann pabba minn.
4
TVEIMUR VIKUM EFTIR útförina héldu systir mín, mamma og Gunnar Birnir í
þriggja vikna frí til Mallorka. Það hefði ekki átt að koma mér á óvart þegar
mamma sagðist vera búin að kaupa ferð fyrir þau þrjú. Það kom í beinu
framhaldi af samræðum um það hvort hún hefði gert rétt í því að velja
furukistu handa pabba. „Við þurfum aðeins að hvíla okkur,“ sagði hún. Eitt
andartak sá ég hana fyrir mér liggjandi í kistunni á hvítri sandströnd.
Mamma hikar ekki við að fara með Gubbu í bíó, leikhús og heimsóknir
án þess að hafa samband við mig. Ég veit ekki hvenær hún ákvað að ég
hefði engan áhuga á því að vera með henni. Eitt er víst; það var hennar
ákvörðun en ekki mín. Ég hafði bara asnast til að halda að dauði pabba
myndi þjappa okkur kvenleggnum saman. Nú lágu þær Gubba og mamma
hvor á sínu Nivea-baðhandklæðinu á einhverri sólarströndinni. Tveir
vambmiklir selir. Gubba sigldi hraðbyri í sama vaxtarlagið og móðir hennar
rétt 14 ára. Grannir fætur, þokkalegur rass en síðan þessi líka vömb. Ég fékk
mitti og flatan maga en sit aftur á móti uppi með svera kálfa. Það er alltaf
eitthvað.
Mæðgurnar skildu eftir lykla að Fornhaganum svo ég gæti vökvað
blómin. Auðvitað þurfti ekkert að vökva þau strax en samt fór ég þangað
um leið og ég vissi að þær voru farnar. Við útidyrnar lá auglýsingamiði til
pabba frá Sævari Karli. Ný sending af Armani-fötum. Ég tók hann upp og
stakk í vasann.
Það var sama hvaða tíska hafði gengið yfir íslensk heimili undanfarna
áratugi með tilheyrandi rimlagluggatjöldum, náttúruflísum og
gaseldavélum. Á heimili foreldra minna hafði ekki ein parkettfjöl verið
lögð. Drapplitað teppi út í hvert horn, nema á baðherberginu og í eldhúsinu
þar sem dúkur hafði þótt við hæfi. Dimmrautt og upphleypt veggfóðrið á
ganginum hafði tekið á móti gestum og gangandi frá því um miðjan sjöunda
áratuginn og sömuleiðis brúnleita mottan, vindubrúin inn í kastalann. Það
hafði þó verið skipt reglulega um þykka, glæra plastrenninginn sem lá yfir
mottunni. Foreldrar mínir bjuggu meira að segja svo vel að eiga forláta
rýjateppi uppi á vegg. Spottarnir mynduðu undirfurðulegt mynstur sem
engin leið var að átta sig á. Gulur spírall á grænum fleti og rauðar eldingar
báðum megin.
Stofuhúsgögnin, sófasettið, sófaborðið og skenkurinn undir
brúðkaupsstellið höfðu verið keypt litlu eftir að flutt var inn og aldrei þótt
ástæða til að skipta því fyrir nýtt. Þetta átti að vera lífstíðareign. Það gekk
aldeilis eftir hvað pabba snerti. Píanóið hafði enginn spilað á lengi. Reyndar
var það bara Gubba sem kunni að spila, hún hafði verið sett í tíma sem
krakki og ekki leið sá dagur um nokkurra ára skeið að hún sæti ekki við
píanóið í nokkrar klukkustundir og æfði sig. Þetta höfðu pabbi og mamma
ákveðið þegar hún var smábarn. Fyrst lærði hún á blokkflautu en allt í einu
var grænn hægindastóll horfinn úr stofunni og píanó komið í staðinn. Við
þurftum að sækja ótrúlega langa og leiðinlega nemendatónleika þar sem
óttaslegin börn glömruðu einhverja endaleysu. Ég skil ekki enn hvernig ég
slapp við að læra á píanó. Kannski vegna þess að mér fannst gaman að
teikna og lengi vel stóð til að ég fengi að fara á myndlistarnámskeið. Svo
datt það bara upp fyrir og mér var eiginlega alveg sama.
Á jólunum var Gubba látin setjast við píanóið og leika jólalög. Þá varð
mamma alltaf pínulítið vot um augun og fékk okkur pabba til að syngja með
sér. Þannig hafði það víst verið á Lindargötunni þar sem hún var alin upp af
ömmu sinni og afa. Hún vissi aldrei hver pabbi hennar var en móðir hennar
dó í einu fyrsta stóra rútuslysinu á Íslandi. Það var í ofanverðum
Norðurárdalnum og hún var aðeins þrítug og á leiðinni til Akureyrar.
Enginn veit til hvers en sem betur fór hafði hún skilið dótturina eftir heima
hjá foreldrum sínum. „Það voru kannski ekki oft til peningar en við gátum
alltaf sungið saman,“ sagði mamma þar sem við stóðum þrjú, hún, pabbi og
ég, fyrir aftan Gubbu í sparifötunum okkar.
Þetta voru frámunalega kjánalegar stundir. Pabbi virtist ekki kunna
textana og rumdi óskiljanlegar romsur, mamma söng hárri klemmdri röddu
og ég söng eins lágt og ég komst upp með án þess bókstaflega að hvísla á
meðan ég boraði tánum ofan í mjúkt teppið og óskaði mér þess að geta
sokkið ofan í það. Mest óskaði ég þó þess að nágrönnunum í
kjallaraíbúðinni bærust ekki óhljóðin til eyrna.
„Syngdu líka,“ sagði mamma við Gubbu á milli laga.
„Nei, ég er að spila,“ sagði hún og fór alveg jafnógurlega hjá sér og ég.
Það sást þótt hún sneri baki í mig því hún roðnaði alveg jafnmikið á
hálsinum og í framan. Hún kinkaði einbeitt kolli þegar hún sló nóturnar
með stuttum fingrunum sem sýndu svo ekki varð um villst að barnið yrði
aldrei píanósnillingur. Dökkt taglið sveiflaðist til og frá eins og taktmælir.
Pabbi lá banaleguna í herberginu mínu undir mynd af tveimur góðlegum
börnum á leið yfir svo lítilfjörlega brú að þau hlutu að vera meira en lítið
heimsk að láta sér detta í hug að hún héldi. Yfir þeim vakti stór engill. Ekki
veitti af. Þessi mynd hafði alltaf hangið uppi á vegg í herberginu. Fyrst
innan um krosssaumsmyndir sem ég gerði sjálf og mamma lét ramma
hátíðlega inn og síðan innan um öll Smithsplakötin sem keypt voru í hinni
niðurgröfnu búð Hjá Hirti á Laugaveginum. Ég sá aldrei neina ástæðu til að
losa mig við myndina af englinum. Maður vex aldrei upp úr því að eiga sér
verndarengil. Samt gat ég ekki hugsað mér að taka hana með þegar ég flutti
að heiman.
Það var ég sem fann pabba látinn. Ég kom við á Fornhaganum til að
sækja vídeóspólur sem ég hafði gleymt þar. The Third Man og The Meaning
of Life . Við pabbi og Gunnar Birnir höfðum horft á þær saman kvöldið
áður. Þá rúlluðum við sjónvarpinu og vídeótækinu inn til pabba til að hann
þyrfti ekki að fara fram. Ég settist í stólinn við rúmið en Gunnar Birnir lá á
gólfinu. Gubba ætlaði fyrst að horfa á með okkur en bauð góða nótt um leið
og Holly Martins brá sér í kirkjugarðinn í upphafi The Third Man . Líklega
fannst henni ég frekar hafa átt að velja eitthvað heimilislegt með Meryl
Streep en pabbi brá ekki svip. Við höfðum horft á The Third Man saman
áður. Reyndar tók ég alltaf myndir sem ég vissi að hann hafði séð og haft
gaman af. „Nú kemur hann. Nú kemur Harry,“ sagði hann spenntur þegar
kötturinn mjálmar við fætur Orson Welles. Uppáhaldsatriðið hans pabba var
þegar Harry er drepinn í holræsinu og stingur fálmandi fingrum upp um
ristina. „Sjáðu svipinn. Hann kunni sko að leika, hann Welles.“
Svona myndir væri gaman að gera í Reykjavík. Svarthvítar glæpamyndir
þar sem menn hittast yfir vískíi í fúnum bárujárnshúsum í Þingholtunum en
glæpaforinginn býr í nær gluggalausu skeljasandsfunkishúsi við Eiríksgötu.
Hann á konu sem er sambland af Önnu Schmidt úr The Third Man og
konunum hans Flóka. Alvarleg, með dökkt, liðað hár og breiðar varir. Ekki
öll þar sem hún er séð. Það væri athugandi hvort ekki mætti nota safn
Einars Jónssonar sem tökustað og láta lokauppgjörið fara fram inni á milli
listaverkanna. Byssuskotin flísa úr Öldu aldanna. Við ættum að fara að
dæmi Bandaríkjamanna og gera myndir þar sem helstu gersemar
þjóðarinnar, listaverk og byggingar, gjöreyðileggjast af völdum
náttúruhamfara, manna eða górillu.
„Mig langar að skrifa kvikmyndahandrit,“ datt upp úr mér í lokaatriðinu
þar sem Holly er aftur mættur í kirkjugarðinn. Þögnin sem fylgdi í kjölfarið
var svo löng að eitt andartak hélt ég að ég hefði ekki sagt þetta. Loks
heyrðist pabbi svara: „Af hverju ættirðu ekki að geta það, íslenskumenntuð
konan?“
Einmitt. Af hverju ætti ég ekki að geta það? Vegna þess að ég vissi ekki
hvert ég færi síðan með handritið. Það vissi pabbi hins vegar. „Þú bara
sendir það til kvikmyndafyrirtækja eða kvikmyndaleikstjóranna sjálfra. En
það er seinni tíma vandamál. Nú þarftu bara að setjast niður og skrifa.“
Hann brá upp vísifingri og löngutöng hægri handar eins og hann var vanur
þegar hann vildi leggja áherslu á orð sín. Ekki ólíkt því að hann væri að
sverja skátaeið.
Gunnar Birnir var sofnaður. Frá honum barst lágvært uml. Ég blakaði við
honum og bað hann um að fara inn að sofa. Hann horfði á mig
svefndrukknum augum, vissi ekki alveg hvar hann var en hlýddi samt.
Svo horfðum við pabbi á The Meaning of Life með Monty Python. Alltaf
jafnfyndið þegar dauðinn kemur í heimsókn. „The salmon mousse,“
endurtók pabbi eftir honum og hló. „Hann á alltaf síðasta orðið,“ bætti hann
við þegar veislugestir hafa áttað sig á því að dauðinn hlustar ekki á neitt
þras og sjá sér þann kost vænstan að fylgja honum út í nóttina.
Kökkur myndaðist í hálsinum á mér og ég þorði ekki að draga andann. Á
sama tíma og mig langaði til að pabbi segði eitthvað meira var ég ekki viss
um að ég þyrði að heyra það.
„Það er ekki hægt að snúa á hann,“ hélt hann áfram. „Samt hryllilegt að
einhver annar ákveði hvenær maður fer.“ Hann var orðinn óskýr í tali af
þreytu. Ég hefði átt að láta nægja að koma bara með eina spólu en tvær-
fyrir-eina-til-boðið hafði verið of freistandi.
„Hvernig væri annars hægt að hafa þetta?“ spurði ég og reyndi að hvísla
til að röddin kæmi ekki upp um mig.
„Maður hefur fengið að ráða velflestu í lífinu, hvað maður lærði, hverri
maður kvæntist og barnafjöldanum en svo kemur þetta. Og þegar maður
hefur alltaf komist upp með að hafa töglin og hagldirnar þá er ömurlegt að
þurfa að sætta sig við þetta. Alveg ömurlegt,“ endurtók hann. „Ég get orðið
svo reiður þegar ég hugsa um þetta.“
„Ég er líka reið,“ hvíslaði ég án þess að vita hvort hann heyrði það. Við
horfðum þegjandi á það sem eftir var af myndinni en líklega missti pabbi af
einhverju því þegar henni lauk var hann sofnaður.
Ég fann spólurnar en líka pabba. Andlitið var stirðnað og munnurinn
opinn. Hann var ekkert líkur þessum friðsælu myndum sem maður hefur
séð af frægum dauðum mönnum. Mér fannst eins og þá og þegar gæti hann
hrokkið upp og spurt mig hryssingslega hvað ég væri að læðupokast þarna,
farið svo að hlæja og sagst bara vera að stríða mér. Hefði verið að fylgjast
með mér. Ég settist inn í eldhús, dró gardínurnar fyrir og grenjaði en var
orðin sallaróleg þegar ég hringdi í heimahlynninguna og tilkynnti hvað
hefði gerst. Ég hafði ekki uppi á mömmu fyrr en hjúkrunarfræðingurinn
sem sinnt hafði pabba tvisvar á dag var kominn. Mamma var í heimsókn hjá
gamalli vinkonu sinni sem gat sem betur fór komið með henni. Vinkonur
mömmu hafa aldrei neitt sérstakt fyrir stafni. Þær virðast ekki gera neitt
annað en að rölta á milli kaffiboða alla daga. Ég hélt að enginn væri heima
en þegar pabbi hafði verið borinn út kom í ljós að Gunnar Birnir var inni í
herberginu sínu allan tímann. Hann hafði legið yfir teiknimyndasögu með
heyrnartólin á hausnum og hvorki heyrt grenjið í mér né vafstrið í
hjúkrunarfólkinu. Gubba settist með hann í fangið á rúmið hans og sagði
honum varfærnislega að nú væri afi hans dáinn. Hann kinkaði þögull kolli.
„Sagði pabbi eitthvað við þig í dag?“ spurði Gubba.
„Ég gaf honum bara vatn. Það var hann sem bað um það.“
„Ekkert annað?“
„Svo vildi hann bara taka lyfin sín í friði.“
Ekkasog mömmu bárust inn í herbergið. „Við verðum að fá eitthvað
handa henni hjá lækninum,“ tautaði Gubba við mig og ég sagði henni að sjá
um það ef hún teldi það nauðsynlegt. Ég kæmi ekki nálægt því. Um leið og
Gubba var farin út úr herberginu setti Gunnar Birnir heyrnartólin aftur á
hausinn á sér. Hann getur hlustað endalaust á sömu plöturnar. Það er eflaust
aldurinn. Þegar ég var aðeins eldri en hann las ég til skiptis Á Saltkráku eftir
Astrid Lindgren þar sem börn léku sér áhyggjulaus í sænska skerjagarðinum
og Ég lifi eftir Martin Gray þar sem snoðaðir jafnaldrar þeirra veltu sér upp
úr drullunni í Treblinka. Enn veit ég ekki hvort mig langar meira til að
heimsækja sænska skerjagarðinn eða Treblinka.
Pabbi leit allt öðruvísi út í kistulagningunni. Þá var hann friðsæll í
framan eins og smurður Lenín. Versace-bindið sem reyrt hafði verið um
hálsinn á honum fór honum illa. Hann hafði heldur aldrei kunnað við það
og var nú kominn í þá aðstöðu að geta sagt það við hönnuðinn sjálfan. Ef ég
þekkti hann rétt myndi hann líka eflaust gera það. Ég brosti við tilhugsunina
og fann um leið fyrir stingandi augnaráði mömmu. Sálmabók lá á brjósti
pabba og mér fannst hún líka fara honum illa. Mundi ekki eftir því að hann
hefði nokkurn tímann farið í kirkju nema þegar við dætur hans vorum
fermdar. Þegar við vorum á ferð um landið og mamma vildi skoða kirkjur
beið hann í bílnum á meðan. Svona til fara hafði mamma samt viljað að
pabbi færi til fundar við skapara sinn og við því var ekkert að gera úr þessu.
Á vegginn yfir gamla rúminu mínu hafði ég málað stóran greniskóg.
Refur, elgur og héri stungu höfðinu út á milli trjánna. Þetta fékk ég leyfi til
að gera eftir að hafa tilkynnt foreldrum mínum 16 ára gömul að ég ætlaði í
Myndlista- og handíðaskólann eftir stúdentspróf. Ég hafði aldrei áður sagst
ætla að verða eitt né neitt og því urðu þau býsna kát. Eftir að útséð var um
að Gubba yrði merkilegur píanóleikari sagðist hún strax ætla í lögfræðina
og því hafði enginn neinar áhyggjur af henni. Námsferillinn tók samt
óvæntan krók sem enginn hafði séð fyrir. Sumarið eftir stúdentspróf
kynntist Gubba heimspekinemanum Helga og áður en hún náði svo langt að
berja hraunveggina í Lögbergi augum ákváðu þau að fjárfesta í íbúð og því
varð hún að fara að vinna. Góð ástæða til að fresta lögfræðináminu og
stúlkan fékk vinnu í barnafataversluninni sem hún vinnur enn í á sumrin.
Það var auðsætt að pabba fannst Helgi ekki mikill fyrir mann að sjá.
„Heimspeki?“ spurði hann tengdasoninn. „Hvar færðu síðan vinnu við
hana, segirðu?“
„Það er alltaf eftirspurn eftir fólki með heimspekimenntun,“ sagði Helgi
og vissi ekki alveg hvernig hann átti að vera. Hann var höfðinu lægri en
pabbi og varð að horfa upp til hans.
„Það var nefnilega það,“ hnussaði pabbi. Tvisvar eftir þetta heyrði ég
hann spyrja Helga hvort fyrirtæki væru nú farin að slást um hann. Ég
vorkenndi stráknum. Auðvitað var þetta óttalegur ræfill. Það sást frá fyrsta
degi. En hvað um það, ástin á milli Gubbu og Helga svoleiðis blómstraði.
Helgi var líka laglegasta grey, eins og sést á Gunnari Birni. Gubba var
örugglega jafnhissa og allir aðrir á því að hún skyldi hafa krækt í hann. Það
komu tár í augun á mömmu þegar hún sagði mér að Gubba ætti von á barni.
Ég ákvað að flytja að heiman um leið og ég fengi fyrstu
námslánagreiðsluna.
Gubba kynntist íslensku dómskerfi óvænt þegar Helgi, þessi gæðapiltur
sem alltaf var svo háttvís í framkomu þá sjaldan hann kom í heimsókn, var
dæmdur fyrir að reyna að smygla e-töflum til landsins.
„Já, mér fannst hann líka alltaf vera á einhverju iði,“ sagði mamma þegar
hún las í Fréttum hvar tengdasonurinn hafði borað töflunum. Pabbi neitaði
að aðstoða hann. Vildi ekkert af málinu vita hvernig sem mamma reyndi að
tala við hann. Pabbi talaði lengi við Gubbu inni á skrifstofunni sinni. Hún
kom grátbólgin út aftur en hún var líka óskaplega viðkvæm alla
meðgönguna. Þurfti ekki annað en að lesa í blöðunum um lamb í sjálfheldu
til að beygja af.
Helgi reyndist hafa verið á skilorði og fluttist austur fyrir fjall. Þar með
var hann horfinn úr lífi okkar allra og Gubba greyið hefur enn ekki náð svo
langt að hleypa heimdraganum. Mamma hélt í höndina á henni meðan á
fæðingunni stóð og gerði reyndar margt fleira því litlu síðar sýndi Gubba,
sem hingað til hafði verið of mikil tepra til að fara í bikiníi út í sólbað,
hverjum sem var ljósmyndir mömmu af barninu útötuðu í fæðingarfitu,
sveittu andlitinu á sjálfri sér en þó ljómandi af gleði yfir nýfengnum auði,
og síðast en ekki síst brúnu þykkildi sem reyndist vera fylgjan. Nokkur ár
liðu þar til hún hafði sig loks í að byrja í lögfræðinni.
Það má ekki minnast á dópsalann á heimilinu. Gunnar litli Birnir er
Guðbjargarson.
Sjálf heitir Gubba eftir móðurömmu okkar, þessari sem dó bara þrítug,
en ég heiti eftir langafa mínum. Hann hét Oddfríður eins og ég. Þegar ég
var yngri þótti mér leiðinlegt að heita eftir einhverjum kalli sem ég hafði
ekki einu sinni hitt en það venst auðvitað.
Guðbjörg fannst mér nafn sem hæfði drottningu og amma okkar heitin
hlyti að líta á Gubbu með mikilli velþóknun af himnum ofan. Ég var hins
vegar mun líkari þessari ljóshærðu konu sem ofan úr bókahillu horfði á
fjölskylduna rífast, bítast og slást. Það er ég sem er ljósskolhærð, búlduleit
og með hátt enni eins og hún. Gubba er fremur langleit með stuttklippt,
þykkt og dökkt hár sem lítur helst út fyrir að vera kolla. Augun eru lítil og
pírð en sjálfri finnst henni hún hafa dramatískt augnaráð sem geti breytt
vindáttum, rekið hafís að landi og lagt heilu sveitirnar í eyði. Föðuramma
mín var á mynd í dökkum tréramma uppi á hillu í skrifstofunni hans pabba.
Þetta var mynd tekin á stofu. Hún var með liðað, ljósskolleitt hár og í hvítri
blússu. Nisti um hálsinn. „Hún fékk það lánað hjá vinkonu sinni fyrir
myndatökuna. Átti ekkert sjálf og vildi vera fín,“ sagði pabbi.
Þetta hafði verið falleg kona en ég var dauðfegin að hafa ekki verið látin
heita í höfuðið á henni. Alvilda hét hún og var færeysk. Hún vann í verslun í
Þórshöfn þar sem bátar nudduðu sér upp við borðstokkana hver á öðrum í
hnausþykkri hafþokunni og inni í bænum húktu lítil timburhús með
torfþökum og virtust hafa húkt þar býsna lengi. Þar varpaði skipið hans Páls
afa míns eitt sinn akkerum. Þetta var um vetur og áhöfnin var ekki fyrr
komin í land en það skall á svo mikill bylur að hún varð að láta fyrirberast í
bænum. Og eins og Alvilda hafði alltaf kunnað vel við sig í Þórshöfn
langaði hana allt í einu ekkert jafnheitt og að flytja til Íslands, jafnvel þótt
um væri að ræða lítinn bæ eins og Fáskrúðsfjörð.
„Þetta er ekki neitt neitt,“ sagði afi minn um bæinn sinn. Hann óttaðist
að hún gerði sér einhverjar grillur um staðinn en hún lét sér ekki segjast.
Hún ætlaði burt með þessum manni og eignast með honum mörg börn.
Þegar fram liðu stundir varð ljóst að Gunnar myndi aldrei eignast systkini
og við það sat. Meðan nágrannakonurnar eignuðust allt upp í tólf krakka og
engin gekk svo um götur bæjarins að hafa ekki þrjá í eftirdragi sat Alvilda
uppi með einn son. Hann sýndi sjómennsku engan áhuga, nennti aldrei að
dorga niðri á bryggju með hinum strákunum, heldur lá bara yfir bókum inni
við. Þannig liðu fyrstu árin. Páll var á sjónum. Alvilda sá um heimilið og
saumaði svo listavel að hún hafði ekki undan að taka á móti pöntunum.
Uppi á austfirskum háaloftum eru víst enn til upplitaðir brúðarkjólar sem
hún gerði, svo ekki sé talað um skírnarkjólinn sem hafður er til sýnis á
byggðasafninu. Þær mættu, konurnar, með ungbörnin á handleggnum, báðu
hana um að taka mál af litlum búkunum og spurðu svona í forbífarten hvort
hún ætlaði nú ekki að fara að koma með eitt áður en það yrði of seint.
Alvilda þurfti á viðskiptunum að halda og svaraði því kurteislega að það
væri nú bara aldrei að vita. Hún skildi ekki hvernig hinar konurnar fóru að
þessu. Mennirnir þeirra voru alltaf úti á sjó eins og hennar og það var ekki
eins og þau reyndu ekki að nýta tímann þegar hann kom í land. Það gerðist
bara ekkert. Alvilda hélt niðri í sér andanum á meðan hún tók mál af
börnunum til að finna ekki af þeim ilminn og afþakkaði þegar henni var
boðið að taka þau í fangið. Sagði að þau myndu meiða sig á títuprjónunum
sem hún festi í ermarnar.
Gunnar, sonur hennar, sem orðinn var ellefu ára, minnti hana á börnin
sem hún gat ekki eignast og það átti hún bágt með að fela fyrir honum. Það
var þó ekki fyrr en á þorranum 1938 sem síga tók á ógæfuhliðina. Þá
eignuðust þrjár konur í bænum myndarleg börn og ein þeirra var prestsfrúin
sem öllum fannst vera orðin algjör kelling. Þá tók Alvilda upp þann Norður-
Atlantshafssið að drekkja sorgum sínum. Gunnari fannst það ekki alslæmt
því það var aðeins þegar hún var drukkin sem hún fann fyrir hlýjum
tilfinningum í garð hans. Þá átti hún það til að biðja hann grátandi
fyrirgefningar á því hvað hún var oft ónotaleg við hann. Hún hélt sér þurri
þegar Páll var í landi og Gunnar kom sér ekki að því að segja honum frá því
hvernig heimilislífið raunverulega var. Þeir urðu aldrei neitt sérstaklega
nánir. Það var bæði Gunnari og Alvildu léttir þegar hann fluttist loksins
suður til að fara í skóla.
Föðuramma mín og -afi voru bæði látin þegar ég fæddist og ég man bara
einu sinni eftir því að hafa komið austur. Það var í hringferðinni 1978. Þá
var ég sjö ára og hafði lítinn áhuga á ferðalögum innanlands, jafnvel enn
minni en nú. Mig langaði miklu meira til að vera heima að leika mér við
vinkonur mínar. Kannski var ég líka bara of úrvinda til að geta tekið eftir
náttúrufegurðinni. Í aftursætinu geisaði styrjöld undir Eniga meniga sem
snerist í kassettutækinu alla ferðina. „Kommamúsík,“ kallaði pabbi hana og
hafði heldur viljað troða upp á okkur ævintýraspólu með Gylfa Ægissyni úr
kassettustandinum í Nesti á leiðinni út úr bænum. Ég þurfti sífellt að verjast
höggum systur minnar sem var ekki sátt við að pabbi hefði keypt bleikar
spennur handa mér en dökkgrænar handa henni. Gubba var vön að fá að
velja fyrst hvaða lit hún vildi þegar eitthvað var keypt handa okkur. Hún var
reyndar bílveik mestalla ferðina en þó ekki svo máttfarin að hún gæti ekki
slæmt í mig hendinni af og til. Einhvern veginn varð krakkinn að tjá
vanlíðan sína. Á Fáskrúðsfirði fór pabbi einn að heimsækja ættingja sína.
Gubba var slöpp eftir bílferðina og hírðist undir sæng á Hótel Valhöll með
maltflösku sér til halds og trausts. Mamma hafði ætlað að vera hjá henni en
þegar Gubba loks sofnaði hélst hún ekki lengur við inni og tók mig með í
kvöldgöngu. Þetta var í annað skipti sem mamma kom til Fáskrúðsfjarðar.
Hingað hafði hún nefnilega komið sex ára gömul á ferð með afa sínum og
ömmu. Þau höfðu heimsótt vinafólk og gist hjá því. Það var 17. júní og sól
og bæjarbúar sýndu leikþátt um Jón Sigurðsson í tilefni dagsins. Þessa
fáeinu daga sem mamma hafði staldrað við á Fáskrúðsfirði tókst henni að
eignast vinkonu. „Kannski býr hún hér enn,“ sagði mamma og hló við. Svo
fór hún að segja mér frá því hvað þær vinkona hennar, sem hún mundi ekki
nafnið á, hefðu gert. Gert sér bú, hnoðast með kettlinga og gefið dúkkum
drullumall að borða. Mamma hélt fast um höndina á mér og horfði beint
fram fyrir sig á meðan hún talaði. Það hvarflaði að mér að kannski héldi
hún að hún væri að tala við Gubbu. Kannski héldi hún að það væri ég sem
lægi angandi af ælu uppi á hótelherbergi. Á meðan á gönguferðinni stóð
þorði ég ekki að gefa frá mér eitt píp svo ég kæmi ekki upp um mig. Við
mættum pabba á leiðinni til baka, ég losaði mig strax úr hendi mömmu og
hljóp á móti honum. Síðan fórum við þrjú saman í kirkjugarðinn. Á leiðinni
sagði mamma pabba frá líðan Gubbu og pabbi sagði henni frá ættingjunum
sem hann hafði hitt. Svo stóðum við allt í einu við leiði foreldra hans. Ég
man ekkert hvað stóð á steini afa míns en á steini Alvildu stóð Heima hjá
Guði. „Hún vildi þetta sjálf. Þetta er eitthvað færeyskt,“ sagði pabbi
afsakandi. Svo stóðum við smástund þegjandi yfir leiðinu og ég vissi ekkert
um hvað ég átti að vera að hugsa. Kannski átti ég að segja eitthvað við
ömmu mína þótt hana væri hvergi að sjá. Mundi ekki betur en að ég hefði
séð fólk gera svoleiðis lagað í bíómyndum, krjúpa við legsteina og segja
eitthvað við hinn látna. Kannski átti ég bara að hugsa um eitthvað fallegt.
Ég mændi ofan í grasið og reyndi að líta út fyrir að vera niðursokkin í fagrar
hugsanir. Þá skaut því niður í kollinn á mér að ofan í þessari jörð lá kona
sem var næstum því ég. Þannig hafði ég reyndar aldrei hugsað um foreldra
mína en mér fannst Alvilda alveg standa undir svona þankagangi. Fyrst kom
hún, svo pabbi, svo ég. Og hefði ekki ein sjóferð komið til hefði ég alist upp
í landinu hennar, Færeyjum. Við þessa uppgötvun fór um mig hrollur eins
og ég stæði á sundlaugarbakka, nýkomin úr heita pottinum.
„Komum til baka,“ sagði pabbi, „stelpunni er kalt.“
Af föður sínum átti hann bara óskýra ljósmynd þar sem hann sást standa
úti undir vegg ásamt hundi. Kjálkasvipurinn var greinilega sterkur, eins og á
pabba. Myndin var bara geymd í gömlu albúmi sem annars var fullt af
myndum af mér og Gubbu litlum.
„Hvað hét pabbi þinn?“ spurði ég eitt kvöldið jafnvel þótt ég vissi það.
„Páll,“ svaraði pabbi sem grúfði sig yfir bókhaldið sitt. Það var maus að
reka lögfræðistofu. Vinnudagurinn hélt áfram löngu eftir að heim var
komið.
Þá spurði ég hann hvað hundurinn hefði heitið en það mundi hann ekki.
Á þessum tíma var pabbi skegglaus og hakan sýndist enn skarpari. Þetta er
örugglega elsta minningin mín. Við vorum nýkomin inn eftir göngutúr um
hverfið og ég var enn með lambhúshettu á hausnum sem mig klæjaði
hryllilega undan.
Mamma sagði mér einu sinni að á meðan hún gekk með mig hefði sig
dreymt ömmusystur sína, löngu látna konu af Snæfellsnesi sem hét
Svanhvít. Hún birtist henni uppáklædd, í peysufötum, með skotthúfuna,
millurnar og allar græjur. Konan bað um vatn að drekka og fyrir mikla mildi
var mamma einmitt stödd í eldhúsinu sínu og átti því hægt um vik með að
teygja sig í eitt óbrjótandi og skenkja konunni ískalt kranavatn. Svanhvít
drakk úr glasinu í einum teyg, dauðþyrst eftir langt ferðalag, og sagði síðan:
„Svo læturðu heita eftir mér.“
Svanhvít var ein þessara kvenna sem hafði eignast fjölda barna án þess
að kunna neitt sérstaklega vel við þau og hafði aldrei reynt að leyna því.
Hún sinnti þeim bara eins vel og nauðsynlegt var og ekkert umfram það.
Mamma mundi ekki eftir því að hún hefði nokkurn tímann vikið að sér
hlýju orði þegar amma hennar hafði farið með hana vestur í heimsókn. Svo
var þessi kona að birtast þarna svona líka löngu dauð og þóttist eiga hönk
upp í bakið á henni. Fjórar dætur hennar höfðu þegar látið heita eftir móður
sinni. Henni var auðsjáanlega ekki sjálfrátt í tilætlunarseminni, þessari
konu.
Magdalena Ottósdóttir rétti úr sér, skaut fram bumbunni sem var alltaf
mun stærri í draumum hennar en í raunveruleikanum og sagði: „Nei, veistu,
ég held bara ekki.“
Svanhvít missti glasið úr höndum sér og það brotnaði í þúsund mola á
eldhúsgólfinu. Síðan leystist gamla konan upp fyrir augunum á henni.
Daginn eftir þegar pabbi var farinn í vinnuna og Gubba svaf stóðst mamma
ekki mátið og lét eitt óbrjótandi gossa í gólfið. Það sá ekki á glasinu og
mamma lofaði sjálfri sér að prófa þetta aftur þegar hún losnaði við
gólfdúkinn og léti flísaleggja.
Áður en ég fór út tók ég sultukrukku úr ísskápnum hjá mömmu til að
fara með heim. Mér fannst ég eiga hana skilið.
5
NÍU DAGAR LIÐU . Ég svaf mikið og fyrst um sinn borðaði ég ógn af nammi
sem ég keypti í daglegri sjoppuferð. Sorg og súkkulaði fara ágætlega
saman. Síðan lét ég duga að kaupa mér krukku af súkkulaðismjöri og
smyrja því ofan á ristað brauð sem ég borðaði í öll mál. Ég hlustaði aðeins á
hana Ellu Fitzgerald sem borðaði einmitt heilmikið af súkkulaði síðustu
æviárin þótt hún væri illa haldin af sykursýki og þyrfti þar af leiðandi að
láta taka af sér báða fæturna. Þannig lá hún, fótalaus á súkkulaðibeði, þar til
hún dó. Ella og súkkulaði. Þannig hefði þetta eflaust getað gengið vikum
saman ef Áslaug hefði ekki bankað upp á. Það var um kvöldmatarleytið og
ég hafði séð sendibíl frá Blómavali parkerað við húsið á móti. Ég fór til
dyra í von um að verið væri að koma með síðbúinn vönd til mín.
„Sæl, elskan, ætlaði bara að sjá hvernig þú hefðir það,“ sagði Áslaug og
stikaði framhjá mér inn í íbúðina. Hún var í einni af þessum hempum sem
íslenskir fatahönnuðir þreytast ekki á að búa til og minna á ponsjóin sem
menn sveipuðu sig í útilegum þegar ég var unglingur og líktust helst
tjöldum, enda nokkurn veginn óhætt að drepast í þeim úti í móa án þess að
kvefast. Ilmurinn af Boucheron fyllti litla holið mitt og ég skammaðist mín
fyrir fitugt hárið og krumpuð náttfötin. Það gat heldur varla lyktað neitt
sérlega vel inni hjá mér.
Áslaug skellti hrúgu af litlum kremprufum á sófaborðið. „Settu eitthvað
af þessu framan í þig. Það hressir upp á húðina, ballanserar og hreinsar,“
sagði hún og dró hring með vísifingri og löngutöng kringum andlitið á sér
svo ég næði því örugglega hvað ég ætti að gera. Ég þakkaði fyrir, bauð
henni að setjast í sófann með handarhreyfingu og settist sjálf í stól.
„Hvernig líður þér, elskan? Það er svo langt síðan ég hef séð þig,“ sagði
Áslaug.
„Bara ágætlega,“ sagði ég.
Hún horfði athugul á mig og ég velti því fyrir mér hvort hún ætlaðist til
þess að ég væri nákvæmari. Hvort hún vildi virkilega lýsingu á öllu
grenjinu og þessari furðulegu tilfinningu að ég ætti aldrei eftir að heyra
aftur í pabba mínum. Undanfarna daga fannst mér eins og ég hefði átt eftir
að spyrja hann að einhverju en mundi ómögulega hvað það hefði átt að
vera. Við höfðum oft talað lengi saman árið sem hann lá hvað veikastur.
Aðallega höfðum við þó náð að vera mikið saman.
Áslaug beið eftir því að ég segði eitthvað meira og var ekki svikin af því.
„Veistu, mig langar til að skipta um starf. Ég ætla að fara að leita að
einhverju öðru,“ sagði ég. „Ekki það að mér hafi ekki þótt gott að vinna hjá
þér. Það er bara eitthvað svo ...“
„Allt í lagi, elskan mín. Það er svoleiðis allt í lagi.“
Ég hafði ekkert ætlað að segja þetta strax, heldur bíða í nokkrar vikur.
Varla hafði ég samt sleppt orðinu þegar ég fann að ég hafði tekið rétta
ákvörðun. Mér létti. Fyrir fáeinum mánuðum hefði mér þótt óhugsandi að
segja upp vinnunni en nú langaði mig til að breyta til. Reyndar hafði mér
ekki boðist neitt annað starf og hafði því ekki upp á neitt að hlaupa. Fyrir
utan þrifin í öryrkjablokkunum við Hátún í skólafríum á sumrin hafði ég
aldrei haft neina aðra vinnu en í Þrúði. Og það hafði verið miklu geðslegra
að aðstoða fólk við að velja sér kinnalit fyrir árshátíðir en að skafa upp af
gólfinu hlaupkennt jukk sem engin leið var að vita úr hvaða enda hafði
komið.
„Ertu búin að fá nýja vinnu?“
Ég neitaði og Áslaug sagði: „Nú?“
„Mér finnst bara vera kominn tími til að fara að gera eitthvað annað. Ég
get ekki alltaf unnið í snyrtivörubúð.“
Áslaug lyfti vel plokkaðri augabrún. Ég hafði sagt eitthvað vitlaust.
„Ég meina, það er rosalega gaman að vinna í búðinni hjá þér en ég verð
orðin 26 ára í haust.“
„Þrítugskrísan,“ sagði Áslaug, kinkaði kolli og brosti sátt. „Hún getur
skriðið upp að manni í raun og veru hvenær sem er.“
Ég áttaði mig ekki alveg á þessari fullyrðingu en ákvað að hafa ekki hátt
um það. „Já, ætli þetta sé ekki bara hún,“ samsinnti ég.
Við þögðum dágóða stund og Áslaug pillaði eitthvað undan
þumalfingursnöglinni. Hún fer í franskt maníkjúr á þriggja vikna fresti.
„Það er eðlilegt að vilja breyta til,“ hélt hún svo áfram. „Þú ert ekkert að
fara að flytja samt? Er það nokkuð?“
„Nei, nei, það er enn svolítið í það.“
„Ég skal gefa þér góð meðmæli ef þú þarft á þeim að halda. Svo hafa
náttúrlega orðið miklar breytingar í lífi þínu og ...“
Áslaug var hætt að brosa. Við horfðumst í augu í fáeinar sekúndur áður
en hún leit ofan í parkettið. Tár lak niður kinnina á henni, gruggugt af
augnblýantinum sem það hreif með sér.
„Svona, svona,“ tautaði ég.
Hún strauk tárið í burtu og ég þurfti að einbeita mér til að beygja ekki af
líka. Ég hugsaði um lambakjöt og rauðkál, kartöflur og sveppi. Ég var
svöng. Nóg hafði ég volað undanfarna daga þótt ég byrjaði ekki núna.
Ekki hafði ég fyrr lokað á eftir Áslaugu en hún bankaði aftur. „Æ,
fyrirgefðu vesenið á mér. Mér datt bara allt í einu eitt í hug.“
Úti var norðangjóla og Áslaug stakk höndunum inn í hempuermarnar svo
hún minnti á lítinn munk. „Hún Arna systir, ritstjóri á Fréttum, er alltaf að
leita að góðum blaðamönnum. Hún er hrifin af nýju og óreyndu fólki. Vill
fá að móta það sjálf. Gæti þetta ekki verið eitthvað fyrir þig?“
„Jú, jú, en er ekki búið að ráða í allar stöður fyrir sumarið?“
Ég leit á dagatalið á úrinu mínu. Það var 12. júní. „Ég gæti svo sem
alveg unnið bara í myndasafninu eða á símanum,“ bætti ég við.
„Nei, kláraðirðu ekki íslenskuna? Er það ekki rétt munað hjá mér?“
„Ég á eftir ritgerðina.“
„Hún Arna, litla systir mín, er svo sem ekki allra en mér skilst að hún sé
ágætis yfirmaður. Hún hefur allavega ekki enn sett neitt blað á hausinn og
það er nú meira en hægt er að segja um margan kallinn í þessum
blaðabransa.“
Einhvern tímann hafði það hvarflað að mér að það gæti verið gaman að
vera blaðamaður. Ekki bara þegar pabbi sat yfir Flosa á Mokka og hló ofan í
skeggið heldur þegar ég var tíu ára og bar út Dagblaðið fyrir Gubbu. Þegar
veðrið var vont átti ég það til að fara inn í stigagang við Barónsstíginn,
koma mér fyrir í tröppunum og lesa blaðið þar sem sagt var frá
Útsýnarkvöldum, Vilmundi og verðbólgunni. Þetta var fyrir tíma
flíspeysunnar og mér var alltaf kalt. Ekki þótti taka því að kaupa handa mér
góða úlpu því ég óx svo hratt. Þess í stað gekk ég í þunnum stökkum; eitt
árið rauðum, það næsta bláum, þannig gekk það til skiptis. Snjórinn hékk í
kleprum á húfunni minni og bráðnaði niður á gólfið. Ég komst upp á lag
með að fletta blaðinu með vettlinga á höndunum. Ég þorði ekki að taka þá
af mér af ótta við að gleyma þeim ef einhver kæmi að mér og ég þyrfti að
skjótast út. Mamma yrði vitlaus ef ég týndi einhverju. Dauðaþögn var í
húsinu og fólkið sem gekk hjá í kuldanum úti fyrir tók ekkert eftir mér þótt
ég væri í raun bara rétt hjá því. Þetta voru notalegar stundir. Skemmtilegast
fannst mér að lesa um börn sem voru með undarlegt ofnæmi og þurftu að
búa í plastkúlum. Foreldrar þeirra máttu ekki koma nálægt þeim og
hvítklæddir sérfræðingar með skrifblokkir á lofti fylgdust með þeim nótt og
dag milli þess sem blaðamenn og ljósmyndarar komu í heimsókn. Stundum
var líka sagt frá börnum með sjaldgæfa hrörnunarsjúkdóma. Þau voru
hrukkótt og sköllótt og sum gengu við staf. Þau litu út eins og agnarsmá
gamalmenni þar sem þau stóðu brosandi við hliðina á Andrési og Feitamúla
í Disney World. Af og til fann ég síðan spennandi fréttir um að upp hefði
komist um stórhættulega njósnara. Þeir áttu yfir höfði sér langa
fangelsisdóma eða þá að þeim var vísað úr landi, jafnvel í skiptum fyrir
aðra njósnara. Ég sá fyrir mér jakkafataklædda, vatnsgreidda menn með
gerviyfirskegg og svarta hanska að gramsa í skúffum á yfirgefnum
skrifstofum. Þeir höfðu alltaf vasaljós sem þeir gátu notað til að rota
næturvörðinn. Einu sinni sá ég sagt frá bandarískum hjónum sem höfðu selt
Rússum upplýsingar árum saman. Herra og frú Brownford horfðu hvort út
úr sinni myndinni í Dagblaðinu. Hann algjörlega sviplaus en háðskt bros lék
um varir konu hans, svona eins og hún vildi segja: „Að ykkur skuli ekki
hafa tekist að ná mér fyrr!“
Um leið og einhver birtist í stigaganginum spratt ég á fætur, flýtti mér að
stinga blöðunum í póstkassana og koma mér út. Hafi einhver furðað sig á
pollinum sem ég skildi eftir mig á gólfdúknum vissi ég aldrei af því.
„Þú hlýtur að geta skrifað,“ sagði Áslaug. „Ég skal tala við hana Örnu
systur. Sakar ekki að reyna.“
Nú hefði verið gott að geta leitað til pabba og spyrja hann ráða. Reyndar
vissi ég alveg hvað hann hefði sagt. „Gerðu bara það sem þér finnst rétt. Þá
fer allt vel.“ Þetta hafði hann notað undanfarin ár. Ágætis speki svo sem
þótt ég hefði oft viljað ítarlegri leiðbeiningar. Það rétta núna hlyti þá að vera
það sem mér þótti mest spennandi og mig langaði að reyna mig í
blaðamennskunni. Það fann ég.
Arna hringdi stundum í búðina. Frekar hranaleg í viðmóti. Allt öðruvísi
en systir hennar. Tvisvar hafði hún komið að versla en gætti sín þá á því að
Áslaug afgreiddi hana, örugglega til að fá afslátt. Arna er Dior-kona og lítur
ekki við neinu öðru. Aðrir viðskiptavinir þögnuðu um leið og hún kom í
ljósgráa mokkapelsinum inn í búðina og héldu niðri í sér andanum á meðan
hún talaði. Fannst mér. Kannski var það bara ég sem hélt niðri í mér
andanum. Það er eitthvað svo magnað að hitta augliti til auglitis fólk sem
maður hefur aðeins séð í sjónvarpinu og geta loks fundið af því lyktina. Ég
reyndi hvað ég gat að koma því fyrir mig hvaða ilmvatn hún notaði. Það er
kækur hjá mér, ég er bara ekki í rónni fyrr en ég kemst að því. Í fyrra skiptið
sem Arna kom var hún með Armani en í síðara skiptið varð ég að spyrja
Áslaugu. Hún reyndist hafa gefið Örnu prufu með Kenzo.
Þótt ég myndi ekki eftir því að hafa séð Örnu nokkurn tímann koma í
heimsókn á Karlagötuna hlaut Áslaugu að þykja vænt um hana litlu systur
sína. Venjulega hirðir hún nefnilega allar ilmvatnsprufurnar sjálf og notar
þær til að gusa út í loftið inni á klósetti. Höfugur ilmur af rannsóknarstofum
helstu ilmvatnsframleiðenda heimsins blandast saman við þyngri daun.
6
„KOMDU BARA OG hittu mig,“ sagði Arna í símann. „Hvenær hentar þér
best?“
Á bak við hana heyrðist fólk tala og farsímar hringja.
„Klukkan ellefu á morgun?“ stakk ég upp á. Það varð þögn og ég gat
ekki heyrt betur en konan væri farin að tala við einhvern annan. „Jú, skelltu
þessu bara inn. Ef þeir verða reiðir, þá það. Ég skal taka þann slag.“
Svo kom hún aftur í símann. „Klukkan ellefu segirðu. Fínt, sjáumst þá.
Ég verð hér.“
Það hafði tekið mig tvo og hálfan dag að ná sambandi við hana og
símtalið tók innan við mínútu. Það þýddi ekkert að skilja eftir skilaboð,
hafði símadaman sagt. „Þú verður bara að reyna aftur,“ ráðlagði hún í hvert
sinn sem ég hringdi og var fullglaðleg miðað við launataxta. En nú átti ég
loksins stefnumót við konuna sem aldrei virti mig viðlits í Þrúði. Klukkan
var farin að ganga tvö. Ég hafði vaknað seint og ekkert gert um morguninn
nema að setja fáein handklæði í vél. Pabbi hafði gefið mér þvottavél þegar
ég flutti að heiman og tekið af mér loforð um að láta mömmu og Gubbu
ekki vita. „Maður veit aldrei hverju það getur hrundið af stað,“ sagði hann
og blikkaði mig. Hann gaf mér líka brauðristina, örbylgjuofninn og hjálpaði
mér að kaupa tölvuna.
Gubba kom í heimsókn í sömu viku og ég flutti inn. Hana grunaði strax
eitthvað þegar hún sá hvað íbúðin var vel tækjum búin og vildi fá að vita
hvað hver gripur hefði kostað. Ég laug einhverju til og bætti við: „Þetta er
bara spurning um að spara.“
Systir mín pírði á mig augum og þetta pír sagði meira en mörg orð.
„Bara leggja fyrir,“ bætti ég við.
Hún sást ekki aftur og mér var alveg sama. Hún talaði alltaf við mig í
yfirheyrslustíl. „Hvar keyptirðu þetta?“ „Hvað kostaði það?“ „Valdirðu
þetta sjálf?“ „Hvað ertu að borga í leigu?“ „Og hefurðu efni á því?“ „Ertu
með svona gott kaup eða hvað?“
Ég reyndi að komast upp með að svara sem allra minnstu. Mesta orkan í
samskiptum mínum við annað fólk fer hvort eð er oftast í það að reyna að
látast ekki hafa tekið eftir vitleysunni sem veltur upp úr því.
Gubba hafði sjaldnast frá neinu skemmtilegu að segja nema þá helst af
Gunnari Birni. Eitthvað sniðugt sem hafði hrokkið upp úr honum en þá
áttaði hún sig ekkert á því að ég hafði líka verið viðstödd eða jafnvel sagt
henni söguna sjálf. Ég hitti Gunnar Birni alltaf reglulega því um tíma fór ég
með hann á Hornið fyrsta laugardag í mánuði. Þessi stefnumót duttu því
miður upp fyrir eftir að pabbi veiktist.
Mér leiddist og ákvað að slá á þráðinn til Kristínar.
„Hæ, hvað ertu að gera?“
„Eiginlega ekki neitt. Ég er enn á bömmer yfir einkunnunum úr
vorprófunum. Þær eru alveg búnar að eyðileggja fyrir mér þetta vor. Ég hef
engu nennt. Hef ekki einu sinni kíkt í búðir,“ sagði Kristín mæðulega og
saug upp í nefið.
„Getum við samt ekki hist?“
„Jú, jú, er eitthvað að?“
„Nei, nei, ég er bara að fara í starfsviðtal á morgun og langaði til að segja
þér frá því.“
„Nú? Hvað ertu að fara að gera?“
Ég sagði Kristínu frá því að ég ætti fund með Örnu á morgun en gætti
mín á því að segja ekki of mikið. Það væri auðvitað enn ekki víst hvort ég
fengi vinnuna.
„Þú hefur ekkert skrifað,“ var það fyrsta sem Kristín sagði. „Ekki síðan
þú varst í skóla,“ bætti hún við.
„Nei, svo sem ekki en það er ekki þar með sagt að ég geti það ekki.“
„Samt ... ég þekkti einu sinni strák sem vann hjá henni Örnu og honum
fannst hún alveg ömurleg. Hún var svo frek og ósanngjörn að hann hætti.“
„Er ekki alltaf talað illa um sterkar og áberandi konur?“
„Nei, það er bara klisja. Leiðinleg kona verður nefnilega ekkert
skemmtilegri þótt hún sé ofboðslega sterk og áberandi.“
„Takk fyrir hvatninguna,“ sagði ég og sá eftir að hafa hringt.
„Nei, ég meinti það ekki svona. Það eru bara eitthvað svo neikvæðir
straumar í kringum mig núna. Fyrirgefðu. Kannski er það bara lægðin. Ekki
vera fúl. Hittumst. Sólon Íslandus eftir klukkutíma.“
Ég gat ekki sagt annað en já. Kristín er eiginlega eina vinkona mín. Við
kynntumst síðasta veturinn okkar í MR . Vorum hvor í sínum bekk og
höfðum báðar verið plataðar til að taka þátt í Herranótt. Kristín sem
hvíslari, ég saumaði búninga. Okkur fannst báðum leikararnir ömurlegir og
leikritið enn hallærislegra. Hvíslið tók hins vegar öllu fram og handavinnan
á búningunum hefði fleytt mér inn á hvaða saumastofu sem var. Þarna var
ég alvarlega farin að velta fyrir mér fatahönnunarnámi í París eða bara
Köben en sá áhugi hafði rjátlast af mér þegar að frumsýningu kom.
Væminn og vondur höfundur, Brjánn Hermannsson, hafði verið fenginn
til að skrifa leikrit fyrir skólann. Þar notaði hann tækifærið og fékk útrás
fyrir uppsafnað skúffelsi út í fyrri eiginkonu sína sem hafði haft af honum
íbúðina, skólayfirvöld MR sem ekki höfðu veitt honum inngöngu í
menntastofnunina hátt í þremur áratugum áður og nígerískan pennavin sem
hann hafði átt í æsku en sá hætti snögglega að skrifa honum án þess að gefa
upp neina sérstaka ástæðu.
Hæfileikaríkustu skólasystkini mín gerðu sér upp dimmar raddir, tóku
upp handahreyfingar sem jafnvel Morfís hefði hafnað og komu sér upp
þreytulegu göngulagi og talanda sem þeim fannst hljóta að vera nógu
fullorðinslegur til að geta skilað áratugalöngu svekkelsi Brjáns.
Leikstjórinn, ung leikkona sem lesið hafði inn á bleiuauglýsingu og stýrt 17.
júnískemmtun í Kópavogi, reyndi að útskýra fyrir okkur hvað skáldið var
að fara. „Þetta er um það hvað það er erfitt að vera listamaður og hvernig
sífellt er reynt að bregða fæti fyrir listrænt frelsi hans. Og síðan auðvitað
hvernig listamaðurinn notar reynslu sína til að skapa listaverk. Er það ekki,
Brjánn?“
Dökk hrúga í myrkasta horninu í Tjarnarbíói kinkaði kolli. Brjánn sagði
ekki orð fyrr en í frumsýningarpartýinu þegar hann fann sig tilknúinn að
reyna að komast í bólið með Kristínu og tókst það. „Eigum við ekki aðeins
að skoða okkur um?“ dugði. Þau urðu eitt undir plakati af Betty Blue í
unglingaherbergi litlu systur stráksins sem lék nígeríska pennavininn. Ég sat
í stórum leðurstól og hlustaði á skólafélaga mína deila um það hvort
geisladiskurinn ætti nokkurn tímann eftir að taka við af vínylnum þegar
Kristín kom fram, rjóð í vöngum með fallegt bros. Það hefur alltaf farið
henni vel að vera nýriðin. „Jæja, eigum við ekki að fara á bari?“ spurði hún.
„Er nokkuð meira um að vera hér?“
Á leiðinni niður á Gauk þetta kvöld fyrir sex árum sagði Kristín mér
sögur af síðasta fylliríi og það var ótrúlega gaman að hlusta á hana. Ég man
enn í hverju hún var. Þröngum gallabuxum og stuttri, ljósgrænni, fleginni
peysu sem fór vel við græn augun. Um hálsinn var hún með litla gullkeðju
sem einhver af exunum hafði gefið henni. Eyrnalokkunum, stórum
hringjum, hafði hún gleymt undir kúlulampanum á náttborði systur
nígeríska pennavinarins. Hann afhenti henni þá í enskutíma fáeinum dögum
síðar. Sítt, dökkt hárið stóð fram undan hettunni á stóra hermannajakkanum
sem hún gekk alltaf í á þessum tíma. Það snjóaði.
Kristín var enn alltaf að segja mér sögur af síðasta fylliríi en það var bara
ekki alveg jafngaman. Í hvert skipti sem ég hitti hana stóð ég mig að því að
bíða eftir sama fiðringnum og hún gaf mér fyrstu árin sem við þekktumst.
Hann er löngu horfinn og ég hefði betur sleppt því að hitta hana þarna á
Sólon Íslandus. Hún var mætt á undan mér, enda bjó hún á Lokastíg. Stutt
að fara. Hún hafði sest við gluggann sem snýr að Bankastrætinu og var
niðursokkin í að bera á sig varalit þegar ég kom inn. Var með kaffibolla
fyrir framan sig sem ég sá hana aldrei dreypa á meðan ég staldraði þarna
við. „Rosalega hlýtur að vera mikið af bakteríum í þessu. Það eru meiri
bakteríur í munninum á manni en klobbanum,“ sagði Kristín og virti fyrir
sér varalitinn.
„Kannski þínum,“ svaraði ég og pantaði mér kaffi.
„Eða ekki.“
„Já, já, ég sagði líka bara svona.“
„Ætlarðu í alvörunni að verða blaðamaður?“ spurði Kristín og rótaði eftir
einhverju í töskunni sinni. Dró loks upp tyggjópakka og stakk upp í sig
töflu án þess að bjóða mér. Hún var með annað ilmvatn en venjulega. Þetta
var að minnsta kosti ekki musk-ið úr Body Shop.
„Já, mig langar til að prófa það,“ sagði ég, teygði mig eftir handleggnum
á henni og hnusaði af úlnliðnum.
„Dolce Vita. Dior,“ sagði hún. „Þarf maður ekki að hafa fylgst rosalega
vel með til að geta allt í einu orðið blaðamaður?“
„Ég set mig bara inn í málin sem ég á að fjalla um. Hvernig fara allir
hinir blaðamennirnir að þessu? Fæddust þeir svona rosalega klárir að þeir
þurfa ekkert að lesa sér til eða spyrjast aðeins fyrir áður en þeir byrja að
skrifa?“
„Eða ekki.“
Henni fannst greinilega fáránlegt að ég skyldi ætla að gerast blaðamaður
sem gerði mig aðeins enn ákveðnari í því. Hún benti mér á strák sem
nikkaði til hennar af öðru borði, sagðist hafa verið með honum hálfum
mánuði áður. Hann var svo misheppnaður að ég ætlaði ekki að trúa því.
Baugar, vömb og fingur í eyra. Allur pakkinn. Kristín sá það á mér og bætti
við: „Hann er svo sem ekki mikið fyrir mann að sjá en það er traust undir
honum.“
Ég virtist örugglega ekkert sérstaklega sannfærð því hún bætti við: „Það
er auðvitað alltaf eitthvað gott við hvern og einn og mest spennandi að finna
út hvað það er.“
Jú, jú, eflaust hefur hver nokkuð til síns ágætis en að þurfa endilega að
hafa fólk innan í sér til að komast að því hvað það er hefur mér alltaf þótt of
langt gengið. Svo þögðum við þangað til Kristín fór að tala um Háskólann,
kafla sem ég hafði fyrir löngu lokið auk þess sem ég þekkti ekki kennarana
eða hina nemendurna í dönskudeildinni og vissi því aldrei um hvern hún var
að tala. Einu sinni vorum við á sama stað í lífinu og við ætluðum okkur
báðar eitthvað. Vissum ekki alveg hvað en eitthvað var það. Við eyddum
heilu sumri í að ræða það, sumrinu eftir stúdentinn. Þá fórum við saman í
sólarlandaferð til Grikklands. Hvítur sandur. Heiður himinn. Og ljóshærði
barþjónninn Alex. Hann sagðist vera sænskur en þegar brennandi heitt kaffi
helltist yfir hann blótaði hann á þýsku. Hárið var örugglega aflitað og
líklega var hann nær fertugu en þrítugu eins og hann hélt fram en við
leyfðum manninum bara að ljúga okkur og hella okkur fullar. Ég svaf hjá
honum á þriðja degi. Kristín á fimmta. Ég aftur á áttunda. Held að Kristín
hafi ekki gert aðra atlögu að honum eftir það. Skil annars ekki hvað ég var
að væflast upp í rúm þessa manns. Hann var sífellt með hendurnar þar sem
þær áttu ekki að vera og alltaf eins og hann væri að reyna að losa stíflu úr
vaski. Kannski var sænski barþjónninn Alex eftir allt saman bara þýskur
pípulagningamaður.
Við komum allslausar heim. Draslinu okkar var rænt þegar við
ösnuðumst til að fara niður á strönd með bakpokana, bara svona rétt til að
kveðja Alex. Við kysstumst á munninn öll þrjú í einu og sögðumst hlakka til
að sjást aftur. Síðan skutluðumst við Kristín aðeins niður á strönd, hentum
bakpokunum í sandinn, fórum úr sandölunum og óðum aðeins út í sjó.
Aðallega vegna þess að við vissum að Alex var að fylgjast með okkur.
Gusuðum aðeins hvor á aðra og skræktum, svona til að við festumst honum
betur í minni þar til við kæmum næst. Við vorum alveg sannfærðar um að
við kæmum aftur næsta sumar til að heilsa upp á hann. Við brettum upp
stuttbuxurnar til að athuga hvor okkar gæti vaðið lengra án þess að bleyta
sig í klofinu. Komumst aldrei að því þar sem mér varð litið að landi og tók
þá eftir því að bakpokarnir voru horfnir. Barnum hafði líka verið lokað og
þar svaraði aldrei nokkur maður hvernig sem við bönkuðum. Það var of
stutt í flug til að tæki því að kalla á lögregluna og varla sérstök verðmæti í
stuttermabolum og bikiníum hvort eð var. Sem betur fer voru farmiðarnir og
VISA -kortin í veskjum sem við höfðum um hálsinn og því komumst við í
burtu. Það liðu þrjár vikur þar til við gátum hlegið að þessu en þá hlógum
við líka lengi.
Dágóða stund horfði ég á Kristínu tala án þess að geta einbeitt mér að
því sem hún var að segja. Hvernig er hægt að sakna einhvers sem er ennþá
hjá manni? Síðan þagnaði hún loksins og saman þögðum við þangað til ég
sagðist þurfa að ná í búð fyrir lokun. Kristín ákvað að vera eftir. Hér áður
fyrr hefði henni þótt sjálfsagt að koma með mér. Við hefðum eldað, leigt
okkur spólu og talað síðan svo lengi saman að hún hefði örugglega ákveðið
að gista. Eða ekki.
7
ÉG VAR LÁTIN bíða frammi hjá símadömunni í 20 mínútur. Öðru hvoru ýtti
hún á takka í skiptiborðinu, studdi með hinni hendinni við heyrnartólin,
hallaði undir flatt svolitla stund, leit á mig og sagði kunnuglegri röddu:
„Það er enn á tali.“ Ég kinkaði kurteislega kolli eins og mér þætti algjörlega
sjálfsagt að eyða tíma mínum í þessa bið. Úti var sólskin en samt kalt miðað
við árstíma og ekki bætti rokið úr skák. Ég hafði hrokkið upp við það um
morguninn að ruslatunnurnar feyktust til í garðinum, eins gott reyndar því
það lá við að ég svæfi yfir mig.
Þegar símadaman hleypti mér loks inn fyrir biðu mín þar um það bil
fjórtán forvitnir blaðamenn sem litu strax upp og horfðu á eftir mér arka að
skrifstofu Örnu. Það var óþægilegt og eitt andartak sá ég eftir því að hafa
komið. Samt, ég hafði engu að tapa. Áslaug ætlaði ekki að ráða í starfið mitt
fyrr en ég hefði fundið annað.
„Kom inn,“ heyrðist kallað, ég dró andann djúpt og andaði frá mér um
leið og ég opnaði.
„Varstu búin að panta tíma?“ sagði Arna og leit upp frá umfangslitlu
fartölvunni sinni. Það var ekkert annað á flennistóru skrifborðinu en einn
sími og tveir farsímar sem nálguðust það að vera jafnstórir, eða jafnlitlir, og
haltukjafti-brjóstsykurinn sem fyllti upp í munnholið á mér lungann af
uppvaxtarárunum. Hún hlaut að hafa keypt þá úti í löndum. Gegnt borðinu
voru tveir stólar með ljósu leðuráklæði. Í bókahillunum fór meira fyrir
möppum en bókum og uppi á vegg var svarthvít ljósmynd af Örnu
gleiðbrosandi og einhverjum álíka kátum eldri manni. „To Arnie from
Benson,“ stóð skrifað þvert yfir myndina með gylltum stöfum.
Ég ákvað að láta ekki þessa undarlegu kveðju hafa áhrif á mig, heldur
nota bara sömu tækni á konuna og ég nota á unga fólkið sem kemur í
búðina og kann ekki að bjóða góðan daginn. Brydda upp á sýnikennslu.
„Sæl, ég er Oddfríður. Við töluðum saman í síma í gær. Viltu að ég komi
seinna?“ spurði ég til að vera dipló. Í raun langaði mig alls ekki til að koma
neitt seinna, heldur ljúka þessu af núna.
Arna ætlaði að segja eitthvað en þá hringdi annar farsíminn. Hún slökkti
á honum án þess að svara en þá glumdi skrifstofusíminn. „Ég verð að taka
þetta,“ sagði hún við mig og reif upp tólið. „Nei, ég tek ekki símann næsta
klukkutímann. Ég er með manneskju hjá mér.“ Hún lagði á.
Klukkutíma? Myndi þetta taka svo langan tíma? Ég hafði lítið sofið um
nóttina af eintómu stressi. Í stað þess að bylta mér hafði ég lesið bók sem
Björn Hafsteinn hafði skilið eftir þar sem SS -maður rakti minningar sínar,
þrælmerkileg lesning. Þeir áttu nú ekki allir sjö dagana sæla, þéssir kallar
sem urðu að murka lífið úr öllum gyðingunum. Það gat aldeilis tekið á
taugarnar. Þegar ég var búin að fá nóg af gasklefum fór ég á fætur og setti á
mig góðan hreinsimaska. Þá var Mogginn kominn og ég tók hann með mér
inn í rúm að lesa á meðan maskinn var að virka. Ég sofnaði út frá grein um
vaxandi ólgu í Kosovo og náði að hvílast í þrjá tíma áður en skarkalinn í
ruslatunnunum vakti mig. Ég veit ekki hvort þriggja tíma maskinn sem í
raun á aðeins að vera á andlitinu í tíu mínútur hefur haft þessi áhrif en mér
fannst ég líta bara hreint ágætlega út.
Arna bauð mér sæti og ég tyllti mér í annan leðurstólinn.
„Þú ert eldri en ég hélt,“ sagði hún.
„Ég er 25,“ sagði ég og velti því fyrir mér hvort ég ætti að skammast mín
fyrir það.
Umferðin við Hverfisgötuna var ærandi og Arna stóð upp til að loka
glugganum. „Það er ofboðslega gott að vera hér niðri í bæ í miðri
hringiðunni en stundum fær maður nóg af öllum látunum.“
Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá hana án þess að hún væri í
mokkapelsinum. Hún var grennri en ég hélt og ef ekki hefði verið fyrir
hælaháu, ljósbrúnu leðurstígvélin hefði hún varla náð upp í stormjárnið.
Samt hafði mér alltaf fundist hún svo hávaxin. Hún var í grárri, fleginni
skyrtu og í þröngum, svörtum buxum sem náðu niður á miðja kálfa.
„Flott snið,“ sagði ég og þegar hún virtist ekki átta sig á því hvað ég átti
við bætti ég við: „Á buxunum.“
„Já, þetta er voða mikið að koma.“ Hún settist aftur, færði litlu tölvuna
til hliðar, spennti greipar ofan á borðplötunni, brosti snöggt og sagði: „Jæja,
svo þig langar að verða blaðamaður hér á Fréttum? Það gerist ekkert einn,
tveir og þrír.“
Svarti danskennarinn í Fame -þáttunum skaust upp í hugann, atriðið í
upphafi hvers þáttar þar sem hún ber prikinu ofan í gólfið og sagði: „You
want fame but fame costs and right here is where you start paying.“
„Ég hef aðra hugmynd,“ sagði Arna, „og ég held að þú yrðir fín í það.“
Glugginn feyktist upp og strætó heyrðist þjóta hvínandi framhjá.
„Það hefur ekkert verið gert við þetta hús svo lengi. Það þarf að fá
einhvern í gluggana,“ sagði Arna og nennti greinilega ekki að standa upp
aftur. Hún lét sér nægja að hækka aðeins róminn.
„Lestu Fréttir?“
„Já, já.“
„Já, já? Lestu blaðið eða lestu það ekki?“
„Jú, ég les blaðið,“ sagði ég, settist upp í stólnum og rétti úr mér. Um að
gera að reyna að standa sig.
„Aðalkeppinautur okkar er Vikuskammturinn. Hann kemur út á
föstudögum og skemmir fyrir okkur helgarsöluna,“ sagði Arna og allt í einu
var eins og henni fyndist hún hafa sagt of mikið. „Ekki oft! Ekki misskilja
mig en það hefur samt gerst.“
Hún hallaði sér aftur í stólnum og skellti stígvéláklæddum leggjunum
upp á borðið. Verðmiðinn var enn á öðrum sólanum. Þau voru ekkert
sérstaklega dýr. Nafn búðarinnar var líka á verðmiðanum og stígvélin höfðu
bara verið keypt í Kringlunni. Ég sem hélt að svona kona hlyti að kaupa öll
sín föt í útlöndum.
„Lestu Vikuskammtinn?“ spurði Arna.
Ég ákvað að svara í heilum setningum eins og ég væri í munnlegu
tungumálaprófi og horfa stíft í augun á henni.
„Nei, það er varla að ég hnjóti um hann en ég las hann samt þegar þeir
voru að skrifa um svindlið í fiskeldinu.“ Þetta var rétt svar því í fyrsta skipti
brosti Arna.
„Þekkirðu einhvern sem vinnur þar?“
„Nei, ég þekki engan á Vikuskammtinum.“
„Ég skal koma mér beint að efninu. Ég veit að það er ýmislegt í gangi
hjá Vikuskammtinum. Þeir eru undirmannaðir og þá vantar blaðamann. Ég
vil að þú ráðir þig þar í vinnu og ...“
Kristín hafði rétt fyrir sér. Ég hafði ekkert að gera í þetta starf. Auðvitað
hefði ég átt að mæta með þykka möppu með öllu því sem ég hafði fengið
birt eftir mig en ég hafði ekki einu sinni skrifað í skólablaðið í MR . Ekkert
eftir nema að pilla mig niður eftir til Áslaugar og segja henni að ég hefði
bara ekki alveg verið með sjálfri mér þegar ég ákvað að gerast blaðamaður.
Ég ætti hvergi betur heima en innan um gloss og gerviaugnahár.
„Af hverju ætti Vikuskammturinn að ráða mig ef þú vilt það ekki?“ hafði
ég mig þó í að spyrja.
„Nei, hlustaðu nú á mig. Þú ræður þig á Vikuskammtinn, vinnur þar út
sumarið og skrifar grein um þá reynslu.“ Arna hikaði aðeins. „Sem verður
birt hér í Fréttum.“
Ég skildi ekki hvað hún var að fara og líklega hefur það verið
auðsjáanlegt.
„Oddfríður, ég er að ráða þig en bara á þennan hátt.“
„Hvað á síðan að koma fram í þessari grein?“
Fæturnir flugu af borðinu. Arna stóð upp, settist út í gluggakistu og
krosslagði handleggina á brjósti sér. „Segðu frá því hvernig það er að vera
ung kona, byrjandi í blaðamennsku, á svona vikublaði eins og
Vikuskammturinn er. Hvernig íslensk blaðamennska horfir við þér.“
„Og mætti ég ekki segja neinum á Vikuskammtinum frá þessari grein? Er
það málið?“
„Nei, þá væri allt unnið fyrir gýg. Hvað finnst þér um þetta?“
Ég velti málinu fyrir mér. Eiginlega fann ég ekki fyrir neinum áhuga.
Mikið sem ég hefði viljað geta ráðfært mig við pabba um þetta.
„Mér finnst óþægilegt að þurfa að sigla undir fölsku flaggi. Má þetta?
Svindla sér svona inn í hóp og skrifa síðan um hann?“
„Svindla sér? Það er fulldjúpt í árinni tekið. Hvernig heldurðu að
sjálfsævisögur hafi hingað til verið skrifaðar? Þetta fólk var ekki alltaf með
segulbandstæki á lofti. Þú átt þína reynslu og mátt vinna úr henni bara eins
og hver annar. Áslaug systir mín sagði mér að það væri rosalega mikið í þig
spunnið. Þú værir skarpgreind og skemmtileg. Ég þekki fullt af stelpum sem
geta skrifað en samt valdi ég þig. Þú ert líka óþekkt í blaðamennsku og það
myndi enginn gruna þig. Síðan hef ég líka séð til þín í búðinni. Þú kemur
rosalega vel fyrir.“
Mér hitnaði í framan af öllu hrósinu. Ég er ekki meiri bógur en það. Og
mig langaði til að standa undir því sem hún ætlaðist til af mér. Ég er heldur
ekkert meiri bógur en það. „Þú getur hringt í mig hvenær sem þú vilt ef þér
liggur eitthvað á hjarta,“ hélt Arna áfram. „Ég verð þér algjörlega
innanhandar við þessa grein og ef þetta virkar einhverra hluta vegna ekki,
ekkert gerist sem spennandi er að skrifa um, þá bara verður að hafa það.“
„Hvað á nákvæmlega að koma fram í þessari grein? Hvað á hún að vera
löng?“
„Tvær opnur í helgarblaðinu ásamt myndum væri bara mjög fínt.“
„Bíddu, á ég að taka þær myndir? Hvernig útskýri ég það fyrir hinum
blaðamönnunum?“
„Nei, nei, þú þarft ekkert að hugsa um myndirnar. Skrifaðu bara um allt
það sem hendir á svona blaði, hvernig þú ert ráðin, hvernig spurningum þú
þarft að svara, hvernig strákarnir taka þér og viðmælendurnir, hvað rætt er
um í kaffipásunum. Þú þarft að hafa nef fyrir skemmtilegum atvikum.“
„Hvað ætli ég þurfi að vinna þarna lengi?“
„Bara út sumarið. Varla meira. Þetta verða svona ...“ Arna horfði hugsi út
í loftið, „játningar sumarafleysingastúlku. Já, það gæti meira að segja bara
hentað vel sem fyrirsögn á greinina. Kannski svolítið löng en við ræðum
það bara þegar þar að kemur.“
Hún gekk aftur að skrifborðinu sínu, opnaði á því skúffu, tók þaðan
pappírskilju og skellti á borðið. „Hefurðu heyrt um þessa?“
Á kápunni var mynd af brosandi konu með dökkt liðað hár ýtandi á
undan sér innkaupakerru fullri af eplum. Titill bókarinnar, Mrs. Orton’s
Misery , var skrifaður með silfurlituðu, upphleyptu letri. „Aldrei séð þessa
bók áður,“ sagði ég.
„Þetta er Fay Orton, höfundur bókarinnar,“ útskýrði Arna.
Frú Orton reyndist vera bandarísk blaðakona sem skrifað hafði heila bók
um hvernig það er að vera venjuleg kona í venjulegu úthverfi Seattle. Áður
en hún tók til við bókarskrifin hafði hún ekki gert mikið meira um dagana
en að skrifa reglulega pistla í bæjarblaðið og taka stöku vaktir á
elliheimilinu. Hún var orðin 28 ára þegar hún fékk hugmyndina að bókinni.
Þar sem Fay, sem þá hét Fay Halston, var enn ólofuð varð hún að byrja á
því að þræða barina þar til hún fann venjulegan mann á venjulegum
launum, hárgreiðslumanninn Ethan Orton. Þau eignuðust tvö venjuleg börn
og þar með var vísitölufjölskyldan komin. Frú Orton gat byrjað að glósa hjá
sér. Í Mrs. Ortonís Misery lýsir hún því hvað það er erfitt að draga fram lífið
á launum hárgreiðslumanns, hvernig heilbrigðiskerfið horfir við ungri
móður og hvað afgreiðslufólkið á næstu bensínstöð átti það til að vera
dónalegt við hana þegar börnunum varð það á að tæta niður úr hillunum.
„Fólk vill aðallega lesa um sjálft sig og þetta reyndist reynsluheimur
margra bandarískra húsmæðra. Bókin sló í gegn,“ sagði Arna og bætti því
við að litlu eftir útkomuna hefði Ethan óskað eftir skilnaði við Fay. Áður
krafði hann hana þó um vænan skerf af höfundarlaununum fyrir bókina.
Honum fannst hann vera nógu fyrirferðarmikill í bókinni til að eiga rétt á
umbun. Hann vissi náttúrlega ekki að hjónaband hans væri aðeins hluti af
plotti. Málið var enn rekið fyrir bandarískum dómstólum.
„Þú þarft auðvitað ekki að halda nákvæma dagbók á meðan þú semur
greinina en í hvert sinn sem eitthvað markvert gerist glósarðu það hjá þér.
Þú semur hana bara jafnóðum. Skrifaðu hana heima hjá þér en ekki í
vinnunni ef einhver skyldi geta komist í tölvuna þína þar. Ég skal borga þér
vel fyrir þessa grein. Hún á eftir að vekja rosalega athygli og síðan verðurðu
ráðin hingað á blaðið. Þú átt aldeilis eftir að byrja ferilinn með bravúr.“
Þetta er auðvitað bara spurning um að gera rétt. Þá fer allt vel. Mig
langaði til að sjá svipinn á Kristínu þegar ég segði henni að ég væri hætt í
búðinni og orðin blaðamaður. Ég sagði já.
8
SORGARDÖGUNUM VAR LOKIÐ . Kominn tími til að taka sér tak og hætta þessu
rugli. Ég ákvað að gefa skít í plönturnar á Fornhaganum og taka þess í stað
til heima hjá mér. Morgunblaðsstaflinn sem safnast hafði fyrir í eldhúsinu
rataði í ruslið eftir að ég hafði kippt minningargreinunum um pabba út. Átta
vina hans höfðu stungið niður penna auk eins kennara okkar Gubbu úr
Hagaskóla. Sigurlaug Markúsdóttir enskukennari hafði fundið sig tilknúna
að rifja upp „ómetanlegar stundir sem ég hef átt með þeim Magdalenu og
Gunnari en þau voru ein þessara hjóna sem gerðu það þess virði að vera
kennari. Dætur þeirra, Guðbjörg og Oddfríður, báru foreldrum sínum fagurt
vitni. Það sópaði jafnan að Gunnari á foreldrafundum. Honum tókst jafnan
að finna skynsamlega lausn á því sem undir hann var borið. Ekki lét
Magdalena vanheilsu sína aftra sér þegar umönnun dætra hennar var annars
vegar.“
Það var nefnilega það. Kennararnir höfðu viðstöðulaust spurt mig um
líðan mömmu og ég svaraði alltaf því sama: „Bara vel.“ Ég skildi ekki
hvernig þeir vissu að hún þurfti að taka lyf sem gerðu hana tóma til
augnanna. Mætti hún þannig á foreldrafundi? Kannski talaði mamma bara
um það hvað henni fannst gott að taka þessi lyf í stað þess að tala um
frammistöðu mína. Það skipti kannski engu. Umsögnin var alltaf sú sama.
Ég stóð mig alltaf vel. Gubba líka, svona framan af. Hún þótti samt
voðalega skrítinn krakki. Hún var alltaf með einhverja undarlega kæki í
andlitinu. Blikkaði augunum eða gretti sig. Í Afríku hefði hún verið talin
andsetin og töfralæknir fenginn til að reka út úr henni vitleysuna. Á
Fornhaganum var þetta hins vegar bara látið eiga sig.
Það var líka látið eiga sig að um tveggja ára skeið fór hún allt upp í 15
sinnum á klósettið á kvöldin. Hún virtist aldrei alveg geta lokið sér af.
Langt fram undir miðnætti heyrði ég hana snara sér fram úr og tipla fram á
bað. Hún var svo þreytt við morgunverðarborðið að ég beið alltaf eftir því
að höfuðið á henni dytti ofan í súrmjólkina.
Einn morguninn gerðist það. Gubba hrökk við þegar hún lenti ofan í
kaldri súrmjólkinni, saup hveljur af undrun og horfði skelfd í kringum sig.
Súrmjólkin hafði slest framan á peysuna hennar, yfir eldhúsborðið og meira
að segja gardínurnar höfðu ekki sloppið. Ég sprakk úr hlátri og pabbi kom
aðvífandi. Hann samgladdist mér ekki þennan dag. Eldrauður í framan greip
hann í handlegginn á systur minni og mér og hristi okkur argandi til. Asinn
var svo mikill að hann mátti auðvitað ekkert vera að því að spyrja okkur
hvað hefði gerst. Hann bara argaði einhverja vitleysu og skók okkur eins og
hverja aðra kokkteilhristara. Allt átti þetta eflaust að hafa langvinn
uppeldisleg áhrif. En hann var kominn á sextugsaldur og hafði ekkert þol í
þetta og því kom auðvitað fyrr eða síðar að því að hann hætti og rauk út
með blótsyrði á vör. Við Gubba stóðum skelkaðar eftir og veltum því fyrir
okkur hvorri okkar þetta hefði verið að kenna. Mér sem hló eða henni sem
hafði orðið það á að sofna ofan í súrmjólkina vegna þess að hún gat ekki
hvílst almennilega á næturnar fyrir þvaglátum. Vissulega hafði einhver
brotið af sér en refsingin var sjaldnast í neinu samhengi við glæpinn sem
oftast var bara sá að vera til. Þetta var svolítið líkt stemmningunni í
Treblinka. Maður lærði fljótt að gæta sín á því að gera ekki neitt sem komið
gæti vörðunum úr jafnvægi.
Mamma hélt sig til hlés á þessum stundum, þóttist vera að raða
handklæðum inni á baði eða huga að blómunum inni í stofu. Um leið og
hvinurinn hljóðnaði óð hún á vettvang og skammaði okkur fyrir að hafa
komið pabba í uppnám. „Hann er búinn að vera að vinna svo mikið. Skiljið
þið það ekki?“ hvæsti hún. Það var eflaust auðveldara en að hætta sér í að
benda eiginmanninum á að svona hömluleysi við smábörn væri
óviðeigandi. Ég skammaðist mín ósegjanlega fyrir pabba minn þegar þetta
gerðist og sagði engum frá þessu. Það dugði þó skammt því Gréta í
kjallaranum heyrði auðvitað í honum þegar mest gekk á.
„Var verið að skamma ykkur?“ sönglaði hún á eftir mér úti á götu. Aldrei
heyrðist múkk úr íbúðinni hennar nema þegar Litla ljót var sett á fóninn. Ég
þóttist ekki heyra í henni. Hvað gat hún svo sem sagt sem átti ekki einu
sinni pabba?
Yfir kvöldmatnum var eins og enginn hefði nokkurn tímann dottið ofan í
súrmjólkurskál og enginn hlegið, hvað þá öskrað. Pabbi söng og trallaði og
kallaði okkur elskurnar sínar. Gubba hélt sér til hlés en ég notaði tækifærið
og fékk pabba til að fara yfir landafræðiverkefni með mér.
Úr eldhúsglugganum sá ég yfir til Erlu vinkonu sem þar bjó með
foreldrum sínum og eldri bróður. Ég velti því fyrir mér hvort pabbi hennar,
stilltur og ljúfur verkfræðingur, gæti nokkurn tímann látið svona eins og
brjálæðingur. Þetta var of fín fjölskylda til þess. Hjá þeim hétu hnepptar
peysur ekki hnepptar peysur, heldur gollur. Ég var búin að hugsa um það
lengi áður en ég þorði loksins að spyrja Erlu hvort pabbi hennar hefði
einhvern tímann flengt hana. Við vorum að spila á spil og hlusta á Kötlu
Maríu syngja um Prúðuleikarana. Ég var dauðhrædd um að Erla myndi
hlæja að mér en hún gerði það ekki.
„Já, auðvitað, en bara einu sinni,“ svaraði hún, blés út úr sér stórri gulri
tyggjókúlu og skipaði mér að gera. Málið var útrætt og mér leið pínulítið
betur. Ég var líka fegin að Erla skyldi ekki vilja vita af hverju ég hefði
spurt. Mamma vildi ekki að ég væri að blaðra neitt um hana og pabba í
annarra manna húsum.
Erla átti ömmu sem kom í heimsókn næstum á hverjum degi með tösku
fulla af bláum ópal og bismarckbrjóstsykri. Sú hefði nú látið í sér heyra
hefði hún orðið vör við alvarlegar misþyrmingar á barnabörnunum. Ég
reyndi að ímynda mér hvað amma mín, hefði ég átt eina slíka, hefði gert ef
hún birtist allt í einu heima hjá okkur þegar pabbi væri í kasti. Ég ímyndaði
mér búlduleitu konuna á ljósmyndunum lesa yfir hausamótunum á
foreldrum mínum sem lofuðu bót og betrun.
Mamma þoldi ekki Erlu og setti sig sjaldnast úr færi að setja út á hana.
„Ertu að reyna að vera eins og hún vinkona þín núna?“ átti hún til að spyrja
mig hvöss þegar henni fannst hún greina breytingu á röddinni, fasinu eða á
hvaða hraða ég deplaði augunum. Þegar hún var í þessum ham reyndi ég að
komast hjá því að þurfa að tala við hana en ef ég þurfti þess nauðsynlega
bunaði ég erindinu dauðstressuð út úr mér.
Fljótlega áttaði ég mig á því að ég þurfti ekki annað en að gera grín að
foreldrum Erlu til að kæta móður mína. Þeir sluppu nefnilega heldur ekki
undan glöggskyggni mömmu. Henni fannst óumræðilega gaman að dylgja
um það að „það væri nú ekki allt eins og það ætti að vera hjá þeirri
fjölskyldu“. Ég var níu ára og hafði ekki græna glóru um hvað hún var að
tala. Og veit ekki enn. Samt slapp ég ekki við að hlusta. Mamma vildi að
mér þætti allir vera hálfvitar nema hún. Þetta takmarkaða umburðarlyndi
hennar gagnvart öðru fólki varð ekki til þess að í kringum hana safnaðist
stór vinahópur. Bara fáeinar vinkonur sem hún hafði kynnst á
unglingsárum.
Erla er viðskiptafræðingur hjá Kaupþingi og skrifar stundum greinar í
blöðin, aðallega um samgöngumál. Hún hefur einu sinni tekið þátt í
prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum og situr í nokkrum nefndum. Ég veit líka
að hún býr í raðhúsi úti á Nesi ásamt eiginmanni og tveimur börnum. Þau
hjónin voru í fjölmiðlum í hittifyrra þegar þau eignuðust fyrsta barn ársins.
Það er mér algjörlega ógleymanlegt því þetta var örugglega í fyrsta skipti
sem hin hamingjusama móðir birtist ekki fölleit á skjánum með tagl í feitu
hárinu í óklæðilegum sjúkrahúsfötum. Nei, útlitið á Erlu, sem þarna var
titluð Móðir, benti frekar til þess að hún hefði verið að koma úr hressilegri
gönguferð en að hún hefði alið barn fimm tímum áður. Hún var í fallegri
peysu, glaðleg og rjóð í kinnum og það var eins og hún hefði alltaf búist við
því að þurfa að mæta með soninn í sjónvarpsviðtal því hún hafði haft vit á
að vera nýbúin að láta bæði plokka og lita á sér augabrúnirnar. Til að byrja
með voru eiginmaðurinn, titlaður Faðir, og sonurinn ungi líka í mynd en
smám saman varð andlitið á Erlu sífellt stærra og loks tók það yfir allan
skjáinn.
Eldri dóttir foreldra minna, einstæð móðir að nálgast þrítugt, er enn í
námi auk þess sem hún býr í foreldrahúsum en sú yngri hefur nýhafið störf
sem blaðamaður á fjölmiðli sem flestir landsmenn kalla skítablað. Kannski
köstuðum við systurnar glæsilegum tækifærum á glæ. Of góðu vanar, eins
og foreldrar okkar áttu til að segja. Annað en þau. Mamma missti afa sinn
og ömmu þegar hún var nýorðin 22 ára og pabbi hafði komið einn til
Reykjavíkur rétt 16 ára að aldri til að fara í MR . Til að verða eitthvað.
„Hann átti ekki foreldra sem hjálpuðu honum eins og þið.“
„Hann varð að vinna með skólanum, ólíkt ykkur.“
„Hann var oft svangur, ekki eins og þið sem úðið bara hugsunarlaust í
ykkur úr ísskápnum.“
Þarna var Gubba farin að éta á sig spikið sem hún býr enn að. Eftir skóla
sat hún inni í eldhúsi yfir skólabókunum og raðaði í sig ristuðu brauði með
sultu. Ég var hins vegar orðin matvönd. Mig langaði í eitthvað allt annað en
var til í ísskápnum án þess að vita beint hvað það var.
Mér fannst gaman heima hjá Erlu. Þar var allt svo rólegt. Mamma hennar
bauð upp á heimalagaðan ís og allir horfðu saman á sjónvarpið á kvöldin.
Það var notalegt. Einu sinni gerði mamman mér þó þann grikk að krefjast
þess að ég tæki til með Erlu áður en ég færi heim til mín. Klukkan var orðin
níu og við höfðum verið að horfa á skemmtiþátt í sjónvarpinu. Óttinn sem
greip mig við að koma of seint heim hefur konunni eflaust þótt gjörsamlega
óskiljanlegur. Ég sá allt í svörtum deplum á meðan ég jós Barbie-dóti ofan í
kassa og tyllti eineygðum böngsum upp í hillur. Einhvern veginn tókst þetta
þó að lokum og ég hljóp heim í einum spretti. Við tóku öskur og viðeigandi
hristingur. Twist and Shout. Það var eins og ég hefði valdið foreldrum
mínum ægilegum skaða með þessum seinagangi. Sigað skattinum á þá,
orðið mér úti um banvæna bólusótt sem engu myndi eira eða ort um þá
níðvísu sem ætti eftir að berast um allt land.
Pabbi hefði eflaust frekar hlaupið sjálfviljugur á háspennugirðingu en að
láta Gunnar Birni sæta sömu meðferð. Þegar hann varð uppvís að óþekkt
útskýrði afi hans fyrir honum afleiðingar hennar af stóískri ró. Jafnvel þegar
drengurinn, þá fimm ára gamall, lét innihald töskunnar hennar móður sinnar
vaða ofan í klósettið af því hún hafði bannað honum að fara út klappaði
pabbi bara á kollinn á honum og sagði: „Svona gerir maður ekki.“ Gubba
dró soninn inn í herbergið hans og sló hann utan undir. Pabbi talaði ekki við
frumburðinn í heila viku. Allt í einu var bara ekki farið svona með börn á
hans heimili og hann var djúpt særður. Gubba talaði um að fara að leigja
sem hefði kannski ekki verið svo vitlaust fyrir jafnaldraða konu en mamma
fékk hana ofan af því.
Og talandi um Gunnar Birni. Barnið var látið senda mér póstkort frá
Mallorka með fréttum af hitastigi, sundlaugum og ísáti. Hótelíbúðin var
með „garðsýni“ og svo risastór að þau höfðu öll sérherbergi. Hann skrifaði
ekki bara nafnið sitt undir, heldur líka móður sinnar og ömmu. Gunnar
Birnir vill öllum vel. Hann lætur sem hann heyri ekkert þegar kastast í
kekki í fjölskyldunni, heldur slakar á andlitsvöðvunum og horfir
svipbrigðalaus út í loftið. Ómögulegt að vita hvað hann er að hugsa. Eða
hvort hann hugsar eitthvað yfirhöfuð.
9
ÞEIR SÁTU FJÓRIR saman í hring á skrifborðsstólum úti á miðju gólfi í
grænmáluðum sal og einn þeirra hafði orðið: „Lífið er eins og pulsupakki,
Villi minn. Maður veit aldrei hvenær maður fær plástur.“
Hinir hristust heil lifandis ósköp af hlátri. „Þú ert nú algjört met,“ sagði
einn þeirra þegar hann hafði jafnað sig og sló á axlirnar á fyndna
manninum. Þetta var Jóhann, ritstjórinn. Hann var að nálgast fimmtugt og
var örmjór fyrir utan afar óklæðilega vömb sem þrýstist fram í köflóttu
Vinnufatabúðarskyrtuna. Hann var nýbúinn að láta broddaklippa sig og
minnti á lítinn strák sem senda átti út á land í smalamennsku upp á
rófupoka.
„Góðan dag,“ sagði ég.
„Góðan daginn, ég heiti Tómas,“ sagði ljóshærður piltur og leit
óttasleginn á ritstjórann eins og hann hefði misst út úr sér dónaskap. Hann
var í bláum stuttermabol með mynd af mótorhjóli og grænni adidas-treyju
yfir.
„Jæja, bara mætt,“ sagði Jóhann og strauk yfir hárbroddana. „Fáðu þér
sæti.“
Ég hafði komið á föstudaginn og kynnt mig fyrir honum. Hann geymdi
hendurnar djúpt ofan í buxnavösunum þegar ég rétti aðra mína fram. Ég
velti því fyrir mér hvort ég hefði nú örugglega gert rétt en það var of seint
að hætta við. Eftir að ég hafði bunað út úr mér erindinu spurði hann mig
hvort ég kynni að skrifa og ég játaði því auðvitað.
„Og þú ert tilbúin að leggja hart að þér?“ spurði hann þá og ég játaði
aftur.
„Mættu þá bara á mánudaginn og reyndu að vera stundvís. Við vorum
einmitt að missa hana Júllu sem hefur aðallega skrifað viðtöl og greinar
fyrir unga fólkið. Þú ættir að geta komið í staðinn fyrir hana. Og mundu að
hér er ekkert staðið upp og farið heim til sín klukkan fimm ef einhverjum
verkefnum er enn ólokið.“
Það var varla að hann nennti að skotra til mín augum. Samtalið hafði
ekki tekið meira en þrjár mínútur, svo fljótur var hann að ákveða sig. Það
hlaut að bráðvanta fólk.
„Hvenær byrjið þið?“
„Eldsnemma,“ sagði Jóhann, álíka nákvæmur og völva og ég nennti ekki
að ganga á eftir svari.
Sorg dregur úr eyðslu. Ég hafði ekki keypt mér nýja flík vikum saman og
lenti í svolitlum vanda við að finna eitthvað tilhlýðilegt að vera í þennan
fyrsta dag í nýju vinnunni. Helst fannst mér ég eiga að mæta með stór, svört
sólgleraugu og slæðu bundna undir höku í ætt við alvörunjósnakvendi en
þar sem lítið fór fyrir slæðueign á heimilinu féll það um sjálft sig. Mig
langaði ekki að fara í neitt af því sem ég átti auk þess sem ég hafði heldur
ekki verið neitt dugleg að fara með í hreinsun. Loks tókst mér þó að rata á
sæmilegar gallabuxur og grænan stuttermabol með glaðlegu mynstri framan
á, keyptan í Köben. Síðan gerði ég sem allra minnst við hárið á mér. Sá
reyndar eftir því að hafa ekki notað frídagana til að láta særa það. Þegar mér
varð litið í spegilinn á leiðinni út tók ég bara eftir áhyggjusvipnum. Hjartað
sló líka eins og ég væri nýbúin að gera eitthvað skelfilegt af mér. Samt var
ég enn ekki svo mikið sem komin út úr dyrunum. Ég fór aftur inn í stofu,
settist og reyndi að róa mig. Það tókst ekki svo ég ákvað bara að koma mér
af stað, hætta að hugsa um Örnu og leynigreinina og einbeita mér að
vinnunni minni á Vikuskammtinum. Fyrsta skrefið hlyti að vera að falla inn
í hópinn og ég myndi hvort sem væri ekki byrja á greininni fyrr en eftir að
ég væri búin að koma mér almennilega fyrir.
Nú sýndi klukkan á veggnum tíu og það lét undarlega hátt í
sekúnduvísinum. Ég byrjaði að toga lúinn skrifborðsstól með biluð hjól að
hálfhringnum sem strákarnir höfðu myndað gegnt Jóhanni sem sat í
leðurstól með háu baki.
„Láttu þennan vera, væna,“ sagði sá sem slegið hafði ritstjórann á öxlina
og reis á fætur. Hann var lágvaxinn og þrekinn og með frekar sítt hár sem
hann virtist ekki hafa þvegið lengi. Af honum lagði ramma lykt sem ég kom
ekki fyrir mig í svipinn. Félagar hans litu til skiptis á strákinn og góssið í
hendi mér. Þar fór það. Þeir höfðu komist að því að ég var úlfur í
sauðargæru.
„Nei, bara, þetta er minn stóll,“ sagði sá síðhærði og settist aftur. Þá
áttaði ég mig á lyktinni. Þetta var einn af þessum nýju japönsku
herrailmum. Hann heitir einhverju stuttu nafni. Mér hefur aldrei tekist að
selja neitt af honum.
„Láttu ekki svona, Steini,“ bað dökkhærður strákur í svörtum
jakkafötum. „Leyfum dömunni að setjast og kynnum okkur fyrir henni.“
Ég fékk mér sæti á stólnum dýrmæta og jakkafatamaðurinn hélt áfram:
„Ég heiti Villi. Tómas er búinn að kynna sig og Steini er svo þessi sem
heldur að hann eigi stólinn sem þú situr í.“
„Hæ, ég heiti Oddfríður,“ sagði ég ánægð méð að vera talin dama.
Stóllinn var ekkert sérstaklega þægilegur og alls ekki þess virði að rífast
um.
„Steini minn, ef auglýsingasalan fer ekki að glæðast gæti bara vel verið
að þú fengir þennan stól upp í launin þín. Kannski áttu hann bara nú þegar,“
sagði Villi glottandi og sveiflaði Mont Blanc-penna.
„Ekkert svona!“ sagði Jóhann hvass. „Þetta er sem sagt stelpan sem
byrjar hjá okkur í dag. Hún heitir, eins og hún sagði, Oddfríður. Jæja, hvað
ætlið þið að vinna fyrir næsta blað? Steini, þú hefðir getað skrifað um nýja
dópið ef Fréttir hefðu ekki skúbbað þig. Hvað varstu búinn að vita af þessu
lengi? Þrjár vikur?“
Steini kinkaði kolli.
„Já, þetta gerist ef efnið er ekki skrifað strax,“ sagði Jóhann. „Arna er
ekkert að bíða með hlutina. Hún lætur blaðamennina sína bara hrúga
einhverju upp á augabragði til að hægt sé að koma upplýsingunum strax á
framfæri.“
„Já, við hefðum unnið þetta svo miklu betur,“ tautaði Steini og strauk
yfir fitugt hárið.
„Þess vegna er það nú einmitt svo grátlegt að hafa verið skúbbaðir. Er
þetta ekki í þriðja sinn sem það gerist á stuttum tíma? Við fáum góðar
hugmyndir en lesum þær síðan bara í Fréttum. Þetta er ekki hægt. Í alvöru
talað, strákar.“
„Ég veit eiginlega ekki hvernig hægt er að útskýra þetta en mér finnst
bara eins og Arna viti stundum hvað fram fer hérna á ritstjórnarfundunum.
Hún er farin að skúbba okkur helst til of oft svo það sé beint eðlilegt,“ sagði
Villi.
Ég fékk herping í magann um leið og ég heyrði nafn Örnu og einsetti
mér að stara mjög stíft ofan í gólfdúkinn.
„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef heyrt,“ sagði Jóhann og horfði
hneykslaður á strákana hvern af öðrum. „Jæja, tölum um eitthvað annað.
Steini, þú ætlaðir að ná í dómsmálaráðherra. Hvernig fór það?“
„Æ, hann hefur bara ekkert svarað bréfinu frá mér og ritarinn ...“ svaraði
Steini og óf fingri um lubbann á sér.
„Nei, þá hringirðu heim til hans og talar við hann sjálfan. Þetta fólk er í
símaskrá Alþingis. Það er ekkert merkilegra en það. Hvað langar þig svo til
að skrifa um?“ spurði Jóhann og sneri sér að mér.
„Fæ ég ekki bara verkefni?“
Þögnin draup af samstarfsmönnum mínum til þess eins að orð ritstjórans
fengju meira vægi: „Blaðamaður sem liggur ekkert á hjarta er ekki
blaðamaður, Oddfríður.“
„Ég ætla þá bara aðeins að glugga í þetta blað og athuga svona hver
efnistökin eru,“ sagði ég og tók tveggja vikna gamalt eintak af
Vikuskammtinum upp af gólfinu.
„Já, ekki það að þú hafir ekki haft helgina í það,“ hvæsti Jóhann og
horfði þungbúinn á mig. Ég horfði á hann nokkra stund og lyfti síðan
annarri augabrúninni eins og ég hafði lært af Demi Moore í einhverri
myndinni. Jóhann leit ekki undan. Hann hallaði sér aftur í stólnum og
spennti greipar yfir vömbina. Glott læddist fram á varir hans. Ég lét brúnina
síga og grúfði mig ofan í blaðið í kjöltu mér.
„Ég hafði hugsað mér að þú sæir svona um unga fólkið. Ferðu ekki
svolítið út á lífið?“
Þetta var hvorki staður né stund til að neita því og ég kinkaði kolli.
Græni bolurinn minn hlaut að hafa sannfært hann. Af honum stafaði fjörleg
diskóstemmning.
„Á hvaða staði ferðu?“
„Bara alla. Það er eiginlega sama hvar sprettur upp búlla, ég er þar,“
sagði ég og vonaði að maðurinn héldi að ástæðan fyrir því að ég lá ekki í
Þjóðarbókhlöðunni um helgina og ljósritaði snilldina í Vikuskammtinum
væri sú að ég hefði verið að flengjast á milli skemmtistaða fram undir
hádegi.
„Gott, taktu viðtöl við fólkið sem sækir staðina. Skrifaðu um það hvaða
týpa sækir hvern stað. Við þurfum að auka lestur hjá ungu fólki, sér í lagi
ungum konum. Síðan geturðu tekið við sjónvarpsdagskránni af honum
Tómasi. Hann sýnir þér hvernig þetta er gert og getur þá snúið sér að
íþróttunum. Það er alltaf einhver kverúlantinn að hringja hingað inn og láta
vita að við séum með úrsérgengnar íþróttafréttir. Eru þá allir komnir með
verkefni?“
Hringurinn leystist upp og Steini hrifsaði undan mér stólinn á sama
sekúndubroti og ég spennti lærvöðvana til að lyfta mér upp af honum. Ef
þetta voru ekki handboltatilþrif var ég illa svikin.
„Sýndu stelpunni hvar hún á að sitja,“ sagði Jóhann við Steina og hann
vísaði mér þungbúinn á svip að borði úti við glugga í salnum. Ég reyndi að
komast hjá því að traðka á dagblöðunum sem virtist hafa verið stráð af
handahófi yfir gólfin.
„Kanntu ekki á pésé?“ spurði Steini, kveikti á tölvunni og þeytti
toppinum frá andlitinu.
„Jú, ég nota pésé heima,“ svaraði ég.
„Passvördið er sexmaskine, svona eins og í dönsku,“ sagði hann og
endurtók dönskukunnáttuna nokkrum sinnum með ýktum hreim. Ætli ég
hafi virst nógu glaðleg þegar hann sagði það í fyrsta skiptið? Drengurinn
Steini bætti við: „Júllu hefur fundist þetta fyndið. Kannski vegna þess að
maður getur bæði hamrað á tölvu og síðan getur maður líka hamrað
kærustuna eða kærastann. Kannski Júlla hafi verið að hugsa um það þegar
hún setti passvördið inn.“
„Já, það er magnað að ná slíkum tökum á tungumálinu,“ sagði ég og
hlustaði á sóninn í símanum til að athuga hvort hann virkaði ekki örugglega.
„Það er núll út. Vantar þig eitthvað fleira? Ókei, mig langar ekki að heyra
það. Ef það er eitthvað skaltu bara spyrja Villa,“ sagði Steini og settist við
borðið sitt hinum megin í salnum. Þar sat íþróttaálfurinn Tómas líka með
stórt plakat af Pamelu Anderson uppi á vegg. Villi birtist með rjúkandi
kaffibolla og settist við borðið gegnt mínu. Hann lagði Mont Blanc-pennann
á borðið.
„Má ég skoða?“ spurði ég, teygði mig í gripinn og tók af honum hettuna.
Þetta reyndist vera blekpenni.
„Notarðu blekpenna?“ spurði ég og reyndi að skrifa nafnið mitt fallega á
auð blöð sem lágu á víð og dreif á borðinu mínu.
„Lindarpenna,“ sagði hann og sendi mér þýðingarmikið augnaráð.
Mig langaði til að spyrja hann hvort á þessu tvennu væri munur en lagði
ekki í það.
„Það er alltaf gott trikk að draga þennan penna upp þegar maður tekur
viðtöl við fólk yfir fimmtugu. Það spyr mig svo oft út í hann eða dettur ofan
í sögur af kynnum sínum af lindarpennum. Annars er kaffivélin frammi í
eldhúsi, fyrstu dyr til hægri á ganginum,“ sagði hann og benti.
„Hvenær koma hinir?“ spurði ég.
„Hvaða hinir?“
„Hinir blaðamennirnir?“
„Við erum bara fjögur; ég, þú, Steini og Tómas, og svo skrifar Jóhann
líka stundum. Einstaka sinnum kaupum við efni af frílansfólki en það gerist
nú ekki oft núorðið. Ekki eftir samdráttinn.“
„Verða þá ekki allir að skrifa frekar mikið?“
„Jú, reyndar, en ekki hafa áhyggjur. Þú ert bara að byrja.“
En ég hafði áhyggjur. Í maganum á mér var klumpur og mér var
undarlega heitt. Ég fór úr kápunni og lagði hana á stólbakið.
Villi var byrjaður að hamra á lyklaborðið og ég öfundaði hann af því að
vita nákvæmlega hvað hann ætti að gera.
Það var langt síðan ég hafði farið út að skemmta mér. Satt best að segja
hafði ég ekki farið út á lífið síðan einhvern tímann skömmu eftir jól. Þá datt
ég allsvakalega í það með Kristínu vinkonu. Varð svo veik að ég hef ekkert
smakkað það síðan. Geimið byrjaði heima hjá mér en síðan fórum við á
Café List þar sem við hittum káta krakka sem voru með okkur í menntó,
markaðsfræðing, sópransöngkonu og arkitekt. Þau urðu enn kátari eftir að
ég byrjaði að splæsa á línuna, örlát eins og jólasveinninn. Meira mundi ég
varla en hef heyrt út undan mér að ég hafi verið skemmtileg og enn hafa
engar kærur borist. Ég hringdi í Kristínu.
„Hvar ertu?“ spurði hún.
„Ég var að byrja að vinna á Vikuskammtinum.“
„Vikuskammtinum? Ég hélt að þú ætlaðir að vinna hjá Fréttum.“
„Ég hef þá bara ekki talað nógu skýrt. Heyrðu, ég á að skrifa um það
hvaða týpur sækja hvern skemmtistað. Getur þú ekki sagt mér eitthvað um
það?“
Ég lækkaði röddina svo Villi heyrði síður í mér þegar ég bætti við: „Það
er svolítið langt síðan ég brá mér síðast af bæ og ég man varla neitt eftir því
hvert við fórum.“
„Þegar ég fer út reyni ég bara að kíkja út um allt. Það er náttúrlega
skemmtilegast að flakka á milli staða, bara svona til að sjá sem flesta.“
Það var engin hjálp í henni en ég hafði enga hugmynd um í hvern annan
ég gæti hringt. „Hei, mér dettur eitt í hug. Geturðu ekki bara spurt
skemmtanastjórana á hverjum stað hvernig fólk sækir staðina þeirra?“
spurði Kristín.
Auðvitað, ég hefði svei mér getað sparað mér þessa hringingu. Villi
hringdi í fólk og spurði spurninga eins og: „Hvernig finnst þér útspil
Davíðs?“ „Hverjar heldurðu að afleiðingarnar verði fyrir
ríkisstjórnarflokkana í næstu kosningum?“ „Var hægt að sjá þetta fyrir?“
Hann lagði tólið á og hamaðist við að skrá upplýsingarnar.
„Hverjir eru nú aftur helstu skemmtanastjórarnir núna?“ spurði ég
kasúal. Án þess að líta af tölvuskjánum nefndi hann nöfn sem mér fannst ég
kannast við.
„Hvar fæ ég aftur númerin hjá þeim?“
„Steini á öll símanúmer,“ var svarið.
Ég átti ekki annan kost en að tölta yfir til óvinarins.
„Hvað ætlarðu að gera við þau?“ spurði Steini og pírði á mig augun.
„Ég var nú bara svona að velta því fyrir mér að nota þau. Hringja til
dæmis í þetta fólk.“
„Þú lætur þá ekki vita hvar þú fékkst númerin.“
Ég lofaði því og tók hátíðlega við gulum post-it-miða með
leyndardómunum. „Já, og heyrðu. Það er fatahengi inn af eldhúsinu,“ bætti
hann við eins og kápan á stólbakinu væri meiri sjónmengun en hann gæti
þolað.
Svo rabbaði ég við skemmtanastjórana um fólkið sem sótti staðina þeirra
og komst að því að maður þarf ekki að vita neitt til að geta verið
blaðamaður. Óhugnanlegt.
Á hádegi næsta dag var greinin tilbúin. Fimm skemmtanastjórar höfðu
dregið upp fimm erkitýpur. Ég las textann þrisvar yfir áður en ég prentaði
hann út og fór með yfir til Jóhanns þar sem hann sat á skrifstofunni sinni og
spilaði tölvuleik.
„Bíddu aðeins,“ sagði hann og lauk við leikinn með nokkrum
krampakenndum handahreyfingum. Hann virtist ekki hafa náð fullnægjandi
árangri.
„Hrumpf,“ sagði hann um leið og hann hrifsaði af mér greinina. Hann
strauk yfir broddaklippt höfuðið á meðan hann las. Svona eins og hann væri
að reyna að róa sig yfir þessum æsandi upplýsingum. Kannski hafði hann
átt góðan afa sem strauk einmitt svona yfir kollinn á honum þegar hann var
lítill strákur. Þetta er róandi hreyfing. Það sótti að mér svefn. Ég geispaði.
„Ætlarðu að hafa þetta svona?“ spurði Jóhann og ég greip fyrir munninn
á mér til að kæfa geispann.
„Svona hvernig?“
„Án fyrirsagnar og inngangs.“
„Nei, mig langaði bara til að láta þig lesa greinina yfir áður en ég lyki
endanlega við hana. Ertu sáttur við þetta?“
„Já, já, svona í heildina.“
„Finnst þér sem sagt eitthvað að þessu?“
„Nei, nei, ekki þannig en finndu á þetta fyrirsögn. Það er betra. Svo þarf
að senda ljósmyndara á þessa staði og taka myndir af fólkinu sem
lýsingarnar eiga við. Hér er númerið hjá ljósmyndaranum. Hann heitir
Snorri Geir.“
„Má ég láta hann vita hver lét mig hafa númerið ef hann spyr?“
„Ha?“ sagði Jóhann og breitt bros færðist yfir þungbúið andlitið.
„Ekkert,“ sagði ég og fór inn í sal. Strákarnir voru á bak og burt. Ég var
ein í salnum fyrir utan rauðhærðu umbrotskonuna sem sat við stóra tölvu úti
í horni. Ég hafði enn ekki heyrt hana segja neitt. Kannski hafði hún lifað
viðburðasnauðu lífi. Nú var rétti tíminn fyrir vettvangsleiðangur.
Pamela deplaði ekki auga þótt ég væflaðist í kringum borðið hans
Tómasar. Á tölvuskjánum var mynd af honum inni í hvítmáluðu eldhúsi
með lítið barn á handleggnum. Sami augnsvipur en samt virtist barnið ekki
ætla að erfa fíngerðan munnsvipinn. Engin mynd af konu, kannski var
Pamela móðir barnsins. Þegar ég hreyfði músina leystist myndin upp og
viðtal birtist við einhvern Engilbert. Fótboltastrák af Skaganum. Fyrirsögn:
Stefni hærra. Á skjámyndinni hans Steina stóð bara „Prinsinn“. Engar
myndir á borðinu, bara krassblokk og bók um ríka Íslendinga. Villa
skjámynd var heiðblá, engin mynstur, bara blámi. Svona eins og blek úr
lindarpenna. Á borðinu hans var bók sem hét Dish og þrjú eintök af
tímaritinu Vanity Fair. Einhverjar skýrslur lágu þar líka. Uppi á vegg voru
tvær ljósmyndir, önnur af Davíð, hin af Jóhönnu Sig. Ég tók upp eitt
tímaritanna. Forsíðumyndin var af Brad Pitt og ég fletti upp á viðtalinu við
hann til að sjá fleiri myndir. Áður en ég komst svo langt birtist mér
heilsíðumynd af Fay Orton. Innkaupakarfan horfin. Þess í stað teygði hún úr
sér í breiðum, fannhvítum sófa og lét handleggina hvíla á rauðum
flauelspúðum. Stóra brosið var líka gufað upp. Nú horfði hún lokkandi í
myndavélina. Ég renndi augunum yfir viðtalið sem fylgdi. Blaðamaðurinn
hélt varla vatni yfir Mrs. Ortonís Misery og sagðist hafa lesið bókina
þrisvar. Svo langt komst ég áður en rödd Jóhanns gall bak við mig: „Ertu
búin að hringja í Snorra Geir?“
Mér brá svo að ég missti tímaritið úr höndunum á mér. Eins og ég hefði
verið staðin að bjölluati.
„Nei, ég er að fara að hringja í hann. Heyrðu, fyrst ég er búin með
skemmtistaðagreinina, hvernig væri að ég tæki síðuviðtal við stelpuna sem
var að opna nýju búðina í Hafnarstræti. Hún saumar öll fötin sjálf. Fólk er
alveg vitlaust í svona fatahönnuði núna og þessi lærði í Japan.“
„Hvernig fréttirðu af henni?“ spurði Jóhann, bara nokkuð áhugasamur.
„Las um hana í Mogganum.“
„Nei, góða, við birtum ekki viðtöl við fólk sem er nýbúið að koma í
Morgunblaðinu. Komdu með eitthvað nýtt. Nýló er að opna sýningu um
næstu helgi. Hringdu þangað og taktu viðtal við listamanninn. Hann er frá
Mexíkó eða eitthvað svoleiðis.“
Maðurinn reyndist vera Dani. Honum fannst gaman á Íslandi, íslenskt
kvenfólk æðislegt og hann ætlaði að sofa hjá að minnsta kosti þremur.
Verkin hans voru máluð með olíulitum og sýndu gamlar, einfættar,
berrassaðar konur með kórónur.
Þegar síminn hans Snorra Geirs hætti að vera á tali lofaði hann að taka
myndir af fólki úti að skemmta sér. Nýfengnir kollegar mínir stikuðu inn í
salinn.
„Þú komst ekki með?“ spurði Villi.
„Hvert?“
„Á Subway. Við borðum oft saman þar í hádeginu. Fínn staður.“
Ég bað hann um að láta mig vita þegar þeir færu næst og hann lofaði því.
Ég var orðin svöng og ákvað að snara mér út í sjoppu. Daginn áður hafði ég
gleymt að borða. Lagði ekki í að taka mér matartíma fyrst ég hafði mætt
svona seint. Vissulega hafði ég tekið eftir því að strákarnir létu sig hverfa en
hélt bara að þeir hefðu mikilvægum erindum að gegna úti í bæ.
Ef ég ætti sjoppu myndi ég ekki láta hana heita Texas Snackbar. Hvað
sem er nema það. Ég myndi heldur ekki hafa útvarpið í gangi þegar það
spilar „Dansað uppi á dekki“. Óhreinindin á gólfinu gætu svo sem alveg
verið eitthvað svipað og tíðkast á meðaldekki en hér dansaði enginn. Kona
hékk í spilakassa eins og líf hennar lægi við og maður át pylsu. Lauklyktin
olli mér velgju og ég bað um kók og prins póló. Gat ekki að því gert en
stundum langaði mig bara ekki í neitt annað jafnvel þótt ég vissi að þessi
matseðill gæti valdið mér beinbrotum eftir fáeina áratugi.
„Ertu að vinna hérna nálægt?“ spurði pylsumaðurinn og reyndist skarta
hori í nös. Auk þess var hann svo ófríður að halda mátti að hann hefði verið
föndraður af klaufalegum krakka.
„Já,“ sagði ég og reyndi að horfa í augun á honum án þess að sjá horið.
Maðurinn var frekar samþjappaður í framan svo það tókst ekki.
„Hvar?“ spurði hann og ég þóttist skoða forsíður tímaritanna á veggnum
á meðan ég svaraði.
„Það er óvandaður pési,“ sagði maðurinn.
„Af hverju segirðu það?“
„Þetta er bara skítablað.“
„En það voru þeir sem þorðu að birta fréttina af svindlinu í fiskeldinu.“
„Hvað með það? Þeir veltu sér upp úr því vikum saman. Að lokum voru
allir farnir að vorkenna svindlurunum og fordæma blaðið. Var ekki líka
algjörlega ástæðulaust að kalla grey manninn sem stóð fyrir öllu þessu
svikahrapp á forsíðunni?“
Ég yppti öxlum. Mundi ekki betur en þessi fyrirsögn hefði verið innan
gæsalappa. Ég fann klink í kápuvasanum og rétti afgreiðsludömunni.
„Þetta verður ekki langlíft blað. Ef ég væri þú færi ég heldur á
Moggann,“ hélt maðurinn áfram.
„Ef ég væri þú myndi ég snýta mér,“ sagði ég.
Ég átti varla nokkra peninga lengur. Þessar tvær vikur sem ég hafði ekki
mætt í Þrúði höfðu sett strik í reikninginn. Ég bankaði tvö högg á dyr
framkvæmdastjórans og stakk höfðinu því næst inn. Lítill, þybbinn maður
sat og taláði í símann og bandaði mér í burtu. Á hurðinni stóð nafnið Lárus
Orri Finnsson og undir því L.O.F . Ég horfði á flúraða stafina þangað til ég
heyrði manninn leggja á og æpa: „Já!“ Þá opnaði ég dyrnar aftur og tyllti
mér á stól fyrir framan hann.
„Sæll, ég heiti Oddfríður Gunnarsdóttir og var að byrja í gær.“
„Ég vissi nú af því,“ sagði Lárus og strauk yfir ennistoppinn. Hann var
með tvískipt gleraugu sem gerðu augnaráðið undirfurðulegt.
„Við þurfum að semja um laun.“
„Það er ekkert að semja um. Þú ferð á byrjunarlaun
Blaðamannafélagsins. Þannig er það bara. Þú verður líka að athuga að þú
ert ekki með BA -próf, eða svo sagði Jóhann mér. Ekki að það hefði miklu
breytt.“
Ég bjóst við einhverju stappi en þetta gekk aldeilis fljótt fyrir sig.
„Frábært,“ sagði ég. „Eigum við ekki að takast í hendur? Eða eitthvað.“
„Alveg eins,“ sagði maðurinn og rétti mér þvala hönd. „Varstu ekki að
vinna í einhverri búð? Held að Jóhann hafi sagt mér það líka.“
„Jú, ég vann í snyrtivörubúð í tvö ár.“
Plink! sagði tölvan hans. Lárus Orri gat ekki hlustað lengur. Hann benti
mér á að þagna með því að lyfta litlum og feitum vísifingri. „Hér voru að
berast áríðandi skilaboð,“ sagði hann síðan eins og fréttamaður í beinni og
sneri sér því næst að tölvupóstinum. Nærveru minnar var ekki óskað lengur.
Spennandi líf sem sumir fá að lifa. Þannig leið mér að minnsta kosti í
fyrsta skipti sem strákarnir buðu rhér mér með á Subway. Klukkan tólf
sagði Steini: „Jæja, strákar.“ Þöglir tóku hinir jakkana sína af stólbökum,
borðum eða gólfinu, klæddu sig í þá og örkuðu út eins og þeir væru þrír
fílar að leggja af stað í leiðangur. Þennan dag voru fílarnir fjórir því
öðlingurinn Tómas missti út úr sér: „Kemurðu ekki með?“ og leit stressaður
á Steina og Villa.
„Komdu,“ sagði Villi og Steini virtist hreint ekkert sérstaklega
mótfallinn því að ég hlypi við fót á eftir þeim, stæði síðan á bak við þá í
röðinni, þyldi upp pöntunina mína á meðan þeir fóru upp með bakkana sína
og settist síðan við borðið þeirra. Og þó, Steini hafði ekki lengur pláss á
bekknum fyrir flösuskreytta jakkann sinn og lagði hann dæsandi í kjöltuna á
sér þegar ég birtist. Svo þræluðum við þegjandi í okkur samlokum.
„Jæja, segðu okkur nú svolítið frá sjálfri þér,“ sagði Villi loks.
Nú reið á að láta ekki of mikið uppi. „Hvað viltu vita?“
„Hvaðan ertu?“
„Vesturbænum. Bý núna í Norðurmýrinni.“
„Hverra manna ertu?“
„Mamma mín er húsmóðir óg pabbi er lög ... var lögfræðingur. Hann er
nýdáinn. En mamma þín, Villi, hvað gerir hún?“
„Hún spilar á óbó í Sinfó, nei, andskotinn.“ Hann hafði dýft
jakkaerminni ofan í sinnepsslettu á borðinu og réðst nú á hana með
vatnssósa servíettu að vopni. Þessi staður bjóst ekki við jafnprúðbúnum
matargestum og honum.
Steini tók við: „Jóhann sagði mér að þú hefðir verið í íslensku. Varstu að
klára bara núna í vor?“
„Nei, ég er ekki enn útskrifuð. Ég hef verið að vinna í snyrtivöruverslun
undanfarin ár.“
Það vakti ekki upp neinar spurningar og fyrr en varði hafði athygli
strákanna beinst að öðru. „Hei,“ sagði Tómas. „Ég sá í einhverjum
sjónvarpsþætti í fyrra að Reykjavík væri nýja London. Muniði þegar Þorgils
Óttar og Kristján Ara voru í handboltanum? Þá var alltaf sagt að við værum
bara B-þjóð og yrðum aldrei neitt annað. Við erum orðin A-þjóð.“
Villi og Steini horfðu á hann dágóða stund.
„Það var reyndar í fyrra,“ bætti Tómas við.
„Þú sagðir það,“ sagði Steini sem enn hafði ekki fengið að vita nóg um
mig. „Hvað ertu gömul ef ég má spyrja?“
„Ég er 25, en þið?“
Steini og Villi voru báðir 35 ára en Tómas var þremur árum eldri en ég.
Jafngamall Gubbu. Villi spurði mig hvernig ég kynni við Jóhann. Gat verið
gildra.
„Mér finnst hann bara alveg ágætur,“ svaraði ég varfærnislega. „Ég
þekki hann reyndar ekki neitt svakalega vel.“
„Hann er svolítið sérstakur og missir stundum út úr sér undarlega hluti.
Sumt hálfskrítið svona,“ sagði Tómas og stakk upp í sig paprikubita. „Hann
er eiginlega svolítið líkur Eric Cantona. Furðulegt hvað sá maður hefur
misst út úr sér.“
„Hann er samt voða fínn,“ sagði Steini.
„Já, ég var ekki að segja neitt annað,“ flýtti Tómas sér að segja.
„Hann Jóhann er bara nýskilinn og það vesen allt saman fór ekkert
svakalega vel í hann,“ sagði Steini og lækkaði róminn. „Það er samt eitt svo
sérstakt við hann Jóa. Sama hvað hann virkar nú oft hryssingslegur og, já,
ég segi það bara, ömurlegur, þá er hann samt góður við strákana sína. Hann
er rosalega góður pabbi. Ekki satt, strákar?“
„Hann er rosalega góður við krakkana,“ samsinnti Tómas. „Á hvað
hleypurðu 100 metrana, Oddfríður?“
„Veistu, ég hef bara aldrei reynt við þá.“
„Tommi minn, það eru ekkert allir eins og þú,“ sagði Villi. Hann var
búinn að ná sinnepinu úr jakkanum og horfði út um gluggann. Hann gaf
Steina olnbogaskot og benti á frakkaklæddan þingmann sem labbaði
þungbúinn framhjá. „Ég er búinn að vera að reyna að ná tali af honum í þrjá
daga og svo er hann bara þarna. Ég þarf svo mikið að tala við hann út af
frumvarpinu,“ sagði Villi og hristi höfuðið.
Við horfðum andaktug ofan á skallann á þingmanninum. Einhver kom
hlaupandi á eftir honum, maður í gulri goretex-úlpu og gallabuxum.
„Ónei,“ vældi Steini. „Hjörtur á Fréttum.“
Mér varð bumbult og lagði frá mér hálfétna samlokuna. Ítalskar
kjötbollur ultu út úr henni. Ég fékk mér gúlsopa af vatni í von um að líðanin
lagaðist.
„Þetta er ekki hægt,“ sagði Villi. „Þeir eru alltaf á undan okkur. Hvernig
fara þeir eiginlega að þessu? Muniði þegar þeir náðu Ingibjörgu? Við vorum
búnir að hringja í hana mánuðum saman. Hei, Odda! Þetta er mitt glas sem
þú ert að drekka úr. Má ég annars kalla þig Oddu?“
Ég held að mér hafi tekist að biðjast afsökunar og svara spurningunni
játandi í sama umlinu.
„Svo valdi Ingibjörg bara Fréttirnar, þennan líka snepil,“ hélt Villi áfram,
„og sagði þessum aulum allt sem við höfðum ætlað að spyrja hana að.
Djöfull varð ég svekktur!“
„Svona, svona. Óþarfi að örvænta,“ sagði Steini. „Reyndu að halda
andlitinu, þótt ekki væri nema vegna ungu stúlkunnar hér við borðið. Ekki
viltu fylla hana vonleysi.“
Hann hallaði sér aftur í stólnum og raulaði: „Þú vonlausi bróðir. Þú
vonlausa systir!“ Svo spurði hann mig hvort ég vissi hvaða lag þetta væri.
Ég hristi höfuðið.
„Þetta er Bubbi. Kóngurinn,“ svaraði Steini svo hissa að augun á honum
glenntust upp eins og á Prúðuleikara.
„Láttu ekki svona,“ sagði Villi. „Hún er svo ung.“
Steini hélt áfram: „Ekki svo ung að hún hafi ekki heyrt þetta lag. Manstu
eftir Vilmundi? Manstu eftir Geirfinnsmálinu?“
„Auðvitað man ég eftir Vilmundi en Geirfinnsmálinu missti ég algjörlega
af.“
„Nei, þú myndir örugglega ekki rata á dráttarbrautina í Keflavík. En
manstu nokkuð eftir Gervasoni?“ spurði Steini.
„Jaá, mig rámar auðvitað í það,“ laug ég og reyndi að sýnast eðlileg,
fann samt að ég var að fá fjörfisk í kinnina eins og yfirleitt þegar ég reyni
að ljúga.
Steini glotti: „Það er nú gott. Komum, strákar.“
Úti á götu beindi Hjörtur diktafóni upp í vit þingmannsins. Svo kvöddust
þeir með handabandi og héldu hvor í sína áttina.
Á blaðinu biðu mín hálfköruð viðtöl við dansara úr Listdansskólanum
sem höfðu samið verkið „Turnarnir umturnast“, Eydísi sem stóð fyrir
eighties-kvöldum í FB og dídjei Sigurhjört sem hafði frá fleiru að segja en
mig hefði getað grunað.
„Ég byrjaði að dídjei-a þegar ég fékk Fisher Price-plötuspilara í fímm
ára afmælisgjöf. Mér tókst að skratsa nokkuð vel fjólubláu plötuna með
Edelweiss. Auðvitað eyðilagðist spilarinn en það var þess virði. Ég var
kominn á bragðið, ekki spurning,“ sagði Sigurhjörtur og dreypti á bjór.
Hvaðan kemur þörfin fyrir að dídjei-a?
„Innan frá, ekki spurning, dídjei-ið kemur innan frá. Stundum þegar ég
er að dídjei-a finn ég hvernig dídjei-ið tekur af mér völdin og ég get mixað
saman lögum og skratsað endalaust. Ég þarf ekki að borða eða sofa á
meðan. Ég lognast bara út af þar sem ég stend. Stundum verð ég eiginlega
bara hræddur. Það er eins og í mér sé einhver dídjeikraftur og ef hann
heldur áfram að magnast gæti hann þess vegna tekið yfirhöndina. Veistu
hvað ég er að segja?“ spurði Sigurhjörtur og í fyrsta skipti síðan við
hittumst tók hann af sér Ray Ban-sólgleraugun. Hann sagðist vera með
ljósfælin augu og verða sérstaklega að gæta sín þegar allt væri á kafi í snjó.
„Ég verð líka að segja þér eitt,“ hélt Sigurhjörtur áfram: „Það sem gefur
mér þor til að halda áfram er það að dídjei-ið er líf. Þar er enginn dauði.“
Hvert heldurðu að dídjei-ar fari þegar þeir deyja?
„Ertu vangefin?“
Ekki spurning.
Ég reyndi að vera hæfilega lengi með verkefnin mín til að þurfa ekki að
skrifa of mikið og hæfilega fljót til að vera ekki rekin.
Þegar Tómas sagði „jæja“ daginn eftir stóð ég líka upp. ÉG ER KOMIN TIL
AÐ SKEMMTA MÉR var fyrirsögnin á viðtali mínu við griplugyðjuna Eydísi og
gott ef það hefur ekki líka alltaf verið helsta reglan mín í lífinu.
10
ÞEGAR MÉR REIKNAÐIST svo til að mamma hlyti að vera komin heim sló ég á
þráðinn til hennar til að láta vita af vistaskiptunum. Klukkan var um hálftíu
og enginn mættur nema Lárus sem ég heyrði tala í síma inni á skrifstofu og
Jóhann sem sat frammi í eldhúsi og sló að því er virtist takt eigin hjartsláttar
ofan í gólfdúkinn með öðrum klossanum á meðan hann las blöðin.
„Sagðirðu upp vinnunni hjá henni Áslaugu?“ spurði mamma gáttuð. Hún
hefði viljað að ég hefði varað hana við, komið svo sem eins og mánuði áður
til hennar og þóst vera að ráðfæra mig við hana til að auðvelda henni
breytingarnar.
„Já, mig langaði að gera eitthvað nýtt.“
„Vikuskammturinn? Er þetta ekki óttalega ómerkilegt blað?“
„Varla ómerkilegra en fólkið sem les það og varla ómerkilegra en fólkið
sem skrifar í það.“
Hún virtist svolítið hugsi yfir þessu svari.
„Hvernig fólk vinnur þarna eiginlega?“
„Nú, til dæmis ég.“
„Það eru aldeilis tilsvörin. Hefurðu farið út að leiðinu hans pabba þíns?“
„Nei, átti ég að gera það?“
„Nei, nei, ég bara spurði. Var að velta því fyrir mér hvort kransarnir ...
nei, ég veit það ekki. Ég bara spurði svona út í bláinn.“
Það hafði ekki hvarflað að mér að fara aftur út í kirkjugarð. Það hafði
verið nógu erfitt að horfa á eftir kistunni þótt ég færi ekki að gera mér það
að leik að skutlast þangað út eftir. Síðan var pabbi minn heldur ekki þar.
Jóhann stikaði inn á mitt gólfið með hendur í buxnavösum og hvessti
augun yfir tóman salinn. „Enginn mættur?“ þrumaði hann yfir
skjalaskápana sem svöruðu með þögninni. Svo snerist hann á hæli og fór
aftur fram eldhús.
„Hvernig var í útlöndum?“ spurði ég til að skipta um umræðuefni.
„Bara fínt. Strákurinn tók strax lit en við Guðbjörg brunnum alveg
svakalega. En veistu, við létum okkur bara hafa það. Héldum áfram að rífa
okkur upp klukkan átta til að ná góðum stað á ströndinni áður en
útlendingarnir mættu og lágum síðan alveg fram undir kvöldmat. Við tókum
bara með okkur nesti til að þurfa ekki að fara inn. Það er náttúrlega
langheitast yfir miðjan dag og því algjört rugl að vera að rjúka þá burt til
þess eins að borða. Þegar bruninn hvarf kom þessi líka fallegi litur. Þú ættir
bara að sjá systur þína.“
Við fórum tvisvar til Mallorka þegar ég var krakki. Gubba skaðbrann á
fyrsta degi, enda húðin á henni ljós og viðkvæm. Dögum saman húkti hún
undir sólhlíf ásamt mömmu sem leið ekkert skár. Húðin á okkur pabba
roðnaði fyrsta daginn en varð síðan dökk. Loftslagið á Mallorka átti svo
sannarlega við okkur. Við fórum saman í langar gönguferðir eftir ströndinni
og ég buslaði tímunum saman í sjónum með þýskum, sænskum og
hollenskum krökkum. Við bjuggum til okkar eigið tungumál og aldrei kom
upp neinn misskilningur á milli okkar, annað en hjá okkur Gubbu sem
rifumst heil ósköp í þessum ferðum. Hún þoldi ekki að hafa engan annan að
leika sér við en mig á meðan ég þurfti ekkert sérstaklega á félagsskap
hennar að halda. Síðan leið hún auðvitað líkamlegar kvalir vegna brunans
og engum datt í hug að bera neitt á hana. Svona ferðir voru nógu dýrar þótt
ekki væri verið að eyða gjaldeyrinum í álíka mikinn óþarfa og
sólarvarnarkrem og kælandi áburð. Það má reyndar líka bera jógúrt á bruna
en það hefði þótt óþarfa bruðl á Lindargötunni. Ég gat ekki ímyndað mér að
Gubba hefði tekið lit á Mallorka en hafði vit á því að hafa ekki orð á þeim
efasemdum.
„Það var ótrúlega fínt veður. Alveg himneskt. Svo var bara þónokkuð af
skemmtilegu fólki í okkar hópi. Voða mikið af Vestfirðingum. Ekki slæmt
fólk,“ sagði mamma. „Við vorum á svo miklu flottara hóteli en síðast. Svo
eru líka komnar æðislega flottar búðir þarna og Gubba gat bara verslað
þónokkuð á sig og strákinn.“
„En þú? Keyptir þú ekkert á þig?“ Ég varð að spyrja þótt ég vissi alveg
svarið.
„Á mig? Ertu vitlaus? Já, nei, nei. Ég var sko ekkert að spreða á sjálfa
mig.“
Jóhann settist í sætið hans Villa, tók upp blýant, hjó honum taktfast ofan
í borðið og horfði stíft á mig. Ég gat svoleiðis svarið að annað augað í
honum var brúnt en hitt grænt. Hvers vegna ætli það gerist? Allt í einu rann
það upp fyrir mér af hverju maðurinn var með þessi læti. Ég átti að hætta í
símanum og gaf Jóhanni merki með uppréttum vísifingri um að ég hefði
náð því. Ekki það að hann hætti þessu pikki eða færi.
„Þú hefðir átt að koma með,“ hélt mamma áfram.
Ég trúði því ekki að hún hefði sagt þetta.
„Ha?“ sagði ég. Þetta varð ég að heyra aftur.
Tuldur heyrðist á bak við mömmu. Gubba að reka á eftir einhverju.
„Heyrðu, ég þarf að fara núna, systur þína vantar far. Takk fyrir að
hringja,“ sagði mamma í flýti.
Ég rétt náði að kveðja áður en hún lagði á.
„Jæja, ég ætla að vona að þetta hafi verið sjávarútvegsráðherra því það er
eini maðurinn sem mig hefði langað til að þú talaðir við,“ sagði Jóhann,
stóð upp og fór aftur fram í eldhús.
Átti ég að elta hann? Var ekki svalara að sitja bara kyrr? Átti það ekki
eftir að afla mér meiri virðingar? Átti eitthvað eftir að afla mér virðingar
hér? Sjávarútvegsráðherra hvað?
Hann kom inn í Þrúði í vor. Indæll maður. Algjört rugl að hann sé of
ungur í embætti. Fáránlegt að fólk verði að vera orðið tinandi gamalmenni
til að verða ráðherrar. Hann keypti ilmvatnsglas handa eiginkonunni. Það
gera bara sönn sjentilmenni.
Ég setti á svið leikrit sem hófst á því að ég fór fram í eldhús þar sem
Jóhann var aftur sestur yfir blöðin. „Það er sko aldeilis greinilegt að það eru
að koma kosningar,“ sagði hann. „Aldeilis greinilegt.“
„Er ekki til nýtt kaffi?“ spurði ég eins eðlilega og ég gat.
Hann muldraði eitthvað. Gat hafa verið „jú“. Ég teygði mig í fant úr
skápnum, hellti í hann úr blettóttum brúsa og mikið rétt, þetta var nýtt kaffi.
Því næst ætlaði ég að líta í blöðin til að sjá hvort eitthvað væri minnst á
sjávarútvegsráðherra en maðurinn var að lesa eitt og hafði olnbogann ofan á
öðru. Ef hann áttaði sig á því að ég hafði ekki lært þau utan að í morgun og
hefði því enga hugmynd um hvað sjávarútvegsráðherra væri að bauka gæti
ég átt von á því að sjá ritstjórann hella úr skálum reiði sinnar, rétt eins og
hann hafði gert þegar Tómas þurfti að fara með barnið sitt til læknis á
helgum fimmtudegi og kom ekki fyrr en þremur tímum síðar. Alltaf
óþægilegt að horfa upp á fullorðið fólk gera sig að fífli og þurfa að
skammast sín fyrir hönd þess. Svona köstum hafði ég ekki orðið vitni að
síðan ég flutti að heiman. Samt merkilegt að sjá hvað Jóhann gat undið sig
til og frá þegar reiðin greip hann. Hann reigði sig fram og aftur og stikaði
um gólfið á meðan hann þrumaði yfir Tómasi fyrir að hafa látið sig hverfa
svona lengi og okkur hinum í leiðinni fyrir allt það illa sem við höfðum gert
og allt það illa sem við ættum eftir að gera. Því það var ekki um að villast,
öll ritstjórnin var gerð ábyrg fyrir veikindunum á heimili Tómasar.
Eitt réttlætir þó alltaf að menn standi upp frá vinnunni sinni og það er ef
þá vantar sígarettur. Þess vegna hellti ég úr bollanum í vaskinn, sagðist ætla
út eftir pakka af Viceroy, veit ekki af hverju ég valdi endilega þá tegund,
setti á mig ímynduð sólgleraugu njósnakvendis og þaut út í Texas Snackbar.
Þar keypti ég Moggann og skautaði yfir síðurnar á leiðinni til baka. Jú,
sjávarútvegsráðherra sat ekki aðgerðalaus. Hann ætlaði að henda svo sem
eins og fjórum milljónum í þrjá stráka sem ráku lítið fyrirtæki sem hafði
verið nálægt gjaldþroti lengi og fór reyndar síðar á hausinn. Þeir voru að
búa til tölvuspil þar sem þrír þorskar reyna að bjarga sér undan sílspikuðum
sel sem segir „Plonk!“ í hvert skipti sem hann nær fiski. Það var einmitt
fjórða apríl sem hann kom í búðina. „Konan á afmæli fjórða fjórða,“ sagði
hann, „það er líka brúðkaupsdagurinn okkar. Engin leið að gleyma honum.
Þetta er happatala.“
Var ástæðan fyrir því að milljónirnar fjórar voru ekki fimm eða sex eða
jafnvel sjö sú að ráðherra ákvað að þetta væri happatalan hans? Valdi hann
ekki líka fjóra daga þegar hann fór í opinbera ferð til Svíþjóðar rétt fyrir
páska þegar venjan er að hafa bara einn og í mesta lagi þrjá? Það var ekki
eins og menn tækju ekki eftir því. Maðurinn gaf aldrei neinar skýringar á
því. Hann brosti bara þegar fréttamenn spurðu hann. Stundum er eins og
hann haldi að Burberrytrefillinn sé huliðsdula og hann þurfi ekki að svara
neinu þegar hann hefur hann um hálsinn.
„Þetta er efni í grein,“ sagði Jóhann. „Farðu yfir feril mannsins og finndu
töluna fjóra í öllu því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.“
Sem ég og gerði.
11
ARNA VAR Í þykkri mosagrænni rúllukragapeysu við svartar síðbuxur.
Eyrnalokkunum var ofaukið. Þeir voru gylltir og alltof síðir fyrir
rúllukragann. Annar lá innan í kraganum en hinn út fyrir. Fyrstu mínúturnar
gat ég ekki hætt að velta því fyrir mér hvað hún hefði verið að hugsa þegar
hún setti þá í sig, hún sem var venjulega svo smart. Oft lent á listum yfir
best klæddu konur landsins. Mér tókst ekki að einbeita mér fyrr en ég saup
á kaffinu í hvíta stellinu með gylltu röndinni. Hún hafði dregið fram
sparistellið í tilefni af fyrstu heimsókn minni. Þetta líkaði mér. Svona stell
eignaðist örugglega enginn nema með því að fá það í brúðargjöf.
„Flott stell?“ sagði hún sposk.
Ég hafði greinilega ekki farið mjög fínt í athuganir mínar.
„Austurrískt. Ég á það frá A til Ö . Meira að segja súputarínuna.“
„Vá,“ sagði ég.
„Keypti mér alltaf eitthvað úr því í hvert skipti sem ég fór til Vínar.“
Arna var ekki ein af þeim sem fyllti stofuna sína af húsgögnum og dóti.
Þau örfáu húsgögn sem konan hafði komið sér upp voru ótrúlega flott og
virtust hafa verið valin eftir mikla yfirlegu. Fyrir það fyrsta var hér ekkert
gamalt. Eins og Arna væri flóttakona sem komið hefði til Íslands í fyrra
með tvær hendur tómar, erft frúna í Hamborg og keypt sér hæð í Hlíðunum
og húsgögn fyrir peningana. Og aldrei hafði hún misst „svart“ og „hvítt“ út
úr sér. Hér var allt í ljósum jarðlitum. Veggirnir voru drapplitaðir, sófinn
ljósmosagrænn, afar stílhreinn og það var sófaborðið líka, tréplata en fætur
úr burstuðu stáli. Gegnt honum voru tveir brúnir stólar sem Arna kynnti
fyrir mér sem „svanina“. Veit ekki af hverju, þeir líktust ekki svönum. Þeir
voru ekki einu sinni þægilegir. Svolítið eins og að bíða á tannlæknabiðstofu
að sitja í þeim. Sófinn virtist hins vegar algjört æði. Arna lagði hann undir
sig, setti fæturna upp í hann og teygði úr þeim.
„Hvernig er Jóhann? Talar hann við þig?“ spurði Arna og horfði spennt á
mig. Hún beið ekki eftir svari. „Þegar ég vann með honum á Mogganum í
gamla daga dróst varla orð upp úr honum. Hann var svo þungur. Átti í
einhverjum vandræðum með konur. Á það eflaust enn.“
„Það hefur ekkert merkilegt gerst. Ég skal láta þig vita um leið og það
breytist,“ sagði ég. Ætli ég kæmist upp með þetta svar? Svo virtist vera því
Arna kinkaði bara kolli íhugul á svip. Eyrnalokkarnir sveifluðust til og frá.
Símadaman á Fréttum hafði hringt í mig daginn áður til að biðja mig um
að hitta Örnu.
„Hún sagði mér að hringja í þig og spyrja þig hvort þú gætir hitt hana á
laugardaginn til að láta hana vita hvað á daga þína hefði drifið,“ sagði
konan.
Í fyrstu ætlaði ég að koma mér undan þessum fundi því þótt ég hefði
glósað ýmis smáatriði hjá mér var ég ekkert byrjuð að vinna úr þeim. En
eftir að símadaman hafði sagt mér að ég ætti að hitta Örnu heima hjá henni
skipti ég snarlega um skoðun. Ég bara varð að sjá hvernig hún bjó.
„Áttu alltaf frí um helgar?“ spurði ég til að skipta um umræðuefni.
„Já, ég hef alltaf kunnað að meta það að fá frí um helgar. Ég vann eins
og brjálæðingur í svo mörg ár og átti varla nokkurn tímann stund fyrir sjálfa
mig. Hugsaðu þér, það er laugardagur og hér sit ég bara og læt fara vel um
mig.“
Ég vissi ekki hvað ég átti að segja en Örnu tókst að halda uppi
samræðum. Hún tók smápásu til að bjóða mér meira kaffi úr hvítri könnu
með gylltu loki.
„Skrítið,“ sagði hún og hristi höfuðið aðeins. „Ég bara verð að segja þér
það. Þú átt eflaust eftir að finna fyrir þessu síðar. Ég var úti í búð um daginn
og mæti þá konu sem ég tók viðtal við fyrir langalöngu, einhvern tímann
þegar ég var hjá Mogganum. Þetta var örugglega viðtal um jólasiði eða
eitthvað álíka. Allt í einu vissi ég ekkert hvort ég ætti að heilsa henni eða
ekki, hvort hún þekkti mig nokkuð aftur.“
„Það vita allir hver þú ert,“ sagði ég.
„Samt,“ sagði Arna og yppti öxlum. „Á endanum kinkaði ég bara kolli til
hennar og hef ekki hugmynd um hvort hún kveikti nokkuð. Kannski hélt
hún bara að ég væri stórrugluð.“
Arna skellti upp úr og þá gekk hakan inn í hálsinn á henni þar sem
myndaðist vegleg undirhaka. Þegar hún var hætt að hlæja bætti hún við:
„Þótt ég sitji kannski í heila tvo tíma með fólki á meðan ég tek við það
viðtal og kunni ævisöguna utan að á eftir finnst mér ég í raun ekkert þekkja
það.“
Arna tók vatnsbrúsa af artí innskotsborði, ýtti á pumpu og úðaði úr
honum framan í sig. Gleymdi að opna munninn, nema hún hafi ekkert ætlað
að gera það. Ég gat ekki orða bundist: „Hvað ertu að gera?“
„Þetta er frá Prada, rosagott fyrir húðina að gusa smá á sig. Fékk þetta í
Bandaríkjunum. Vilt þú?“ spurði hún og rétti fram brúsann. Þær höfðu
alveg gleymt að minnast á þetta á snyrtivörukynningunum en why not?
„Nehei,“ sagði ég og flissaði.
„Æ, ertu enn á flissaldrinum?“ sagði Arna í svo vorkunnsömum tón að
mér hitnaði í framan.
„Það er allt í lagi,“ bætti hún við. „Gaman á meðan það endist.“
Hitinn sat í kinnunum alveg þangað til ég kvaddi. Úti beið þokkalega
hlýtt júníkvöld og það var dásamlegt að geta flengst um í stuttu gallapilsi.
Ég varð að fara að byrja á leynigreininni. Enn var ég bara ekki búin að
lenda í neinu sem mér fannst í frásögur færandi.
Klukkan var orðin ellefu þegar ég nálgaðist miðbæinn svo ég skaust inn
á Kaffibarinn. Fann autt borð og henti töskunni minni í sætið áður en ég fór
á barinn og keypti mér bjór. Aldrei þessu vant var þarna enginn sem ég
þekkti. Á næsta borði sátu þrír útlendingar og störðu ringlaðir út í
náttbirtuna. Ég tók minnisbókina mína upp úr töskunni og skrifaði lista yfir
allt sem mig vantaði þegar ég fengi útborgað.

Sjampó (Paul Mitchell)


Kornakrem (Body Shop)
Láta stytta buxur
Setja dökkbláu kápuna í hreinsun

„Nei, bara verið að yrkja ljóð,“ sagði kunnugleg rödd. Jóhann stóð yfir mér.
Og hann var fullur. „Ekki vissi ég að í þér fyndist skáldleg taug.“ Hann hló
tryllingslega. „Má ég setjast?“ spurði hann síðan um leið og hann hrundi
niður á stólinn við hliðina á mér og ofan á töskuna mína. Borðið lék á
reiðiskjálfi, bjórflaskan fór á hliðina og innihaldið yfir listann minn.
„Ég er svo fullur,“ sagði Jóhann, lokaði augunum og datt út af. Hann lá
með höfuðið aftur og opinn munn. Lifandi öskubakki. Glasabarn birtist úr
engu, horuð stelpa með ljóst, sítt tagl sem féll fram á aðra öxlina. Sem betur
fór hafði hún borðað nóg fyrir þessa vakt til að geta haldið á tusku og rótað
henni um meðalstórt borð og meira að segja líka minnisbókina mína. Án
þess að segja orð hvarf barnið burt með flöskuna og kom með nýja handa
mér. Kunnuglegur hlátur barst úr sófanum undir speglinum. Þar var Kristín
mætt í hópi nokkurra stelpna sem ég hafði ekki séð áður. Hún sá mig ekki
og allt í einu skammaðist ég mín fyrir að hafa komið ein. Samt ætlaði að
vera stöðugt rennerí að borðinu mínu því næst birtist dyravörður, nikkaði í
átt til yfirmanns míns og spurði: „Viltu að ég láti hann hverfa?“ eins og
hann væri að bjóðast til að leysa manninn upp í sýru. Áður en ég náði að
gera upp við mig hvaða örlög ég kysi hrúgaldinu birtust fitugir lokkarnir á
Steina. Allt í einu stóð hann þarna bara. Grænleit jakkafötin féllu svona
gjörsamlega saman við innréttingarnar að maður tók ekki eftir honum fyrr
en ein fjölin virtist fá mál.
„Nei, við skulum sjá um hann,“ sagði Steini við dyravörðinn og fékk sér
sæti gegnt Jóhanni og mér. Dyravörðurinn tók sér aftur stöðu í dyrunum.
„Hver er á barnum, Oddfríður?“ sagði Steini í tón sem hefði eflaust hæft
vel í Brúðubílnum og benti.
Ég leit þangað og jú, mikið rétt, þar stóð Lárus framkvæmdastjóri. „Við
tókum hann Lalla litla með út á lífið. Svona erum við nú góðir, strákarnir,
stundum. Annars þarf ég að segja þér svolítið, Odda.“
Dramatísk kúnstpása fylgdi áður en hann hélt áfram: „Hann Jóhann er
undir svo miklu álagi núna. Það var bara engin leið að hemja hann. Samt fór
hann síðast inn á Vog í október og var fínn fram yfir jól. Þá fór hann að
sulla aftur,“ sagði Steini og drafaði eilítið. Þeir höfðu tekið kvöldið
snemma, vinirnir. „Hann getur verið hrikalega ósanngjarn en hann er samt
rosalega gáfaður, með skoðanir á öllu. Frændi minn var með honum í
menntaskóla og hann var alveg nákvæmlega eins þá. Og svo er hann frábær
pabbi. Ekki gleyma því.“
„Er þetta pabbi þinn?“ spurði glasabarnið sem var mætt aftur, sveiflandi
tusku og tagli.
„Ha? Nei, ekki þannig. Hann er frábær pabbi svona almennt,“ sagði
Steini.
Ég hélt áfram að föndra við listann minn og reyndi að sneiða framhjá
bjórblettunum.

Endurnýja bókasafnskortið
Sokkabuxur (Oroblu)
Steini hélt áfram: „Hann hefur gert alveg rosalega merkilega hluti í íslenskri
blaðamennsku. Það var hann sem þóttist vera vinnumaður á einhverjum bæ
í Eyjafírði í heilan mánuð og skrifaði um það hvað norðlenskir bændur eru
fruntalegir.“
„Hvernig fruntalegir?“
„Bara vondir við vinnufólkið. Hann átti alltaf að vera að gera eitthvað.“
„Greyið.“
„Þú skalt ekkert vera að gera grín að því, Oddfríður, þú sem hefur ekkert
gert sjálf. Þetta var alvöru blaðamennska. Ekki viðtöl við einhverja poppara
um baðherbergin heima hjá þeim og sokkana þeirra. Annað en það sem þú
ert að gera, enda átt þú ekkert eftir að skrifa neitt af viti. Þú hefur ekki frá
neinu að segja.“
Þá rumskaði líkið. „Þú hefur ekki frá neinu að segja,“ bergmálaði það.
Steini ljómaði af ánægju yfir þessu liðsinni. Ég ætlaði að standa upp og
fara en hætti við. Best að kynnast þeim nánar í þessum ham.
„Vissuð þið mjög mikið um fagið þegar þið voruð að byrja í
blaðamennsku?“
„Fagið!“ endurtók Jóhann og hló. „Hún sagði fagið. Eins og við séum
rafiðnaðarmenn eða eitthvað svoleiðis.“
Steini tók undir og svo hlógu þeir eins og þeir ættu lífið að leysa.
„Nei, við skulum ekki láta svona við hana,“ sagði Jóhann loks og strauk
tár af hvarmi. „Hann Þorsteinn hérna,“ sagði hann og kýldi vin sinn í
öxlina, „kom með geggjaða hugmynd sem við ætlum svo sannarlega að
framkvæma. Þetta er ein sú albesta hugmynd sem ég hef heyrt. Alveg
frábær.“
„En við ætlum ekki að segja þér hana,“ sagði Steini. „Þessar stelpur
haldast aldrei í starfi og eru alltaf farnar áður en maður nær að læra nöfnin
þeirra.“
„Vá, ég hélt þú ætlaðir að segja, áður en maður nær að fara upp á þær,“
sagði ritstjórinn og hláturinn skall yfir á næstu borð svo túristar,
verðbréfasalar og stuttmyndagerðarmenn litu furðu lostnir yfir til okkar.
„Það hefði nú verið óðs manns æði að láta það út úr sér,“ sagði ég, „því
varla færðu að ríða svo reglulega, Steini.“
Hann ók sér í herðunum og horfði ráðvilltur á mig.
„Jú, jú, hann Steini hefur nú komist yfir eina eða tvær um dagana,“ sagði
ritstjórinn góðhjartaður. „Og þegar hann hefur lokið verkefninu góða fær
hann fullt af tussum. Þú átt eftir að fá borgað í tussum, Steini minn.“
Steini fékk málið aftur: „Jóhann skrifaði einu sinni frábæra grein um það
þegar hann var vinnumaður í Eyjafirði ...“
„Borgarfirði,“ leiðrétti Jóhann. „Ég nennti nú ekki mikið lengra.“
„Frábær grein, Oddfríður, þú ættir að finna hana og lesa. Var ég kannski
búinn að segja þér frá henni?“
Nógu oft til að mig væri farið að undra af hverju hann var ekki löngu
búinn að semja upp úr henni söngleik. Ingvar E. færi létt með að leika hann
Jóhann. Fáeinir prumpubrandarar og einhver sem sýnir á sér typpið myndi
fá fólk svoleiðis til að flykkjast á herlegheitin. Svo eitt gott lokalag þar sem
allir leiðast.
„Ég þarf að rjúka,“ sagði ég og reyndi að toga töskuna mína undan
Jóhanni.
„Er þetta taskan þín? Ég hélt ég væri kominn með svona svakalegan
herðakistil,“ sagði hann og mjakaði sér af henni.
Lárus framkvæmdastjóri var kominn út á mitt gólf og var á góðri leið
með að kalla yfir sig óvild dyravarðarins því hann hafði gripið með báðum
höndum í kristalsljósakrónuna fyrir ofan sig eins og hann ætlaði að sveifla
sér út um rúðuna þegar barnum yrði lokað og freista þess að verða fyrstur
að ná í leigubíl. Ég varð að troða mér framhjá honum til að komast út að
dyrunum. „Ertu að fara strax, elskan?“ spurði hann þegar hann áttaði sig á
því hver þetta var og horfði drukknu augnaráði á mig í gegnum tvískiptu
gleraugun. Ég nennti ekki að ansa. Og því síður þegar ég heyrði Kristínu
kalla á eftir mér. „Er þetta einhver sem þú þekkir?“ spurði vinkona hennar.
Ég þekkti ekki lengur vinkonur Kristínar. Og þær ekki mig. Helst hefði mig
langað til að geta farið ofan í holræsi Reykjavíkurborgar og fylgt þeim
austur í Norðurmýri til að geta verið í friði og losnað við að ryðjast í
gegnum mannfjöldann á Laugaveginum. Ég hef samt aldrei vaxið upp úr
því að þykja gaman á Laugaveginum. Þegar ég bar út Dagblaðið fyrir
Gubbu stalst ég stundum til þess að labba allan Laugaveginn niður á
Lækjartorg í staðinn fyrir að taka strætó á Hlemmi beinustu leið heim, eins
og mamma hafði uppálagt. Mér finnst Barónsstígurinn hins vegar alltaf
kaldranalegur og reyni enn að sneiða hjá honum.
Ef „Játningar sumarafleysingastúlku“ vektu athygli yrði ég kannski
beðin um viðtöl og þá gæti ég átt eftir að segja frá þessu. Hvernig brakaði í
snjónum undir kuldaskónum og hvað ég kveið því að þurfa að taka af mér
vettlingana til að hnýta aðra reimina sem var að losna. Blaðburðarpokinn
tók í. Hann var of síður og þvældist sífellt fyrir fótunum á mér. Ég hélt mig
innst á gangstéttinni svo bílarnir gusuðu ekki yfir mig slabbinu af götunni.
Ég þóttist vera á strönd þar sem ég þyrfti að passa mig á því að öldurnar
hrifu mig ekki með sér út á haf. Samt gætti ég þess að labba varlega svo
reimin héldi þar til ég kæmi að stigaganginum sem alltaf var opinn. Það
tókst. Ég byrjaði á því að kveikja ljósið. Það þurfti að gera nokkuð oft því
það slokknaði eiginlega jafnharðan og þá var niðamyrkur í ganginum. Ég
settist í eina tröppuna, hallaði mér upp að veggnum, tók af mér vettlingana
og batt báðar reimarnar til vonar og vara. Síðan setti ég aftur á mig
vettlingana svo að ég týndi þeim nú ekki. Allt var kyrrt og hljótt svo ég tók
blað upp úr pokanum mínum og las um krakka sem haldið höfðu tombólu
og gefið Rauða krossinum ágóðann. Hlaut að vera gaman að halda tombólu.
Síðan gat maður líka bara safnað dótinu, sagst ætla að halda tombólu en hirt
það síðan allt sjálf. Það höfðu Gubba og vinkonur hennar einu sinni gert.
Enginn komst að því og samt höfðu þær allt í einu allar verið með glænýjar
spennur í hárinu, svo ekki sé talað um Fimmbókina sem birtist allt í einu á
heimilinu merkt Sigurgeiri Rúnarssyni með kveðju frá Eysteini frænda
hans. En þær fengu heldur ekki mynd af sér í blaðið.
12
„VIÐ HÖFUM EKKI hist.“ Umbrotskonan stóð yfir mér og rétti fram höndina.
„Ég heiti Nína og brýt um blaðið.“
„Oddfríður,“ sagði ég og heilsaði. Það var snemma morguns og aðeins
við tvær komnar.
„Ég hef bara ekki haft neinn tíma til að kasta á þig kveðju. Það hefur
verið svo brjálað að gera eftir að hin umbrotskonan var látin fara og eins
gott að standa sig. Það er víst ekki of mikið að gera fyrir grafíska hönnuði
þessa dagana. Hei, ertu með ný tímarit?“
„Já, Jóhann sagði mér að lesa þau og reyna að finna einhver trend.“
Það glaðnaði yfir Nínu, hún teygði sig í bunkann minn og tók eitt blaðið.
Svo kastaði hún til rauðu hárinu, settist upp á borðið mitt og fletti hljóð
dágóða stund.
„Veistu hvað mér dettur í hug þegar ég les þessi blöð?“ spurði hún án
þess að líta upp. „Að ég eigi að hætta að reykja, grennast um 20 kíló, henda
öllum fötunum mínum og kaupa mér fullt af nýjum. Sjáðu þessa kápu. Hún
er geggjuð.“
Nína rétti fram blaðið og sýndi mynd af glaðlegri fyrirsætu með krullur í
æðislegri kápu, doppóttri með frekar stuttum ermum.
„Aldrei dettur mér neitt svoleiðis í hug þegar ég fletti þessum blöðum,“
sagði ég. „Ekki frekar en mér finnist ég þurfa að verða mér úti um úlf eftir
að hafa lesið Rauðhettu.“
„Fólk er svo misjafnt,“ sagði Nína út úr fjarskanum sem hafði hrifið
hana til sín. Hún var þó enn nógu nálægt mér til að ég fyndi léttan ilm af
Coco Chanel leggja af henni. Svona systur vildi ég hafa eignast. Aldrei
sýndi Gubba minnsta áhuga á því sama og ég. Það var algjörlega óhugsandi
að ræða tísku við hana. Hún hefði bara horft tóm á mig og snúið talinu að
einkunnunum hans Gunnars Birnis. Pabbi gerði stundum grín að fötunum
hennar Gubbu en henni fannst bara ekkert að því að klæða sig í gula peysu
við gular buxur og skella sér í fjólubláan mittisjakka yfir. Sjálfur var hann
algjört snyrtimenni og þurfti aldrei neina aðstoð við að velja saman skyrtu
og bindi. „Ég get þetta sjálfur. Það er ekki eins og verið sé að koma fyrir í
manni þvaglegg,“ sagði hann við afgreiðsludrengina í Herrahúsi PÓ og
síðar hjá Sævari Karli og bandaði þeim frá sér með vísifingur og löngutöng
á lofti þegar þeir ætluðu að fara að bretta upp á skálmarnar eða jafnvel
hnýta á hann bindin. Það var líka yfirleitt pabbi sem valdi fötin á mömmu,
enda eins gott því það var frá henni sem Gubba hafði smekkleysið. Bindið
sem hann var að lokum jarðaður með um hálsinn var jólagjöf frá þeim
mæðgum. Ég fann enn fyrir ónotatilfinningu þegar ég hugsaði um það.
Nína sat hjá mér og las örugglega í hálftíma. Hún dinglaði
leðurstígvéluðum fæti á meðan ég lauk við frétt um velgengni íslenskrar
kvikmyndar á rúmenskri kvikmyndahátíð og byrjaði á annarri um loðfeldi.
Þurfti að fá mér leðurstígvél, það voru allir í þeim. Þegar lestrinum lauk
skellti Nína tímaritunum á borðið mitt og sagði: „Jæja, þá veit ég að rendur
verða í tísku í sumar og síðan eiga allir að vera sem horaðastir. Ertu í
einhverri leikfimi?“
„Nei, ég nenni því ekki. Svo er það rándýrt.“
„Þú ert voða grönn,“ sagði Nína og mældi mig út.
„Já, svosem.“ Ég vissi aldrei hvað ég átti að segja þegar þetta var sagt
við mig.
Nína sló á vömbina á sér: „Sérðu, ég er nærri því komin með svuntu. Ég
þarf að fara að gera eitthvað í þessu.“
Þröng skyrtan strekktist yfir svolítinn maga.
„Lentu í bílslysi. Gættu þín á því að deyja örugglega ekki en slasast samt
alveg nóg til að það þurfi að halda þér sofandi í að minnsta kosti þrjár vikur
svo þú finnir ekki sársaukann. Þú færð glúkósa í æð og lætur ekki ofan í þig
bita allan tímann.“
Nína horfði opinmynnt á mig, eins og hún biði eftir að ég styngi upp í sig
konfekti.
„Oddfríður, af hverju talarðu svona, ung manneskjan?“ sagði hún og við
því átti ég engin almennileg svör. Nína fór aftur í sætið sitt. Líklega hafði ég
móðgað hana. Inn um gluggann bárust köll blaðsölustráks. Fréttir voru
komnar á götuna.
Síminn minn hringdi. „Hæ, þetta er Nína hérna aftur.“
Ég leit út í hornið hennar og við veifuðum hvor til annarrar. Hún var þá
ekki móðgaðri en þetta.
„Mig langaði bara að segja þér að ef eitthvað kemur upp á hjá þér
geturðu alltaf komið til mín.“
„Hvað áttu við?“
„Æ, bara, ef þú þarft að tala.“
Það var fimmtudagur og eiginlega bannað að tala saman því blaðið fór
upp í prentsmiðju um kvöldið. Ef maður varð uppvís að því að halda uppi
samræðum átti maður á hættu að Jóhann kæmi aðvífandi og segði eitthvað
eins og: „Jæja, verið að vinna?“ eða: „Vantar þig fleiri verkefni?“
Svo virtist sem allt tal gæfi frá sér hátíðnihljóð sem bærist alla leið inn í
skrifstofuna hans. Nú var hann mættur, kom stikandi yfir að borðinu mínu
og spurði: „Nóg að gera?“
„Já, já,“ sagði ég. „Fréttin um kvikmyndahátíðina er komin í
prófarkalestur. Langar þig að lesa yfir?“
Í stað þess að svara spurði hann: „Hefurðu séð Fréttir í dag?“
„Nei, ekki í dag,“ svaraði ég hraðmælt.
„Þeir eru með sjávarútvegsráðherrann í viðtali og hafa greinilega fengið
hugmyndina eftir að hafa lesið fréttina þína um hann, ef frétt skyldi kalla.
Þetta var meira bara svona smágrín hjá þér. Í Fréttum segir kallinn frá því
að hann hafi þann kæk að telja það sem fyrir augu hans ber til að athuga
hvort það gangi upp í fjóra. Hann er heltekinn af þessari tölu. Sér í lagi telur
hann bókakili í hillum og reynir því alltaf að sjá til þess að hann þurfi aldrei
að sitja fundi í bókaherbergjum. Hann getur bara ekki einbeitt sér. Svo er
hérna líka viðtal við einhvern sálfræðing sem fílósóferar um þennan ávana.
Þetta er víst þekkt fenómen. Þessu hefði verið flott að ná,“ sagði Jóhann,
kippti að sér stólnum hans Villa og fékk sér sæti.
Ég umlaði eitthvað. Mér leið illa. Mig langaði út undir bert loft. Það var
þungt yfir en hann virtist samt ætla að hanga þurr.
„Hvað ertu búin að vera hérna lengi, Hólmfríður?“
„Oddfríður.“
„Ha?“
„Ég heiti Oddfríður. Þú sagðir Hólmfríður.“
Hann klóraði sér í enninu svolítið utangátta. „Já, já, þannig,“ sagði hann
svo og endurtók síðan spurninguna.
„Einn mánuð, held ég. Eitthvað svoleiðis.“
„Það er kominn tími til að þú farir að gera eitthvað alvöru. Geturðu ekki
náð í einhverjar góðar lífsreynslusögur? Þekkirðu ekki einhverjar stelpur
sem hafa lent í einhverju?“
„Eins og hverju?“
„Eignast barn með morðingja eða lent í einhverju veseni á útihátíð.“
Mér datt í hug að spyrja hvort dygði að ég segði nafnlaust frá því hvernig
það er að vera systir konu sem eignaðist barn með dópsala. Ég lét mér samt
nægja að segjast ætla að fara í gegnum símaskrána mína og athuga að
hverju ég kæmist.
Villi birtist og tyllti sér upp í gluggakistu á meðan Jóhann þurfti á
stólnum hans að halda.
„Ég er ekki að grínast, Oddfríður. Þú þarft að sanna þig. Finndu eitthvað
gott fyrir næsta blað. Hvað varstu að skrifa núna?“
„Lítinn pung um loðfeldi, viltu lesa?“
Jóhann renndi sér til mín á stólnum eins og könguló svo hann gæti
svalað fróðleiksfýsn sinni um loðfeldi. Að lestri loknum gaf hann frá sér
sama hljóð og ég hef heyrt frá bjarndýrum í dýralífsþáttum. Man
ómögulega við hvaða aðstæður. Kannski eru þau svöng, kannski hrædd,
kannski reið.
„Finnst þér þetta í lagi eða ...?“ spurði ég.
„Eða hvað?“
„Hefðirðu viljað sjá eitthvað annað?“
„Hefðir þú viljað sjá eitthvað annað?“ spurði hann á móti.
„Af hverju svararðu svona? Þú ert ritstjóri og átt að segja mér til.“
„Annaðhvort er maður blaðamaður eða ekki,“ sagði hann, stóð upp og
fór.
Utan af götunni barst loftpressudynur. Ég var að fá höfuðverk.
Villi settist í sætið sitt. „Oddfríður,“ sagði hann stillilega. „Jóhann lætur
þig vita ef hann er óánægður. Ef hann segir ekkert er hann ánægður. Og ef
hann urrar þá er hann líka ánægður.“
13
ÉG HRINGDI BJÖLLUNNI tvisvar og ætlaði síðan að opna dyrnar, eins og ég var
vön, þegar eitthvað skall í hurðina að innanverðu.
„Er ekki allt í lagi?“ kallaði ég.
Ekkert svar.
„Er mér óhætt að koma inn?“
Áslaug opnaði. Þungbúin á svip. Hvít skyrta og sparileg gyllt festi
passaði engan veginn við hann.
„Sæl.“
Mogginn lá í kuðli við fætur hennar.
„Hvað er að?“
„Djöfull sem maður er búinn að mæta á marga fundi hjá þessu
andskotans Félagi íslenskra bisnesskvenna og þær gátu ekki einu sinni sent
mér boðsmiða á verðlaunaafhendinguna í gær. Ég er bara látin lesa um þetta
í Mogganum,“ sagði Áslaug og strunsaði fram í eldhús. Hún setti á sig
svuntu og gula gúmmíhanska og tók til við uppvask. Hún er praktísk hún
Áslaug og hefur alltaf kunnað að nota kraftinn sem færist yfir hana þegar
hún kemst í ham. Aldrei er íbúðin jafnhrein og þegar einhver hefur stigið á
tærnar á henni. Og það ætti enginn að gera. Þetta eru engar venjulegar tær.
Þær eru mótaðar úr örþunnu gleri.
„Og hver fékk þessi verðlaun?“ spurði ég og fékk mér safafernu úr
ísskápnum.
„Farðu úr skónum,“ sagði Áslaug og sveiflaði uppþvottaburstanum eins
og töfrasprota sem léti skóna hverfa af fótunum á mér. Sem þeir og gerðu
því ég sá mér þann kost vænstan að bakka aftur inn í holið og fara úr þeim.
„Og hver fékk svo þessi verðlaun?“ endurtók ég.
„Æ, það voru einhverjar voða flottar konur. Meira að segja einhverjar
stelpur sem reka eitthvert netfyrirtæki sem enginn veit raunverulega hvað
gerir. Það þykir ekkert fínt að reka snyrtivöruverslun lengur. Reyni þetta
fólk bara að velja sér rétta kremið af internetinu. Mér þætti gaman að sjá
það.“
Mig langaði til að benda henni á að það væri einmitt það sem fólk ætti
eftir að geta gert innan tíðar en það hefði verið óráð.
„Nennirðu að þurrka?“ spurði Áslaug og rétti mér viskustykki. Við
vöskuðum upp í þögn dágóða stund. Síðan spurði hún hvernig mér gengi í
vinnunni og ég sagði: „Bara vel. Jóhann, ritstjórinn sko, vill að ég komi
með einhverja megahugmynd og ég er að reyna að láta mér detta eitthvað í
hug.“
„Hvernig hugmynd? Farðu varlega með glasið. Ég á ekki mörg eftir.
Hvað vill hann nákvæmlega?“
„Einhverja svona lífsreynslusögu,“ svaraði ég og handlék glasið eins og
hjartveikan þrastarunga. „Einhvern sem hefur lent í einhverju merkilegu ...“
Áslaug var hugsi á svip. Eitthvað var að gerjast í kollinum á henni.
„... helst einhverju voðalegu.“
„Já, skil þig, eitthvað svona sem fólk vill lesa. Ég lenti nú einu sinni í því
að kaupa gallaða peysu. Konan í búðinni sagði að ég hefði eyðilagt hana
sjálf. Vildi ekki taka aftur við henni. Mér fannst það alveg voðalegt.“
Hún hlustaði á þögnina frá mér alveg þangað til hún skildi. „Nei, ætli
það dugi,“ sagði hún svo.
Áslaug var eiturfljót að hreinsa hnífapörin og rétti mér síðasta gaffalinn
með léttri sveiflu. Skapið var rokið úr henni. Svo hleypti hún vatninu úr
vaskinum, þurrkaði sér um hendurnar á bróderuðu handklæði og sagði:
„Okkur leggst eitthvað til. Helgin er nú bara rétt að byrja. Við höfum nógan
tíma til að hugsa okkur um.“
Ég mundi ekki eftir greinarhugmyndinni aftur fyrr en seint á
sunnudagskvöld yfir pólskri mynd um ástir bændafólks. Í hvað fór þessi
helgi? Ég hengslaðist um íbúðina á náttfötunum með óhreint hár. Enginn
hafði hringt. Einu sinni settist ég niður við tölvuna mína og byrjaði á
leynigreininni fyrir Örnu. Ég varð strax lens. Á ég að búa til innganginn eða
er það ritstjórans? Fyrsta setningin skiptir mestu máli. Það hafði ég lesið í
viðtalinu við hana Fay Orton í Vanity Fair. Ég hafði laumast til að ljósrita
það til að geta tekið það með mér heim að lesa. „Þetta er allt spurning um
að vera sjálfri sér samkvæm,“ sagði hún líka. Það var mun meira
inspírerandi að telja demantana um hálsinn á henni en að lesa það sem hún
sagði. Ég horfði á auðan skjáinn í hálftíma áður en ég slökkti aftur á
tölvunni. Ég vissi hvort eð var ekkert hvernig fyrsta setningin átti að vera
og ekki vildi ég byrja án þess. Þá færi allt í handaskolum. Samkvæmt Fay.
Ég veit svo sem ekkert hvort „Pöntunin hafði misfarist í bakaríinu því á
miðju kaffiborðinu var súkkulaðikaka með sykraðri áletrun ...“ væri góð
upphafssetning en svona hljómaði hún eiginlega frá upphafi og ég gat aldrei
hugsað mér hana neitt öðruvísi.
Mér höfðu alltaf leiðst sunnudagar og aldrei jafnmikið og einmitt nú. Það
versta var að ég hafði enga hugmynd um hvað ég ætti að taka mér fyrir
hendur. Ef ég nennti ekki að lesa og sjónvarpið var ekki skemmtilegt hafði
ég ekkert. Áður vorum við Kristín vanar að fara á barina fimmtudags-,
föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld. Þá var aldrei spurning hvað
maður ætti að gera. Það voru líklega nær fimm, sex ár síðan við byrjuðum
að sækja 22. Þá horfðum við í forundran á fastagestina sem margir hverjir
voru komnir undir fertugt – sem okkur fannst himinhár aldur – og spurðum
hvor aðra hvort við myndum virkilega vera hér enn það gamlar. Myndum
við ekki hafa eitthvað skárra fyrir stafni? Ég veit ekki hvað við héldum að
kæmi í staðinn. Veðreiðar? Grímudansleikir? Pókerspil í reykmettuðum
kjöllurum? Það er kannski ofsögum sagt að enginn hafi hringt. Mamma sló
á þráðinn. „Holiday“ með Madonnu ómaði á bak við hana og Gunnar Birnir
tók hástöfum undir viðlagið.
„Við vorum að fara í gegnum eigurnar hans pabba þíns. Var eitthvað
sérstakt sem þig langaði í sem þú manst eftir?“
Þessari spurningu hafði ég aldrei velt fyrir mér og mundi auðvitað ekki
eftir neinu. Ég bjóst ekki við að vera spurð að þessu strax. Fyrr eða síðar
yrði eflaust farið í gegnum erfðaskrána og þar kæmi í ljós íbúðarsjóðurinn
minn. Hvað var málið annars? Var Gubba núna að gramsa í eigum pabba til
að geta hirt allt sem hana langaði í? Líklega hafði Madonna verið sett á
fóninn svo hún fengi frið. Ég hugsaði mig vel um. Þetta tilboð stæði
örugglega ekki lengi. Falleg bindisnæla rifjaðist upp fyrir mér en hana ætti
Gunnar Birnir auðvitað að eignast og tölvunni þurfti ég ekki á að halda. Þá
rifjaðist penninn upp fyrir mér.
„Átti pabbi ekki voðalega fallegan blekpenna með nafninu sínu? Mig
myndi kannski bara langa í hann.“
„Já, hann,“ sagði mamma hugsi. „Ég skal ... ég skal tala við hana
Guðbjörgu.“ Síðan bætti hún við: „Athuga svona hvort hún hafi rekist á
hann.“
Þar með vissi ég að ég myndi ekki sjá mikið af þessum penna. Mér gekk
illa að sofna. Hvernig sem ég reyndi að leiða hugann að einhverju fallegu
varð mér alltaf hugsað til Gubbu rótandi í gegnum dót sem ég átti ekkert
síður en hún. Rétt eina ferðina átti ég að þurfa að leita á náðir hennar og það
um hvað ég ætti að erfa eftir pabba minn. Og hvernig í ósköpunum gátu þær
mamma þolað hvor aðra? Á meðan mamma var ýmist í lyfjavímu eða reri
tóm á svip fram í gráðið hér áður fyrr notaði Gubba hvert tækifæri til að
segja henni hvers konar geðsjúklingur og aumingi hún væri. Sem var
auðvitað alrangt því það var með ólíkindum hvað mamma gat setið lengi
stjörf og róið fram og aftur. Hún minnti helst á skúffuopnarana í IKEA sem
eiga að sanna fyrir viðskiptavinunum hvað húsgögnin séu góð vara. Gubbu
fannst fara minni orka í að skella hurðum og arga duglega en að segja: „Mér
líður illa.“ Það er auðvitað ekkert á allra færi og einfaldara að dópa sig bara
upp til að vita ekki af sér.
Þetta var ljóti tíminn. Furðulegt að maður skyldi hafa náð upp úr 9. bekk
og ekki endað bara sem pokadýr í Hagkaupum. Um leið og bráði af
mömmu voru þær Gubba strax komnar á trúnó frammi í eldhúsi og
hlátrasköllin bárust í gegnum hurðina. Það þurfti ekkert að ræða neitt sem
þeim hafði áður farið á milli. Við mamma töluðum hins vegar ekkert saman
af viti þennan tíma. Hún lét mig þó einu sinni vita að ég ætti bara að leyfa
henni að sofa hvar sem hún dytti út af, rétt eins og hún væri að kenna mér
að velja á milli þvottavélarkerfa. Þetta væri bara allt saman sjálfsagt. Allar
fínni húsmæður í Vesturbænum lægju hver um aðra þvera á
þvottahúsgólfinu.
„Hvar dast þú niður í gær?“ spyrðu þær yfir hekkið.
„Frammi í forstofu. Datt aftur fyrir mig inn í fatahengið. Vetrarpelsinn
tók af versta fallið.“
„Nú, það er bara svona. Ég rankaði við mér við hliðina á
borðstofuskenknum. Oftast kemst ég þó sjálf inn í rúm.“
„Passaðu þig bara á hornunum. Þau eru verst.“
Þegar ég kom heim úr skólanum hlustaði ég í forstofunni eftir hljóðum
og reyndi að sjá fyrir mér á hverju ég ætti von. Óþægilegast var ef ekkert
heyrðist. Ég læddist í gegnum íbúðina, athugaði hvar Lindargötuundrið væri
niður komið. Oftast var mamma bara inni í svefnherbergi. Hún missti ekki
svefn okkar vegna á þessum árum. Kannski vildi hún sanna fyrir
fjölskyldunni að hún væri gjörsamlega þarflaus á heimilinu. Ég held að það
hafi tekist hjá henni. Á fyrsta vetri í menntó áttaði ég mig á því að ég var
löngu hætt að leita til hennar með neitt. Þyrfti ég að fá svör við einhverju
spurði ég bara kennarana mína, krakkana í bekknum eða fletti svörunum
upp í bókum. Það var bara eins og við Magdalena Ottósdóttir værum tvær
ókunnugar konur sem hefðu verið skikkaðar af yfirvöldum til að búa í sömu
íbúð.
Erfiðleikar þjöppuðu fjölskyldunni ekki saman. Pabbi sást varla á
heimilinu og svaraði okkur með eins atkvæðis orðum. Á
laugardagskvöldum tók mamma töflurnar yfirleitt seinna en aðra daga.
Saman horfðum við á Fyrirmyndarföður og reyndum að láta eins og við
værum eðlileg fjölskylda. Eins og Huxtable-slektið þar sem Bill Cosby og
kona hans, Claire, tóku á hverjum þeim vanda sem upp kom í fjölskyldunni
af fullkomnu jafnaðargeði á milli þess sem þau döðruðu hvort við annað
íklædd silkináttfötum og brandararnir sáldruðust af vörum þeirra.
„Föðurhlutverkið felst meðal annars í því að láta eins og sápa í bandi sé
merkilegasti gripur sem þér hefur nokkurn tímann verið gefinn,“ var
einhverju sinni haft eftir Cosby og varla var hægt að hugsa sér fallegra
fjölskyldulíf en í brownstone-inu sem Huxtable-fjölskyldan bjó í. Skoðanir
allra voru virtar og meira að segja litla Rudy fékk að tjá sig án þess að
nokkur gripi fram í fyrir henni eða hæddist að henni. Heathcliff, Claire og
börnin þeirra voru öll hnyttin, sæt og sniðug og þegar einkunnirnar hans
Theos fóru að versna kom í ljós að það var bara vegna þess að hann var
lesblindur. Allt átti sér sínar eðlilegu skýringar. Hefði Claire orðið uppvís að
óhóflegu pilluáti hefði verið efnt til fjölskyldufundar.

Sandra: „Mamma, þú hefur ekki alveg verið með sjálfri þér að undanförnu.“
Claire: „Hvaða vitleysa! Ég hef bara verið svolítið utan við mig.“
Theo: „Svolítið utan við þig? Þú settir hreinu sokkana mína inn í ísskáp.
Ég fann þá við hliðina á tómatsósunni!“
(Salurinn hlær.)
Rudy: „Tannálfurinn hefur heldur ekki verið með sjálfum sér. Ég setti
tönnina sem ég missti í gær undir koddann minn en samt fékk ég engan
pening.“
(Salurinn andvarpar.)
Cliff: „Hvernig stendur á þessu, elskan?“
Claire: „Æ, ég veit ekki hvernig ég kem orðum að þessu.“
Melissa: „Reyndu, mamma.“
(Melissa snertir handlegg Claire.)
Claire: „Bringsmalaskottan hefur sótt að mér. Þetta er síður en svo í
fyrsta skipti en nú horfir hins vegar þannig við að glíman er harðari en svo
að mér ætli að takast að hafa hana undir. Ég fór því að taka inn töflur ...“
Cliff: „Hvaða forherti glæpamaður seldi þér þær?“
Claire: „Hann varð á vegi mínum í klasanum. Þetta eru vanir menn og
hann var ekki lengi að sjá að ég gekk ekki heil til skógar.“
Denise: „Þú hefðir átt að segja okkur frá þessu strax. Við hefðum getað
hjálpað þér.“
Claire: „Æ, ég skammaðist mín of mikið.“
Cliff: „Það er engin ástæða til að skammast sín fyrir það eitt að líða illa í
sálartetrinu, elskan mín. Hvar eru þessar pillur eða ætti ég heldur að kalla
þær ópal andskotans?“
(Salurinn hlær. Claire dregur lyfjastauk upp úr vasa sínum.)
Claire: „Ég vil aldrei sjá þær framar.“
Cliff: „Þessar töflur fara undireins í ruslakvörnina. Krakkar, þarna sjáið
þið hvað getur gerst ef við tölum ekki um tilfinningar okkar. Hér eftir mun
allt breytast til batnaðar.“
Rudy: „Kemur tannálfurinn þá líka aftur?“
(Salurinn andvarpar.)
Cliff: „Já, Rudy mín, tannálfurinn hefur ekki yfirgefið Huxtable-
fjölskylduna þrátt fyrir þetta. Hann kemur aftur. Hann kemur alltaf aftur.“
(Fjölskyldan faðmast.)
14
ÁSLAUG VAR AÐ renna úr hlaði þegar ég kom út. Hún snarhemlaði þegar hún
sá mig og skrúfaði niður rúðuna. Chanel-taskan lá í framsætinu eins og
stilltur farþegi.
„Ég man eftir einu sem gæti vel verið fréttnæmt. Veit það samt ekki.
Manstu ekki eftir henni Heiðu?“
Lítil og ljóshærð stelpa sem var einu sinni sjónvarpsþula og ánetjaðist þá
glossum og kaupir sér nú glært gloss í hverjum einasta mánuði.
„Hún var að tala um það við mig um daginn að hún væri búin að missa
vinnuna sína, hún var flugfreyja, og allt væri bara einhvern veginn að fara
til fjandans hjá sér. Væri ekki sniðugt að taka við hana viðtal? Það eru
margir sem muna eftir henni úr sjónvarpinu og vilja vita hvar hún er
niðurkomin í lífinu.“
Þetta var hugmyndin sem ég mætti með á ritstjórnarfund. „Það eru
margir sem muna eftir henni úr sjónvarpinu og vilja vita hvar hún er
niðurkomin í lífinu,“ sagði ég við Jóhann. Hann var ekki sérlega sannfærður
og horfði svipbrigðalaus á mig, lét svona líka algjörlega slakna á
andlitsvöðvunum. Villi horfði ofan í gólfið, Steini lét eins og hann væri ekki
þarna og Tómas fiktaði í rennilásnum á grænu adidas-treyjunni. „Væri ekki
frekar ástæða til að tala við þessa ljóshærðu úr Flóanum sem var að setja
Norðurlandametið í grindahlaupinu úti í Finnlandi?“ spurði hann. „Hún
fékk víst svo rosaleg ofnæmisköst sem krakki, einhver útbrot í húðina, að
hún gat aldrei verið úti að leika sér, var bara alltaf inni í íþróttahúsi að
hoppa.“
„Leyfðu henni að klára,“ sagði Jóhann.
„Sko, ég veit fyrir víst að Heiðu var sagt upp í niðurskurðinum um
daginn,“ hélt ég áfram. „Við tökum við hana viðtal undir því yfirskini að
fólk vilji forvitnast um það hvað hún hafi verið að gera síðan hún hvarf af
skjánum en laumum því inn að hún sé atvinnulaus. Hún vill örugglega nota
tækifærið og láta kallana í sjónvarpinu vita að hún sé til í tuskið.“
„Já, það er svo sem allt í lagi að tala við þessa konu en hún verður þá
líka að segja eitthvað,“ sagði Jóhann.
Strákarnir litu allir á Jóhann og kinkuðu kolli eins og hænur.
„Aha,“ sagði ég og þorði ekki að spyrja hvað þetta „eitthvað“ væri.
Jóhann var sem betur fór ekki búinn: „Láttu hana segja að atvinnuleysið
hafi eyðilagt líf hennar. Hún hafi ekkert að lifa fyrir lengur.“
„Skil þig,“ sagði ég. Þar með hafði ég verkefni og það sem meira var,
hugmyndina hafði ég komið með sjálf.
Jóhann stóð upp, tryllti klossaklæddum fæti upp á stólinn og hallaði sér
fram á lærið. Ágæt stelling. Svolítið reyndar eins og hann væri að reyna á
þanþol Levi’s-gallabuxnanna sem virtust ekki eiga mikið eftir. Ég sem hélt
að allir væru hættir að ganga í Levi’s.
„Ég er með áríðandi tilkynningu. Hún má ekki berast út,“ sagði hann
leyndardómsfullur og mér fannst hann horfa sérstaklega á mig. „Steini
okkar hérna ætlar inn á Vog. Hann á pláss eftir helgi.“
„Aftur?“ spurði Tómas og það var eins og örlaði á öfund í röddinni.
„Fórstu ekki síðast inn í hittifyrra? Þú ert bara að verða eins George Best,
alltaf í afvötnun.“
„Jú, en þetta er allt annað,“ sagði Steini og leit sposkur á Jóhann sem tók
við: „Hann Steini okkar hérna ætlar að fórna sér fyrir blaðið, láta leggja sig
inn á Vog og skrifa grein um þá lífsreynslu.“
Tómas og Villi voru svo hissa að þeir minntu helst á Lizu Minelli og
Michael York í Cabaret þegar þau komast að því að þau hafa sofið hjá sama
manninum.
„Eiginlega ætlaði ég að geyma þessa hugmynd þangað til í haust þegar
fjölmiðlakönnunin fer fram en áður en ég vissi af var hexið hún Arna á
Fréttum búin að veiða það upp úr mér að við ætluðum okkur eitthvað stórt.
Ég þori bara ekki að bíða lengur svo hún komist ekki á snoðir um þetta.
Hún virðist alltaf vita hvað fer fram hérna á ritstjórninni,“ sagði Jóhann.
„Veiddi hún það upp úr þér að eitthvað stæði til hjá okkur?“ spurði Villi.
„Hvernig fór hún að því?“ spurði ég til að vera með.
„Ég sagði henni ekki nákvæmlega hvað við ætluðum að gera en, æ, þið
skiljið, ég var fullur á bar, hún var ekki full á bar og áður en ég vissi af var
ég bara búinn að segja henni að Vikuskammturinn ætlaði sér eitthvað
rosalegt og hún skyldi bara aldeilis bíða og sjá. Ég veit ekki af hverju ég var
að derra mig þetta.“
„Hvenær var það sem þú hittir hana?“ spurði ég.
„Þetta var snemma í vor. Fyrir svona einum og hálfum mánuði.“
Það var áður en Áslaug hafði talað við systur sína fyrir mig. Svo það var
þetta sem konan hafði verið að ýja að þegar hún sagði að eitthvað væri í
gangi á Vikuskammtinum.
„Við Steini erum nú báðir reyndir menn, höfum gist Vog. Kynntumst
reyndar þar ef ég man rétt. Ekki satt?“ sagði Jóhann.
„Ó, jú, slepptu tökunum og leyfðu Guði,“ sagði Steini og kinkaði kolli
glottandi.
Jóhann sveiflaði fætinum ofan af stólnum og stóð reigður eins og
nautabani fyrir framan okkur.
„Nú flettum við ofan af þeim. Ég meina, er þetta apparat að gera
eitthvert gagn? Alltaf er ég fullur. Þarna fer fullt af liði inn, lætur renna af
sér á kostnað skattgreiðenda og er síðan aftur komið heim á blindafyllirí.“
„Það er eitt hérna,“ sagði Tómas og tosaði treyjuermarnar fram yfir
hendurnar á sér, „mig langar bara að segja að þetta er frábær hugmynd og
vona bara að þetta gangi rosalega vel hjá þér, Steini. Og ég tek þetta til baka
sem ég sagði um að þú værir eins og George Best. Ég meina, hann er
náttúrlega veikur í alvörunni, maðurinn.“
Hann sló á bakið á Steina sem roðnaði af hamingju. Fundurinn endaði á
því að Jóhann bauð okkur á fyllirí á laugardagskvöldið.
„Hann verður að lykta þegar hann fer inn, drengurinn, hann verður að
lykta.“
Klossarnir hans virtust hafa fengið vængi, nema veröld hans væri bara
öll orðin einhvern veginn léttstígari. Að minnsta kosti fannst mér eins og
hann svifi rétt fyrir ofan gólfið þegar hann vatt sér inn á skrifstofuna sína.
Heiða hafði undurblíða rödd. Hana langaði að fá að vita af hverju ég
vildi endilega tala við sig. „Bara,“ sagði ég. „Mér var bent á þig. Er ekki allt
í lagi þótt við hittumst og ræðum ástandið í þjóðfélaginu?“
Ég var farin að geta tekið mér í munn frasa eins og „ástandið í
þjóðfélaginu“. Það borgaði sig að lesa greinarnar hans Villa. Hún samþykkti
að hitta mig og mætti kápuklædd á Svarta kaffið. Það var vont að taka viðtal
þar. Stutt á milli borðanna og allir ofan í manni. Samt tókst mér að fá hana
til að vera fulltrúi kynslóðar sinnar með því að segjast ætla að taka viðtöl
við fleira fólk sem væri í svipaðri stöðu og hún. Sem betur fór spurði hún
ekki hvernig stöðu ég ætti við. Þetta dugði. Heiða fór í gang og talaði út í
eitt um ástandið í þjóðfélaginu, allt frá mjólkurlítranum til þess hvernig hún
væri farin að leita uppi atvinnuauglýsingar dagblaðanna.
„Finnst þér atvinnuleysið hafa eyðilagt líf þitt?“ spurði ég undir lok
spjallsins.
„Já, ég meina, atvinnuleysisbæturnar eru varla neitt neitt. Ég var vön að
lifa á vínberjum. Ég bjó til vínberjasalat, vínberjasúpu, vínberjahlaup,
vínberjabúðing. Þetta á ég ekki eftir að geta leyft mér í bráð.“
Átti ég að spyrja Heiðu hvort hún hefði einhvern undarlegan kæk sem
hún vildi deila með lesendum, hvort henni þætti jafnvel gaman að telja hluti
til að athuga hvort þeir gengju upp í fjóra? Bara til að Fréttir næðu því nú
ekki líka? Mér fannst það ekki ráðlegt og spurði hana því bara hvort hún
myndi taka svo djúpt í árinni að segja að hún hefði ekkert að lifa fyrir
lengur.
„Ég segi það nú ekki.“ Heiða varð hugsi. „Og þó,“ sagði hún svo. „Lífið
hefur misst einn sinna fallegu lita.“
Þetta voru fín lokaorð en þegar ég ætlaði að slökkva á diktafóninum tók
ég eftir því að hann hafði aldrei farið af stað. Samt lét ég sem ekkert væri,
sagði Heiðu að Snorri Geir ljósmyndari hefði samband við hana hið fyrsta,
kvaddi hana með handabandi og dreif mig aftur á blaðið til að skrifa
viðtalið upp eftir minni. Það yrði örugglega ekki í fyrsta skipti sem slíkt
væri gert.
15
KÓTELETTUR. KARTÖFLUR. SULTA . Mamma borðaði með höndunum og fitan
lak niður eftir fingrunum á henni og inn undir giftingarhringinn. Það hafði
ekki verið mikið að bíta og brenna á Lindargötunni og aldrei að vita nema
svipaðir tímar væru á næsta leiti. Leðrið í sultarólina hafði án alls vafa verið
sútað heima hjá langömmu og langafa. Eins og mamma hafði svo oft sagt
fékk hún ekki almennilega að borða fyrr en hún var 16 ára og réð sig í
síldina fyrir norðan. Afi hennar fór í bakinu strax sem ungur maður eftir að
hafa bograð árum saman í almennri verkamannavinnu og gat lítið unnið
eftir það. Amman tók að sér þvotta og sauma en það dugði ekki þriggja
manna fjölskyldu svo heitið gæti. Afmæli gleymdust og jólin voru afplánuð
með lunta. Þegar mamma var tíu ára langaði hana fátt eins mikið og að hafa
jólatré með logandi kertum, eins og hún hafði séð mynd af á loki á
konfektkassa, en það voru ekki til peningar til þess. Alla aðventuna velti
hún því fyrir sér hvað nota mætti í staðinn og fjórum dögum fyrir jól tók
hún það til bragðs að drösla kræklóttri grein af reynitré með sér heim.
Enginn var heima svo hún gat farið með greinina óáreitt inn í stofu þar sem
hún svaf alltaf á bedda úti í horni. Stofan komst næst því að vera herbergið
hennar.
Mamma fann eldspýtur og fjögur kerti, lét vaxið af þeim leka á
greinarnar og storkna utan um kertaendana. Síðan batt hún tvær rauðar
hárslaufur um greinina og kveikti á kertunum. Stofan ljómaði í
skammdegismyrkrinu og skuggarnir blöktu á veggjunum. Þetta var bara
þónokkuð hátíðlegt. Nú ætti hún aldeilis eftir að koma afa sínum og ömmu
á óvart. Og kannski hefði það heppnast hefði eitt kertanna ekki oltið um
koll og eldurinn læst sig í aðra slaufuna. Þá var eins og greinin fengi líf, hún
snerist á hliðina svo kviknaði í teppinu. Mamma lamaðist af hræðslu. Eitt
andartak hélt hún að einhver væri að koma en áttaði sig síðan á því að þetta
var ekki fótatak, heldur bara hennar eigin hjartsláttur. Mörgum árum síðar
var hún enn að naga sig í handarbökin yfir að hafa ekki stappað á eldinum
eða hlaupið fram í eldhús og fyllt fötu af vatni.
„Er eitthvað að brenna, Magdalena?“ heyrðist allt í einu spurt
svefndrukkinni röddu og afi hennar snaraðist út úr svefnherberginu. Hún
náði ekki að svara og þurfti þess heldur ekki. Hann kom strax auga á bálið á
stofugólfinu, tók nokkur skref inn í stofuna og horfði ráðvilltur á logana
skríða í átt að húsgögnunum, gluggatjöldunum, veggjunum. Honum tókst
bæði að reka dótturdóttur sinni löðrung og spyrja hana hvort þetta væru
þakkirnar áður en hann gekk í að slökkva eldinn. Hún sá ekki hvernig hann
fór að því. Hún hljóp inn í eldhús en var of hrædd til að fara að orga. Það
gerði hún ekki fyrr en að lokinni flengingu sem sveið enn undan þegar
aðfangadagur rann upp. Brunalyktin lá líka enn í loftinu. Stóll hafði verið
settur yfir blettinn í teppinu en hann fór samt ekki framhjá neinum. „Það er
vel hægt að jafna sig á flengingu og löðrungi en að kallinn skyldi spyrja
mig hvort þetta væru þakkirnar ... ég var þó barnabarn hans,“ hafði mamma
sagt oftar en við Gubba gátum talið þegar illa lá á henni.
Gunnar Birnir át með látum en Gubba goggaði bara í matinn á disknum
sínum. Hún var með stóra gyllta hringi í eyrunum sem ég hafði ekki séð
hana með áður og gætu alveg hafa kostað einhverja þúsundkalla. Bolurinn
var örugglega líka nýr. Líklega eitthvað frá Spáni eins og diskurinn með
myndinni af senjórítunni með flírulega brosið sem hafði verið negldur upp á
vegg undir eldhúsklukkunni. Þær höfðu bara verið að spreða, mæðgurnar.
Mamma hafði hringt og boðið mér í mat. Mig langaði að segja nei en
fékk það ekki af mér. Auðvitað var ég líka svolítið spennt að sjá hvort þær
væru jafnagalega brúnar og af var látið. Það var sem mig grunaði, mamma
og Gunnar Birnir höfðu tekið fallegan lit en Gubba var í bleikari kantinum.
Hún var farin að flagna á bringunni og þegar hún sá að ég var að horfa á
hana hneppti hún peysunni upp í háls. Kannski hafði ég líka bara horft á
bringuna á henni til þess að hún færi hjá sér.
Auðvitað ætti maður að geta skilið við ættingja sína, hætt bara að
umgangast þá og látið sér nægja að nikka til þeirra þegar maður mætti þeim
á götu. Lenti maður við hliðina á þeim í leikhúsi gæti maður bara spurt
kurteislega hvernig gengi. „Það gengur bara fínt, en hjá þér?“ „Bara fínt.
Jæja, sýningin að byrja. Góða skemmtun.“ Og það yrði ekkert óþægilegt að
vita af móður sinni eða systur í myrkrinu við hliðina á sér næstu þrjá
klukkutímana því eins og allir vita taka sambönd fyrr eða síðar enda.
Hvert lagið á fætur öðru af dúk hafði verið lagt á eldhúsgólfið frá því
húsið var byggt fyrir hálfri öld og ég gat ekki losnað við þá tilfinningu að
eldhúskollurinn væri ekki fullkomlega stöðugur undir mér. Mér fannst ég
vagga.
Af gömlum vana var kveikt á útvarpsfréttunum. Það hafði alltaf farið í
taugarnar á mér en nú þurfti ég auðvitað að fylgjast með því sem var að
gerast. Á meðan pabbi hlustaði ýmist á tíðindi af aflasamdrætti eða stórum
loðnutorfum höfðum við þrjár orðið að hvíslast á. Alltaf var ég
jafndauðfegin þegar fréttirnar voru búnar og pabbi fór loks inn á
skrifstofuna sína. Nú höfðum við alveg sama háttinn á, borðuðum þegjandi
þangað til fréttatímanum lauk. Þá stóð mamma upp og slökkti.
„Mig langaði til að taka þetta rýjateppi niður en málningin á bak við það
er mun ljósari en annars staðar,“ sagði Gubba. „Eiginlega þyrfti að mála
hér.“
„Er þetta ekki voða mikið að koma aftur?“ spurði ég, enda nýbúin að
rekast á hvíta rýjamottu, sem reyndar var höfð á gólfi, í húsbúnaðarblaði og
var alveg til í að eiga eina svoleiðis þegar ég flytti í eigin íbúð.
„Hvað?“
„Rýjateppin. Ég sá eitt í tímariti um daginn.“
„Já, kannski í einhverju af þessum fínu blöðum sem þú lest.“
Við þessu var lítið að segja. Í raun gæti það orðið mjög slæmt ef
rýjateppið færi því þá væri Gubba líkleg til að hengja upp
fermingarmyndirnar okkar þar í staðinn en þær hafa hingað til fengið að
vera úti í glugga inni í stofu. Henni hefur alltaf þótt myndin sín svo falleg
og sýnir hana gestum og gangandi með orðunum: „Sjáðu hvað ég er sæt.“
Myndin af mér var tekin þegar ég var nývöknuð, píreygð og með þrútið nef
snemma að morgni daginn eftir ferminguna sem reyndist gott ef ekki einn
ömurlegasti dagur lífs míns.
Á laugardagsmorgni nokkrum vikum fyrr hafði mamma rifið mig með
sér í einhverja tuskubúð á Laugaveginum sem seldi fáeina konukjóla sem
fermingarkjóla. Þetta átti ekki að taka meiri tíma en svo að pabbi beið úti í
bíl á meðan og hlustaði á Óskalög sjúklinga. Hann hefði allt eins getað
komið með okkur inn. Vitneskjan um að verið væri að eyða peningunum
hans átti það stóran þátt í valinu. Ég er líka viss um að hann hefði aldrei
tekið í mál að mamma keypti á mig karrígulan kjól með vínrauðri rönd yfir
brjóstið, litir sem hafa aldrei farið mér vel, en að þessu sinni ákvað hann að
treysta smekklausri eiginkonu sinni fyrir því að kaupa fermingarkjól á
dóttur þeirra. „Helvíti er þetta dýrt hjá þeim. Þetta var það eina sem var til á
skaplegu verði,“ var það fyrsta sem mamma sagði þegar við komum aftur út
í bíl. Hún reif upp kjólinn til að sýna pabba í hvað peningarnir hans höfðu
farið. Hann dæsti.
Fermingin hennar Gubbu var auðvitað sú fyrsta í okkar litlu fjölskyldu
og mömmu fannst hún voða spennandi. Hún keypti sér ný föt, einhvers
konar flauelsskokk, grænan að lit, og það fóru fram miklar umræður áður en
ákveðið var að halda kökuboð. Síðan kom pabbi öllum á óvart þegar hann
lét sig hafa það að fylgjast stilltur með athöfninni. Fermingunni minni var
hins vegar tekið jafnfagnandi og botnlangakasti. Allir vissu að það kæmi að
henni en engin sérstök ástæða þótti til að halda partý. Leitað var til sama
bakarans og dregin voru fram sömu sparifötin og í fermingu Gubbu sem
reyndar höfðu þá þegar verið notuð á þrennum jólum og jafnmörgum
áramótum. Pabbi sat ekki við hliðina á mömmu og Gubbu í kirkjunni heldur
einn úti við ganginn til að geta verið fljótur út. Fermingin mín var óttalegt
vesen fyrir þau.
Gjafirnar mínar báru þess vott að sonur vinafólks pabba og mömmu
hafði skyndilega hætt við að láta ferma sig. Í veislunni minni voru nokkrir
sem hafði verið boðið í veislu stráksins og höfðu greinilega þegar keypt
gjafir handa honum. Ég held að minnsta kosti að það sé ástæðan fyrir því að
ég fékk bæði veiðihjól og bók um Pelé.
Það hafði verið gaman að ganga til prestsins. Það var hlýtt og notalegt
inni í kirkjunni og pesturinn var svo rólegur. Hann sagði bara: „Strákar
mínir, ekki þetta,“ þegar þeir léku sér að því að láta glerkúlur rúlla eftir
kirkjugólfinu. Ég hefði alveg verið til í að ganga til prestsins heilan vetur í
viðbót til að sleppa við þessa veislu. Ég var inni í herberginu mínu allan
tímann, nartaði í brauðtertu og sagði: „Halló“ og „takk“ þegar eitthvert fólk
kom og rétti mér pakka. Í þeim sem ekki voru veiðigræjur og bækur um
fótboltakalla voru kúlulampar eða orðabækur.
Þegar mér heyrðist gestirnir vera farnir fór ég inn í eldhús þar sem
foreldrar mínir voru þegar farnir að ganga frá leifunum af veisluföngunum.
Ekkert skyldi fara til spillis. Í miðjum álpappírsdansinum birtist Gubba og
skellti blaðabunka á eldhúsborðið með orðunum: „Síðan fékkstu fimm
skeyti.“ Hún hafði ekki aðeins tekið á móti þeim, heldur líka dundað sér við
það að taka þau upp og lesa. Það fauk í mig og ég spurði hana hvort hún sæi
ekki að þau væru stíluð á mig. Gubba þurfti ekki að svara. Það gerði
réttlætisguðinn hann pabbi. „Svona, þú ert alveg búin að fá nóg í dag,“
hvæsti hann og Gubba náði að senda mér gneistandi glott áður en hún lét
sig hverfa inn til sín.
Um kvöldið horfðum við á sjónvarpið og þá varð mömmu hugsað til
þess að hún hafði þurft að halda uppi eðlilegum samræðum við vini sína og
ættingja í heila þrjá og hálfan klukkutíma. Hún leit upp frá Þyrnifuglunum
og sagði: „Ég myndi frekar drepa mig en að láta ferma einn krakka í
viðbót.“
Mig langaði heim og var þegar farin að velta því fyrir mér hvernig ég
gæti staðið kurteislega upp frá borðinu án þess að stuða neinn þegar Gubba
rauf þögnina: „Skórnir sem þú komst í, eru þeir nýir?“
„Nei, ég keypti þá á Ítalíu í hittifyrra.“
„Hvað kostuðu þeir?“
„Örugglega heilt munaðarleysingjahæli á Indlandi.“
Gubba vildi helst ráða hvað ég ætti mikla peninga. Það tókst henni í tvö
ár þegar hún tók upp á því að bera út Dagblaðið. Samt komst hún ekki nema
fjórum sinnum í viku út af píanótímunum. Það þótti sjálfsagt að ég leysti
hana af og í þessi tvö ár kveið ég fyrir þriðjudögum og fimmtudögum, auk
þess sem hver mánaðamót gátu verið afar spennuþrungin. Þá kom að því að
Gubba ákvæði hvað hún ætlaði að greiða mér fyrir vinnuna. Upphæðin fór
nefnilega algjörlega eftir því hvernig lá á henni. Stundum stóð ég hana að
því að reyna að koma af stað rifrildi einmitt um sama leyti og þá reið á að
hafa taumhald á sér. Annars gat ég átt von á tíköllum. Þegar ég kvartaði við
mömmu spurði hún bara af hverju við systurnar þyrftum alltaf að vera að
jagast svona og varaði mig við því að fara með þetta í pabba. „Hann hefur
um nóg að hugsa,“ sagði hún.
Systir mín lagði frá sér kótelettu sem hún hafði aðeins rétt nartað í og
þurrkaði sér um hendurnar. Henni var alvara núna. „Láttu ekki svona, hvað
kostuðu þeir?“
„Ég vil ekkert segja þér það,“ sagði ég og horfði ákveðin á móti.
„Svona, vertu ekki að rífast við hana systur þína,“ sagði mamma án þess
að líta upp af disknum sínum.
Við Gubba horfðum hvor á aðra og síðan á mömmu. Vissum ekki alveg
við hvora hún var að tala en það kom fljótlega í ljós. Mamma beygði sig
niður að Gunnari, strauk í gegnum hárið á honum með fitugum fingrunum
og sagði: „Hvað er hún Odda frænka þín alltaf að jagast við mömmu þína?“
Barnið sagði: „Hei, vá, já“ og stakk upp í sig kartöflu. Ég þorði ekki að
líta framan í Gubbu. Komst samt ekki hjá því að sjá hana brosa út undan sér
og þá hvarf mér rósemin sem mér hafði tekist að sýna fram til þessa.
„Og hvað kostaði Mallorka-ferðin þín?“ spurði ég. „Borgaðirðu hana
sjálf?“
„Svona, ekki vera að þessu,“ sagði mamma.
„Ég er í námi,“ sagði Gubba sár og stóð upp frá borðinu. Um leið og hún
strunsaði út úr eldhúsinu svo hringirnir í eyrunum sveifluðust til og frá
fannst mér hún bæta við: „Annað en sumir,“ en það gat verið ímyndun.
Gunnar Birnir virtist vakna upp af einhvers konar dvala. „Hvað var
þetta?“ spurði hann.
Mamma dæsti, svona líka gjörsamlega lens yfir framkomu minni, rétt
eina ferðina. Hún tók diskana af borðinu og skellti þeim í vaskinn. Gunnar
Birnir stóð upp og skaust út úr eldhúsinu. Auðvitað var þetta ekki rétti
tíminn en ég ákvað samt að nýta mér haminn sem ég var komin í.
„Ætlastu síðan til þess að ég biðji Gubbu um leyfi til að fá að eiga
blekpennann hans pabba? Skildi ég þig rétt í símanum?“
Hún sneri í mig bakinu. Hamaðist við að skola af diskunum.
„Þetta er ekkert auðvelt, hvorki fyrir þig né Gubbu.“
Ósjálfrátt hljómaði þessi setning strax á ensku í hausnum á mér, hef
eflaust heyrt hana mjög oft í bíó þegar amerísk börn með bambaaugu hafa
misst mömmu sína, besta vin sinn eða heimilishundinn. „Síðan á strákurinn
líka erfitt,“ bætti mamma við, „þótt hann sýni það ekki. Hann þegir mun
meira en hann var vanur. Þeir afi hans voru nú svo nánir.“
Ég tautaði eitt „jæja“, fór inn í skrifstofuna hans pabba, hans helgasta vé,
og lokaði að mér. Systir mín og móðir voru of fúlar út í mig til að koma og
trufla mig. Það var þung lykt inni í herberginu. Hillurnar voru þaktar
veglegum gjafabókum sem pabba höfðu áskotnast í gegnum tíðina um
náttúru landsins og þjóðlegan fróðleik. Hann hafði ekkert sérstaklega
gaman af svoleiðis bókum, las aðallega krimma, og því voru sumar enn í
plastinu. Ég held að í eina skiptið sem ég sá hann opna einhverja af þessum
bókum hafi verið til að stinga inn í hana lítilli úrklippu með frétt sem birtist
fyrir mörgum árum á baksíðu Dagblaðsins um „árás hettuklæddra unglinga
á ungan blaðbera“, eins og það var kallað.
Efsta skúffan í skrifborðinu var læst en í hinum tveimur voru
skrifblokkir, bréfaklemmur, tvær blekbyttur, önnur svört, hin blá, heftari og
símaskrár frá árunum 1993 og 1995. Penninn hlaut að vera í efstu skúffunni,
ef Gubba hafði ekki þegar hirt hann. Hún var strax farin að huga að því að
breyta heimilinu. Rýjateppið átti greinilega fyrst að lenda á haugunum. Ég
velti því fyrir mér hvar pabbi hefði stungið lyklinum. Á einni hillunni voru
þrjár litlar öskjur með landslagsljósmyndum í lokinu en þær reyndust allar
tómar. Ég hafði aldrei leitt hugann að þessum fjandans penna áður. Það
hleypti bara í mig illu blóði að mér skyldi hafa verið neitað um eina hlutinn
sem mig langaði til að eignast af öllu því sem hann hafði skilið eftir sig.
Pabbi hafði dregið þennan penna upp þegar hann skrifaði ávísanir fyrir
dansnámskeiðum, strigaskóm og úlpum. Stundum hátíðlegur en alltaf mjög
alvarlegur. Það hafði gjörsamlega komið honum í opna skjöldu að hann
þyrfti að eyða peningum í dætur sínar, að þær skyldu virkilega krefjast
einhvers meira í lífinu en þess að fá þrjár máltíðir á dag.
Ég var komin með bréfahníf á loft og á góðri leið með að leggja til
skúffunnar þegar vitleysan bráði af mér. Mér fannst eins og pabbi gæti enn
séð til mín og hann myndi fyrr eða síðar láta mig heyra það. Hvað sem því
leið var ósmekklegt að brjóta upp hirslur nýlátins manns. Auk þess sem
bréfahnífurinn virtist ágætisgripur, silfurskeftið níðþungt og áletrun á
blaðinu, Gunnar Pálsson sextugur. Það var frábært afmæli. Reyndar var
svolítið stirt á milli okkar Gubbu einmitt þennan dag en það var ekkert
óeðlilegt við það. Okkur tókst að komast í gegnum veisluna án þess að
gestirnir yrðu varir við neitt. Þetta var svona eins og í hefðbundnum farsa.
Um leið og önnur okkar gekk inn í stofuna fór hin út. Hurðarskellur.
Ég stakk hnífnum upp í ermina og fannst ég vera vopnuð eins og gamli
nasistinn Hvíti engillinn í The Marathon Man sem lætur hárbeittan hníf
skjótast fram úr vinstri ermi og sker fólk leiftursnöggt á háls. Síðan opnaði
ég dyrnar varlega og þegar ég var viss um að Gubba væri inni hjá sér skaust
ég fram á gang. Mamma var enn inni í eldhúsi að ganga frá. Hún mokaði
afganginum af kartöflunum í skál og skellti álpappír yfir. Hér voru
heimilisverkin aldrei látin bíða. Lengi eftir að ég var flutt að heiman sagði
ég mömmu alltaf að ég hefði verið að taka til þegar hún hringdi. Fátt gladdi
hana jafnmikið. Hún vildi ekkert fá að vita hvernig námið gengi eða hvort
ég væri ekki frísk, bara að það væri nú örugglega hreint heima hjá mér.
Þegar hún kom við hjá mér með kassa með fötum eða gömlum skólabókum
skimaði hún um allt í leit að fötum á stólbaki eða kuski úti í horni. Í einu
símtalinu sem við áttum á þessum tíma uppdiktaði ég jafnvel gesti sem
höfðu hvorki meira né minna en gripið andann á lofti þegar þeir stigu inn
fyrir þröskuldinn, það hafði verið svo fínt hjá mér. Einn daginn ákvað ég að
hætta að taka til fyrir móður mína og þá fyrst fannst mér ég líka flutt að
heiman.
„Jæja,“ sagði mamma þegar hún varð mín vör. Þetta jæja gat hvort
tveggja þýtt: „Ertu ánægð með að hafa eyðilagt þetta ágæta matarboð?“ eða:
„Ertu loksins að fara?“
Mig langaði samt til að hún segði eitthvað fallegt við mig og til að gefa
henni færi á því greip ég skóna mína af ganginum, settist með þá á vaggandi
kollinn inni í eldhúsi og klæddi mig í þá.
„Sjáðu þessa krakka,“ sagði mamma allt í einu og benti út um gluggann
með sleif. „Þeir leika sér ekkert lengur. Ekki eins og þið gerðuð.“
Þrjár stelpur, á að giska tíu ára gamlar, stóðu á götunni miðri og virtust
vera að spjalla. Svona líka stilltar. Líklega voru þær að deila því með sér
hver þeirra ætti að verða líftæknifræðingur, hver bankastjóri og hver færi á
þing.
„Þetta hangir bara og kjaftar,“ hélt mamma áfram. Svo var eins og hún
áttaði sig á því af hverju ég hékk fram fyrir mig á stólnum svo nefið nam
nærri því við ristina.
„Svo þetta eru skórnir?“ spurði hún.
„Já, finnst þér þeir ekki æðislegir?“ spurði ég á móti.
„Það tók því að rífast út af þessu.“
„Segðu.“
Í því orði töluðu birtist Gubba og var ekki miklu kátari en áður. „Meira
sem alltaf þarf að tipla í kringum þig. Það má ekkert segja við þig. Á aldrei
að hætta að vorkenna þér? Ha?“
„Guðbjörg mín, þetta er óþarfi,“ skaut mamma inn í.
Þessi heimsókn var þegar orðin fulllöng og ég átti ekki annað eftir en að
sækja kápuna mína fram í fatahengi. Gubba elti mig þangað og var svo þétt
á hælunum á mér að ég var farin að velta því fyrir mér hvort hún ætlaði að
ráðast á mig. Þá gæti bréfahnífurinn aldeilis komið sér vel. Mamma þorði
ekki annað en að koma á eftir okkur. Kannski til að líkna særðum. Ég
klæddi mig yfirvegað í, tók mér góðan tíma til að fara í hvora ermi og
hneppti að mér með hreyfingum sem hefðu hæft vel í tai-chi. Á meðan stóð
fúkyrðaflaumurinn út úr Gubbu: „Ég veit ekki hvað þú heldur eiginlega að
þú sért“ og: „Þú ert algjörlega ömurleg.“
Ég skaut inn í einu „æi, þegiðu“ án þess að það hefði mikinn áhrifamátt.
„Bless, mamma mín,“ sagði ég.
„Já, andskotastu út,“ sagði systir mín en mamma kvaddi mig aðeins
hlýlegar. Sem var gott.
16
LJÓSMYNDIR ELLA SIGURÐSSONAR hafa vakið mikla athygli. Þar eru
tilfinningar í aðalhlutverki en manneskjan í aukahlutverki.

ÞJÁNING ER LIST–LIST ER ÞJÁNING

Elli tekur svarthvítar ljósmyndir af fólki sem á það sameiginlegt að hafa


sterkan þjáningarsvip. Það er sama hvort um er að ræða pólska
fiskverkunarkonu á Patreksfirði, verkfræðing í Skaftahlíð, ráðskonu á bæ í
Húnavatnssýslu eða blaðburðarstrák í Kópavogi. Öll virðast þau þjást.
Jafnvel stelpan í bakaríinu í Suðurveri sem er venjulega svo sæt virðist hafa
kvalist lengi.
Nú um helgina opnar Elli sína fyrstu einkasýningu sem ber yfirskriftina
„Fram þjáðir menn“. Vikuskammturinn brá sér í heimsókn til Ella á heimili
hans við Ásvallagötu en þar hanga margar bestu mynda hans sem sumar
hafa birst í erlendum tímaritum. Blaðamanni verður starsýnt á mynd af
svipsterkum bónda með orf og ljá sem horfir einbeittur í linsuna.
„Hann var rosa karakter þessi,“ segir Elli. Hann er í ljósgráum
jakkafötum, hvítri skyrtu og með rautt bindi.
„Er hann dáinn?“
„Dáinn? Nei. Af hverju?“
„Þú talaðir um hann í þátíð.“
„Já, veistu, fyrir ljósmyndara er fyrirsætan aðeins lifandi rétt á meðan
smellt er af. Síðan skiptir hún engu máli lengur.“
„Hvað hét hann?“ spyr ég.
„Hver?“
„Þessi bóndi.“
„Það veit ég ekki,“ svarar Elli eins og það hafi aldrei hvarflað að honum
að manninum gæti hafa verið gefið nafn.
„Hvar bjó hann?“
„Úti á landi.“

Eiginkona Ella snarast inn með troðfullan innkaupapoka í hvorri hendi. Á


eftir henni koma tveir litlir krakkar. Stelpa á að giska fimm ára og strákur
varla eldri en tveggja. Konan kastar kveðju á okkur.
„Þetta er blaðakona, Matta. Hún er að taka við mig viðtal.“
„Já, en gaman,“ segir konan og fer fram í eldhús. Strákurinn eltir en
stelpan stendur hikandi í dyragættinni.
„Komdu til pabba, Gunna,“ segir Elli. Stelpan hleypur til hans og hann
þeytir henni upp í loftið eins og fólk gerir stundum í sjónvarpsauglýsingum
fyrir tryggingar. Stelpan hvíar. Eflaust af ógleði.
„Farðu nú til mömmu,“ segir Elli síðan og sleppir dóttur sinni sem lætur
ekki segja sér það tvisvar.
„Átt þú börn?“ spyr hann.
Ég hristi höfuðið.
„Veistu, það er rosalega gaman að eiga börn,“ segir hann hálfhvíslandi
og veltir orðunum vel fyrir sér áður en hann bætir við: „En líka rosalega
erfitt.“
Ég slekk á diktafóninum til að sýna honum að mér þyki lítið varið í
þessar upplýsingar.
„Vildirðu kaffi?“ segir hann og án þess að bíða eftir svari galar hann:
„Matta, komdu með kaffi.“
Hann bendir mér á að setjast í djúpan hvítan stól gegnt hvíta sófanum þar
sem hann sest sjálfur. Ég kveiki aftur á diktafóninum.
„Menn hafa haldið því fram að þú leitaðir uppi fólk sem ætti erfitt. Er
það rétt?“
„Nei, nei, ertu frá þér? Auðvitað ekki.“
„Hvað veldur þá þessum þjáningarsvip?“
„Það má andskotinn vita. Við skulum samt ekki orða það svona í
viðtalinu. Segjum bara: Þetta er svipur íslensku þjóðarinnar. Svona erum
við. Íslendingar eru veiðiþjóð. Stundum fiskast, stundum ekki og þá
þjáumst við. Nálægðin hér á landi er líka svo mikil að ef einum líður illa
líður öllum illa.“
Kona Ella læðist inn í stofu og setur kaffíkönnu og tvær krúsir á
stofuborðið.
„Matta mín, megum við ekki fá bolla og undirskálar?“
„Jú, auðvitað. Fyrirgefðu,“ segir konan og snýr aftur fram í eldhús.
„Kemur það fram í viðtalinu hvernig kaffið er borið fram?“ spyr hún mig.
„Já,“ segir Elli áður en ég get svarað. „Það er alltaf minnst á kaffi í
viðtölum. Allt skiptir máli í viðtölum. Af hverju heldurðu að ég hafi tekið til
í gær?“
„Elli, ÉG tók til í gær,“ segir konan og er ekki skemmt.
„Já, en einhver þurfti að hengja upp myndirnar á sýningunni.“
Elli og konan hans horfa þegjandi hvort á annað. Líklega ætti ég bara að
fara. Ég slekk á diktafóninum og sting honum ofan í tösku. Elli flissar
vandræðalegur og klórar sér á enninu þar sem fáeinir svitadropar hafa
myndast.
„Þetta er ekkert mál, Matta mín,“ segir hann.
„Nei, ég hélt það ekki heldur. Þú veist ennþá hvar bollarnir eru geymdir,“
segir hún og fer aftur inn í eldhús.
„Já, já,“ tautar eiginmaður hennar og eltir hana. Ég heyri þau hvæsa í
lágum hljóðum hvort á annað. Samt ákveð ég að staldra aðeins lengur við.
En ekki lengi. Það er heitt hérna inni og kókosteppið á gólfinu stingur mig í
iljarnar. Íbúðin er ekki neitt neitt. Allir veggir hvítmálaðir. Öll húsgögnin
hvít. Stofan er furðulega lítil með smáútskoti sem gæti hafa heitið
borðstofukrókur á teikningunni. Eldhúsið virðist líka vera kytra.
„Jæja, fáðu þér kaffi,“ segir Elli og leggur bakka með fallegum bollum á
borðið.
„Hafið þið búið hérna lengi?“
„Við fluttum inn í fyrra. Það var slegist um þessa íbúð en að lokum
höfðum við Matta vinninginn. Hún er í góðri vinnu. Tannlæknir. Húsið er
svo fallegt. Ég ók svo oft framhjá til að dást að því áður en við fluttum inn.
Eða sko hjólaði öllu heldur. Matta er á bílnum. Svo þegar við vorum loksins
búin að hreiðra hér um okkur komst ég að því að það skiptir engu máli
hvernig húsið er að utan. Skilurðu? Maður er auðvitað aðallega inni í húsinu
og sér þá ekkert hvernig það lítur út. Herbergin eru auðvitað alltof lítil fyrir
fjögurra manna fjölskyldu.“
„Já, þar erum við aftur komin að þjáningunni,“ segi ég og heyri strax
hvað það er eitthvað langsótt.
„Veistu, Oddfríður. Heitirðu það annars ekki?“
Ég játa því.
„Sko, ég á rosalega erfitt með að ræða myndirnar mínar. Ég meina, ég er
enginn fræðingur. Ég ætlaði ekkert að taka myndir af þjáðu fólki. Mig
langaði auðvitað til að allir væru hamingjusamir og brosandi á myndunum
mínum. Síðan fór ég að framkalla og sá að fólkið var allt á svipinn eins og
eitthvað hefði komið fyrir. Þetta er auðvitað bara þjóðarsálin.“
Ég kinka skilningsrík kolli. „Þú ferðaðist um landið og safnaðir þessum
myndum. Geturðu sagt mér frá einhverju skemmtilegu sem gerðist í
ferðinni? Eitthvað sem stendur upp úr?“
„Jú, það gerðist oft eitthvað,“ segir Elli og sýpur á kaffinu. Hann gjóar
augunum á eldhúsdyrnar sem eru lokaðar og færir sig fram á sófabrúnina. Á
næstu 20 mínútum fer hann allan hringveginn með mér þar sem hann gat
varla svo ekið framhjá þúfu, læk eða barði að hann rækist þar ekki á
hjólgraðar hollenskar stúlkur með bakpoka fulla af æsandi nærfötum. Þýsk
stúlka kom þar reyndar líka fyrir og ein norsk. Þjóðernið skipti auðvitað
ekki öllu máli því allar voru þær jafnvitlausar í hann.
Eftir fyrstu tíu mínúturnar er mig farið að langa heim í heita sturtu að
skrúbba mig með naglabursta.
„Eina þeirra hitti ég aftur hér fyrir sunnan. Ilse. Ég man ekkert hvaðan
hún var. Kannski Belgíu?“ segir Elli og lítur spyrjandi á mig eins og ég búi
yfir upplýsingum um þennan káta kvenmann.
„Við fórum í Bláa lónið. Ég tók hana þar innan um japanska túrista alla
kísilhvíta í framan. Enginn fattaði neitt. Það er ýmislegt hægt ef maður bara
nennir að hafa fyrir því.“
„Þetta dugir mér,“ segi ég og stend loksins upp. Ég skil ekkert í mér að
vera ekki löngu farin.
„Já, hefurðu ekki eitthvað að vinna úr?“ spyr Elli.
Áður en ég fer kasta ég kveðju á konuna hans. Sonurinn sefur fram á
eldhúsborðið en dóttirin teiknar með vaxlitum og syngur
Grænmetissönginn. Konan kreistir fram bros og drepur í sígarettu. Eldhúsið
er reykmettað.
Á leiðinni niður stigann stoppa ég fyrir framan eina af svarthvítu
myndunum hans Ella. Freknótt kona hvílir olnboga á dúkuðu borði.
Andlitið á mér speglast í glerinu yfir andlitið á konunni. Við erum með
nákvæmlega sama þjáningarsvipinn.
17
LAUGARDAGSKVÖLDIÐ HÓFST Á því að við fórum saman út að borða; Jóhann,
Steini, Villi, Tómas og ég. Á kostnað blaðsins. Allir mættir í sínu fínasta
pússi. Meira að segja Tómas hafði fyrir því að fara úr adidas-treyjunni og
klæða sig í ljósgráa peysu með V-hálsmáli og gott ef hárið á Steina sýndist
ekki bara nokkuð hreint. Villi var hins vegar bara eins og við var að búast.
Alltaf flottur. Ég hafði fyrir því að arka ofan í bæ í hælaháu
Dolce&Gabbana-skónum, svo fallegum að þeir gátu hrundið af stað
styrjöldum. Ég keypti þá í helgarferð með Kristínu fyrir tveimur árum.
Mílanó, frábær borg. Skórnir voru svo dýrir að þegar kom að því að kaupa
Guccitösku hafði ég ekki efni á leðri og varð að sætta mig við tau. Leðrið
hefði þýtt raðgreiðslur fram undir fimmtugt. Ekki veit ég hvort það voru
skórnir, veskið eða flegna skyrtan sem fékk Jóhann til að segja: „Það er
aldeilis“ þegar ég nálgaðist borðið þeirra. Þeir virtu mig fyrir sér allir fjórir
og Tómas sagði: „En flott“ án þess að það hljómaði neitt asnalega. Eitt
andartak langaði mig til að þeir stæðu allir upp eins og menn gera í
erlendum kvikmyndum þegar kona bætist í hópinn. En það hefði verið
óþarfa gustuk. Ég settist á milli Tómasar og Steina sem sagði: „Jæja,
loksins, þá getum við farið að panta,“ eins og ég hefði látið þá bíða eftir mér
tímunum saman en ekki aðeins þetta eina korter.
Jóhann pantaði þrjár hvítvínsflöskur á borðið. Ég bað hrokkinhærðan
þjón um kók, sagðist þurfa að vakna snemma í fyrramálið. Ég varð að hafa
fulla meðvitund. Aldrei að vita nema ég heyrði eitthvað sniðugt þetta kvöld
sem ég yrði að muna fyrir leynigreinina.
„Byrjaðu bara í einhverju léttu,“ sagði Jóhann og hellti í glasið hans
Steina. „Svo færirðu þig yfir í eitthvað sterkara eftir matinn og sullar í því
fram á mánudagsmorgun. Þetta verður löng helgi. Þú verður að vera
sannfærandi. Eiginlega ættirðu að pissa á þig áður en dagur rennur.
Útmignum manni er tekið opnum örmum inni á Vogi. Hann fær rauða
teppið og ekkert minna. Láttu bara gossa sem fyrst í buxurnar, ekki síðar en
upp úr fimm, og bættu síðan alltaf smá í.“
Ég skellti upp úr en kollegar mínir horfðu alvarlega á mig. „Þetta er
ekkert grín, Oddfríður,“ sagði Jóhann og veifaði framan í mig forréttagaffli
eins og hann ætlaði að leggja til mín.
Ég ákvað að einbeita mér alfarið að humrinum sem við pöntuðum öll í
forrétt og baðaði bitana þegjandi í gómsætri sósu áður en ég gæddi mér á
þeim. Það var langt síðan ég hafði farið út að borða og ég hafði aldrei farið
inn á þennan stað. Á blámáluðum veggjunum héngu eftirprentanir af
frægum málverkum. Konan með greiðuna og kýrin, mamman og krakkinn
með blómið eftir Gunnlaug Scheving. Sá pakki allur. Áður byrjuðum við
Kristín venjulega kvöldið með því að fá okkur eitthvað í gogginn saman á
Horninu. Það dugði okkur oftast, sér í lagi þegar við vorum á námslánunum
og fengum 53 þúsund krónur 15. hvers mánaðar. Tveimur vikum síðar
urðum við að lifa á seríósi í öll mál.
Tómas sagði frá mögnuðum humarrétti sem hann var eitt sinn svo
lánsamur að smakka á Benidorm og var víst alveg ótrúlegur. Villi lét aðra
Benidorm-sögu flakka. Hún fjallaði um VISA -kort sem týndist en fannst svo
aftur. Hrokkinhærði þjónninn sem hafði fært okkur forréttinn tók diskana og
Steini notaði tækifærið og pantaði rautt. Þá skáluðum við fyrir kvöldsólinni
sem makaði borgina rauða fyrir utan gluggann.
Kálfar, kjúklingar og lömb voru borin á borð. Ég lét mig hafa það að
gæða mér á mjúku kálfakjöti þó að ég væri orðin södd eftir humarinn. Í
nafni allra þeirra sem þurft hafa að svelta í heiminum stakk ég upp í mig
hverjum bitanum á fætur öðrum. Alla ævi eiga svöngu börnin í Biafra eftir
að læðast upp að manni. Varla vorum við hálfnuð með aðalréttinn þegar
Jóhann brast í sögu af því þegar hann var kaupamaður í Borgarfirði. „... og
það sem kýr eru leiðinlegar. Þær hafa svo ömurlegt augnaráð og þótt ég
hefði skrifað margt dónalegt um sveitavarginn áður reiddist hann ekki fyrr
en ég fór að kasta rýrð á beljurnar. Bréfunum rigndi bæði yfir mig og
lesendasíðurnar. Allt í einu skildi ég hvernig Rósu Ingólfs leið þegar hún
gerði dillibossaauglýsinguna og allt varð vitlaust. Þessi grein var eiginlega
mín dillibossaauglýsing. „Núna kemur sjónvarpið inn ...“,“ sönglaði
Jóhann. Hann stóð upp og gerði fáránlegar handahreyfingar. „Var þetta ekki
einhvern veginn svona?“
Hann horfði á mig. „Jú, jú, eflaust,“ svaraði ég með fullan munninn.
„Æ, þú ert svo ung. Manst ekki eftir dillibossaauglýsingunni,“ sagði
Jóhann.
Ég ætlaði að fara að mótmæla en athygli ritstjórans beindist nú að þeim
hrokkinhærða. „Þú mátt taka diskana og koma með desertseðilinn.“
„Getur maður ekki grætt svakalega á því að gefa út ævisögu?“ spurði
Tómas. „Rósa seldist og Gulli Bergmann. Sorrý mister boss var líka alveg
frábær. Ég meina það. Ég las þær.“
„Jú, maður getur örugglega grætt á því,“ svaraði Steini. „Muniði eftir
ævisögunni hans Heiðars snyrtis? Aðaldramað í lífi hans hafði ekki gerst
þegar bókin kom út. Ef það hefði nú líka náðst á bók ...“
Úrvalið á eftirréttaseðlinum kom ekki á óvart; ávextir, ís og
súkkulaðikaka.
„Tekur því varla að eyða geneva-letri á jafnfátæklegan matseðil,“ tautaði
Jóhann.
Við völdum okkur ísinn. Gott að fá eitthvað kalt í kroppinn.
„Ég á aldrei eftir að nenna að skrifa ævisögu. Mér finnst nógu leiðinlegt
að þurfa að hitta fólk einu sinni til að taka við það viðtal. Ég býð ekki í ef
ég þyrfti að hitta það 50 sinnum til að geta skrifað um það heila bók. Það
eru fáir svo skemmtilegir að hægt sé að bjóða manni upp á það,“ sagði
Jóhann og þurrkaði brauðmylsnu af dúknum. „Ef ég væri ekki blaðamaður
og fengi þar af leiðandi borgað fyrir að tala við ókunnuga myndi ég aldrei
nenna að tala við neinn.“
Hann var orðinn þvoglumæltur og erfitt að skilja hann. Svo var hann líka
kominn með æðiber í rassinn, átti erfitt með að sitja kyrr. Hann vildi fara að
koma sér niður í bæ. Steini líka sem hafði staðið sig bara vel í drykkjunni,
fékk svo að segja eina flösku bara fyrir sig. Í kvöld var hann uppáhaldsbarn.
„Á mánudaginn verður hann sendur í skotgrafirnar með blásýruhylki á
bak við einn endajaxlinn ef í harðbakka slær,“ sagði Jóhann og sló Steina
bylmingshögg á herðarnar. Tómas og Villi lyftu til hans glösum. Ég gerði
eins.
„Tími fyrir ræðu,“ sagði Villi og Jóhann stóð upp, riðaði og settist aftur.
„Ég held þessa sitjandi,“ tilkynnti hann. „Eins og ég sagði verður Steini
sendur í skotgrafirnar á mánudaginn. Hann á eftir að standa sig vel. Eins og
herforingi. Ég man þegar ég kynntist Steina fyrst. Það var fyrir þremur
árum á Vogi. Ég vissi strax að þar fór góður drengur. Eftir meðferðina fékk
ég því framgengt að hann yrði ráðinn á blaðið þar sem ég vann þá. Það var
ljótt blað, vont blað og gekk af starfsgleði minni nánast dauðri. Varla að ég
nenni að tala um það. En þarna voru menn eins og Steini, já, og Tómas, sem
héldu starfsgleði minni blaktandi. Fyrir það er ég þakklátur.“
Tómas laut höfði og sagði lágt: „Takk. Ég meina það.“ Hann lagði hönd
á hjartastað eins og hrós ritstjórans hefði feykt honum á verðlaunapall á
Ólympíuleikunum, dregið fánann að húni og kveikt á þjóðsöngnum.
Ritstjórinn hélt áfram: „Það er kominn tími til að vitna í hann Vilhjálm
Vilhjálmsson: „Lítill drengur ljós og fagur lífsins skilning öðlast senn.“ Skál
...“
Steini greip fram í: „Já, en ég er ekkert ljós eða fagur ...“
„Ekki ætlast til þess af mér að ég rökræði það við þig,“ hreytti Jóhann út
úr sér og hélt síðan áfram þar sem frá var horfið: „Skál fyrir Steina og
mundu, góðir hlutir gerast hægt.“
Hann reyndi að halda glasinu sínu kyrru 30 sentimetrum fyrir ofan
borðið en missti það. Rauðvín hvolfdist yfir ísinn. Jóhann greip servíettuna
og virtist ætla að láta hana vaða ofan í sullið til að koma nú öllu í samt horf.
Strákarnir litu vandræðalegir hver á annan þar til Villi tók af skarið: „Viltu
ekki bara panta annan?“
„Nei, nei, þetta er allt í lagi,“ tautaði ritstjórinn, sleppti servíettunni og
skóflaði þess í stað upp í sig afganginum af rauðvínslegnum ísnum með
tilþrifum eins og til að sýna hvað þetta væri nú mikill herramannsmatur.
Villi horfði sposkur á aðfarirnar, leit síðan yfir til mín, yppti öxlum og
hló. Og ég hló líka. Í sömu svifum kom þjónninn aðvífandi til að hella í
glösin og horfði út undan sér á Jóhann dýfa skeiðinni ofan í gutlið. „Smá
dass af rauðvíni hefur aldrei skaðað,“ sagði hrokkinkollur og sneri sér að
öðrum borðum.
Vínið hafði gert sitt gagn og kollegar mínir vönduðu sig heil ósköp við
að fara í yfirhafnirnar sínar. Veit ekki hvar þetta hefði endað hefðu litlir
strákar ekki verið í sérstakri vinnu við það í anddyrinu að aðstoða gesti aftur
í fötin.
Svo börðumst við í gegnum hvern unglingahópinn á fætur öðrum niður
eftir Hverfisgötunni, upp Vitastíginn og niður Laugaveginn þar sem
endilangir barirnir biðu okkar. Fyrst stungum við okkur inn á 22, Villi
fremstur, þá Tómas, ég og þeir Steini og Jóhann síðastir, enda svolítið
reikandi í spori.
„Enginn hér,“ sagði Villi þó að inni væri nærri því fullt. Úti við gluggann
sátu tvær stelpur sem voru með mér í íslenskunni og sátu með mér í tímum í
bókmenntum síðari alda. Mig langaði til að tala við þær, spyrja þær hvað
þær hefðu fengið að gera eftir námið, hvort þær hefðu farið í
kennslufræðina, hvort þær ættu orðið mann og börn, og segja þeim hvað ég
væri að bedrífa en áður en við var litið höfðu strákarnir stormað út aftur og
ég sá mér þann kost vænstan að nikka bara til stelpnanna og elta þá. Við
fórum inn á Café List þar sem sami leikur var leikinn og enduðum loks bara
á Kaffibarnum. Við náðum sófanum, akkúrat einhver að fara. Soul-tónlist
leið út úr hátölurunum og langar stelpur í þröngum bolum mældu út aðrar
langar stelpur í þröngum bolum. Ég þekkti ekki marga þarna inni en
kannaðist við því fleiri. Tómas og Villi tilkynntu barferð og ég lét mig
hverfa á klóið. Á meðan ég sat þar velti ég því fyrir mér hvort sama streðið
og metingurinn myndi bíða mín úti á lífinu með þessum mönnum og í
vinnunni.
Þegar ég var búin að pissa setti ég á mig hárauða Yves Saint Laurent-
varalitinn sem ég keypti í Þrúði fyrr um daginn eftir að hafa séð eitthvað í
líkingu við hann á Courtney Love framan á Arena. Nýja daman sem Áslaug
hafði sagt mér frá afgreiddi mig. Hún vissi greinilega ekki hvar þessi tegund
af varalitum var geymd og ég fékk illt augnaráð þegar ég benti henni á þá.
„Ég vann hér einu sinni,“ sagði ég í og með til að fá afslátt.
„En gaman,“ sagði konan og ég sá eftir að hafa ekki bara farið eitthvað
annað.
Eftir að hafa athugað hvort skyrtan sæti ekki rétt var mér ekkert að
vanbúnaði, svipti upp hurðinni og lenti þá beint í flasinu á konu í þeim
flottustu gallabuxum sem ég hafði séð. Ég þekkti þær strax úr breska Elle.
Ljósbláar, snjáðar, með ísaumuðum blúndum. Enn og aftur hafði þeim
félögum Dolce og Gabbana tekist að skapa ódauðlegt meistaraverk.
„Nei, sæl,“ sagði konan í buxunum. Þetta var Arna. Magnað! Hún var
örugglega komin vel yfir fertugt en gekk samt í ótrúlega svölum fötum.
Viskíið í glasinu hennar dró fram koparlitaðan augnskuggann.
„Hæ,“ sagði ég þar sem ég stóð enn í klósettdyrunum.
„Ertu ein hér?“
„Nei, við ritstjórnin erum hér öll saman.“
Tvær vinkonur tvístigu óþreyjufullar á bak við Örnu, komust engan
veginn inn á klóið fyrir henni. Þorðu samt ekki að biðja hana um að færa sig
og ræsktu sig þess í stað á afar merkingarþrunginn hátt. Arna lét eins og
henni kæmi það ekki við, leit eitt andartak spyrjandi á stelpurnar en hélt
síðan áfram að tala við mig.
„Kom Jóhann líka með?“ spurði hún.
„Já, hann er hér. Situr úti við gluggann.“
„Ókei, þá ætla ég að láta mig hverfa. Ég vil ekki hitta hann. Helvítis,
hællinn er laus. Viltu aðeins halda á glasinu?“ sagði Arna og hugaði að
skónum.
„Hvað heldurðu að myndi gerast ef hann sæi þig?“
„Æ, mér bara leiðist hann svo.“
Arna tók glasið af mér og hvolfdi í sig með sömu tignarlegu sveiflunni
og Sue Ellen forðum daga. Vinkonurnar tvær tautuðu „tussa“ og létu sig
hverfa upp á næstu hæð. Arna brá ekki svip.
„Er annars nokkuð að gerast?“ spurði hún.
Þá rifjaðist allt í einu upp fyrir mér það sem Jóhann hafði sagt. Hann
hafði haldið því fram að hann hefði sagt Örnu að eitthvað stæði til hjá okkur
á Vikuskammtinum. Ætli hún vissi nú þegar hvað það nákvæmlega var? Ég
ákvað að prófa hana. „Já, já, nú er einmitt ýmislegt að gerast,“ sagði ég.
„Steini er á leiðinni inn á Vog. Hann ætlar að þykjast vera fyllibytta og
skrifa síðan um það grein.“
„Frábær hugmynd en ER hann ekki fyllibytta? Og getur hann nokkuð
skrifað? Ég hef aldrei lesið neitt merkilegt eftir hann,“ sagði Arna í
tilbreytingarlausum tón. Það var ekki að sjá að hún hefði vitað nokkurn
skapaðan hlut.
„Ég veit það ekki. Ég þekki hann ekki nógu vel og les sjaldan fréttirnar
hans. Hann sér aðallega um viðskipti og dómsmál.“
„Mér finnst eins og ég hafi heyrt að hann hafi alltaf verið svolítið
blautur,“ sagði Arna en svo var eins og hún áttaði sig: „Heyrðu, það má
enginn sjá okkur saman. Ég ætla eitthvað annað. Kíktu á mig einhvern
tímann og segðu mér frá þessu. Það er brjálað að gera í vinnunni en ég er
oftast heima um kvöldmatarleytið.“
Við kvöddumst og Arna stormaði í burtu. Hún virtist fara ein á pöbbarölt,
þessi kona. Kom mér sífellt á óvart.
„Oddfríður,“ heyrði ég kallað. „Oddfríður mín. Komdu hérna og talaðu
við mig.“
Tómas stóð úti á miðju gólfi og var orðinn heldur slæptur. Skyrtan
komin upp úr buxunum og greiðslan óttalega tætt. Það hafði greinilega
kostað sitt fyrir hann að komast á barinn.
„Hæ,“ sagði ég. „Er mikið búið að ganga á?“
„Nei, nei, maður er rétt að byrja,“ sagði Tómas. „Það er ein manneskja
sem mig hefur lengi langað til að taka við gott spjall. Veistu hver það er?“
„Pelé?“ spurði ég og dró manninn með mér í sófann þar sem Villi og
Jóhann voru í hrókasamræðum. Steini reyndi að fylgjast með þeim en það
gekk illa fyrir hávaða. Ég ætlaði að fara að rifja upp einhverja góða kafla
fyrir Tómas úr fermingarbókinni en hann hafði engan áhuga.
„Nei, ekki Pelé.“
„Einhvern íþróttamann?“
„Nei, ekkert svoleiðis, en stundum hefur mér flogið í hug að gaman væri
að fara með diktafón heim til mömmu og taka við hana gott spjall. Ég
meina það. Fá loksins að vita hvaða vonir hún hafði fyrir mína hönd þegar
ég var lítill og hvort ég hafi staðið undir þeim. Ég var alltaf að tala um að ég
ætlaði að verða atvinnumaður í knattspyrnu þegar ég var lítill en síðan enda
ég bara sem blaðamaður. Það er ekki eins og það sé eitthvað slæmt en
kannski hefði ég getað ... æ, ég veit það ekki.“
Mér fannst þetta tal ekki vera þess eðlis að ég ætti að heyra það.
Maðurinn hlaut að hafa ætlað að tala við einhvern annan.
„Ævisaga mömmu gæti hún heitið en hver myndi vilja kaupa hana? Ekki
hefur hún mamma sungið í fínum óperuhöllum eða starfað sem fyrirsæta í
París.“
„Þarf að fara.“
„Ertu að fara strax?“
„Já, það er búið að bjóða mér í partý og ég bara verð að mæta,“ laug ég.
Ekki dugir annað en að halda uppi ímynd skemmtanaglöðu stelpunnar.
Út á hana var ég víst ráðin. Villi laut niður að mér og spurði: „Ertu viss um
að þú verðir að fara? Má ég ekki bjóða þér í glas?“
Langt síðan mér hafði verið boðið í glas. Ég velti málinu eilítið fyrir mér
en fannst það allt í einu algjör svik að þiggja glas af manni sem jafnvel átti
von á því að ég minntist á hann í leynigreininni.
„Nei, veistu, ég bara verð að drífa mig.“
„Komdu aftur þegar partýið er búið,“ sagði Villi.
„Já, já,“ laug ég.
Síðan ruddi ég mér leið út í gegnum þvöguna og fór Laugaveginn,
Snorrabrautina og Skarphéðinsgötuna heim. Asíska konan sem rótar í
ruslatunnunum var á Karlagötunni. Kannski er þetta rót bara liður í verkefni
sem hún er að vinna fyrir blað í heimabæ sínum. Hvernig lifa má af rusli á
Norðurlöndunum. Fyrsti áfangastaður: Ísland.
18
HANN FÓR EKKI útmiginn upp eftir. Það hefði samt örugglega ekki skaðað.
Það var liðin heil vika og Jóhann fylgdist betur með dagatalinu en
buxnaklaufinni sem hætti til að vera mjög opin þegar hann var í gömlu
Levi’s-gallabuxunum.
„Djöfull sem hann stendur sig, drengurinn,“ sagði Jóhann minnst sjö
sinnum á dag. „Pæliði í því hvað hann er að leggja á sig.“ Sjálfur hafði hann
þurft að leggja hönd á plóginn til að afla frétta, eða „bjarga forsíðunni“ eins
og það hét þegar hann átti í hlut.
Hvað ætli hefði þurft til að Jóhann hefði sett mig í svona verkefni eins og
Steini fékk? Það væri sniðugt að geta lýst því í leynigreininni. Ég hefði
örugglega getað stimplað mig rækilega inn hjá fólkinu í bransanum ef ég
gerði eitthvað í líkingu við þetta. Ekkert af því sem ég hafði skrifað fyrir
Vikuskammtinn hafði vakið neina sérstaka athygli. Enginn hafði minnst á
viðtalið við Heiðu nema Áslaug en það var ekki að marka. Það var jú hún
sem hafði gaukað að mér hugmyndinni. Auðvitað hefði ekki hentað mér að
vera send inn á Vog því ég var ekki nógu mikil fyllibytta. Annars gat ég
ekki kvartað. Ég hafði nefnilega fengið frábært verkefni sem var svo
mikilvægt að ég þurfti ekki að skila því fyrr en í þar næstu viku. Jóhann,
sem bjó í Vesturbænum, hafði veitt því athygli að fimm fress höfðu skipt
hverfinu á milli sín. Ég átti að finna þessi fress, komast að því hvað þau
hétu, kortleggja svæðin þeirra, skrifa um karaktereinkenni hvers og eins og
láta síðan taka af þeim myndir. „Það er svo gaman að sjá þegar blaðamenn
hafa varið heillöngum tíma í að safna saman hálfgagnslausum upplýsingum
sem einhverjir hafa þó gaman af,“ hafði Jóhann sagt. Þessi mikilvæga
rannsóknarblaðamennska hafði orðið til þess að ég þurfti ekki að mæta
næstu daga.
Það var í raun aðeins eitt sem sameinaði okkur Gubbu þegar við vorum
litlar og það var löngun okkar í gæludýr. Við reyndum hvað eftir annað að
fá foreldra okkar til að sættast á að kaupa eitt slíkt handa okkur. Við
lofuðum að standa okkur betur í skólanum, vera ötulli við uppvaskið, klára
matinn okkar og meira að segja að hætta að rífast. Fyrst suðuðum við um
hund, þá kött og loks hamstur. Hvoruga okkar langaði samt neitt í hamstur.
Vinkona Gubbu átti einn svoleiðis og það er varla að svo leiðinleg dýr eigi
skilið að fá að borða. Mest langaði okkur í kött en það var alveg sama
hvaða tegund við nefndum, foreldrar okkar voru eitilharðir á því að ekkert
dýr kæmi inn fyrir þeirra dyr. „Þetta mígur og skítur út um allt,“ sagði
mamma og pabbi spurði hver ætti að passa dýrið þegar enginn væri heima.
„Það er alltaf einhver heima,“ sagði Gubba. „Já, en ef við förum til
útlanda?“ spurði pabbi. „Við förum aldrei til útlanda,“ sagði ég. „Einmitt,“
sagði pabbi ákveðinn og gerði skátamerkið með fíngrunum.
Gubba dró mig inn í herbergið sitt. Hún var sjóðandi reið og vildi að ég
væri það líka. „Við þurfum alltaf að vaska upp og fara út með ruslið en við
megum ekki fá kött. Allir aðrir eiga kött.“
Ég mundi nú bara eftir tveimur eldri konum í götunni sem áttu ketti og
þeir voru alltaf inni. Stundum sást glitta í þá inn á milli blómapottanna í
stofugluggunum.
„Þú ferð til pabba í kvöld og færð hann til að gefa þér kött. Hann hlustar
á þig,“ sagði Gubba ákveðin.
„Hann var að segja nei og segir ekki bara allt í einu já í kvöld.“
„Jú, ef ÞÚ talar við hann.“
Ég reyndi að sjá þetta fyrir mér: „Pabbi, mig langar í kött.“
„Auðvitað færðu kött, af hverju sagðirðu þetta ekki fyrr?“
Þetta var ekki líkleg atburðarás.
„Af hverju talar þú ekki við mömmu?“ spurði ég Gubbu.
„Vegna þess að þú veist alveg að pabbi ræður.“
Það var rétt. Kannski hitti ég á óskastund.
Eftir kvöldmatinn bauðst Gubba til að sjá ein um uppvaskið og sendi mér
þýðingarmikið augnaráð. Ég elti pabba inn í stofu og horfði með honum á
sjónvarpsfréttirnar á meðan ég reyndi að finna heppilegt tækifæri til að fitja
aftur upp á kettinum. Það kom ekki. Að fréttatímanum loknum stóð pabbi
upp og fór inn á skrifstofuna sína. Þar vildi hann fá að vera í friði.
Gubba heyrði hann loka dyrunum á eftir á sér og kom strax inn í stofu til
mín. „Jæja, talaðirðu við hann?“ spurði hún með glas og viskustykki í
höndunum.
Ég hristi höfuðið.
„Þú skalt,“ sagði systir mín ógnandi. Ég vildi óska að ég hefði verið eldri
en hún. Ætli ég hefði þá hagað mér eins gagnvart henni? Alltaf með hnefana
á lofti? Alltaf að reyna að stjórna?
Ég opnaði dyrnar löturhægt og vonaðist til að pabbi skipaði mér að láta
sig í friði. Við því gæti Gubba ekkert sagt. Pabbi sat niðursokkinn yfir
einhverjum skjölum og virtist ekki taka eftir mér. Ég lokaði á eftir mér og
þóttist vera að skoða bækurnar í hillunni.
„Hvað vantar þig, væna?“ spurði pabbi loks án þess að líta upp. Mig
langaði ekkert í þennan bölvaða kött lengur.
„Ég ætla bara að skoða ljósmyndina af henni Alvildu,“ tautaði ég.
„Henni ömmu þinni?“ sagði pabbi. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði
talað um hana sem ömmu mína og um mig flæddi kitlandi gleði. Ég hafði
eignast ömmu. Pabbi stóð upp til að teygja sig í ljósmyndina í dökka
trérammanum. Hann ætlaði að rétta mér hana en hætti við.
„Komdu,“ sagði hann og sló létt á hné sér. Ég klöngraðist upp í fangið á
honum. „Þú ert nú eiginlega að verða of þung fyrir mig.“
„Ekki samt jafnþung og Gubba.“
„Nei, svo þung verðurðu aldrei,“ sagði pabbi og við hlógum pínulítið.
Skeggið á honum kitlaði gagnaugað á mér.
„Sjáðu hálsmenið,“ sagði pabbi og benti á myndina. „Hún fékk það
lánað hjá vinkonu sinni.“
Ég mundi eftir því að hafa heyrt þetta áður en mér fannst gaman að heyra
það aftur. Þetta var líka öðruvísi núna eftir að konan var orðin amma mín.
„Áttu mynd af þér þegar þú varst lítill?“ spurði ég.
„Nei, enga,“ sagði pabbi.
„Var amma mín góð?“
„Já, mjög. Nema þegar ég datt í sjóinn.“
„Hvað gerðist þá?“
Og pabbi sagði mér frá því þegar hann var að leika sér niðri á bryggju,
missti jafnvægið og datt aftur fyrir sig í sjóinn. Hann hafði farið holdvotur
heim og orðið að vera inni allan daginn á meðan skórnir hans voru að
þorna.
„Þá varð amma þín ógurlega reið við mig.“ Amma þín! Aftur hríslaðist
gleðin um mig.
„En hvenær var hún ánægðust með þig?“
Pabbi hugsaði sig um. „Ætli það hafi ekki verið þegar ég fékk hjólið.“
„Hver gaf þér hjól?“
„Bæjarstjórinn á Fáskrúðsfirði.“
„Í alvöru?“ spurði ég hrifin. Ég sá fyrir mér bæjarfógetann Bastían og
mikið sem það hlyti að vera gaman ef hann tæki nú upp á því að gefa mér
reiðhjól.
Pabbi hélt áfram með söguna: „Ég hafði verið svo duglegur að hjálpa
gömlu fólki í bænum. Ég fór út í búð fyrir það og stundum tók ég líka til.
Sumir áttu hænsni sem þurfti að gefa og aðrir áttu hunda sem varð að fara
með út í göngutúra. Fólkið var of gamalt til að geta þetta sjálft og átti enga
ættingja sem gátu hjálpað því.“
„Og þá hjálpaðir þú?“
„Já, þá hjálpaði ég.“
Pabbi var enn að hjálpa fólki sem hafði lent í einhverju veseni.
Lögfræðingar gera það. Mér fannst hann ótrúlega klár.
„Hvernig var reiðhjólið á litinn?“
„Það var blátt með brúnum hnakki og lítilli bjöllu á stýrinu. Ég notaði
það alveg þangað til það datt í sundur.“
„Má ég einhvern tímann fara til Fáskrúðsfjarðar?“
„Já, já, en það er ekkert að sjá þar,“ sagði pabbi. „Miklu skemmtilegra að
fara til útlanda. Þar er alltaf svo gott veður. Eigum við ekki frekar að fara
þangað?“
Ég kinkaði kolli. Mig dauðlangaði til að komast til útlanda. Erla hafði
komið til Ítalíu og sagði að það væri frábært.
„Hvenær förum við?“
„Þegar ég hef tíma,“ sagði pabbi, lyfti mér upp og setti mig niður á gólf.
Skemmtuninni var lokið en ég vildi ekki fara. Ég vildi fleiri sögur, finna
skeggið kitla mig og heyra talað um ömmu mína.
„En ef við förum til Fáskrúðsfjarðar getum við heimsótt hana,“ sagði ég
og benti á ljósmyndina sem pabbi hafði tyllt á skrifborðið sitt. Hana hlaut
líka að langa til að hitta mig, barnabarnið sitt.
„Nei, það er ekki hægt. Hún er dáin.“
Ekki hafði ég fyrr eignast ömmu en hún dó. Við höfðum misst hvor af
annarri.
„Þá getum við auðvitað bara farið til útlanda,“ sagði ég.
„Við tölum um það síðar. Þarftu ekki að fara í náttföt núna?“ Pabbi tók
upp skjölin, lyfti þeim upp á rönd og barði bunkanum þrisvar í borðið til að
jafna hann. „Lofaðu mér einu,“ bætti hann við. „Ekkert vera að tala um
þetta sem ég sagði þér. Ekki við neinn.“ Hann blikkaði mig og ég blikkaði
hann.
Gubba stóð frammi á gangi og sendi mér spyrjandi augnaráð. Ég var
svolitla stund að átta mig á því hvað það var sem hún vildi mér.
„Hann sagði kannski seinna,“ bunaði ég út úr mér.
19
Í AFRÍKU HAFÐI níu ára gömul stelpa orðið mamma. Bara ári yngri en ég.
Líklega höfðu allar íslenskar mæður dæst yfir fréttinni og hugsað með sér:
Aumingja stelpan, hún verður að láta ferma 22 ára gömul! Og það er ekki
eins og það sé auðvelt að baka kransaköku. Blaðið skýrði frá þessu í sama
tón og sagt var frá doktorsvörn ungs læknis við bandarískan háskóla. Haft
var eftir frænku stúlkunnar að hún væri mjög þroskuð eftir aldri. Líkast til
varð hún að vera það. Birt var mynd af hinni nýbökuðu móður. Hún var
kolsvört með stór augu umkringd löngum augnhárum. Ég horfði lengi inn í
þau og reyndi að ímynda mér hvernig það væri að vera barn með annað
barn innan í sér. Ljósið slokknaði í ganginum. Ég var að fara að teygja mig í
kveikjarann þegar myrkrið lifnaði skyndilega við.
„Hvað ertu að gera þarna?“ spurði það hranalega.
Ég spratt á fætur en rann í bleytu á gólfdúknum svo ég datt niður
tröppurnar og slengdist utan í útidyrahurðina. Samt hélt ég enn á blaðinu.
„Helvítis læti eru þetta?“ heyrðist sagt. „Nú, svaraðu! Hvað ertu að gera
hér?“
Þessi rödd virtist geta borað sig inn í mig. Mér varð illt af hræðslu. Fyrir
ofan mig stóð gömul, bogin kona í baðslopp. Annar handleggurinn var í
fatla en með hinum studdi hún sig við vegginn. Hefðu lætin í mér örkumlað
hana hefði ef til vill vel mátt skilja hvað henni varð mikið um að sjá mig.
„Bara ekkert,“ tautaði ég og heyrði varla í sjálfri mér fyrir eigin
hjartslætti. Innan úr íbúðinni féll dauf birta fram á grámálaðan stigaganginn
og þaðan heyrðist upplestur á útvarpssögunni. Allt í einu fékk ég á
tilfinninguna að á hverri stundu myndu fleiri reiðar gamlar konur birtast
frammi á stigapallinum. Þær væru þarna fyrir innan og biðu þess bara að
konan í sloppnum gæfi merki. Nú yrði ég að passa mig. Fyrsta hugsunin var
auðvitað sú að þjóta út en þá mundi ég eftir því að ég átti eftir að stinga
blöðunum í póstkassana. Ég kveikti ljósið skjálfandi höndum. Konan stóð
enn í dyrunum og ég gat heyrt hana anda. Allt í einu varð mér rosalega
mikið mál að pissa en ég varð að halda í mér. Ég tróð blaðinu ofan í
póstkassa og þá voru bara tvö eftir en mér ætlaði aldrei að takast að ná þeim
upp úr blaðburðarpokanum. Þau þvældust einhvern veginn í lokinu sem var
orðið að heljarinnar segli sem ég réð ekkert við. Loks tókst það samt en þá
var einhver fyrirstaða í einum póstkassanum. Kannski var eitthvað annað
að, ég veit það ekki. Ljósið slokknaði aftur, það varð dimmara en nokkru
sinni fyrr. Konan stóð enn fyrir ofan mig, másandi og blásandi og
hugkvæmdist ekki að kveikja ljósið til að losna við mig fyrr. Gubba var
búin að segja mér að stinga blöðunum djúpt ofan í kassana því annars
myndu nágrannarnir bara ræna þeim, áskrifendurnir héldu að ég hefði aldrei
komið og þá fengi Gubba kvörtun. Ég var farin að snökta og blaðran var
alveg að bresta. Loksins ákvað ég að láta blaðið bara eiga sig þótt það stæði
hálft út úr póstkassanum.
„Hana!“ sagði gamla konan um leið og ég snaraðist út og þetta „hana“
elti mig það sem eftir var ferðarinnar. Ég var í svo miklum spreng að ég
snaraðist inn í bakgarð við eitt húsanna við Egilsgötu og eftir að hafa
fullvissað mig um að enginn sæi til mín dró ég niður um mig buxurnar og
pissaði ofan í kjallaratröppur. Ég dreif mig við að skutla blöðunum inn um
lúgurnar á Egilsgötu, Leifsgötu og Þorfinnsgötu og tók síðan stefnuna á
Laugaveg til að ná strætó. Ég settist aldrei aftur inn í stigaganginn.
Ég bar heldur aldrei aftur út en það var út af allt öðru.
20
GREININ FYRIR ÖRNU væflaðist fyrir mér. Mér fannst vont að vera ein um
þetta leyndarmál. Sér í lagi eftir barröltið með strákunum. Auðvitað langaði
mig til að kynnast Villa betur. Ár og dagur síðan ég hafði farið heim með
einhverjum. Ég átti það skilið að verða skotin og einhver yrði skotinn í mér.
Hvað ef við Villi bara byrjuðum saman og ég tryði honum fyrir öllu þessu
Örnubrölti? Yrði hann ekki brjálaður? Varla gæti ég komist hjá því að segja
honum frá greininni. Maður gabbar ekki sjálfan sig svo auðveldlega og
strax næsta mánudag stóð ég mig að því að stilla vekjaraklukkuna 20
mínútum fyrr en venjulega til að geta haft mig til. Og komst þá að því að ég
átti ekkert að fara í. Ekki eina boðlega fatatutlu. Mesta furða að ég skyldi
samt hafa mig í það að mæta til vinnu og þakka Villa fyrir síðast. Heit
spræna seytlaði yfir hjartaræturnar á mér þegar hann sagði: „Takk
sömuleiðis.“ Brosandi. Þetta varð samt til þess að um kvöldið hringdi ég í
Kristínu. Rétt eins og maður ætti að geta skilið við fjölskyldu sína ætti
maður að leggja sig fram um að halda í vini sína. Gera þá að fjölskyldu
sinni. Gera sér far um að muna afmælisdaga, segja „já, hann er asni“ þegar
yfirmaður þeirra hefur gert athugasemd við löngu matarhléin og halda
heitum bökstrum við litföl enni þegar inflúensa geisar um borgina. Eins og
ekkert hefði í skorist tók ég upp tólið og valdi númerið hennar Kristínar.
Hún var bara hress – en ekki hvað? – og átti sko alveg föt til að lána mér.
Korteri síðar var ég komin heim til hennar í risíbúðina við Lokastíginn.
Kristín safnaði grímum og hafði raðað þeim upp um alla stofuveggi hjá
sér. Algjör horror en ég er skynsamari en svo að ég hafi nokkurn tímann
haft orð á því. Grímurnar voru líka alveg í stíl við viðardrumbinn sem stóð
úti í horni og átti líkast til að vera indíáni með útréttar hendur svo hægt væri
að leggja þar glasabakka eða eitthvað álíka. 25 ára afmælisgjöf frá
stelpunum í dönskunni. Inni á baði, þar sem allt ilmaði af Dolce Vita, héngu
dýrindisnærföt til þerris, svo fínleg að halda mætti að þau hefðu verið ofin
úr æðakérfi lóuunga. Plöttum með logandi sprittkertum hafði verið stillt upp
hvar sem því varð við komið. Kannski hafði birtan af þeim góð áhrif. Að
minnsta kosti lá óvenju vel á Stínu. Hún hafði fengið vinnu í Skífunni og
eignast fullt af skemmtilegum vinkonum.
„Ég var með þeim þegar ég fór á Kaffibarinn um daginn. Sástu mig
ekki?“
„Jú, jú, ég var bara að flýta mér,“ svaraði ég og Kristín virtist taka það
gott og gilt.
Ég fór með henni inn í eldhús og hjálpaði henni að skera niður grænmeti.
Á ísskápnum voru ljósmyndir festar með seglum sem á voru skilaboð eins
og „Only God helps the badly dressed“. Þar voru líka nokkrar myndir af
okkur í ferðalögum en ein var af strák með dauðan fugl í hendinni. „Þetta er
Addi bróðir með skarfínn sem hann skaut í fyrra,“ útskýrði Kristín, „og
þetta,“ hún benti, „erum við pabbi og mamma að höggva jólatré. Við förum
alltaf til frænda míns og frænku sem búa fyrir vestan, gistum yfir helgi,
skerum laufabrauð og fáum að höggva tré. Við höfum gert þetta alveg frá
því ég var krakki. Þetta er æðislegt. Pabbi er alltaf svo fyndinn í þessum
ferðum ... guð, finnst þér kannski óþægilegt að ég sé að tala við þig um
pabba minn?“
Ég sagði nei og flysjaði gulrót ofan í rusladall.
„Gott, ég ætlaði bara að segja að pabbi á það til að fá sér í aðra tána í
þessum ferðum og verður þá stundum agalega skrautlegur.“
Til að beina talinu að öðru spurði ég hana hvað hún ætti orðið mikið í
íbúðinni og hún nefndi tvær komma átta milljónir. „Af hverju? Ertu að pæla
í því að fara að kaupa?“
„Gæti verið.“
„Já, auðvitað ... pabbi þinn ... og allt það. Leyfðu mér að koma með þér
að skoða þegar að því kemur.“
Við settumst inn í stofu yfir gúrkur, kál og gulrætur. Íbúðin hennar
Kristínar var fín. Foreldrar hennar höfðu hjálpað henni með fyrstu
útborgunina. Síðastliðið ár hafði fyrirmyndarfjölskylda, prófessorshjón um
fertugt ásamt hrokkinhærðum tvíburasonum, búið á neðri hæðinni en þegar
Kristín flutti inn var þar á fleti fyrir gömul kona sem dílaði með hass og
einhverjar pillur fyrir sonardóttur sína þegar hún var ekki sjálf á staðnum. Í
garðinum stungust sprautunálar upp úr beðunum, enda leitun á jafnrólegum
köttum og á Lokastígnum. Sveitastúlkunni Kristínu rann til rifja hvernig
farið var með konuna og spurði hana einu sinni þegar hún rakst á hana úti á
stétt hvort hún vissi hvað hún væri að selja. Ekki lagði hún í sjálft
barnabarnið sem svaraði engu þótt því væri heilsað. Stúlkan horfði bara
skelkuð út undan feitum hártoppi eins og hún sæi eitthvað óhreint í kringum
sig sem enginn annar næmi.
„Já, hún Solla mín er búin að útskýra þetta allt saman fyrir mér. Við
tókum nú bara lýsi í gamla daga,“ svaraði konan og Kristín hafði ekki brjóst
í sér til að láta lögguna bösta hana. Þegar sú gamla lærbrotnaði á gólfinu í
Hannyrðaversluninni Erlu og var flutt beint á elliheimili eftir viðeigandi
sjúkrahúsvist var íbúðin sett á sölu. Fátt var jafnfjarri
prófessorsfjölskyldunni sem flutti inn mánuði síðar og eiturlyfjasala. Ég hef
ekki hugmynd um hvað varð um stúlkuna með hártoppinn en ég held að það
hafi verið eftir þessi kynni Kristínar af undirheimum Reykjavíkur sem
henni fannst hún þurfa að ganga í bolum sem á stóð In Love, Sunshine Girl
og Lucky. Ég sneiddi framhjá þeim. Mér hefur aldrei fundist neinar
útskýringar þurfa að fylgja mér.
Sem endranær hafði Kristín staðið sig með prýði í fatakaupum þetta
sumarið og ekki bætti úr skák að hún hefur vanið sig á að henda engu. Ég
gat því gramsað í öllum fötunum sem hún hafði keypt sér í gegnum tíðina,
jafnt í Buxnaklaufinni og Goldie sem í tuskubúðum Ibiza sem voru voða
smart í klúbbunum þar en virkuðu engan veginn eftir að heim var komið.
Hálsmálið var of flegið, litirnir of skærir, armböndin of fyrirferðarmikil og
sandalarnir fullgalgopalegir í strekkingnum. Ég lét þær pjötlur eiga sig en
fór samt heim með fullan poka og loforð um að við myndum hittast fljótt
aftur. Allan tímann langaði mig til að segja Kristínu frá greininni en kom
mér ekki að því. Ég var hrædd við það sem hún myndi segja. Og hún segði
alveg örugglega eitthvað. En hún er næm, hún Kristín, og þegar ég ætlaði
að fara sagði hún: „Hafðu oftar samband. Það er svo vont þegar eitthvað
hleðst upp innan í manni.“
Þá var ég næstum því snúin við en rak augun í ísskápshurðina, með
tilheyrandi eplakinnum, hlátrum og grenitrjám, og ákvað vera ekkert að
bjóða henni upp á heiminn minn. Samt lofaði ég að láta heyrast fljótt í mér
aftur. Kristín ætlaði að gauka að mér bók. Think Positive . Ég sagðist fá
hana bara seinna. Ég væri með bunka á náttborðinu. Sem var lygi. Á
leiðinni yfir Holtið kom ég við í Tvistinum og keypti mér rauðan ópal til að
ná úr mér grænmetisbragðinu.
21
ÉG HAFÐI HRINGT í Örnu og mælt mér mót við hana heima hjá henni þar sem
allt virtist heita eitthvað. Konunni tókst meira að segja að kynna mig fyrir
öskubakkanum sínum. „Þetta er Starck,“ sagði hún um leið og hún skellti
honum á stofuborðið.
Sumartískan hafði haldið innreið sína í líf Örnu Ragnhildar Geirfells.
Hún var í flottu gallabuxunum og heiðgulum hlýrabol við. Hún kveikti sér í
mjórri dömusígarettu og sogaði að sér reykinn. „Ég er byrjuð aftur. Var búin
að vera hætt í tólf ár. Nú er ég bara komin með svo mikinn maga. En
hvernig gengur á blaðinu?“
„Það er stundum flókið að vinna þarna. Strákarnir eru of miklar kerlingar
til að þola að heyra aðrar skoðanir en sínar eigin.“
„Kerlingar? Notarðu það í niðrandi merkingu? Það hefur mér aldrei þótt
flott. Þannig kastarðu rýrð á kynsystur þínar og þar með sjálfa þig.“
„Já, en mér finnst það fínt orð. Það lýsir svo vel ákveðinni gerð
karlmanna.“
Arna pírði á mig augun í gegnum reykinn.
„Segðu mér meira frá þessum strák sem fór upp á Vog,“ sagði hún loks
og ég gerði það.
„Þetta er svakalega góð hugmynd,“ sagði hún svo. „Það hafa margir
blaðamenn látið sér detta í hug að gera þetta, bara enginn þorað. Þetta eru
svo miklar fyllibyttur að þeir hafa ekki mátt við því að styggja
áfengisbatteríið. Gætu átt á hættu að verða útskúfað.“
„Áttu engin börn?“ datt allt í einu út úr mér. Örugglega vegna þess hvað
áklæðið á sófanum var ljóst og óbarnvænt.
„Jú, eina dóttur. Hún er hjá pabba sínum. Hann býr nær MR svo það
hentar betur. Af hverju spyrðu?“
„Ég veit það ekki. Fór bara allt í einu að pæla ...“
„Spyrðu bara ef það er eitthvað fleira sem þú vilt vita um mig,“ sagði
Arna. Hún krosslagði fæturna og setti handleggina upp á sófabakið. Flott
stelling á mynd ef búið væri að má út broddana í handarkrikunum.
Ég spurði hana í hvaða skóla hún hefði gengið og hún reyndist hafa
gengið í sömu skóla og ég; Melaskólann, Hagaskólann og MR . Síðan fór
hún í ensku í Háskólanum. „Ég vann alltaf á Mogganum í sumarfríum.
Pabbi þekkti ritstjórana. Þar vann ég líka í nokkur ár eftir útskrift. Síðan var
Fimmtudagurinn stofnaður og ég kynntist öllum þessum strákum sem þóttu
ógurlega merkilegir þá. Pabbi var nú ekki par hrifinn þegar ég skipti yfir en
þetta voru æðislegir tímar og ...“ sagði Arna hugsi. „Já, já, það var nú það.
Eitthvað fleira sem þú vilt vita?“
„Áttu bara eina dóttur?“
„Já, finnst þér það lítið? Það er enginn vandi að eignast börn. Ég meina,
Lalli Johns á krakka. Það er aftur á móti vandi að sjá um þá. Einn dugði mér
fullkomlega.“
Líklega hef ég verið eitthvað skilningssljó í framan, að minnsta kosti
spurði Arna mig hvort ég vissi ekki hver þessi Lalli væri. „Þetta er svona
smákrimmi,“ útskýrði hún. „Þú hefur örugglega oft rekist á hann í bænum.
Hann gengur með hatt.“
Ég hafði séð hann en hélt alltaf að hann væri listmálari.
„Lalli Johns,“ endurtók Arna. „Vin minn vantar svo hugmynd að
heimildamynd. Verð að muna eftir að hringja í hann. Lalli væri ekki svo
vitlaus. Heyrðu, hvernig er það, ég hef verið að lesa það sem þú skrifar í
blaðið, er enginn prófarkalesari hjá ykkur?“
„Jú, jú, það kemur einhver Íslenskunemi úr Háskólanum þrjá daga í viku.
Af hverju?“
„Þú skrifar alltaf „oft á tíðum“ í staðinn fyrir „oft og tíðum“. Ef þú ert oft
á tíðum ættirðu að fara til læknis.“
Ég lofaði því.
„Gengur annars ekki vel með greinina?“
„Jú, jú, ég var lengi að koma mér í gang en nú er ég búin að skrifa
nokkra búta sem verða eflaust fínir þegar búið er að tengja þá saman.“
Ég var ekki frá því að þetta gæti orðið ágætt. Kvöldið áður hafði ég legið
yfir lýsingunni á því hvernig Jóhann og strákarnir komu mér fyrst fyrir
sjónir og stemmningunni á blaðinu.
„Þú mátt ekki vera smeyk við að láta eitthvað flakka um þessa kollega
þína.“
„Nei, nei, en ég efast um að ég þurfi þess. Þeir eru alveg ágætir.“
„Er það? Líka Jóhann? Hann var svo svakalega blautur þegar ég vann
með honum. Þekktur fyrir það að fara alltaf að gráta á fylliríum. Það gat oft
verið svolítið vandræðalegt að hitta hann á mánudögum. Þú getur líka bara
haft þetta með volið nafnlaust eftir mér í greininni þinni, svona til að gera
betur grein fyrir honum. Hann er nú einu sinni ritstjórinn og hann þarf að
birtast lesendunum ljóslifandi.“
Hvernig sem ég reyndi gat ég ekki séð Jóhann fyrir mér grenjandi. Hann
hafði verið í útvarpsþætti helgina áður að ræða fréttir síðustu viku, látið
hverja sprengjuna falla á eftir annarri og það var enn verið að vitna í hann í
blöðunum.
„Heyrðirðu í honum í útvarpinu á sunnudaginn?“
„Honum Jóhanni? Nei, en mér bárust spurnir af þessu. Hann virðist hafa
verið í svakastuði. Fólk hefði rosa gaman af að vita hvernig hann var fyrir
15 árum, einmitt núna þegar hann er orðinn svona þekktur. Þú ættir endilega
að hafa þetta með sem ég var að segja þér áðan. Þetta með grenjið.“
„Ég sé til.“
„Fólk hefði rosalega gaman af að vita hvernig hann var,“ endurtók Arna.
Hún hefði eflaust haldið áfram að klifa á þessu hefði síminn ekki hringt.
Þetta var stutt samtal. Ég heyrði Örnu segja: „Já, já, ekkert mál. Ekkert að
þakka. Gott, elskan. Já, yndislegt. Takk fyrir að láta mig vita.“
Hún var kafrjóð í kinnunum þegar hún settist aftur. „Þetta var
sendiherrafrú sem vantaði einhverjar upplýsingar upp úr gömlu blaði og ég
lét leita að því fyrir hana. Veistu, það er eitt í blaðamennsku sem er rosalega
gott fyrir þig að vita. Það er að gera fólki alltaf greiða þegar maður getur til
þess að maður eigi hönk upp í bakið á því. Maður veit aldrei hvenær maður
gæti þurft á því að halda,“ sagði Arna og drap tittlinga framan í mig.
Þá hringdi síminn aftur og ég ákvað að fara. Gat ekki séð að ég kæmist
neitt áfram með að ræða leynigreinina. Hana þyrfti ég bara að potast í
gegnum sjálf. Færi ég eftir Örnu yrði hún einhvern veginn allt öðruvísi en
ég kærði mig um. Arna gerði hlé á símtalinu til að kyssa mig bless á báðar
kinnar, svona franskt eitthvað. „Við heyrumst svo bara,“ hvíslaði hún og
drap aftur tittlinga. Örugglega eitthvað að henni í auganu.
Ég ákvað að halda á vit kattanna, tók strikið yfir Klambratúnið, náði
þristinum á Rauðarárstígnum og fór út í Vesturbænum. Bjartur beið mín
uppi á skeljasandsklæddum vegg við Hofsvallagötu. Á spjaldinu sem fest
var við ólina hans stóð ekkert annað en nafnið. Hann var algrár, sílspikaður
og vildi láta klóra sér. Hann nuddaði sér upp við fæturna á mér í gríð og erg,
eins og hann héldi að ég breyttist við það í vestfirskan harðfisk.
„Ég á hann,“ sagði strákur sem birtist allt í einu á gangstéttinni. „Hann er
samt eldri en ég. Hann er nefnilega níu ára en ég er sex.“
„Hann er voða fínn,“ sagði ég. „Hvar eigið þið heima?“
Strákurinn benti á hús skammt frá.
„Á Bjartur ekki eitthvert svæði sem hann passar fyrir hinum köttunum?“
„Ha? Hver?“ spurði strákurinn utan við sig.
„Nú, kötturinn þinn. Á hann eitthvert svæði sem hann passar fyrir hinum
köttunum?“
„Jú, hann á alveg þetta,“ sagði drengurinn og gerði stóran hring með
fingrinum í loftið fyrir ofan sig. Mér var ekki stætt á öðru en að biðja hann
um að sýna mér svæðið. Við gengum svolítinn hring og strákurinn útskýrði
fyrir mér yfirráðasvæði Bjarts. Á meðan lét kötturinn sig hverfa inn í garða
en samt heyrðum við í honum allan tímann.
„Er þetta góður köttur?“ spurði ég til að geta gengið frá
karakterlýsingunni.
„Nei, ekki alltaf. Hann er frekur og klórar í hurðina mína þegar ég vil
ekki hleypa honum inn. Hurðin er næstum ónýt. Mömmu finnst það ekki
gaman.“
„Hvað heitir þú?“
„Bjartur.“
„Nei, ég veit hvað kötturinn heitir. Ég var að spyrja hvað þú hétir.“
„Ég heiti Bjartur.“
Kisi birtist uppi á næsta húsvegg og nuddaði sér um trýnið með annarri
framloppunni.
„Hvað heitir kötturinn þá?“ spurði ég.
„Hann heitir líka Bjartur.“
Bjartur eldri og Bjartur yngri teygðu álkuna til mín og biðu eftir því að
ég segði eitthvað eða gerði. Ég endurtók nokkrum sinnum „ókei“ en þeir
virtust vænta einhvers meira af mér. Fjarkinn nálgaðist á austurleið, ég
þakkaði fyrir hjálpina og dreif mig yfir götuna í veg fyrir hann. Ung og
falleg sumarafleysingastelpa með tagl var undir stýri. Hún bauð mér
brosandi góðan dag um leið og ég steig upp í vagninn. Þetta nennir að heilsa
fyrstu vikurnar.
Í sama mund og strætó ók framhjá styttunni af Ingólfi stóð ég upp til að
fara út því mig langaði til að koma við í búðum á leiðinni heim. Þá
snarhemlaði stelpan allt í einu fyrir blárri Toyotu sem brunaði yfir
Hverfisgötuna upp Ingólfsstrætið. Steini sat undir stýri og jafnundarlega og
það hljómar sá hann mig. Eina örskotsstund horfðumst við í augu.
22
BRÉFAHNÍFURINN HAFÐI LEGIÐ í gluggakistunni í svefnherberginu mínu síðan
ég ánafnaði mér hann. Ég rak augun í hann sunnudagsmorguninn um
verslunarmannahelgina þar sem ég sat vansvefta með kaffibolla uppi í rúmi
og vissi ekki hvað ég átti af mér að gera. Of vakandi til að geta sofnað aftur
og of syfjuð til að geta gert eitthvað af viti. Ekki höfðu allir unglingar
borgarinnar drifið sig út úr bænum í brekkusöng því nokkrir höfðu haldið
feiknateiti í húsinu við hliðina. Þaðan bárust fagnaðarlæti fram undir
morgun þegar lögreglan mætti á svæðið. Í stað þess að bylta mér fram og
aftur hafði ég lesið bók eftir ungverskan nóbelsverðlaunahafa, minningar úr
Auschwitz og Buchenwald. Hann var handtekinn í strætó ásamt hópi vina
sinna og sendur í útrýmingarbúðirnar. Þrátt fyrir hörmungarnar gaf hann sér
tíma til að njóta þess hvað það var fallegt í Auschwitz þegar síðdegissólin
birtist á milli trjánna.
Ég varð að fara að finna mér eigið húsnæði. Ég var nú einu sinni að
verða 26 ára. Mest langaði mig að finna mér fallega íbúð á efstu hæð í
Hlíðunum, ekki nær miðbænum að minnsta kosti. Það var hægt að finna
ferlega fallegar íbúðir í Hlíðunum, ef ég hafði þá efni á þeim.
Pabbi hlaut að hafa skilið eftir fyrirmæli til mömmu um bankabókina
sem ég átti að fá. Hún hafði reyndar ekki minnst á neitt og ég kunni
einhvern veginn ekki við að hefja máls á henni svona rétt eftir jarðarförina.
Pabbi vissi í heilt ár að hverju dró en þessi bankabók var það eina sem ég
vissi að ég ætti að fá. Hann talaði aldrei um að hann væri á förum nema í
þetta eina skipti þegar við vorum að horfa á Monty Python. Honum fannst
svo miklu skemmtilegra að tala um það sem var í fréttum, múrvinnuna á
húsi nágrannans sem ætlaði engan endi að taka og hvort öll þessi blöð ættu
eftir að bera sig á markaðnum. Honum hefði þótt spennandi að vita að ég
væri orðin blaðamaður. Veit aftur á móti ekki hvernig honum hefði litist á
leynigreinina fyrir Örnu. Hann hlyti bara að hafa látið mömmu vita af
þessari bankabók sem ég átti að fá. Ég sló á þráðinn í Fornhagann. Gunnar
Birnir svaraði. Hann var bara nokkuð kátur. Sagðist vera kominn á íþrótta-
og leikjanámskeið hjá KR .
„Það er svo leiðinlegt að hanga bara heima,“ sagði hann. „Maður fer
alltaf að hugsa eitthvað svo sorglegt. Það gerist aldrei þegar ég er í
fótbolta.“
„Það er allt í lagi að hugsa stundum eitthvað sorglegt,“ sagði ég.
Svo spurði ég hann á hvað hann væri að hlusta núna.
„Eitthvað sem heitir Modern Talking,“ sagði Gunnar Birnir og ég söng
fyrir hann viðlagið í „Cherry Cherry Lady“ bara til að heyra hann hlæja.
„Veistu, Odda,“ sagði hann svo. „Það er svo gott að hlusta á músík. Þá er
oft eins og allt sé í lagi.“
Ég bað um að fá að heyra í ömmu hans.
„Hún er ekki heima. Hún ætlaði að vera hjá vinkonu sinni í dag.“
„Allan daginn?“
„Já, og mamma fór með.“
„Og ertu einn heima?“
„Já, mamma hans Péturs er alveg að fara að koma að sækja mig. Við
ætlum í Húsdýragarðinn.“
Ég fékk hugmynd.
Gunnar Birnir var farinn þegar ég kom svo ég gat skotist inn á
skrifstofuna án þess að þurfa að svara neinum spurningum. Það var dimmt
og mollulegt þar inni. Ramminn með myndinni af Alvildu var rykugur. Ég
þurrkaði af honum með peysuerminni þar sem ekkert betra bauðst, dró
gluggatjöldin síðan frá og opnaði rifu á gluggann. Einhver hafði þegar reynt
við skrifborðsskúffuna því hún var öll rispuð í kringum lásinn. Ég settist í
skrifborðsstólinn, lét augun reika yfir bókahillurnar og reyndi að sjá fyrir
mér hvar pabbi hefði sett lykilinn. Af nánast trúarlegri nákvæmni hafði
bókunum verið raðað um það bil fimm sentimetrum innan við hillubrúnina,
þeim stærstu vinstra megin, síðan hríðminnkuðu þær.
Það var ekki fyrr en ég stóð upp og gekk að hillunum að ég tók eftir
dökkri bók sem stóð aðeins innar en hinar. Þetta var dökkblátt Nýja
testamenti á færeysku, furðulétt í hendi miðað við þykkt. Á fremstu síðunni
stóð setning skrifuð með óskýrri rithönd. Ég skildi hana ekki fullkomlega
en fannst að þar stæði: Frá mömmu og pabba jólin 1917.
Útidyrahurðinni var skellt aftur og ég heyrði raddir mömmu og Gubbu í
fjörugum samræðum um verðið á agúrkum. Ósjálfrátt hélt ég niðri í mér
andanum og blótaði sjálfri mér fyrir að hafa ekki lokið þessu pukri af þegar
þær mæðgur voru á Mallorka og ég hafði íbúðina út af fyrir mig. Einmitt
þegar mig langaði til að verða ósýnileg datt eitthvað úr bókinni niður á
ullarteppið og slóst utan í skrifborðsfót með glamri. Örugglega úr einum
fótsnyrtingarkaflanum þar sem Frelsarinn lætur dekra við býfurnar á sér.
Raddirnar þögnuðu um leið.
„Hver er þar?“ spurði mamma. „Ert þetta þú, Gunni minn?“
„Þetta er bara ég,“ sagði ég og stakk höfðinu fram.
„Er mín að skila bréfahnífnum?“ gaggaði Gubba og fór inn í eldhús með
pokana. Mamma lokaði á eftir henni og hallaði sér upp að dimmrauðu
veggfóðrinu.
„Varst það ekki þú sem tókst hann?“ spurði hún svo.
„Jú, ég gerði það. Mig langaði reyndar meira í blekpennann en það
hvarflar ekki að mér að biðja Gubbu um hann. Er hún sjálfskipaður
skiptastjóri?“
„Ja, það þarf einhver að hafa umsjón með þessu. Af hverju ekki hún?“
„Einmitt, af hverju ekki hún?“ tautaði ég. „Ég verð fljót, svo fer ég.“
Hafi ég ætlað að spyrja hana um bankabókina var ég búin að missa á því
allan áhuga.
„Hvað ertu að gera þarna inni?“
„Bara, skoða bækurnar hans pabba.“
Ég lokaði að mér og beið örlitla stund eftir því að ég heyrði mömmu fara
inn í eldhús. Þá lagðist ég á fjóra fætur til að finna það sem hafði dottið í
gólfið. Það var lítill lykill. Ég hlustaði enn og aftur við dyrnar áður en ég
þorði að reyna aftur við skúffuna. Lykillinn leið ljúflega inn og skúffan rann
út. Í henni var nákvæmlega ekki neitt. Ekki svo mikið sem ló.
Eldhúsdyrnar voru lokaðar. Ég heyrði þær pískra saman. Það eina sem ég
greindi var nafn Eiríks Eyjólfs. Vonandi dytti þeim í hug að láta hann sjá
um erfðamálin. Það væri örugglega réttlátast. Bara að pabba hefði enst aldur
til að ganga frá þessu öllu sjálfur. Ég gekk yfir vindubrúna, opnaði
útidyrahurðina og gekk út í síðsumarkvöldið sem fór óðum dökknandi. Hér
stóð ég einmitt á tröppunum 11 ára gömul og kom í fyrsta og eina skipti á
ævi minni systur minni til varnar. Að mér fannst.
23
GUBBA FÉKK AÐ halda partý þegar hún varð 14 ára. Þá helgi fór pabbi til
Húsavíkur til að vera við jarðarför. Skólabróðir hans úr MR , læknir og
þriggja barna faðir, hafði orðið bráðkvaddur á heimili sínu, eins og það
heitir oftast þegar fólk fer of geyst með búrhnífinn á slagæðunum á sér.
Auðvitað hefði Gubba helst viljað að mamma færi líka norður en þá hefði
verið úti um allt partýhald á Fornhaganum. Mamma sá um veitingarnar en
lofaði að öðru leyti að halda sig til hlés. Þær Gubba fóru í bæinn í vikunni
fyrir veisluna og keyptu niðurþröngar buxur á afmælisbarnið og einhvern
veginn tókst þeim að velja saman ótrúlega flotta peysu sem náði niður fyrir
rass og var með myndum af hreindýrum. Mig langaði líka í svoleiðis peysu.
Þegar Gubba sá ekki til fór ég með flíkina til pabba og sagði: „Sjáðu, hvað
Gubba fékk.“ „Já, hún á afmæli,“ sagði hann þurrlega. Hann var að reyna að
skrifa minningargrein um vin sinn en reif hvert blaðið eftir annað og henti í
ruslið. Svo bað hann mig um að fara fram og láta sig í friði. Ég setti
peysuna aftur inn í hillu þar sem ég hafði tekið hana en hafði hana
samankuðlaða svo Gubba sæi örugglega að ég hefði verið með hana. Eða
jafnvel mátað hana. Fátt fannst henni jafnógeðslegt og þegar ég fór í fötin
hennar. Í þetta sinn sagði hún samt ekkert. Hún var of upptekin við
undirbúninginn, enda þurfti liturinn á servíettunum talsverða yfirlegu svo
ekki sé talað um hvaða kökutegundir voru boðlegar. Mér hafði reyndar
skilist af bíómyndum að það væru bara kartöfluflögur í partýjum en Gubba
sagði að það væru líka oft kökur.
Það áttu bara að vera stelpur í partýinu og þeim hafði verið sagt að
gleðin hæfist klukkan níu. Þá stóðu saltstangirnar sperrtar í kristalskrús á
stofuborðinu sem allajafna geymdi sígarettur sem enginn reykti og
afmælisbarnið var komið í niðurþröngu buxurnar og hreindýrapeysuna og
hafði fest stórar spennur í hárið á sér. Ég hengslaðist í kringum mömmu
sem tók terturnar úr ísskápnum svo þær yrðu ekki of kaldar og stakk
aspasréttinum inn í ofn. Hún hafði bakað allt sjálf fyrir utan stóru
marsipantertuna sem á stóð „Til hamingju með daginn“ jafnvel þótt
afmælisdagurinn hefði verið þremur dögum áður. Þetta var æðisleg terta,
bleik og gul. „Má ég fá svona í mitt afmæli?“ spurði ég. „Já, já, auðvitað,“
svaraði mamma, „ég verð illa svikin ef þessi á ekki eftir að ganga í
stelpurnar.“
Klukkan var farin að nálgast hálftíu og engin þeirra komin. Gubba var
orðin óróleg. Hún var alltaf inni á baði að greiða á sér hárið, taka
spennurnar úr eða festa þær aftur. Svo kom hún askvaðandi inn í eldhús.
Tilhlökkunin var að breytast í taugaæsing.
„Mamma, hvenær koma þær eiginlega?“
„Þær koma,“ sagði mamma og bað hana um að setjast og vera róleg.
Besta vinkona Gubbu á þessum tíma var Þórdís. Hlédræg stelpa sem var
í fimleikum og leit út fyrir að vera 11 ára þar til hún hætti að æfa 16 ára
gömul og brjóst og mjaðmir spruttu fram sem fíflar að vori. Það var ekki
von á henni í partýið því hún var að keppa á móti alla helgina og þurfti að
vera vel úthvíld. Eftir að hafa þusað svolítið yfir mömmu fór Gubba inn í
stofu og kveikti á sjónvarpinu. „Sestu hjá henni og reyndu að vera góð við
hana. Hún er eitthvað svo stressuð,“ hvíslaði mamma að mér, tók réttinn út
úr ofninum og raðaði kökunum aftur inn í ísskáp. Ég settist við hliðina á
Gubbu í stofusófann og saman horfðum við á umræðuþátt. Gubba nagaði
neglurnar og frá henni lagði daufa svitalykt. Ekkert heyrðist nema gasprið í
sjónvarpsfólkinu og frussið í Gubbu þegar hún skyrpti nöglum á gólfteppið.
Fyrst Þórdís komst ekki gat ég ekki ímyndað mér hvaða stelpum hún hafði
boðið í partýið. Ég þekkti sumar í bekknum hennar í sjón en engin þeirra
hafði komið hingað svo ég var dálítið spennt. Eins og í flestum öðrum
bekkjum var ein stelpan í Gubbu bekk aðalpæjan og allir vissu hver það var.
Auður Elínóra. Hún var ótrúlega sæt, með þykk augnhár, freknur á nefinu
og liðað ljóst hár. Síðan var hún í dansflokki sem tekið hafði þátt í
Freestyle-keppninni í Tónabæ og orðið í 3. sæti. Allir í Hagaskóla vissu
samt að auðvitað hefðu þær átt að vinna. Auður Elínóra átti alltaf flottustu
fötin og hinar stelpurnar urðu að spyrja hana áður en þær voguðu sér að
kaupa sér eins föt og hún jafnvel þótt þau héngju fjöldaframleidd á slánum í
Vinnufatabúðinni og Sautján og aðgangur að þeim væri frjáls.
Þegar ég ætlaði að teygja mig í saltstangirnar hvæsti Gubba á mig að láta
þær vera. Ég ætlaði að spyrja hvers vegna í ósköpunum, hvort einhver annar
væri hér til að gæða sér á þeim en hætti við það vegna alls óþekktra
tilfinninga í garð systur minnar. Ég sárvorkenndi henni þar sem hún sat, illa
þefjandi af stressi, vegna þess að enginn virtist ætla að mæta í partýið
hennar sem hafði tekið hana margar vikur að undirbúa. Í raun og veru
langaði mig mun meira til að segja eitthvað fallegt við hana en að hnýta í
hana ónotum. Eitthvað um að þessar stelpur sem hún hefði boðið væru
greinilega bara asnar eða að það væri gott að þær hefðu ekki komið því svo
gæti farið að við sætum einar að kökunum og þar með talinni
marsipantertunni. Kannski hefði þetta endað með að ég stryki henni um
vangann hefði dyrabjallan ekki hringt. Hjartað í mér hoppaði og mamma
gat heldur ekki dulið spennuna. Hún birtist í eldhúsdyrunum með
viskastykki í höndunum og sagði: „Jæja, nú byrjar ballið!“
„Ekki þið fara til dyra,“ æpti systir mín og rauk fram á bað til að fara
aftur yfir greiðsluna áður en hún opnaði dyrnar. Ég stóð í stofudyrunum í
hæfilegri fjarlægð og fylgdist með henni opna.
Átta stelpur voru mættar og fremst í flokki var engin önnur en Auður
Elínóra. „Hæ, fyrirgefðu hvað við komum seint,“ sagði hún sykursætri
röddu. „Við vorum að punta okkur heima hjá Þorbjörgu og fórum síðan bara
að kjafta. Svo var klukkan bara allt í einu orðin svo margt.“
Þorbjörg var einhvern veginn eins og Auður Elínóra. Hún var líka með
liðað hár og átti alveg eins úlpu, hvíta og stutta í mittið. „Já, fyrirgefðu,“
bergmálaði Þorbjörg og hafði tekið upp sama talanda og vinkona hennar.
Svona hálfhvíslandi eins og eitthvað væri að.
„Ekkert mál, ekkert mál,“ sagði Gubba og ljómaði út undir eyru.
Stelpnahópurinn tróðst inn í holið en þar var auðvitað of þröngt fyrir átta
unglingsskrokka svo áður en við var litið voru þær fremstu komnar á
snjóugum stígvélunum inn á ganginn þar sem þær sporuðu teppið út. Eitt
andartak horfði mamma á þær með áhyggjusvip en náði síðan að taka
brosandi við yfirhöfnunum. „Þakka þér fyrir, frú,“ sagði Auður Elínóra
hátíðleg og flissbylgja reið yfir hópinn. Frú! Stelpurnar urðu að grípa fyrir
nefið til að hláturinn gusaðist ekki út. Um leið og þeim varð litið hver á
aðra jókst hættan á að stjórnleysið næði taumhaldi á þeim og því horfðu þær
flestar bara ofan í teppið. Mamma vissi ekki alveg hvernig hún átti að láta.
Kipraði augun aðeins og hló síðan við. Gubba brosti vandræðaleg framan í
Auði Elínóru sem tekist hafði að halda andlitinu að mestu leyti.
„Nei, við erum bara að hlæja að svolitlu sem gerðist heima hjá
Þorbjörgu. Bróðir hennar var svo fyndinn,“ sagði ljóshærð stelpa með
spangir á tönnunum.
Þá hættu þær allar að flissa, toguðu niður peysurnar sínar og gengu
fylktu liði inn í stofu. Gubba elti.
Mamma gaf mér merki. „Komdu og hjálpaðu mér aðeins í eldhúsinu.“
Aftur tók hún til við að sækja tertuna og annað bakkelsi úr ísskápnum og
aspasrétturinn rataði inn í ofn. „Var það ekki litli bróðir hennar Þorbjargar
sem dó í bílslysinu á aðventunni?“ spurði mamma felmtruð. „Átti hún
kannski marga bræður?“
„Nei, bara þennan eina,“ svaraði ég og varð hugsað til þess þegar öllum
skólanum var smalað út í kirkju á minningarathöfn um Leif Má. Hann var
bara sjö ára.
Mamma hristi höfuðið. „Skrítin stelpa, þessi með spangirnar. Hún hlýtur
að hafa ætlað að segja eitthvað annað.“
Hún tók stafla af kökudiskum úr eldhússkápnum, setti hann orðalaust í
fangið á mér og hélt eldhúshurðinni opinni fyrir mér. Stelpurnar voru að
gaspra saman um einhverjar aðrar stelpur. Auður Elínóra og Þorbjörg sátu í
sófanum miðjum með tvær vinkonur til beggja handa en sú ljóshærða hafði
séð sér þann kost vænstan að setjast á lágan fótskemil sem fjærst frá þeim.
Ég reyndi að láta ekkert heyrast í mér þegar ég bar inn glösin og gafflana og
tókst að ná því að stelpurnar sem um var rætt væru óttalegar tæfur. Alltaf
eitthvað að tala illa um aðra.
„Er þetta systir þín?“ heyrði ég spurt á bak við mig og Gubba hafði ekki
brjóst í sér til að neita því. „Hæ, þú, snúðu þér við svo við getum séð hvað
þú ert sæt,“ galaði einhver og ég sneri mér við. Þetta voru rosalega flottar
stelpur. Sumar greinilega með gloss á vörunum sem var algjör bannvara á
heimilinu. Gubba setti sitt ekki á sig fyrr en hún var komin í skólann.
Stelpnahópurinn horfði niður eftir mér og svo aftur upp, brosandi glossvarir.
Þær voru örugglega að dást að bolnum mínum. Ég ætlaði að fara að segja
þeim að vinkona mömmu hefði keypt hann handa mér í Glasgow en hætti
við það þegar ég mætti hörðu augnaráði Gubbu og flýtti mér inn í eldhús.
„Jæja, sýndist þér þær vera orðnar svangar?“ spurði mamma og geispaði.
Klukkan var orðin ellefu. Hún bar sjálf inn heita réttinn og fínu
marsipantertuna en ég hjálpaði til með hitt. Þetta var glæsilegt veisluborð
jafnvel þótt ég hefði líka viljað pönnukökur með sykri. „Gjörið þið svo vel,
elskurnar mínar,“ sagði mamma og stelpurnar flykktust að
borðstofuborðinu. Það var búið að segja að ég mætti borða með stelpunum
svo ég elti. Mig hefði mest langað til að sitja við hliðina á Auði Elínóru en
Þorbjörg og einhver Kata náðu sætunum sitt hvorum megin við hana. Eina
lausa sætið var við hliðina á systur minni svo ég settist bara þar. Gubba var
svo upptekin af þvi að vera afmælisbarn að hún hefði ekkert tekið eftir því
þótt ég hefði sest í kjöltuna á henni. Svitalyktin hafði ekkert dofnað.
Gestirnir virtu fyrir sér veitingarnar. Þessi Kata byrjaði að lesa áletrunina á
tertunni upphátt en hætti í miðju kafi þegar Auður Elínóra gaf henni
olnbogaskot. Enginn þorði að byrja.
„Ekki vera feimnar,“ sagði mamma. „Viljið þið að ég skeri?“
„Hvað er þetta?“ spurði Auður Elínóra stóreyg og benti á heita réttinn
sem rauk úr.
„Þetta er svona klassískur saumaklúbbsréttur með aspas, skinku og osti.
Voða gott,“ sagði mamma og brosti til hennar.
Auður Elínóra horfði á fatið eins og hún byggist við því að eitthvað
stykki upp úr aspasinum. Stelpurnar horfðu á hana og fatið til skiptis og
þorðu varla að anda. Loks kastaði Auður Elínóra lokki aftur fyrir öxl og
benti á marsipantertuna: „Ætli ég fái mér ekki heldur svona.“
„Jæja, elskan, fáðu þér bara sjálf, gjörðu svo vel,“ sagði mamma, rétti
henni kökuspaðann og fór aftur inn í eldhús.
Ég fékk mér sneið af marenstertunni sem mamma hafði bakað og stakk
strax upp í mig dísætum dásemdarbita sem bráðnaði á tungunni. Ég ætlaði
að fara að segja Gubbu hvað þetta væri frábær terta þegar ég tók eftir því að
við borðið ríkti undarleg þögn. Mér varð litið upp. Stelpurnar sátu enn með
tóma diska fyrir framan sig og mændu á Auði Elínóru. Mér fannst eins og
ég væri komin á samkomu hjá trúfélagi þar sem ég þekkti ekki siðina. Ég
skammaðist mín fyrir græðgina og reyndi að tyggja þannig að sæist ekki.
Löturhægt greip Auður Elínóra gaffalinn, goggaði með honum í seigt
marsipanið, halaði smá rjómaslettu með og stakk upp í sig. „Hvernig er
hún?“ spurði Kata.
Augu Auðar Elínóru reikuðu um stofuna, stytturnar, plattana, skenkinn
og alla leið að hestamyndinni hans Jóhanns Briem á meðan hún velkti
bitanum uppi í sér. Svo fitjaði hún upp á nefið. „Hún er alltof sæt,“ sagði
hún lágt og hryllti sig svo lokkarnir hristust til og frá. Ég sneri mér við í
stólnum til að geta virt myndina fyrir mér. Þetta voru frekar sterkleg hross
og ekkert sætt við þau. „Á hvað ertu eiginlega að glápa? Geturðu ekki bara
setið eðlilega?“ sagði Gubba upp við eyrað á mér. Hún var eldrauð í framan.
„Hún lítur samt voða vel út,“ sagði Þorbjörg og það rann upp fyrir mér
að þær voru að tala um marsipantertuna. Hvernig getur eitthvað verið of
sætt? langaði mig til að spyrja en hafði hemil á mér. Þess í stað sagði ég:
„Fáið ykkur bara marenskökuna. Hún er æði. Mamma bakaði hana.“
Stelpurnar litu á mig, allar sem ein. Þorbjörg gjóaði augunum til Auðar
Elínóru sem gjóaði augunum til þessarar ljóshærðu með spangirnar og lyfti
annarri augabrúninni sposk á svip.
„Í alvöru? Bakaði mamma hana?“ spurði þessi ljóshærða smeðjulega.
„En hvað hún er góð. Mamma bakaði hana.“
„Mamma bakaði hana, mamma bakaði hana,“ glumdi úr öllum áttum. Ég
ætlaði að fara að spyrja Gubbu hvað þetta ætti eiginlega að þýða en mætti
hlæjandi munni hennar. „Mamma bakaði hana,“ endurtók hún eftir hinum
stelpunum, skellihló og allur hópurinn tók undir með henni. Ég færði
stólinn minn aðeins frá systur minni en rakst þá upp að stól einhverrar
annarrar stelpu sem sagði: „Hei, ekki taka svona mikið pláss.“
Þegar loksins sá fyrir endann á látunum strauk Auður Elínóra tár af
hvarmi og sagði: „Guð, þú ert svo sæt.“
Svo skellti hún aftur upp úr og hinar tóku eina roku í viðbót henni til
samlætis. Sú ljóshærða teygði sig í gosflösku og bjóst til að hella í glasið
sitt en fékk illt auga frá Þorbjörgu og lagði flöskuna frá sér.
„Ég veit ekki með ykkur, stelpur, en ég þarf eiginlega að fara,“ sagði
Þorbjörg og var ekki búin að sleppa orðinu þegar Auður Elínóra leit á úrið
og sagði: „Jiii, er klukkan svona margt? Ég þarf líka að fara.“
„Ég líka,“ sagði sú ljóshærða og síðan gekk þetta bara á röðina: Ég líka,
ég líka, ég líka.
Gubba, enn rjóð í vöngum eftir hláturskastið, leit ráðvillt á boðsgestina
sína hvern á fætur öðrum. „Hvað meinið þið? Ætlið þið ekki að fá ykkur
neitt?“ Hún sveiflaði hendinni yfir aspasréttinn, marenskökuna,
bananakökuna, súkkulaðikökuna, marsipantertuna, servíetturnar, glösin og
tóma diskana. „Ætlið þið ekkert að fá ykkur?“ endurtók hún og röddin
brast.
„Við getum ekkert gert að því þótt við verðum að drífa okkur og það er
ekkert okkur að kenna að hinar vilji líka fara,“ sagði Auður Elínóra, glennti
upp augun og greip í höndina á Þorbjörgu sem sagði: „Nei, einmitt.“
Gubba reis á fætur en lét strax aftur fallast í sætið sitt. Hún barðist við
grátinn en nú reið á að hemja sig. Andlitið á mér brann. Höndin á mér
herptist um gaffalinn og enn og aftur kenndi ég svona líka ógurlega í brjósti
um systur mína sem rétt áðan hafði hætt mig og spottað. Ég veit ekki undan
hverju sveið mest, vorkunnseminni eða reiðinni í garð þessara stelpna. Mest
langaði mig nefnilega til að ráðast á Auði Elínóru og stinga úr henni grænu
augun með kökugafflinum. Stelpurnar stóðu upp hver á fætur annarri. „Takk
fyrir mig,“ sagði stelpan sem setið hafði við hliðina á mér, „þetta var mjög
... raffinerað.“
Önnur stelpa gaf frá sér fliss sem hljómaði eins og hún hefði prumpað.
Þá sprakk allur hópurinn og rétt eins og þegar stelpurnar fóru úr
yfirhöfnunum, aðeins hálftíma áður, klæddu þær sig í allar í keng af
innibyrgðum hlátri.
Mamma snaraðist út úr eldhúsinu þegar hún heyrði umganginn. „Nei,
eruð þið bara búnar að borða? Ansi voruð þið snöggar. Og ætlið þið út
núna? Gubba, ætlarðu ekki með þeim?“
Gubba hristi höfuðið. Hún stóð við vegginn með krosslagða handleggi
og þorði ekki líta framan í stelpurnar sem reyndu að stramma sig af fyrir
framan frúna. Þær þökkuðu pent fyrir sig og ein sagði meira að segja:
„Frábærar kökur.“ Mamma ljómaði við hrósið. Svo kvöddu stelpurnar og
veifuðu brosandi af tröppunum: „Bæ, bæ, Gubba, sjáumst.“
„Jæja, þetta var nú aldeilis vel heppnað. Þá er bara að taka til við
uppvaskið,“ sagði mamma og fór inn í stofu. Sekúndu síðar heyrðum við
hana gala upp yfir sig: „Hvað, snertu þær ekki á neinu?“
Tár lak niður kinnina á Gubbu. Hún saug upp í nefíð og brá höndunum
fyrir andlitið á sér. Herðarnar gengu upp og niður af ekka. Á maður alltaf að
þegja vegna þess að einhverju öðru fólki finnst það skynsamlegast? Ég held
ekki. Að minnsta kosti reif ég upp útidyrahurðina og kom að Auði Elínóru,
Þorbjörgu og vinkonum þeirra fyrir neðan tröppurnar. Þeim hafði ekki legið
meira á en svo að þær stóðu þarna enn á spjalli og ráku upp einstaka
hlátursroku og sögðu svo: „Jiii minn.“
„Auður Elínhóra!“ galaði ég yfir hópinn og heyrði um leið systur mína
taka andköf á bak við mig.
„Nei!“ emjaði hún og tókst að draga mig úr dyrunum og snúa mér við
með sama handtakinu. Síðan rak hún mér þennan líka löðrung svo söng í
hausnum á mér og það voru ekki fagrar vísur. Hurðin var enn opin og
kaldur gustur lék um holið. Einhver stelpnanna sagði: „Það er aldeilis,“ og
önnur sagði: „Já, Gubba, láttu hana hafa það.“ En hún hafði ekki orku í að
láta mig hafa neitt meira. Mamma sat hjá henni langt fram á nótt og ég
heyrði grátinn þar til ég valt út af.
24
Í VIKUNNI EFTIR verslunarmannahelgi hafði ég uppi á kettinum sem ríkir
norðan Hofsvallagötu. Það var bröndótt nafnlaust fress sem mjálmaði heil
ósköp. Ég ákvað að kalla hann Brand þar til annað kæmi í ljós. Hinum
megin götunnar fylgdist kötturinn Bjartur með okkur en hann vogaði sér
ekki yfir. Í Melabúðinni keypti ég harðfísk og gaf þeim báðum áður en ég
hélt aftur í vinnuna. Þá var komið hádegi. Villi og Tómas höfðu skotist í
mat og Jóhann var hvergi sjáanlegur. Steini virtist ekki hafa mætt í morgun.
Stóllinn hans var auður og ekki hafði verið kveikt á tölvunni.
Íslenskuneminn sat við prófarkalesturinn og hafði laumast til að kveikja
sér í sígarettu í einsemd sinni. Honum varð svo mikið um þegar ég birtist að
hann var nærri því búinn að leggja eld að sjálfum sér í fátinu við að drepa í.
„Ég fer bara út að reykja, eða eitthvað,“ sagði hann eins og ég ætlaði að fara
að lesa honum pistilinn og hafði sig á brott.
Ég settist við tölvuna mína og sló inn ávöxt erfiðis míns, upplýsingarnar
um Bjart og Brand. Ég var að verða búin þegar Nína snaraðist inn með
tímarit í höndunum. „Ertu búin að heyra það? Christian Slater á að vera á
landinu.“
„Í alvöru?“
„Hann er víst fyrir norðan í veiði en það hefur enginn fjölmiðill náð
honum ennþá.“
„Í veiði? Ég hélt að hann væri svo mikill sukkari.“
„Nei, það getur ekki verið. Hann er svo sætur. Eitt sem ég ætlaði að
spyrja þig að, hefurðu lesið pistlana hennar Örnu á Fréttum?“
Hafði Nína komist að því að ég þekkti hana? Ég stífnaði öll upp en náði
að svara neitandi.
„Hún skrifar reglulega í Sníp, nýja kvenréttindablaðið.“
Framan á blaðinu var mynd af þremur nöktum konum vöfðum inn í glært
plast. Klesst brjóst, plástraðir munnar og afar raunamædd augu. Fyrirsögnin
MARKAÐSSETNING KVENLÍKAMANS skrifuð þvert yfir magann á þeim. Nína
fletti upp á síðu þar sem litmynd af Örnu blasti við. Þar studdi hún báðum
höndum undir hökuna á sér eins og höfuðið ætti annars á hættu að detta af.
„Já, lestu þennan pistil. Hann er verulega góður,“ sagði Nína og skellti
blaðinu á borðið mitt. „Segðu mér svo hvað þér finnst.“
Hún stóð á bak við mig á meðan ég las.

„Ég hef alltaf haft gaman af fólki, þessum breysku en um leið göfugu
verum. Það er líka auðsætt á allri framkomu minni. Af mér stafar forvitni,
forvitni um lífið en umfram allt um fólk. Alla tíð hefur það líka dregist að
þessum eiginleika mínum. Dæmi: Þegar ég var barn og foreldrar mínir
héldu sínar margfrægu veislur (sem rómaðar voru í að minnsta kosti þremur
ævisögum fyrir síðustu jól!) áttu vinir þeirra til að setjast með mér á eintal
og segja mér frá leyndarmálum sínum. Þeir fundu ekki aðeins að ég var
góður hlustandi heldur var mér líka treystandi. Þannig komst ég að
fjárhagsvandræðum, fósturlátum og framhjáhöldum helstu lauka
reykvískrar borgarastéttar á 7. áratugnum!
Það kom engum á óvart að ég skyldi verða blaðamaður. Faðir minn
ætlaði mér reyndar frama í viðskiptum og vildi að ég tæki við fyrirtækinu
sem hann hafði byggt upp í hjarta Reykjavíkur, G.B. Geirfells sem margir
muna eflaust eftir. Það var hins vegar eldri systir mín sem hafði erft
viðskiptaáhuga hans. Frá fyrstu tíð voru tölur henni afar hjartfólgnar. Ást
mín á fólki hafði hins vegar yfirhöndina í starfsvali mínu og ég hef aldrei
séð eftir því að hafa kosið þessa leið í lífinu. Í blaðamannsstarfinu, og síðar
í ritstjórastólnum, hef ég kynnst því besta sem býr í fólki en einnig því
versta. Með öðrum orðum, öllum skalanum!“

Ég komst ekki lengra fyrir Nínu. „Hún er eitthvað svo manneskjuleg, finnst
þér það ekki?“ spurði hún.
Mér fannst þetta ekkert sérstakt en ákvað að vera ekkert að flagga þeirri
skoðun. „Aha,“ svaraði ég. „En af hverju ætli hún noti öll þessi
upphrópunarmerki? Svo maður fatti að setningarnar sem enda á þeim eigi
að vera fyndnar?“
„Það er bara stílbragð. Eða eitthvað. Mér hefur alltaf fundist hún svo
frábær, hún Arna. En hún er ekki allra. Mamma og systur hennar þola hana
til dæmis ekki. Ertu búin?“
Nína tók blaðið og fór yfir í sætið sitt. Um leið birtust Villi og Tómas
með samlokur og gos. Tómas var eins og hann átti að sér en Villi var í
ljósgráum jakkafötum sem ég hafði aldrei séð hann í áður. Gott ef hann
hafði ekki líka látið klippa sig.
„Hvað stendur til?“ spurði ég.
„Bara,“ sagði hann sposkur, „fékk viðtal við forsætisráðherra og fannst
tilhlýðilegt að vera fínn.“
Hann leit niður eftir fötunum sínum. „Þú hefur nú skrifað svolítið um
tísku. Hvernig finnst þér þessi föt? Maðurinn í búðinni sagði að þetta snið
væri svolítið að koma en um leið væru þetta klassísk föt.“
Ég gat ekki betur séð en að afgreiðslumaðurinn hefði haft rétt fyrir sér og
var þrælmontin af því að Villi skyldi spyrja mig um álit. Af hverju bauð
hann mér ekki út að borða einhvern tímann? Ekki fannst mér ég hafa fengið
nógu skýr skilaboð um áhuga af hans hálfu til að geta boðið honum. Annars
myndi ég ekki víla það fyrir mér.
Allt í einu mundi ég eftir því að hafa séð Steina í Ingólfsstrætinu fyrir
helgi.
„Hvenær ætlaði Steini að koma aftur?“ spurði ég yfir salinn.
„Átti hann ekki vera í tíu daga? Það held ég og þá ætti hann nú að fara að
láta sjá sig,“ sagði Villi og hrópaði síðan yfir til Tómasar: „Veist þú hvenær
Steini átti að koma?“
Tómas hristi höfuðið. „Hann átti örugglega að vera þarna inni í tíu daga.
Ég trúi því ekki að hann taki eftirmeðferðina líka. Hann er ekkert maður í
það. Hann er enginn George Best.“
Varla hafði hann fyrr lokið setningunni en Steini gekk inn í salinn, nam
staðar úti á miðju gólfí og hallaði sér upp að skjalaskápunum eins og í
auglýsingu fyrir Freeman’s-listann. „Vá, það hefur bara ekkert breyst síðan
ég fór,“ sagði hann.
Strákarnir hættu að japla á remúlaði og róstbíffi og óðu til hans, svona
rétt til að geta klappað honum á herðarnar. Ég elti en lét vera að koma við
hann. Síðan létum við spurningunum rigna yfir hann. Hvernig var? Gerir
þetta eitthvert gagn? Dugðu þessir tíu dagar? En Steini neitaði að svara.
„Þetta verður allt í greininni minni,“ sagði hann leyndardómsfullur.
25
„ÞÚ DREKKUR KAFFI,“ sagði Eiríkur.
„Já, takk,“ sagði ég.
„Þú ert að vinna sem blaðamaður,“ sagði Eiríkur.
„Jú, mikið rétt,“ sagði ég.
„Það á við þig,“ sagði Eiríkur.
„Já, já,“ sagði ég.
Hann hafði hringt seint kvöldið áður þegar var ég að festa svefninn. Ég
rauk fram úr til að svara. Húsið er hljóðbært og svefnherbergið mitt þar sem
síminn er stendur beint undir svefnherbergi Áslaugar. Fyrst heyrðust bara
ræskingar á línunni en loks kynnti Eiríkur sig. Ég varð hálfstúmm yfir því
að hann væri að hringja í mig, enda aldrei haft mikil samskipti við hann.
„Ég ætla að koma mér beint að efninu, Oddfríður mín. Hún mamma þín
vill að við tölum aðeins saman.“
Mér tókst að skjóta einu „nú?“ inn í.
„Við þurfum aðeins að tala saman, helst strax á morgun.“
Úti heyrðust unglingsstrákar öskra hver á annan. Blótsyrði og
formælingar bárust inn um gluggann.
„Já, já, ég get það svo sem. Er það út af einhverju sérstöku?“
„Já, það er svona ýmislegt sem við þurfum að ræða, elskan. Við skulum
bara byrja morgundaginn með því að hittast. Það er best. Þú kemur klukkan
átta svo þú verðir ekki of sein í vinnu.“
Ég samþykkti það og hlakkaði strax til. Mæðgurnar hlutu að hafa séð að
sér og ákveðið að fá Eirík til að sjá um erfðamálin, enda eina vitið.
Frá efri hæðinni heyrðist ekki múkk og ég steinsofnaði aftur.
Ég var ekki fyrr sest gegnt Eiríki á skrifstofunni hans en það rifjaðist upp
fyrir mér hvað mér fannst alltaf sérkennilegast við hann. Hann spurði mig
aldrei að neinu heldur notaði alltaf fullyrðingar. „Þú varst að byrja í
skólanum,“ sagði hann þegar ég var sex ára og við mamma komum við á
skrifstofunni hans pabba til að sýna skólatöskuna sem hún hafði keypt
handa mér. „Þú áttir afmæli í gær,“ sagði hann við mig þegar ég var níu ára
eins og ég hefði ekki haft hugmynd um það sjálf. Um svipað leyti sagði
hann mér í óspurðum fréttum að ég hefði fengið tíu á landafræðiprófi
mánuði áður. Tveimur árum síðar hefur hann eflaust getað horfst í augu við
syni sína og sagt: „Þið eruð pönkarar og brjótist inn í sjoppur um helgar.“
„Jú, mikið rétt, pabbi.“
„En síðan farið þið báðir í lögfræði eins og ég.“
„Já, gott ef ekki.“
Það var ljósmynd af þeim öllum þremur uppi á vegg og engum
gaddabeltum þar fyrir að fara. Einhvern tímann hafði hvarflað að mér að
fara í lögfræði en þegar Gubba fór að viðra þá hugmynd velti ég því ekki
meira fyrir mér. Ég hefði ekki viljað sitja með henni í tímum.
Eiríkur tók upp símann, ýtti á takka og bað símadömuna um að koma
með kaffi handa okkur. Hann stillti sér upp við gluggann þar sem
Laugardalurinn blasti við.
„Það er fallegt útsýni hérna,“ sagði hann. „Og fjallasýnin, maður. Sjáðu
Esjuna.“
Hann bandaði út hendinni. Kaffí, fjöll, útsýni. Hann gat ekki komið sér
að efninu. Hann ætlaði ekki að tala um erfðamál við mig. Ég hefði ekki átt
að koma.
Gráklædd kona kom afsakandi inn og lagði tvo kaffibolla fyrir framan
okkur. „Takk, Maja mín,“ sagði Eiríkur. Þetta gæti verið önnur tengdadætra
hans. Kaffið var óttalegt skrifstofusull en ég lét mig samt hafa það að
dreypa á því. Og meira að segja að kyngja. Eiríkur vissi greinilega betur og
snerti ekki við sínum bolla. Hann settist við skrifborðið, tyllti olnbogunum
upp á stólarmana, lagði lófana saman og krosslagði hendurnar. Vísifingurna
lét hann miða eins og byssusting undir hökuna á sér. „Oddfríður mín, hún
mamma þín bað mig um að ræða við þig,“ sagði Eiríkur alvarlegur.
„Þú sagðir það í símann í gær.“
Hann horfði hugsi á mig, ætlaði að segja eitthvað en lokaði munninum
aftur. Mér hafði greinilega verið ætlað að þegja. Held ég.
„Oddfríður mín,“ byrjaði hann aftur. „Þetta hefur verið mjög erfiður tími
fyrir mömmu þína og hún bað mig bara aðeins um að ræða við þig.“
Ég horfði stíft í augun á honum til að athuga hvort hann næði ekki að
skammast sín svolítið fyrir að eyða tíma mínum í þennan heimskulega
morgunfund. Þetta er trikk sem stundum heppnast.
„Móðir þín segir að þér líði illa og vildi athuga hvort ég gæti gert
eitthvað.“
„Mér finnst ekkert viðeigandi að hún sé að blanda þér í þetta,“ sagði ég
og stóð upp. „Að hún biðji þig um að lesa yfir hausamótunum á mér. Ég er
nú einu sinni á þrítugsaldri.“
„Nei, nei, það var nú ekki það sem ég ætlaði mér,“ sagði Eiríkur, studdi
olnbogunum á borðið og strauk með annarri hendinni yfir ennið á sér eins
og hann hefði höfuðverk. Líklega var hann örlítið fölur. Ég fékk sting í
hjartað, eins og þegar ég hjálpaði honum í frakkann eftir erfidrykkjuna. Ég
settist aftur.
„Pabbi þinn var stórkostlegur maður,“ sagði Eiríkur. „Það var magnað að
fá að vinna með honum öll þessi ár. Aldrei bar skugga á samstarf okkar. Það
get ég svo sannarlega fullyrt. Aldrei nokkurn tímann. Hann vann mikið. Ég
veit það. Og honum fannst ekki gott að þurfa að vinna svona mikið. Hann
hefði gjarnan viljað vera meira heima en það var bara svona. Þetta var ekki
alltaf auðvelt. Þú veist, mamma þín ...“
Þessu fylgdi óskýr handahreyfing sem gæti hafa þýtt: „Mamma þín lá í
læknadópi, átti það til að slefa þegar minnst varði og var ekki alltaf beint til
taks fyrir einn né neinn.“
Eiríkur hélt áfram: „Hún bað mig um að tala við þig.“ Löng pása. „Henni
þykir mjög vænt um þig.“
Þetta kom mér á óvart.
„Sagði hún þér það? Bara sisvona?“
„Það þarf ekkert að segja mér það. Ég veit það.“
„Eigum við ekki bara að sleppa þessu?“
Ég reis aftur á fætur.
„Nei, sestu,“ þrumaði maðurinn og fékk svo mikið hóstakast að í nokkrar
sekúndur náði hann ekki andanum. Kannski var hann með rauðan takka
undir borðinu til að ýta á þegar hann þurfti á aðstoð að halda. Að minnsta
kosti kom meint tengdadóttir óðara hlaupandi inn. Þjáð augnaráð Eiríks
mætti óttablöndnu augnaráði hennar. Hún hvarf á nýjan leik og kom síðan
aftur með vatnsglas. Hann sötraði, varpaði öndinni léttar, hóstaði tvisvar í
viðbót, svona rétt til málamynda, og sagði síðan: „Takk, Maja mín.“ Þögla
konan lét sig hverfa og ég áræddi að setjast aftur.
„Þetta gengur svona,“ sagði Eiríkur og þurrkaði sér um augun með
vasaklút. „Maður eldist. Getur bara ekkert lengur.“
„Þegar þú hringdir hélt ég að mamma hefði kannski falið þér að sjá um
erfðamálin.“
Eiríkur hristi höfuðið hægt. „Ég hef ekki verið beðinn um það.“
„Þá skil ég ekki alveg hvaða erindi þú átt við mig.“
Ég vildi komast út. Klukkan var farin að nálgast hálfníu og ég átti eftir
að ná strætó í vinnuna.
Eiríkur dæsti. „Ég skal bara koma hreint fram við þig. Mamma þín bað
mig um að tala við þig. Hún sagði að þú hagaðir þér furðulega og að þú
værir að róta í einhverju dóti sem hann pabbi þinn hefði átt.“
„Í fyrsta lagi haga ég mér ekkert furðulega ...“
„Nei, nei, ég veit, en það er eins og þið mæðgur eigið eitthvað erfitt með
að tala saman og hún hringdi í mig.“
„Mamma mín hefur aldrei reynt að tala við mig og gott dæmi um það er
þessi fundur okkar hér.“
„Já, hvað er maður svo sem að skipta sér af?“ sagði Eiríkur og strauk
ímyndað kusk af borðplötunni. „En það er svona þegar það er hringt í mann.
Maður getur varla skellt á fólk.“
Þegjandi horfðum við hvort á annað. Við sátum í sömu súpunni og það
var farið að hitna vel undir okkur.
„Mig langaði bara til að vita hvort pabbi hefði ekki skilið eftir einhverja
vísbendingu um hver ætti að fá hvað svo ég þyrfti ekki að leita til Gubbu
með það,“ sagði ég þegar þögnin var orðin helst til langdregin. „Þess vegna
var ég að róta, eins og þú orðar það, inni á skrifstofunni hans. Reyndar fann
ég ekki neitt. Ég hélt að ég fyndi eitthvað í skrifborðsskúffunni hans en
þegar ég var loksins búin að fínna lykilinn var ekkert í henni lengur. Ætli
mamma eða Gubba hafi ekki orðið fyrri til. Svo eru þær alltaf að þrasa um
einhvern bréfahníf sem ég á að hafa tekið. Og tók reyndar en mér finnst það
ekki skipta neinu máli. Pabbi var líka búinn að segja mér að hann hefði lagt
fyrir svolitla upphæð svo ég ætti fyrir útborgun í íbúð og ég væri alveg til í
að fá hana bráðum þótt ég viti alveg að mamma eigi að sitja í óskiptu búi og
allt það.“
Orðalaust teygði Eiríkur sig í skúffu og sótti þaðan umslag sem hann
skellti á borðið fyrir framan mig. „Ekki varstu að leita að þessu?“
„Hvað er þetta?“ spurði ég og hann svaraði með höfuðhreyfingu í átt að
umslaginu.
Ég hvolfdi úr því svo pappírar runnu út á borðið. Þar á meðal var þunn
bók með teikningu af strák framan á og grátt skírteini með mynd sem virtist
vera af pabba á unglingsárunum. Brosandi og fallegur unglingur. Ég hafði
aldrei áður séð mynd af honum frá þessum tíma. Líklega var þetta skírteini
frá íþróttafélagi. Ekki það að ég hafi heldur nokkurn tímann heyrt að hann
hafi stundað íþróttir.
„Hvað er þetta?“ endurtók ég.
„Hann stundaði hlaup, kallinn. Var bara asskoti góður,“ sagði Eiríkur og
brosti. „Annars eru þetta bara einhverjir pappírar og fáeinar ljósmyndir,
held ég.“
„Af hverju ert þú með þetta?“
„Hann bað mig bara fyrir þetta einhvern tímann þegar ég heimsótti hann.
Ætli það hafi ekki verið skömmu fyrir jól og maður er svo sem ekkert alltaf
að spyrja af hverju þetta og af hverju hitt. Hann sagðist ekki vilja henda
þessu og bað mig um að geyma þetta. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þú
takir þessa pappíra. Ég hef ekkert að gera með þá. Þú hefur nú gaman af að
eiga svona mynd af pabba þínum.“ Hann benti á brosandi unglinginn.
Hvort ég hafði. Ég var hálfskjálfhent þegar ég setti pappírana aftur í
umslagið og stakk því ofan í töskuna mína. „En pabbi hefur ekkert minnst á
þennan sjóð við þig sem ég minntist á?“
Eiríkur hristi höfuðið. „Nei, kannast ekkert við það.“
„Þakka þér kærlega fyrir þetta,“ sagði ég við Eirík og rétti fram höndina.
„Það var ekkert,“ sagði hann og tók í höndina á mér báðum höndum. „Þú
ferð í vinnuna núna.“
„Já,“ sagði ég.
„Þú ferð með strætó,“ sagði hann og laug þar engu.
26
ÞAÐ ER TIL fjöldi fólks sem eyðir milljónum í að reyna að eignast börn og fer
í hverja vandræðalegu læknisskoðunina eftir aðra af því að það þráir það
svo heitt. Ég veit ekki til hvers mamma mín var að eignast börn. Líklega
bara vegna þess að það þótti tilhlýðilegt. Svona eins og að taka slátur og
nota endurskinsmerki. Kannski er þetta pínulítið ósanngjarnt af mér. Henni
finnst alltaf mikið til Gubbu koma.
Í byrjun vetrar 1987 var ég að horfa á Fyrirmyndarföður í sjónvarpinu
með mömmu. Svona höfðum við svo oft setið og horft saman á sjónvarpið,
stundum tvær eða tvö, stundum þrjú og oft fjögur. Líklega áttum við
fjölskyldan okkar bestu stundir einmitt þar. Við töluðum nefnilega aldrei
saman yfir sjónvarpinu, þar þögðum við alltaf og rifumst þar af leiðandi
aldrei. Einstaka sinnum hló eitthvert okkar og sagði: „Svei mér þá!“ en það
var varla mikið meira.
Nú var Fyrirmyndarfaðirinn sem sagt í sjónvarpinu, þátturinn þar sem
Rudy litla situr á hnjám föður síns og segist ætla að eignast „a husband
named Bud“. Áður en Maður vikunnar var sýndur komu auglýsingar.
Stundum lékum við þann leik að giska á hvað þær yrðu margar og þess
vegna sagði ég: „Ætli þær verði ekki tólf.“
„Ég segi fimmtán,“ sagði mamma og það var eins og stórar krumlur
læstu sig um magann á mér og byndu á hann hnút.
Þegar við Gubba vorum litlar greip hún stundum um kinnarnar á mér,
þrýsti trýninu á mér fram og sagði: „Segðu mamma.“ Ég reyndi en gat varla
náð vörunum saman svona fötluð af framtakssemi systur minnar. Gubba rak
upp hlátursroku. Síðan hélt þetta áfram: „Segðu pabbi. Segðu Gubba. Segðu
Odda.“ Það var reyndar enginn vandi að segja Odda en þar sem Gubba
hafði þegar ákveðið að þetta væri fyndið gat hún hlegið að því líka.
Þetta kvöld hafði einhver gripið um kinnarnar á móður minni og kreist
þær saman. Orðin þvældust hvert fyrir öðru uppi í henni og hún ætlaði
aldrei að koma þeim út úr sér. Ég varð að telja í mig kjark áður en ég gat
litið yfir til hennar. Hún hallaðist skökk upp að veggnum og studdi öðrum
handleggnum á lítið borð. Munnurinn var herptur saman, augun opin til
hálfs en augnaráðið enn á sjónvarpinu. Hún var stirðnuð. Mamma mín var
enn hjá mér en samt ekki. Í veikri von um að hrifsa hana aftur til baka úr
mjúka bómullarheiminum spurði ég hvenær pabbi kæmi heim. Hún deplaði
augunum svo löturhægt að ég hélt að henni ætlaði aldrei að takast að ljúka
þeim aftur upp.
„Ég veit það ekki. Hann er svo vondur við mig.“ Það örlaði á klökkva í
röddinni. Svona lagað hafði ég aldrei heyrt áður og það hvarflaði ekki að
mér eitt augnablik að trúa henni. Ég hefði áreiðanlega orðið vör við það
hefði hann gert henni eitthvað.
„Viltu ekki fara inn að sofa?“
„Ég sofna bara svona.“
Næst þegar ég leit á hana var hún enn í sömu stellingu en með augun
lokuð. Hún vildi ekki vera hjá mér og ég gat með engu móti skilið af hverju.
Ég slökkti á sjónvarpinu, fór inn í herbergið mitt og reyndi að ímynda mér
hvort líf mitt væri eitthvað öðruvísi ef ég ætti ömmu og afa eða bara
frænkur og frændur sem hefðu einn daginn komið í heimsókn, séð
ásigkomulag móður minnar og boðið mér að búa hjá sér. Ég hefði ekki
hikað. Á þessum tíma bar aftur á móti ekki mikið á gestum á Fornhaganum.
Mesta furða samt hvað tókst að safna mörgum saman í erfidrykkjuna í vor.
Vinkonur mömmu birtust ekki fyrr en um það leyti sem pabbi veiktist. Þær
sátu tvær saman keðjureykjandi úti á svölum í sólbaði einu sinni þegar ég
leit við í hádeginu og héldu álpappírsklæddum bökkum undir andlitinu til
að verða enn brúnni. Furðuleg kynslóð.
Þetta haustkvöld árið 1987 hefði engin venjuleg amma látið viðgangast.
„Dóparðu þig svona upp fyrir framan hana Oddu?“ hefði Alvilda spurt
mömmu á bjagaðri íslensku en þó svo að vel mátti skilja hana. „Hún á betra
skilið, barnið, en þetta. Komdu, Odda mín, þú skalt koma með mér heim og
ég hita ofan í þig kakó fyrir svefninn.“
Jafnvel þótt ég væri nýorðin 17 ára hefði amma tekið höndina mína í
sína og leitt mig heim til sín því að ég hefði alltaf verið litla stelpan hennar
og hún hefði heldur ekki búið neitt langt í burtu, kannski bara í
Frostaskjólinu. „Þú veist þú getur sagt henni ömmu allt og það fer aldrei
neitt lengra,“ hefði hún sagt við mig á meðan við óðum snjóinn undir skini
götuljósanna. Snjókorn settust í liðaða hárið hennar ömmu og síða, dökka
kápan hennar dróst eftir fönninni. Ég gat ímyndað mér fallega rödd,
sambland af rödd kennarans í Húsinu á sléttunni og mömmu hennar Erlu
sem nú var flutt í Seljahverfið. Hún strauk stundum yfir hárið á dóttur sinni
og sagði: „Ég er svo stolt af þér.“ Ég vissi aldrei hvert ég átti að horfa á
meðan. Það væri hlýtt í kjallaraíbúðinni hennar ömmu og hún gæti átt lítinn,
hvítan hund sem þekkti mig um leið og ég kæmi inn. Hann héti Kátur og ég
hefði fengið að velja nafnið á hann. Yfir kakóinu segði ég ömmu allt það
sem drifið hefði á daga mína síðan ég hitti hana síðast og svo myndi hún
hjálpa mér í stóran náttkjól af sér. „Þú mátt vera hér eins lengi og þú vilt,“
segði hún. „Mér þykir svo vænt um þig.“ Nei, það var kannski heldur langt
gengið. Svoleiðis sagði fólk bara í sjónvarpinu. Það væri samt gaman ef hún
segði það.
Klukkutíma síðar heyrði ég mömmu staulast inn í svefnherbergi. Þegar
ég fór litlu síðar fram að pissa kom pabbi inn úr dyrunum með snjó á
öxlunum og í skegginu sem var orðið algrátt.
„Hæ,“ sagði ég.
Hann tók ekki undir kveðjuna, heldur leysti niðurlútur af sér skóna.
„Hvar er mamma þín?“ spurði hann.
„Inni í svefnherbergi, býst ég við.“
Hann leit hvasst á mig. „Býst ég við“ hafði líklega verið ofaukið. Svo fór
hann úr frakkanum og hengdi hann upp á herðatré. Hann rann óðara af því
og hrundi í gólfið.
„Æi, stattu ekki þarna. Geturðu ekki lagað þetta?“ sagði hann hranalega
eins og hann væri að biðja mig í hundraðasta sinn.
Ég tók upp frakkann og hengdi hann á herðatré sem er merkilega létt
verk þegar maður er ekki í glasi. Ég hélt að pabbi hefði farið inn í eldhús að
fá sér eitthvert snarl fyrir svefninn en mér til furðu stóð hann tvístígandi við
svefnherbergishurðina eins og hann væri að reyna að forðast að fara þangað
inn. Kannski langaði hann eftir allt saman að segja eitthvað við mig, dóttur
sína. Sem hann og gerði reyndar.
„Ertu búin að læra?“
Spurningin kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Hann var löngu hættur
að skipta sér af því hvernig mér gekk í skólanum. Ég meina, ég var komin í
menntaskóla.
„Já,“ sagði ég. Bara nokkuð hátt og snjallt að mig minnir.
„Gerðu það þá,“ sagði hann.
„Ég sagði já. Ég er búin að læra.“
„Vertu ekki með þennan kjaft og reyndu svo að hjálpa henni mömmu
þinni einhvern tímann.“
Hann fór inn í myrkvað herbergið, lokaði á eftir sér og ég heyrði hann
þreifa fyrir sér meðfram veggnum til að rata á sinn rúmhelming.
Þegar ég lít til baka finnst mér æska mín auðvitað ekkert hafa verið
alslæm. Það var oft sól, ég átti skemmtilegar vinkonur og stundum var gott í
matinn en þegar ég er komin yfir vindubrúna og inn í kastalann verður allt
þyngra. Það verður aldrei hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að það hefði
getað verið skemmtilegra. Ég vildi að ég hefði náð að segja pabba mínum
það og heyrt hann svara: „Jú, ætli þú hafir ekki rétt fyrir þér í því, væna.“
27
STEINI FÉKK SKRIFSTOFUNA hans Jóhanns á meðan hann skrifaði greinina.
Okkur hinum var bannað að trufla hann. Við máttum ekki einu sinni bjóða
honum að koma með okkur út í mat. Tómasi var falið að sjá honum fyrir
vistum. Reikningur var stofnaður í Texas Snackbar til að halda
birgðaleiðum opnum.
„Hvernig gengur honum?“ spurði Villi á öðrum degi skrifta þegar við
stóðum þrjú, Villi, Tómas og ég, í kuldanum úti við Bæjarins bestu og
úðuðum í okkur pulsum.
„Hann sat þarna með hrúgurnar af servíettum í kringum sig,“ svaraði
Tómas. „Ég bauðst til að henda þessu fyrir hann, það var svo ömurlegt að
sjá þetta drasl, en þá varð hann alveg brjálaður. Hann glósaði víst allt sem
gerðist inni á deild á servíettur. Getur ekki einhver annar gefíð honum á
morgun? Ég nenni ekki að stjana við þessa prímadonnu. Ég meina það. Mér
leið eins og ég væri bara einhver helvítis kaddí. Ég kem engu í verk með
svona áframhaldi. Það má vel vera að Steini sé týndi sonurinn en mér er
farið að finnast ég vera kálfurinn.“
Hann þurfti ekki að fara daginn eftir því þá hafði Steini fengið nóg af
samlokum. „Hann getur þá bara átt sig,“ hvæsti Tómas.
Litlu síðar birtist rauðklæddur pizzusendill og spurði um Steina. Lárus
skrifaði upp á beiðni fyrir veitingunum. Pepperoni-ilminn lagði um ganginn
og inn í salinn til okkar.
„Vá, mér hefur ekki liðið svona síðan systir mín var í læknisfræðinni og
mamma bakaði sérstaklega fyrir hana um helgar,“ tautaði Villi.
„Er systir þín læknir?“ spurði Tómas.
„Nei, hún féll á efnafræðinni,“ svaraði Villi.
Jóhann sem sat við borð Steina gaf honum illt auga.
„En hún fékk heldur aldrei neinar pizzur,“ flýtti Villi sér að segja.
„Vissuð þið að Christian Slater er á landinu?“ spurði Jóhann.
Við Tómas og Villi játtum því.
„Þið verðið að ná honum,“ sagði Jóhann. „Verið með augun opin þegar
þið farið út á lífið og hringið í Snorra Geir um leið og þið sjáið hann.“
„Ekki spurning,“ sagði Villi. „Odda, þú ert nú alltaf úti á lífinu. Það væri
æðislegt ef þú sæir hann og næðir að spjalla við hann.“
Ég gat ekki greint að neitt væri lengur á milli okkar, ef það hafði þá
einhvern tímann verið. Daginn eftir sannfærðist ég enn frekar þegar einhver
stelpa, kannski aðeins yngri en ég, kom að hitta hann rétt fyrir mat. Hún var
með barn á handleggnum. Villi kyssti stelpuna, tók barnið í fangið og þau
fóru saman út. Ég ætlaði að spyrja Tómas út í þetta en hann virtist ekki hafa
tekið eftir litlu fjölskyldunni frekar en andaflygsur hefðu liðið um salinn
svo ég hætti við. Villi kom ekki aftur fyrr en tveimur klukkutímum síðar,
spurði okkur hvort nokkur hefði hringt og hvort Jóhann hefði spurt um
hann. Nei, þetta tveggja tíma hvarf hafði ekki haft nein sérstök áhrif nema
þá helst á mig. Síðdegis gerði ég mér upp magapínu, kvaddi strákana og tók
umslagið hans pabba míns með mér á Borgina. Það rigndi og Austurvöllur
var auður fyrir utan fáeina túrista sem voru svo lúnir á svip í forugum
gönguskónum að þeir þekktust varla frá útigangsmönnunum.
Það er svo spari að fara á Borgina. Þangað fór ég einu sinni þegar ég var
krakki með foreldrum mínum. Það var frábær dagur. Ég fékk kakó og það
var svo heitt og í svo stórum bolla að ég réð varla við hann. Þetta var rétt
eftir atvikið í stigaganginum og foreldrar mínir reyndu að vera eins mikið
með mér og þeir gátu. Ef vera skyldi að ég vildi létta á mér.
Þjónninn leit út fyrir að vera bæði þreyttur og leiður en lét sig samt hafa
það að færa mér kaffi. Á næsta borði var hópur eldri manna, sumir
þjóðþekktir. Þarna voru að minnsta kosti tveir menn sem ég hefði getað
svarið að hefðu dáið fyrr á árinu en sátu nú þarna samt. Það verða allir eins í
minningargreinum Moggans. Þyrfti að setja myndirnar í lit.
Skírteinið hafði ég þegar skoðað svo ég lagði það til hliðar. Síðan voru
þarna nokkur minni umslög, sum með ljósmyndum en önnur með bréfum.
Nokkrar myndir sýndu krakka í kjarri. Kannski var einn þeirra pabbi minn.
Þarna gæti hann jafnvel verið á sama aldri og þegar hann var að hjálpa
gamla fólkinu, gefa hænsnunum og fara út að ganga með hundana. Ég rýndi
í andlitin en þau voru of óskýr til að greina mætti svip. Ómögulegt að sjá
hvar myndirnar voru teknar eða hverjir þetta voru. Sá sem hafði tekið þær
hafði ekki átt góða vél. Á einni mynd voru íþróttamenn á verðlaunapalli.
Pabbi minn þar á meðal, með gull um hálsinn. Báðum megin við hann stóðu
strákar á svipuðum aldri og horfðu upp til hans.
Bókin var fyrir börn og reyndist vera á dönsku. Hún var um strákangann
Lars. Ég skoðaði bara myndirnar og textana undir þeim og gat séð að það
sem Lars hafði helst gert sér til svo mikillar frægðar að ástæða þótti til að
setja það á bók var að styðja gamla konu yfir götu, bjarga litlum ketti niður
úr tré, hjálpa gömlum manni við að raka túnið hans og á einni myndinni sást
hann sópa gólf heima hjá sama gamla manni. Þetta endaði allt með því að
bæjarstjórinn færði honum skínandi reiðhjól. Hefðu myndirnar verið í lit
væri það eflaust blátt. Sagði pabbi mér ekki örugglega að þetta hefði gerst í
alvörunni? Ég hlýt að hafa misskilið hann. Samt hefði ég viljað að
þreytulegi þjónninn hefði birst og sagt: „Had a bit of a shock, haven’t you?
You could do with a drink,“ eins og major Calloway segir við Holly Martins
í kirkjugarðinum í The Third Man . Ég hefði örugglega þegið hann. Mér
fannst ég hafa tæmst öll að innan en samt voru einhver þyngsli yfir mér.
Svona hlýtur hún að vera tilfinningin þegar draugur hefur farið í gegnum
mann.
28
OPNUGREININ MÍN UM valdamestu ketti Vesturbæjar var ekki það sem mesta
athygli vakti í næsta tölublaði. Það var ekki sú grein sem fjallað var um í
fréttum Ríkissjónvarpsins tvö kvöld í röð. Fallegu myndirnar hans Snorra
Geirs sem endurspegluðu svo vel karakter hvers kattar ollu heldur engu
sérstöku umtali, ekki svo heitið gæti. Það var heldur ekki greinin sem fékk
jafnvel kollega okkar á öðrum blöðum til að skrifa hvern pistilinn á fætur
öðrum um þá nauðsynlegu vinnu sem færi fram hjá Vikuskammtinum.
Okkur grunaði reyndar öll að svona gætu viðbrögðin orðið þegar við
fengum loksins að lesa greinina „Staður dauðans“ en það var ekki fyrr en
við höfðum lokið verkefnum okkar á fimmtudagskvöldinu. Villi var fyrstur.
Hann tók hátíðlegur við útprenti af greininni úr höndum Steina, lagði
jakkann sinn á stólbakið og settist síðan við lestur. Við Tómas fylgdumst
með svipbrigðum hans á meðan og fundum örugglega bæði fyrir spennunni
í maganum í hvert skipti sem hann lét eitthvað út úr sér. Þegar Villi varð
einbeittur á svipinn sást betur stór æð í enninu á honum.
„Þetta á eftir að koma á óvart,“ sagði hann fyrst. Síðan: „Nei, nú verða
einhverjir reiðir.“ Og loks: „Þetta er bomba.“
Hann hafði gjörsamlega rétt fyrir sér. Greinin hófst á setningunni: „Ég
vakna stundum þreyttur, varla með sjálfum mér.“ Restin var góð. Það varð
bara að viðurkennast að Steini gat verið snjall penni. Reyndar skein svolítið
í gegn hvað honum sjálfum fannst hann fyndinn en í svona grein átti það
bara vel við. Eldsnemma á föstudagsmorgni rifjaði Jóhann upp hverja hann
þekkti á fréttastofum útvarpsstöðvanna og sló á þráðinn til manna sem setið
höfðu með honum á blaðamannafundum í Rúgbrauðsgerðinni í gegnum
tíðina eða flækst með honum um Halifax, Frankfurt og Glasgow í boði
Flugleiða.
„Verðurðu ekki að láta einhverja eina fréttastofu hafa greinina
exklúsíft?“ spurði Villi. Stelpan var farin að koma annan hvern dag með
krakkann og draga hann út í mat með sér.
„Nei, nei, galdurinn er bara sá að láta þær ekki vita hverja af annarri,“
sagði Jóhann glaðhlakkalegur. „Best að hafa eggin í mörgum körfum. Ef
það verður hringt og kvartað síðar í dag segiði bara að ég sé ekki við. Það
gerist ekki það oft að maður hafi eitthvað fréttnæmt handa þeim að maður
geti ekki leyft sér að taka svolitla áhættu. Ég get alltaf sleikt þetta lið aftur
upp seinna. Maður getur líka alltaf sagt Ríkisútvarpinu að fréttamennirnir á
Bylgjunni hafi bara komist á snoðir um þetta sjálfir. Annað eins hefur nú
gerst.“
Ég stóð fyrir utan þetta havarí og fylgdist þegjandi með. Rétt fyrir
klukkan tíu fengum við Villi og Tómas þau fyrirmæli að hlusta á fréttirnar á
Bylgjunni en Jóhann valhoppaði inn á skrifstofuna sína til að hlusta á
Ríkisútvarpið með Steina á hælunum.
Fréttalesarinn minntist strax á Vikuskammtinn í upptalningunni fremst.
Eitthvað um að Vogur væri ekki sú stofnun sem hún vildi líta út fyrir að
vera. Sama fólkið kæmi aftur og aftur án þess að ná nokkrum bata. Ríkið
jysi fé í starfsemi sem skilaði litlu sem engu. Annars virtist fréttamaðurinn,
einn af sumarafleysingakrökkunum, vera mun hrifnari af því hvernig Steini
hafði sett sig í spor drykkjumanns en því sem hann hafði komist að. Síðan
var Steini allt í einu mættur í viðtal.
„Hvernig fannst þér að dvelja í hópi drykkjufólks?“ spurði
fréttamaðurinn.
„Það var mjög athyglisvert og algjörlega óhjákvæmilegt til að grafa upp
þær upplýsingar sem ég komst yfir.“
„Minn hefur bara tekið daginn snemma,“ hvíslaði Tómas og Villi sussaði
niður í honum.
„Þú varst inni á Vogi,“ sagði fréttamaðurinn, „fékkst þinn slopp og allt.
Gekkst í gegnum nákvæmlega sama ferli og venjulegur sjúklingur þarna
upp frá. Er ekki einstakt í íslenskri blaðamennsku að menn leggi svona
mikið á sig til að fletta ofan af, tja, því sem þú kallar „svartan blett á
heilbrigðiskerfinu“?“
„Ef það er rétt verður það bara að teljast sorglegt. Íslenskir blaðamenn
ættu að leggja eitthvað aðeins meira á sig en að taka bara upp símtólið eða
hlera hvað menn segja í heitu pottunum.“
„Sko minn kall, fékk ekki bara öll stéttin á baukinn? Völlur á mínum,“
sagði Villi og hristi höfuðið.
Í sama mund og fréttamaðurinn þakkaði Þorsteini Aðalsteinssyni
rannsóknarblaðamanni fyrir viðtalið gengu einmitt Jóhann og nefndur Steini
inn í sal.
„Var þetta ekki líka á Bylgjunni?“ spurði Jóhann. Við játtum því.
„Frábært, fullt hús,“ æpti hann eins og glaður yatzyleikmaður. „Hún var
ekkert smá, umfjöllunin hjá Ríkisútvarpinu. Hátt í þrjár mínútur. Varla að
sagt væri frá neinu öðru. Síðan var lofað að fjallað yrði ítarlegar um málið í
hádegisfréttunum. Ef blaðið selst ekki við þetta ...“
Hann virtist í of miklu uppnámi til að ljúka setningunni og þess í stað
endurtók hann hana með nokkrum útfærslum. „Ef blaðið selst ekki núna ...
Ef blaðið selst ekki í þetta sinn ...“
Ómögulegt að segja hvað þetta hefði getað haldið lengi áfram hefði
Lárus ekki komið fram. „Sjoppurnar eru strax farnar að hringja,“ tilkynnti
hann. „Blaðið er að seljast. Við þurfum örugglega að panta aukaupplag.
Þetta er of gott til að vera satt.“
Lárus klappaði Jóhanni á axlirnar og Jóhann klappaði Lárusi á axlirnar.
Svo gaf hann okkur frí. „Við skulum bara taka okkur langa helgi. Það er of
mikið um að vera til að ég geti lagt línurnar fyrir næsta blað. Steini, vert þú
samt eftir ef einhver skyldi vilja heyra í þér.“
Ég var ekki frá því að þeir leiddust aftur inn á skrifstofuna hans Jóhanns
en það gat verið missýn.
Fréttamaður Ríkissjónvarpsins sem farið hafði með Jóhanni í Halifax-
ferðina í fyrra leyfði talsmanni Vogs að svara ásökunum sem hann sagði að
gengið hefðu miskunnarlaust yfir hann og samstarfsfólk hans allan
liðlangan daginn. Sami maður birtist á Stöð 2 og var litlu kátari þar. Hann
sagði „þennan Þorstein“ ekki bera neitt skynbragð á þann djöful sem
áfengissýkin væri og hann ætti frekar að snúa sér að garðyrkjustörfum en
blaðamennsku þar sem hann skorti greinilega þá hæfileika sem væru
nauðsynlegir til að geta sett sig inn í alvarleg mál áður en þau væru krufin.
„Ég beini þessum manni bara í beðin í kirkjugörðunum. Þar er ekki aðeins
nóg af arfa að reyta fyrir röskan mann, heldur líka fjöldi látinna sem tapaði í
orrustunni við áfengissýkina.“
Á Stöð 2 birtist trýnið á Steina. Annaðhvort hafði hann keypt sér
jakkaföt í tilefni dagsins eða fengið þau lánuð. Ég hafði að minnsta kosti
aldrei séð þau áður. „Nú villtir þú á þér heimildir inni á Vogi. Er það
forsvaranlegt?“ spurði fréttakonan og rak hljóðnema undir nefið á honum.
„Það er allt leyfilegt til að sækja sér góðar og þarfar upplýsingar,“
byrjaði Steini. „Hver ætlar síðan að halda því fram að ég hafi ekki þurft á
þessari meðferð að halda?“
Þarna fannst honum hann hafa verið fyndinn og glotti ógurlega í
myndavélina. Ég svissaði yfir á Ríkissjónvarpið.
29
„JÆJA, VIÐ ERUM aftur komin á ról,“ sagði Jóhann og sveiflaði öðrum
fætinum yfir hinn svo annar klossinn datt með látum í gólfíð. Hann hafði
lagt Levi’s-buxunum og keypt sér Diesel-gallabuxur og ekki nóg með það
heldur hafði hann líka leyft sér þann munað að láta broddaklippa sig. „Góð
klipping,“ hafði Nína sagt og hann roðnaði og sagði: „Hva.“
Nú hafði hann dregið leðurklædda ritstjórastólinn inn í sal og sat þar með
skrifblokk á lærinu. Lárus stillti sér upp á bak við hann og hvíldi vinstri
olnbogann brúðgumalega á stólbakinu. Villi, Tómas, Steini og ég
mynduðum hálfhring á móti þeim á skrifborðsstólunum okkar sem voru svo
litlir að það var eins og við hefðum fengið þá í fermingargjöf.
„Blaðið er að seljast,“ sagði Tómas.
„Hvort það er, drengur minn,“ sagði Jóhann. Dramatísk kúnstpása fylgdi
í kjölfarið.
„Muniði hvernig þetta var þegar við vorum að byrja? Öll spennan sem
myndaðist í kringum blaðið?“ spurði Lárus. Strákarnir kinkuðu kolli.
„Síðan bara gerðist eitthvað. Við vorum bara ekki að standa okkur. Það
verður bara að segjast eins og er,“ sagði Jóhann. Hann potaði gulum blýanti
inn í eyrað á sér. Ég leit undan til að verða ekki vitni að því þegar hann
drægi hann út aftur. Klukkan var farin að nálgast hálftólf og ég ætlaði að
vera farin út í mat áður en þessi með krakkann kæmi að finna Villa.
Einhvers staðar fór sími að hringja og allir skimuðu í átt að borðunum
sínum. „Þetta er minn,“ sagði Lárus og hvarf inn á skrifstofuna sína. „Gangi
ykkur vel, strákar. Og þér líka, Oddfríður mín.“
„Við verðum að fylgja þessu vel eftir í næsta blaði. Þú varst búinn að
finna einhvern flöt á því, Steini, var það ekki?“ sagði Jóhann.
„Jú, ég ætlaði að segja betur frá því hvernig komið er fram við ungt fólk
þarna. Eldra liðið gengur nefnilega alltaf fyrir og unga fólkinu sem þarf
verulega á plássi að halda er oft á tíðum bara vísað frá. Það finnst allavega
mjög mörgum.“
„Frábært. Þetta verður alveg frábært. Alveg meiriháttar,“ sönglaði
Jóhann ofan í skrifblokkina sína.
„Oft og tíðum,“ tautaði ég.
Jóhann og strákarnir horfðu á mig.
„Nei, þú sagðir „oft á tíðum“ og þá er nú bara eins gott að fara til
læknis,“ sagði ég við Steina.
„Svona, vertu ekki að þessu. Leyfðu honum að tala,“ sagði Jóhann.
„Steini minn, haltu áfram.“
Steini ætlaði að fara að vinda sér aftur í frásögnina þegar Lárus birtist á
nýjan leik. „Jóhann, komdu hérna aðeins.“
„Má það ekki bíða? Við erum á fundi,“ sagði Jóhann.
„Nei, þetta má ekki bíða,“ sagði Lárus í tón sem fékk okkur öll til að
sperra eyrun.
„Hvað ætli sé í gangi?“ spurði Villi þegar Jóhann var farinn.
„Örugglega bara einhver reiður alkóhólisti að hringja,“ sagði Steini.
„Þeir hringdu einir sjö í mig um helgina. Á endanum tók ég símann bara úr
sambandi.“
„Af hverju í ósköpunum?“ spurði ég. „Þorir maður sem er svo sniðugur
að svindla sér inn á Vog ekki að svara í símann heima hjá sér?“
„Oddfríður, af hverju ertu svona leiðinleg?“ spurði Steini. „Komum út í
mat, strákar.“
Eins og hendi væri veifað og smellt í rass gripu þrír litlir grísir jakkana
sína. Meira að segja Villi sem virtist ekkert vera á leiðinni á stefnumót með
dömunni sinni þennan dag. Þeir komust samt ekki langt því Den store
stygge ulv birtist úti á gólfi. „Steini, viltu koma hérna,“ sagði Jóhann.
Ekki snefill eftir af ljúfa swing-inu sem einkennt hafði málróm hans
síðustu daga.
„Hvað nú?“ tautaði Steini og lagði jakkann sinn aftur á stólbakið. Hann
stikaði á eftir Jóhanni inn á skrifstofuna hans Lárusar sem beið í dyrunum
og lokaði kirfilega á eftir þeim.
„Nú fær hann stöðuhækkun,“ sagði Tómas og gat ekki leynt því hvað
hann myndi gleðjast lítið yfir því. „Verður gerður að fréttastjóra eða
eitthvað svoleiðis til að minnka álagið á Jóhanni.“ Enginn sýndi nein
viðbrögð við þessum spádómum svo hann bætti fljótmæltur við: „Ég meina
það.“
Ég settist við tölvuna mína til að ljúka viðtali við stelpu sem var að
útskrifast úr leiklistarskóla í London. Spjallaði við hana um helgina. Hún
var að leika sítrónu í barnaleikriti.

„Þetta er mjög spennandi tækifæri og dásamlegasta frumraun sem hægt er


að hugsa sér,“ segir hin 23 ára gamla María Fríða og sýpur á grænu tei í
litlu risíbúðinni sem hún leigir á Mímisveginum. Þar býr hún ásamt tveimur
hundum. Fataskápurinn er stærri en venjulegar konur eiga að venjast. „Á
hverjum laugardagsmorgni fór ég á Portobello-markaðinn með vinkonum
mínum og gerði oft mjög góð kaup. Einu sinni sá ég Liam Gallagher þar
með einhverri dökkhærðri stelpu.“
„Talaðirðu við Liam?“
„Nei, ég þorði það ekki. Mér varð svo mikið um að sjá hann að ég keypti
mér þetta rauða pils þótt það væri alltof stutt á mig.“
Og María Fríða kippir aðkenningu að pilsi út úr fataskápnum.

Hurðarskellur kvað við sem fékk okkur til að hoppa í sætunum. María hefði
örugglega misst pilsið. Steini stikaði inn í salinn.
„Jæja, ertu orðinn fréttastjóri?“ spurði Tómas.
Án þess að ansa hrifsaði Steini jakkann af stólbakinu, leit eitt andartak
yfir skrifborðið sitt, greip bókina um alla ríku Íslendingana, snerist á hæli
og fór. Leit ekki svo mikið sem í áttina til okkar.
„Hvað var þetta?“ spurði ég.
Villi yppti öxlum.
„Þeir hafa kannski ekki boðið honum nógu há laun. Nú er hann nefnilega
í rosalega góðri samningastöðu. Helst ætti hann að fá sér umboðsmann til
að semja fyrir sig eins og íþróttastjörnurnar gera. Þær eru ekkert að mæta
sjálfar til að víla og díla,“ sagði Tómas íbygginn.
„Við spyrjum bara Jóhann þegar hann kemur fram,“ sagði ég.
Svo pikkuðum við stillt á tölvurnar okkar langa stund. Ekki hvarflaði
lengur að mér að fara út í mat. Þessu varð ég að fylgjast með. Villi var
greinilega jafnspenntur því ég heyrði hann hringja og segjast ekki komast
eitthvað. Hann yrði að vinna.
Enginn kom út úr skrifstofu Lárusar. Tómas gerði sér ferð þangað til að
hlera. Lagðist með eyrað að hurðinni eins og sönnum
rannsóknarblaðamanni sæmir. Útkoman var varla fyrirhafnarinnar virði:
„Þeir eru að tala saman en ég heyri engin orðaskil.“
Hann var varla sestur aftur þegar hurðinni var svipt upp.
„Ég var bara að ...“ byrjaði hann en Jóhann hafði engan áhuga á því að
hlusta á hann.
„Það hefur svolítið komið upp á. Lárus, stólinn!“ sagði Jóhann og smellti
saman fingrunum. Stóllinn var enn í salnum frá því á fundinum og Lárus
var ekki lengi að skvera honum yfir til Jóhanns.
Eins og köngulær skriðum við á skrifborðsstólunum okkar aftur út á
gólfið og mynduðum hálfhring, sem var frekar lítilmótlegur þegar fimmta
manninn vantaði. Jóhann greip með annarri hendi yfir ennið á sér,
þumalfingur og langatöng á gagnaugum, og strauk niður eftir andlitinu á
sér. Upp aftur og niður. Þetta nudd gerði lítið fyrir hann, áhyggjusvipurinn
var kominn til að vera. „Það var verið að hringja hingað af Vogi, eða sko í
morgun. Þeir segja að Steini hafi bara staldrað þarna við í sólarhring. Þvert
á það sem hann skrifar í þessari grein. Þetta var engin alvöru meðferð. Ekki
þannig.“
Jóhann horfði ekki á neitt okkar. Bara eitthvað út í salinn. Virti fyrir sér
trébitana í loftinu, gula veggina, grænu skjalaskápana og dagblöðin á
gólfinu sem enginn þorði að henda af ótta við að í þeim leyndist
fjársjóðskort.
„Hvernig veit hann þá allt sem hann skrifar í þessari grein?“ spurði ég.
„Hann notaði þennan eina sólarhring sem hann var inni á Vogi til að
komast í kynni við tvo menn sem voru að ljúka afvötnun, hitti þá síðan bara
á BSÍ , að mér skilst, og tók við þá viðtöl. Svo lét hann bara eins og hann
hefði lent í þessu öllu sjálfur,“ sagði Jóhann og Lárus bætti lágróma við:
„Þetta er auðvitað svolítið siðlaust.“
„Jú, jú, ég veit allt um það,“ æpti Jóhann og öll sem eitt rúlluðum við
Tómas og Villi okkur nokkra sentimetra frá honum. Fúkyrðaflaumurinn
skall á okkur. „Við getum bara þakkað fyrir að þeir voru ekki búnir að fatta
þetta á föstudagskvöldið var þegar Steini sat eins og hvert annað fífl í
þessum umræðuþætti og bullaði um eitthvað sem hann hafði ekki hundsvit
á. Hefði forstöðumaðurinn vitað þetta þá hefði hann aldeilis tekið Steina, og
þar með þetta blað, í rassgatið fyrir framan alþjóð. Þessa líka nöðru.“
Tómas lyfti upp hendinni og eitt andartak vonaði ég að hann ætlaði að
spyrja hvort nöðrur hefðu rassgat.
„Hvað, ertu kominn í barnaskóla aftur? Talaðu bara, andskotinn er
þetta,“ æpti Jóhann.
„Er Steini farinn? Var hann ... var hann rekinn?“
„Sagði upp, var rekinn, það er enginn munur á því þegar menn hafa
komið sér jafnilla og hann.“
Lárus klappaði á öxlina á Jóhanni svona eins og þegar maður reynir að
lempa gamalmenni sem neita að taka inn lyfin sín. Það hafði engin áhrif því
Jóhann hélt áfram: „Svo var Vogur ekki fyrr búinn að hringja en þessar
gömlu fyllibyttur sem Steini talaði við hafa samband til að fá borgað!
Borgað! Hvenær í andskotanum hefur einhver fengið borgað fyrir að fara í
viðtal hér á Íslandi?“
Jóhann stóð á fætur og gekk í hringi um gólfið, nú með þumalfingur og
vísifingur hvorn í sínum augnkróknum.
„Hvað gerist?“ spurði Tómas.
Jóhann leit á hann með kornið-sem-fyllir-mælinn-augnaráði. Villi kom
Tómasi til bjargar: „Já, hvað gerist núna? Á hverju getum við átt von?“
„Það eina sem við getum gert er að leyfa Vogsmönnum að tjá sig í næsta
blaði og segja frá því blómlega hjálparstarfi sem þeir sinna. Þeir eiga eftir
að reka allt ofan í Steina. Við sammæltumst hins vegar um að ekki kæmi
fram hvernig hann lék á þjóðina. Ég vona að þeir haldi það loforð. Annars
skulum við bara vona að þetta gangi sem fyrst yfir. Taktu þetta viðtal við þá,
Villi. Ég sagði að það yrði hringt í þá fyrir klukkan tvö. Ef við höldum
þessum mönnum ekki góðum fer þetta pottþétt fyrir siðanefnd og þá er
málið orðið opinbert, ef það verður þá ekki þegar orðið það.“
Fundinum virtist lokið. Við stóðum upp og drógum stólana eins og
hlýðna hunda á eftir okkur að borðunum.
„Eitt enn,“ sagði Jóhann höstugur. „Þetta klúður má alls ekki leka út og
síst af öllu í aðra fjölmiðla. Er það skilið?“ spurði hann og leit á okkur eitt
af öðru.
Við kinkuðum kolli.
Farsíminn minn hringdi. Það var Arna svo ég stikaði inn á klósett. Ég var
eiginlega farin að vona að hún hefði gleymt mér.
„Get ég ekki fengið að kíkja á eitthvað?“ spurði hún.
„Ég er komin voða stutt. Þetta er eiginlega ekki neitt neitt.“
Fyrst Villi var úr sögunni hafði ég tekið á mig rögg kvöldið áður og sest
við tölvuna. Þar ægði öllu saman; Vikuskammtinum, andláti pabba og meira
að segja brá mömmu þar fyrir. Það hafði ég nú aldrei ætlað mér.
„Má ég ekki samt fá að sjá það litla sem er komið? Ég skal ekkert
leiðrétta eða neitt svoleiðis, bara líta yfir.“
„Ég ætla að renna aðeins yfir greinina og koma svo með hana til þín.“
„Flott! Geturðu ekki bara notað laugardaginn í að kíkja aðeins á þetta og
komið síðan til mín á sunnudaginn? Komdu um klukkan þrjú. Þá verð ég
búin í ræktinni.“
„Það verður alveg klikkað að gera í vinnunni þessa vikuna svo ég kemst
ekkert í þetta.“
„Nú, er alveg fullt að gera núna hjá Jóa, vini mínum?“ sagði Arna háðsk.
Hún hafði komið sér upp þeirri venju að kalla þá sem hún þoldi ekki vini
sína. Það var svolítið sorglegt því ég hafði ekki beint orðið vör við að hún
ætti mjög marga vini og þegar einu vinirnir eru orðnir óvinirnir er maður í
vondum málum.
„Já, lastu ekki blaðið með greininni um Vog?“
„Heldur betur. Meira að segja ég verð að viðurkenna að þetta var svolítið
smart.“
„Steini var víst bara þarna inni yfir nótt og lét sig síðan hverfa.“
Löng þögn.
„Halló, ertu þarna?“
„Já, halló, ég er hérna. Ertu að meina þetta? Var þetta allt bara eitthvert
plat?“
„Upplýsingarnar eru svo sem ekkert uppdiktaðar. Það var bara ekki
Steini, blaðamaðurinn sko, sem upplifði allt þetta. Hann fékk bara einhverja
tvo kalla í viðtöl og samdi greinina upp úr þeim. Þú mátt ekki segja neinum.
Það yrði allt vitlaust. Þú heldur þessu bara fyrir þig.“
Ég skrúfaði frá krananum og lét vatnið renna dágóða stund.
„Já, já, ég skal ekki segja neinum en þetta er náttúrlega ekki bara brot á
siðareglum blaðamannafélagsins heldur líka sjálfri gullnu reglunni,“ sagði
Arna.
„Hvaða gullnu reglu?“
„Æ, þetta þarna ... það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér það skaltu ekki
þeim gjöra ... þetta er í Biblíunni. Þú segir mér aldeilis fréttirnar.“
„Já, og Jóhann vill alls ekki að við segjum nokkrum frá þessu. Alls
engum.“
„Ég get skilið það. Guð, ég myndi deyja. Fyrst myndi ég samt lesa yfir
hausamótunum á þessum blaðamanni.“
„Það var alveg örugglega gert. Hann var rekinn.“
„Í alvöru?“
„Já, eða þannig. Kannski sagði hann upp en það er þá bara látið heita
svo.“
„Hver var þessi blaðamaður aftur?“
„Þorsteinn. Alltaf kallaður Steini. Hann er Aðalsteinsson.“
„Ja, það er aldeilis að hlutirnir gerast hratt í þinni vinnu. Jæja, heyrðu,
elskan, verð að mæta í nudd. Við sjáumst á sunnudaginn, elskan. Hlakka til
að sjá þig.“
Ég sturtaði niður og vatt mér fram.
30
KANNSKI HEFÐI ÉG bara átt að melda mig veika og vera heima. Andrúmsloftið
í vinnunni var óásættanlegt, eins og pólitíkusarnir myndu orða það. Hvar
finnur Villi þessi orð sem hann notar í fréttunum sínum? Mér hefði aldrei
dottið orðið óásættanlegt í hug. Ég hafði vakað fram eftir við tölvuna og var
komin í góðan gír við skriftirnar. Var ekki frá því að eitthvað yrði úr þessu
hjá mér.
Ég hefði átt að geta leyft mér að sofa út því fram eftir morgni var enginn
í vinnunni nema ég, Nína og íslenskuneminn. Þau höfðu ekkert að gera.
Nína lakkaði á sér neglurnar, neminn lagði kapal á tölvuna en ég las síðasta
blað. „Staður dauðans“ horfði nú svolítið öðruvísi við þegar maður vissi að
ekki stóð lengur steinn yfir Steini.
Nína kom og settist hjá mér. Hún var í gallabuxum og bleikum bol með
mynd af stelpu framan á. Alltaf eitthvað svo fín. „Ég á bara eftir að bera á
mig yfirlakkið,“ sagði hún og blakaði höndunum. „Ég keypti þetta lakk í
gær. Þetta var búinn að vera svo ömurlegur dagur að ég bara varð að kaupa
mér eitthvað sætt. Hárautt er alltaf svolítið klassískt, er það ekki?“
Ég kinkaði kolli. „Þetta er æði. Má ég fá?“
Nína hélt það nú og saman lökkuðum við á okkur neglurnar í þögn.
„Jæja, hvernig líður þér, Oddfríður? Eitthvað sem hvílir á þér?“ spurði
Nína og blés á neglurnar. Gaman að hún skyldi spyrja. Átti ég að treysta
henni fyrir vandamálum mínum? Vissi hún kannski eitthvað nú þegar? Ég
virti hana fyrir mér í leit að svörum en hún virtist algjörlega blankó.
„Nei, það er nú varla,“ sagði ég loks eftir nokkra umhugsun.
Nína ætlaði að fara að segja eitthvað þegar Villi kom vaðandi inn. „Hafið
þið séð blaðið?“ spurði hann og hélt Fréttum á loft fyrir framan okkur.
Við Nína og íslenskuneminn gripum andann á lofti, bókstaflega.
VIKUSKAMMTUR LAUG stóð stórum stöfum á forsíðunni.
„Hvernig fréttu þeir af þessu?“ spurði Nína.
„Ekki hugmynd. Hvað er að þessari Örnu? Hvað heldur hún að hún sé?
Hvað ef við fjölluðum um allt það sem Fréttir hafa verið kærðar fyrir í
gegnum tíðina? Einhvern tímann ætla ég að skrifa ævisögu þessarar konu
og láta hana heita Pöddulíf. Þetta er hræðilegt,“ sagði Villi og renndi hendi í
gegnum tætingslegt hárið. Hann var fölur. Í raun fannst mér krumpuð
skyrtan samt segja meira um það hvernig honum leið. Hann hafði aldrei
áður mætt í krumpaðri flík svo ég myndi eftir.
Yfir mig færðist illur grunur. „Ég ætla að skreppa út í búð,“ sagði ég og
dreif mig út. Ég stikaði eftir Aðalstrætinu og út í Ráðhús. Þar ætlaði ég að
setjast inn á kaffihúsið og hringja í ró og næði en komst að því á leiðinni að
batteríið í símanum var búið. Ég snerist á hæli og ætlaði í tíkallasímann við
Símahúsið en hann var upptekinn svo ég þaut út í Texas Snackbar þar sem
ég fékk að hringja fyrir hundraðkall. Ég þóttist vera að blaða í símaskránni
þar til að afgreiðslumaðurinn fór á bak við svo ég gæti talað í friði.
Símadaman spurði hver bæði um Örnu og ég kynnti mig. Eftir langa
þögn kom hún aftur í símann og sagði að Arna væri ekki viðlátin. Hún vissi
ekki hvað það ástand ætti eftir að vara lengi og stakk upp á því að ég reyndi
aftur síðar. Ég sagðist ætla að sjá til. Bunki af Fréttum lá á
afgreiðsluborðinu og ég laumaðist til að renna yfir forsíðuna. Málið var
rakið lið fyrir lið. Kannski hafði einhver blaðamannanna á Fréttum fengið
veður af afglöpum Steina og Arna ekki getað skellt skollaeyrum við því.
Það hefði getað litið illa út fyrir hana. Þá rak ég augun í undirskriftina undir
fréttinni. arnag. Það var ekki verið að fara fínt í þetta. Með hverjum stóð
hún eiginlega? Fífl var ég að segja henni frá þessu. Eða var ég það? Hefði
ég mátt vita að hún sviki mig? Á maður alltaf að gera ráð fyrir því?
Afgreiðslumaðurinn hrifsaði af mér blaðið. „Kaupa blöðin eða láta þau eiga
sig.“
Jóhann var mættur þegar ég kom til baka. Ég rakst á hann í ganginum
þegar hann var á leiðinni inn til sín. Mér brá svo að eitt andartak hélt ég að
ég væri að fá hjartastopp. Það var varla að ég þyrði að líta framan í hann en
veitti því þó athygli að hann var með bauga niður á kinnar. „Ljúktu bara við
þau verkefni sem þú hefur,“ sagði hann rámur. „Hefurðu ekki eitthvað?“
„Jú, jú, leikkonuna og síðan auðvitað sjónvarpsdagrána.“
„Ef einhverjir blaðamenn hringja vil ég ekki að þið svarið neinu fyrir
hönd blaðsins. Ókei?“
Þegar Villi fór næst á klóið hringdi ég aftur í Örnu. Hún var ekki
viðlátin. Símadaman bauðst til að taka niður skilaboð. „Hringja í Oddfríði.“
„Svo geturðu líka sent henni tölvupóst. Hún athugar hann alltaf.“
Það hafði mér ekki hugkvæmst. Ég fékk tölvupóstfangið og sendi henni
stutta orðsendingu: „Hæ, kom þetta skúbb frá þér? O.G .“ Hálftíma síðar
birtist umslag neðst á tölvuskjánum. „Sæl elskan, passaðu þig á því að
senda mér tölvupóst. Vinnuveitendur geta víst átt rétt á að kíkja í hann ef
þeim sýnist svo. Sjáumst á sunnudaginn kl. 14.00. Mættu bara heim til mín,
A.R.G .“
Athyglisverð skammstöfun. Ég hefði örugglega farið að hlæja hefði ég
ekki átt á hættu að fá magaverk við það. Það sem eftir lifði dags reyndi ég
að beita jógaöndun sem ég hafði lært í kennsluþætti í sjónvarpinu til að
eyða kvíðanum á meðan ég hamraði mig í gegnum verkefnin mín.
31
ÞAÐ ERU TIL konur sem eiga mæður sem þær geta leitað til þegar þær þurfa á
því að halda. Þetta eru mömmur sem voru til staðar þegar dæturnar voru
unglingar og þær voru heldur ekki farnar langt þegar dæturnar komust á
þrítugsaldurinn. Allt lítur út fyrir að þær verði jafnvel enn til taks þegar
dæturnar komast á fertugsaldurinn. Og það er ekki eins og þessar mæðgur
séu alltaf að tala saman um hálsbólgu, æðahnúta eða hvernig maður sýður
rifsberjasultu. Þegar mamma Kristínar kemur í bæinn fara þær í Blómaval,
skoða í búðir eða bregða sér út að borða saman. Ég fór einu sinni með þeim
á Holtið. Þær skiptust á sögum, mamman talaði um það sem gerst hafði í
sveitinni og Kristín sagði mömmu sinni frá því hvernig henni gengi í
skólanum. Það var æðislegt. Ég hefði getað setið þarna endalaust með þeim
og fylgst með þeim tala. Mamman bragðaði á lambakjötinu sem Kristín
hafði pantað og Kristín bragðaði á gæsinni sem mamman hafði pantað. Þær
hlógu að sömu bröndurunum og settu þá hægri höndina fyrir munninn.
Kristín varð eins og mamma sín í návist hennar. Gerði allt eins. Fór að tala á
innsoginu ef henni var mikið niðri fyrir og dró seiminn: „Jaaaá.“ Ég varð
svo öfundsjúk að ég hafði ekki samband við Kristínu í heila viku á eftir. Ég
þurfti einfaldlega að jafna mig.
Hefði ég átt eðlilega fjölskyldu hefði ég núna getað hringt í mömmu
mína, sagt henni frá vandræðum mínum og spurt hana hvort ég ætti að
halda áfram með leynigreinina fyrir Örnu eða láta eins og ég hefði aldrei
hitt þessa konu. Tæki ég síðari kostinn væri auðvitað hætt við því að Arna
léti leka inn á Vikuskammtinn hvers vegna ég hefði sótt um vinnu þar og
hvernig Fréttir hefðu komist að ævintýri Steina. Mamma mín hefði ef til vill
getað sagt mér hvernig best væri að snúa sér í slíkri stöðu. Og þótt hún
hefði kannski ekkert að segja um málið hefði hún getað róað mig. Sagt
eitthvað eins og: „Sofðu bara á þessu, ræddu síðan við Örnu og reyndu að
komast að skynsamlegri niðurstöðu í samráði við hana. Þú ert sjálf svo
skynsöm að þú getur ekki tekið rangar ákvarðanir.“ Auðvitað gat ég sagt
mér þetta sjálf en mig langaði til að heyra skoðanir einhvers annars. Nú
hafði ég verið andvaka út af þessu í tvær nætur og það var tveimur nóttum
of mikið. Ég þurfti að tala við einhvern.
Síðast þegar ég reyndi að leita til mömmu með vandamál var ég 17 ára.
Ég hafði fengið vinnu í hreinsun þar sem ég varð sífellt að vera bogin í baki
við að taka út úr þurrkara. Hefði borðið verið hækkað væri ekki hægt að
opna þurrkarann, útskýrði eigandinn fyrir mér. Mér var illt í bakinu og ég
þoldi ekki að heyra eigandann rífast sýknt og heilagt við eiginkonu sína.
Þau unnu þarna bæði og þeim kom vægast sagt illa saman. Mig langaði að
segja upp en fannst það merkilegt nokk svik við hjónin.
Mamma lá fyrir inni í svefnherbergi þegar ég kom heim. Það var þung
og súr lykt inni í herberginu. Rúllugardínan var dregin niður og
gluggatjöldin yfir hana. Ég lagðist varlega við hliðina á henni og gætti mín
á því að vera yst í rúminu svo hún þyrfti ekki einu sinni að finna af mér
lyktina. Ég fann að hún var vakandi en þótt ég segði „mamma“ tvisvar
sinnum svaraði hún ekki. „Ég ætla að hætta í vinnunni og finna mér
eitthvað annað,“ sagði ég. „Mér líður svo illa þarna í hreinsuninni. Fólkið er
alltaf að rífast. Það er svo ömurlegt að hlusta á það.“
Hún tautaði: „Já, já, gerðu það bara“ undan sænginni. Þrátt fyrir þessi
frýjuorð leið mér ekkert betur. Kvíðinn hríslaðist enn út í útlimina. Ég var
ekkert viss um að hún hefði heyrt það sem ég sagði. Enn og aftur langaði
mig til að gefa henni tækifæri. Til að leyfa henni að vera eins og hún væri
mamma mín sem ég gæti leitað til þegar mér liði illa.
„Mamma,“ sagði ég. „Stundum er allt eitthvað svo erfitt.“
Mér leið eins og ég hefði misst út úr mér samtvinnuð blótsyrði. Ég ætti
að stökkva á fætur og biðjast afsökunar, nú hefði ég gengið of langt. En
hrúgan undir sænginni bærði ekki á sér. Ég var að fara að standa upp þegar
loksins bárust þaðan tvö orð: „Ég veit.“ Síðan ekki meir. Ég svaf ekki mikið
næstu nótt. Daginn eftir hringdi ég í hreinsunina og sagðist ekki ætla að
mæta aftur. Fjórum klukkutímum síðar var ég komin í vinnu í sjoppu í
Þingholtunum.
Jafnvel þótt ég vissi að gullkornin myndu heldur ekki hrjóta af vörum
móður minnar að þessu sinni fór ég samt að hitta hana. Ég hélst hvort eð var
ekki við heima hjá mér og var orðið nákvæmlega sama hvort ég yrði fræg í
íslenskum blaðaheimi eða ekki. Í raun og veru var ég öskureið. Ef mamma
gat ekki látið eins og almennileg móðir ætlaði ég að leyfa henni að vita að
Eiríkur hefði ekki sagt það sem hún vildi að hann segði og hefði hann gert
það hefði ég heldur ekki farið eftir því.
Straubrettið blokkeraði ganginn beint fyrir framan eldhúsið. Mamma var
að strauja handklæði þegar ég kom inn. Það hafði ég aldrei séð hana gera
áður.
„Hvað?“ spurði hún án þess að líta upp.
„Ekkert,“ sagði ég, skáskaut mér framhjá henni inn í eldhús og settist við
eldhúsborðið. Hún var í grænu blússunni sem Gubba hafði verið í í
erfidrykkjunni. Ágætis flík auðvitað á eldri konu. Grár lokkur féll fram á
ennið. Dimmrautt veggfóðrið og skærgræn flíkin voru svo merkilega
myndræn saman að eitt andartak varð mér starsýnt á hana.
„Ertu alltaf með lykil að þessari íbúð?“ spurði mamma.
Þar fór það og ekki mínúta liðin. Konan skyldi svo sannarlega fá að
heyra af heimsókn minni til Eiríks. Mamma rétti fram höndina en nennti
ekki að halda henni út á meðan ég fálmaði eftir kippunni í vasanum heldur
hélt áfram að strauja. Það tók mig dálítinn tíma að ná lyklinum af hringnum
en þegar hann var loksins laus lagði ég hann á eldhúsborðið.
„Jæja, hvernig gengur?“ spurði ég, svona bara til að bjóða upp á
svolítinn forleik.
„Bara ágætlega,“ sagði mamma. Straujárnið rann yfir flatsauminn á gulu
handklæði. G.P . Upphafsstafir pabba.
„Hvar eru allir?“
„Gunnar Birnir er á íþróttanámskeiðinu. Hann stendur sig svo vel, segir
þjálfarinn hans. Það eru allir svo ánægðir með hann. Þú ættir að sjá hann í
KR -búningnum sínum. Hann er svo flottur. Og Gubba er auðvitað líka voða
vel liðin í barnafataversluninni. Þykir bara hafa verulegt auga fyrir ...“
Stundin var runnin upp. „Eiríkur hringdi í mig.“
Mamma lagði frá sér brennheitt járnið og tók upp þvottapoka sem hún
vöðlaði á milli handanna á sér. Hún horfði spyrjandi á mig.
„Hann var frábær,“ hélt ég áfram.
„Jæja?“
„Já, það var bara mjög gott að tala við hann. Kom mér á óvart.“
„Já,“ sagði mamma óörugg. „Var Eiríkur ekki bara hress?“
„Nei, það lá við að þessi fundur yrði honum að aldurtila. Hann fékk svo
voðalegt hóstakast.“ Ég lét nokkrar sekúndur líða þar til ég bætti við:
„Símastúlkunni tókst að koma honum aftur til lífs til þess að ég missti ekki
af þessum mikilvægu skilaboðum.“
„Hvernig þú talar,“ tautaði mamma ofan í þvottapokann.
Bíll kom æðandi niður götuna með látum. Enginn sem ég þekkti. Flestir
nágrannanna sem bjuggu hér þegar ég var lítil voru fluttir.
Svo byrsti hún sig allt í einu: „Af hverju ertu eiginlega svona æst? Svona
myndi Gubba aldrei tala við mig eða haga sér.“
„Nei, enda þarf hún þess ekki. Þú mænir agndofa upp í hana í hvert
skipti sem henni liggur eitthvað á hjarta. Hún fær meira að segja að ráða því
hvað ég fæ af eigum föður míns eða hvort ég fæ nokkuð. Guði sé lof, þá var
hann nú búinn að gera sínar ráðstafanir, annars fengi hún allt heila
gillimojið án þess að nokkur gæti rönd við reist.“
„Um hvað ertu að tala? Hvaða ráðstafanir?“ Mamma togaði tissjú upp úr
buxnavasa og snýtti sér. Samt gat ég ekki séð að hún væri farin að beygja
af.
„Pabbi var búinn að stofna sjóð til að ég gæti keypt mér íbúð og mér ...“
„Svo hann gæti keypt handa þér íbúð, áttu við?“
„Já, eða hvernig sem þú vilt orða þetta. Lét hann þig ekki vita?“
Mamma hristi höfuðið. „Þetta hefur bara verið á milli ykkar tveggja. Svo
var hann náttúrlega stundum svo ruglaður út af lyfjunum og vissi þá ekkert
hvað hann var að segja.“
„Hann var alveg með réttu ráði þegar hann sagði mér frá þessum
peningum. Þetta var rétt fyrir páska. Hann vildi að ég fengi þá þegar hann
væri dáinn.“
„Og hvar lét pabbi þinn þessa peninga?“
„Þeir voru bara inni á bók, ég held í skrifborðsskúffunni, og ég væri
alveg til í að fara að fá hana. Ég gæti þá farið að svipast um hvað úr
hverju.“
Mamma horfði á mig dálitla stund, pírði augun lítillega, stóð dæsandi
upp og ég heyrði hana fara inn í stofu. Líklega til að sækja bankabókina.
Hún hlaut að koma strax aftur en það varð bið á því og allt í einu tók
píanóglamur að berast innan úr stofunni. Nóta á stangli. Var hún að klikkast,
konan? Ég fór inn í stofu og hlammaði mér í sófann. Mamma var komin
með gula tusku á loft og var að strjúka af nótnaborðinu.
„Vorum við ekki að tala saman?“
Hún svaraði með löngu rólyndislegu ha-i, settist á píanóbekkinn og
fitlaði í hálskeðju með tuskulausu hendinni. Svo hætti hún loksins þessu
fikti og sneri sér að mér.
„Odda mín, þessir peningar eru ekkert til lengur.“
Mér leið eins og hún hefði slegið mig utan undir með andskotans
tuskunni.
„Hvað meinarðu?“ tókst mér samt að spyrja.
„Hvað meina ég? Bara það sem ég er að segja. Jarðarfarir kosta sitt ...
kistan, blómin, kaffið ... allt sem fylgir.“ Mamma leit eitt andartak ráðvillt í
kringum sig. „Hvernig heldurðu að hafi verið greitt fyrir Mallorka-ferðina?“
spurði hún svo.
„Var bókin ekki á pabba nafni?“
„Það þekkja mig allir í Vesturbæjarútibúinu eftir að ég þurfti að fara að
sjá um alla reikninga. Þetta var minna mál en maður hefði haldið.“
Magdalenu Ottósdóttur leið ekki vel. Hún fitlaði við eyrnasnepilinn á sér
áður en hún greip lokk bak við eyrað og sneri upp á hann. „Odda mín, ég
vissi ekkert að hann hefði lofað þér þessum peningum.“
„Og tókstu bara alla upphæðina og eyddir henni í ...“
Ég var farin að æpa. Ég rauk inn í eldhús, greip helvítis diskinn með
senjórítunni með flírulega brosið af veggnum og óð með hann inn í stofu.
„Keyptirðu þetta fyrir peningana sem pabbi ætlaði mér í íbúðina?“ gargaði
ég og hampaði gripnum eins og ég hefði unnið hann í kvennahlaupinu.
„Svona, ekki!“ Mamma reif diskinn af mér. Hélt greinilega að ég ætlaði
að láta hann gossa í gólfið en hann hefði bara skoppað upp af teppinu og
aftur í hendurnar á mér.
„Þetta var þrælerfiður tími fyrir mig og Gubbu. Þú veist minnst um það
því þú varst aldrei hér. Það var ömurlegt að sjá hann pabba þinn tærast upp
fyrir augunum á okkur. Hann var yndislegur maður. Hann var með
gullhjarta.“
Mín hafði svei mér glósað hjá sér í kirkjunni.
„Ég sat hjá honum þegar þið voruð ekki heima og það var ég sem kom
að honum látnum. Ertu búin að gleyma því? Og það var ekkert skemmtilegt.
Hefði ég ekki átt að fara til sólarlanda fyrir það, ha?“
„Þá hefðirðu bara getað látið okkur vita að þig langaði með,“ sagði
mamma og var nú farin að tromma með nöglinni á tölu á blússunni sinni.
„Ætli maður hefði ekki afplánað utanlandsferð með ykkur hefði maður
vitað á hvers kostnað ferðin var farin. Minn! Og hver átti nú hugmyndina að
þessum fundi mínum og Eiríks? Þú eða Gubba?“
„Vertu ekki alltaf að þessu.“
„Viðurkenndu bara að það hafi verið Gubba. Má ég heyra?“
„Þetta kom bara til tals hérna á heimilinu,“ sagði mamma og gott ef hún
leit ekki hatursfullum augum á mig. Gæti samt hafa verið ímyndun.
Stemmningin var þannig.
„Pabbi er ekki fyrr horfinn á lendur forfeðra sinna en Gubba er farin að
ráðskast með þig og þér er bara nákvæmlega sama. Virðist bara finnast það
svolítið notalegt.“
„Systir þín er frek en það ert þú líka.“
„Nei, nei, nei, nei, ekki klína ömurlegum eiginleikum hennar á mig.“ Ég
barði í stofuborðið eins og reiðir heimilisfeður gera oft í bíómyndum.
„Ertu að verða vitlaus?“ spurði mamma, rauk á fætur og strauk varlega
yfir borðplötuna með tuskunni eins og eitthvað sæi á borðinu eftir
barsmíðarnar. „Bíddu bara þangað til þú giftir þig og eignast sjálf börn. Þá
veistu hvernig þetta er.“
„Hvað? Hvernig hvað er?“
„Þú skalt ekki halda að þetta verði neitt öðruvísi hjá þér,“ sagði mamma,
rétti úr sér og kreppti hnefann um tuskuna.
„Ertu að óska mér þess að börnin mín verði eins og illfyglið hún systir
mín?“ sagði ég og gætti mín á því að glotta aðeins. Fátt stuðar jafnmikið og
eilítil gleði jafnvel þótt hún sé fölsk.
„Bíddu bara,“ sagði mamma með steinrunninn svip og hönd á mjöðm.
„Það er engin ástæða fyrir þig að halda að þú eigir ekki eftir að finna
einhvern mann sem þú heldur að þú getir treyst þrátt fyrir þetta þarna sem
þú lentir í þegar þú varst lítil.“
Ég ætlaði að segja eitthvað en kom ekki upp orði. Ég var svo reið að ég
skalf. Mig langaði til að ráðast á kellinguna. Mamma var heldur ekki alveg
búin að ljúka sér af: „Síðan skaltu bara bíða og sjá hvort líf þitt verði
eitthvað skárra en mitt.“
Hurðarskellur og Gunnar Birnir óð inn í stofu. Brosmildur og sætur í
röndótta íþróttabúningnum.
„Úr skónum!“ æpti mamma á hann og hann bakkaði skelfdur á svip fram
á gang.
„Ég ætlaði bara að sýna Oddu búninginn og fara síðan úr skónum,“ sagði
hann og beygði sig niður til að leysa af sér skóna. Mamma strunsaði inn á
bað og rak mjöðmina í leiðinni í straubrettið svo nýstraujaður
handklæðabunkinn féll niður á gólf. Hún skellti í lás á eftir sér. Ekki nógu
fljótt þó til að snökt bærist ekki út.
„Kom eitthvað fyrir?“ spurði strákurinn og tvísteig taugaveiklaður á
sokkaleistunum.
„Nei, ekkert nýtt að minnsta kosti,“ sagði ég og reyndi að anda rólega til
að ná aftur tökum á mér.
„Þær verða alltaf hálfbrjálaðar eftir að þú hefur verið í heimsókn.“
„Já, sérkennilegt, finnst þér ekki?“
Gunnar Birnir settist á móti mér við stofuborðið. Hann var enn svolítið
brúnn í framan eftir Mallorka-ferðina og bláu augun hans voru enn blárri en
venjulega. Mikið sem hann Gunnar Birnir var fallegur strákur. Vonandi að
hann kæmist klakklaust út í lífið.
„Ertu skotinn í einhverri núna?“ spurði ég frænda minn eins og ég hef
gert frá því hann var lítill.
„Nei,“ sagði hann og flissaði. „Ég er ekkert skotinn núna.“
Svo fylltust augun allt í einu af tárum. Ég ætlaði að segja eitthvað við
hann en hann rauk orðalaust inn í herbergið sitt og ég heyrði hann skella í
lás. Mig langaði að elta hann og taka hann í fangið og segja við hann það
fallegasta sem ég vissi, eitthvað um endur og tjarnir og tungl, en varð
hugsað til þess að mamma hans hlyti bráðum að koma heim og ég ætlaði
ekki að þurfa að svara fyrir það að hafa grætt tvær kynslóðir hér á
heimilinu. Ekki sama daginn að minnsta kosti.
32
ÞAÐ VAR ENGIN hátíðarstemmning í kringum útkomu næsta blaðs. „Við
vorum flengd,“ sagði Jóhann og hristi höfuðið mæðulega. Síðan bað hann
okkur um að bíta bæði í súr epli og skjaldarrendur. Eitthvað fleira sagði
hann en við nenntum ekki að hlusta, sátum bara við tölvurnar okkar og
kinkuðum öðru hvoru kolli til hans. Inn um gluggann bárust öskrin í
blaðsölubörnunum. Mig langaði upp á Laugaveg að kíkja í búðir.
Haustvörurnar hlutu að vera löngu komnar. Við lögðum ekki við eyrun fyrr
en Jóhann kom með óvænta tilkynningu: „Hann Steini mætir aftur í vinnuna
eftir hádegi og ég vil að þið takið honum vel.“
Tómas missti langt „ha?“ út úr sér.
Jóhann hækkaði röddina eins og hann gerði venjulega þegar honum
fannst hann mæta andstöðu. „Maður velur ekki með hverjum maður vinnur
og við verðum bara að standa saman hérna. Þetta er bara eins og í laginu:
„Enginn veit fyrr en reynir á hvort vini áttu þá.““
Villi hallaði sér að mér og hvíslaði: „Upplyfting. „Traustur vinur“.“
„Ég veit,“ hvíslaði ég á móti.
Jóhann hélt áfram: „Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem einhverjum
mistekst í íslenskum fjölmiðlaheimi. Þið munið nú bara eftir þessum
bandaríska fréttamanni í Persaflóastríðinu sem Mogginn skrifaði um og átti
að hafa verið vinnumaður á einhverjum íslenskum sveitabæ. Það er hins
vegar hundfúlt að það skuli vera komið að okkur. Ég segi ekki annað.
Andskotinn!“
Ég lokaði glugganum svo óhljóðin bærust ekki út á götu.
„Villi, Tómas, Oddfríður, þið takið bara almennilega á móti honum. Það
er allt í lagi að skíta einu sinni á sig. Manni hlýnar aðeins á bossanum þótt
ekki sé nema rétt á meðan.“
Við umluðum eitthvað.
Þegar Jóhann var farinn inn til sín kom Tómas yfir til okkar Villa. „Æ,
það er eitthvað svo ömurlegt að vera þarna einn hinum megin. Má ég ekki
vera hjá ykkur?“
Aftur umluðum við eitthvað.
Þessi morgunn ætlaði aldrei að líða. Klukkan hálftólf gátum við ekki á
okkur setið og fórum þrjú saman á Subway en ekkert okkar reyndist hafa
mikla lyst á kjötbollum, káli, remúlaði eða róstbíffi. Okkur langaði heldur
ekkert mikið aftur í vinnuna svo við sátum þarna hátt á annan tíma,
handfjötluðum samlokurnar okkar og kjöftuðum. Tómas var að plana
síðbúið sumarleyfi ásamt syni og kærustu á Benidorm. „Það er alveg
frábært þar. Hvítar strendur og pálmatré. Ég elska pálmatré,“ sagði hann.
„Drengurinn sem elskaði pálmatrén,“ sagði Villi.
„Með hverjum er það?“ spurði Tómas.
„Það hvað?“
„Drengurinn sem elskaði pálmatrén. Með hverjum er það lag?“
„Engum. Þetta er ekkert lag, ekki svo ég viti, en þetta gæti verið nafn á
ljóðabók.“
Villi hafði ekkert sumarfrí tekið sér frekar en Steini og Jóhann og var að
velta því fyrir sér að ferðast innanlands. „Það er að segja ef ég fæ frí. Það er
ekki beint eins og það sé of mikið af starfsfólki hjá okkur núna.“
„Af hverju var ekkert sumarafleysingafólk ráðið?“ spurði ég.
„Oddfríður, þú ert sumarafleysingafólkið.“
Æ, já, alveg rétt. Mig langaði bara ekkert til að vera það neitt mikið
lengur. Ég fann ekki fyrir minnstu löngun til að setjast aftur við tölvuna. Á
þessari stundu langaði mig mest að fara heim og horfa á vídeó.
„Djöfull er að sjá drenginn,“ sagði Villi allt í einu.
Steini kom lallandi framhjá með hendur í vösum og svört sólgleraugu.
Hann hafði látið klippa sig. Hnakkinn var nánast rakaður.
„Já, andskotinn,“ bætti Tómas við. „Minn bara flottur í dag.“
„Leyfum honum að fara á undan okkur inn,“ sagði ég.
„Ójá, ég myndi ekki vilja sjást labba við hliðina á þessu fífli opinberlega.
Ég meina það,“ sagði Tómas. „Ég hafði hugsað mér að fara á völlinn í
kvöld að sjá KR -Val en ég er bara ekki lengur í stuði til þess.“
„Svona, svona,“ sagði Villi.
Við sötruðum úr gosglösunum okkar góða stund til viðbótar og stóðum
síðan upp. Í Ingólfsstræti gengum við beint í flasið á Hirti á Fréttum í gulu
goretex-úlpunni.
„Hvaða heimskupör á að fara að fremja núna?“ spurði hann
glaðhlakkalegur.
Tómas tautaði eitthvað illskiljanlegt og Villi bætti einhverju við um gular
úlpur og sólskin. Það hafði rignt um morguninn en var að birta til. Það var
heitt inni á ritstjórninni. Þegar ég kom inn byrjaði ég á því að opna
gluggann við skrifborðið mitt. Steina var hvergi að sjá en litlu síðar kom
hann út úr skrifstofunni hans Lárusar sem var meira að segja svo ljúfur að
fylgja honum inn í salinn til okkar. Hélt hann að við myndum ráðast á hann?
Steini sagði hæ og við sögðum líka hæ. Ekkert sérstaklega fjörlega.
Hann settist við tölvuna sína og kveikti á henni.
„Hvaða snilld ertu með í næsta blað?“ spurði Tómas.
„Var að pæla í að snuðra aðeins í kringum Keldur. Fékk hint þaðan um
daginn.“
„Já, geturðu ekki dulbúið þig sem riðuveika rollu, skroppið upp eftir og
athugað hvort þú heyrir ekki eitthvað merkilegt?“ spurði Villi.
Steini ýtti sér frá tölvunni, hallaði sér fram og studdi olnbogunum á
hnén. „Sko, ég átti alveg von á því að ég fengi að heyra eitthvað svona en
ég hef hugsað rosalega mikið um þetta og vitiði, þetta er bara stundum eins
og á skeiðvellinum í Ben Húr. Allt gengur vel, maður er kominn langt á
undan hinum og það er einmitt þess vegna sem einhverjir gæjar byrja að
nuddast utan í mann.“
Við horfðum þegjandi á hann og biðum eftir því að hann fyndi fyrir sama
aulahrollinum og hríslaðist um okkur.
„Finnst þér þetta í alvörunni einhverjum öðrum að kenna?“ spurði
Tómas loks.
„Já, nei, kannski ekki. Ég er kannski bara meira að tala svona almennt.
Held ég. Ég átti ekkert von á því að þið skilduð mig.“
Steini stóð upp til að fara í kaffivélina. Villi hristi höfuðið, Tómas yppti
öxlum og ég reyndi að hugsa eitthvað jákvætt. Við héldum áfram að vinna.
33
KRISTÍN HAFÐI HRINGT í mig af Café List til að fá mig út á lífið en ég hafði
orðið að neita. Músíkin og skvaldrið á bak við hana ærðu samt upp í mér
löngunina. Mig var líka farið að langa alvarlega til að komast á sjens. Þetta
hafði verið sorglega karlmannslaust sumar. Ég sannfærði sjálfa mig um að
ég yrði að sýna sjálfstjórn svolítið lengur og ljúka við greinina en svo mætti
ég líka hella mér út í gjálífið. Ætli ég hefði ekki skrifað fram á morgun
hefði Áslaug ekki litið við hjá mér um tvöleytið. Hún var að koma af
börunum og þótt finna mætti eilítinn ilm af Boucheron leggja af henni
lyktaði hún þó fyrst og fremst af sígarettum og gini. Hún hafði hellt bjór
niður á fallega satínjakkann sinn en var samt stórglæsileg með Chanel-
töskuna.
Áslaug drafaði eitthvað og ég skildi ekki orð af því sem hún sagði en
náði því þó að hún vildi koma inn. Nokkrum sinnum reyndi hún að byrja á
einhverjum sögum sem enduðu jafnóðum í flissi. Þegar hún settist í sófann
missti hún töskuna í gólfið. Gylltu C-in tvö framan á henni duttu af og
rúlluðu undir stól. „Þetta ætti nú ekki að geta gerst með svona vandaða
vöru,“ sagði ég, skreið eftir C-unum og reyndi að festa þau aftur á.
Það rann aðeins af Áslaugu við þetta. Að minnsta kosti var hún
þokkalega skýrmælt þegar hún sagði: „Elskan mín góða, þetta er bara feik.
Ég keypti þessa tösku af kolbikasvörtum götusala þarna í París eða hvar
sem það nú var.“
Þá hætti ég við að reyna að festa C-in á og stakk þeim bara ofan í
töskuna. Áslaug hafði fengið sér nýjar strípur og þegar ég sagði henni hvað
mér þætti hún flott um hárið varð hún klökk.
„Þú ert besta stelpa sem ég þekki,“ snökti hún.
Ég lagði ekki í að hrósa jakkanum hennar af ótta við hvaða tilfinningum
það hryndi af stað. Dágóða stund sátum við hlið við hlið í sófanum mínum.
Svo fylgdi ég Slaugu upp og bauð henni góða nótt.
Ég hefði frekar verið til í að eyða deginum í að hjúkra Áslaugu í
timburmönnunum en að heimsækja Örnu systur hennar. Mig langaði alls
ekki að hitta hana en samt var ég spennt að heyra hvað henni fyndist um
skrifin mín. Ég lét mig hafa það að labba upp í Hlíðar, veitti ekki af
hreyfingunni. Þegar ég nálgaðist húsið vantaði klukkuna enn fimm mínútur
í tvö svo ég rölti einn hring um hverfið. Kom við í búð og keypti mér tópas.
Vikuskammtinum var stillt upp í statífi fyrir innan búðarborðið. Það var nóg
til.
Arna var nokkra stund að koma til dyra. Ég þurfti að hringja tvisvar. Hún
var í skyrtu með gulum, grænum, bláum og bleikum röndum. Kannski þessi
litagleði hafi valdið því hvað það lá vel á henni. Konan var eitt bros.
„Jæja, þá er bara komið að því,“ sagði hún á meðan ég potaði mér úr
skónum og hengdi upp kápuna.
„Heyrðu, þetta varð nú eiginlega svolítið lengra en hefðbundin grein,“
sagði ég og elti hana inn í stofu.
Arna benti mér á að setjast í sófann. Sjálf settist hún í annan svaninn. Ég
fór ofan í töskuna mína og tók fram handritið. Það hafði rignt aðeins inn á
það á leiðinni og hornin voru þvöl og undin.
„Þetta er slatti,“ sagði ég og rétti henni bunkann.
„Nei, vá! Sú hefur verið dugleg. Frábært. Þá getum við bara birt þetta í
nokkrum helgarblöðum. Hefurðu ekki nógan tíma?“
„Jú, jú.“
„Fínt, þá les ég þetta bara á meðan þú ert hérna. Ég er enga stund að lesa.
Fáðu þér bara bók eða eitthvað.“
Arna færði sig yfir í sófann til mín, settist í hinn endann og dró upp undir
sig fæturna. „Elskan, nennirðu nokkuð að fara fram í eldhús og sækja
ábreiðuna sem er þar. Hún er á einni sjöunni.“
Eldhúsið var stórt og eyja úti á miðju gólfi. Á einum eldhússtólnum lá
ábreiða með Burberry-mynstri. Sjöa eða ekki sjöa, það var engin önnur
ábreiða þar svo ég fór með hana inn til Örnu sem breiddi hana yfir fæturna á
sér. Síðan fór ég í njósnaleiðangur. Í borðstofukróknum var kringlótt borð.
Platan var úr ljósum viði og fæturnir úr málmi. Fjórir stólar í kring. Á
borðinu voru bleikar rósir í fallegum vasa úr bláu gleri. Ofan frá séð var
hann eins og ský sem bylgjaðist um blómin. Uppi við vegg stóð skenkur úr
sama ljósa viðinum og borðstofuborðið og fæturnir líka úr málmi. Fyrir
ofan hann hékk ílangur spegill í gylltum ramma. Allt nýtt. Meira að segja
dótið ofan á skenknum; matreiðslubók, silfraður kertastjaki og ramminn
sem geymdi ljósmynd af Örnu sjálfri þar sem hún brosti hin glaðasta í
hvítum sumarkjól. Eiffel-turninn teinréttur á bak við hana.
„Ertu að skoða myndina af mér í París?“ heyrðist Arna kalla. Sá hún í
gegnum veggi? „María Guðmunds tók hana af mér.“
Hvað getur maður sagt við slíkum upplýsingum? Ekki neitt. Ég settist
við borðstofuborðið með matreiðslubókina og skoðaði fallegar ljósmyndir
af dýrindis grænmetisréttum. Ég var að reyna að leggja á minnið uppskrift
að lasanja þegar Arna kallaði á mig. Hún hafði sparkað af sér ábreiðunni og
sest upp í sófann.
„Bíddu, er ég í þessum skrifum? Hér er nafnið mitt. Og hér aftur.“
„Auðvitað.“
„Það vil ég ekki hafa.“
„Það er ekki hægt að sleppa þér. Annars skilur enginn af hverju ég
skrifaði þetta. Ég vil ekki að það komi út eins og þetta sé bara sjálfsprottin
hugmynd hjá mér, enda var það ekki þannig.“
„Láttu ekki svona. Aldrei átti ég von á því að þetta yrði eitthvert mál,“
sagði Arna og hristi höfuðið. Það örlaði á háðsku brosi. „Ég tek mig þá bara
sjálf út. Það er jú ég sem ritstýri textanum, elskan.“
Sagði hún „elskan“ eða „illskan“?
„Má ég þá ekki bara fá handritið aftur?“
„Jú, endilega, taktu mig út úr þessu öllu saman. Bara ýta á kontról og F
og pikka inn nafnið mitt. Ég meina, hérna ertu til dæmis að lýsa því hvernig
lítur út heima hjá mér. Ég sem hef alltaf sagt nei við alla þessa
húsbúnaðarþætti og -blöð.“ Arna veifaði framan í mig síðu. „Ég vil ekki sjá
að ókunnugir viti hvernig er heima hjá mér.“
„Allt í lagi. Ég tek þetta bara út. Heyrðu, ég vinn með konu sem heldur
svo mikið upp á pistlana þína í þessu þarna kvennatímariti.“
Arna brosti hæstánægð og vafði ábreiðunni utan um axlirnar á sér. „Æ,
já, þeir. Já, ég hef fengið voða mikið hrós fyrir þá.“
„Veistu alltaf um hvað þú ætlar að skrifa?“
„Já, þetta er enginn vandi. Maður býr bara til einhverja manneskju, til
dæmis vinkonu sem spilar með manni bridds eða eitthvað svoleiðis, lætur
hana standa í einhverju veseni, svo sem eins og að kaupa sér bíl án þess að
hafa hugmynd um hvernig best er að bera sig að og kemur svo með lausn á
vandamálinu. Stundum skrifa ég líka bara um sjálfa mig og geri mér upp
einhverja jákvæða eiginleika. Segist vera mikið fyrir börn, að ég hafi gaman
af útivist eða þá að ég sé félagsvera. Þetta er það sem fólk vill. Ótrúlega
vitlaust og einfalt.“
„Fólkið?“
„Nei, ég átti við að skrifa svona pistil.“
Ég ætlaði að leyfa Örnu að lesa áfram en hún hætti eftir smástund.
„Taktu bara handritið og komdu síðan aftur með það þegar það er tilbúið.
Þá verður þetta alveg tipptopp þegar það birtist. Þú getur líka bara sent það
á tölvupósti. Ertu ekki nettengd?“
„Ekki heima, nei.“
„Ókei, elskan, þá bara seturðu þetta á disk handa mér.“
„Það var eitt sem ég átti eftir að spyrja þig að. Varst það þú sem lakst því
í Fréttir að Steini hefði ekki verið nema sólarhring inni á Vogi?“
„Það var nú bara ekki hægt að þegja yfir því. Viltu kók? Ég hef bara
ekkert boðið þér.“
Og Arna var rokin inn í eldhús. Ég elti.
„Þetta kom sér mjög illa fyrir mig. Og blaðið auðvitað.“
„Við hverju bjuggust þeir eiginlega? Diet eða venjulegt?“
Ég bað um venjulegt og Arna tók flösku úr ísskápnum.
„Það er ekki bara það, Arna, þú skúbbaðir líka mig. Þetta hefði getað
verið risið í greininni minni. Hugsaðirðu ekkert út í það? Ég verð að
viðurkenna að ég átti ekki von á því að ÞÚ myndir skúbba mig.“
„Vertu ekki svona barnaleg. Það er ekki eins og greinin þín eigi eftir að
bera neinn skaða af. Hún á eftir að verða ágæt, bara ef þú breytir henni
pínu.“
Arna rétti mér glas og hellti í. Mig langaði mest til að fara og hætta við
allt. Ég hafði um alveg nóg að hugsa þótt þetta bættist ekki við. Hún tók
utan um axlirnar á mér og sagði lágt: „Komdu inn í stofu. Þetta verður
svoleiðis allt í lagi.“
Við settumst hlið við hlið í sófann og ég lagði glasið frá mér á
sófaborðið. „Líttu á mig,“ sagði Arna og ég hlýddi. Mér var heitt. Hundur
gelti fyrir utan og einhver kallaði: „Pjakkur! Pjakkur!“
„Heyrðu, ég á eiginlega von á gesti núna. Við skulum vera fljótar.“
Arna tók um báðar hendurnar á mér. Hendurnar hennar voru ískaldar.
„Oddfríður mín, það er allt í þessari grein sem við lögðum upp með. Þetta
er kannski öllu hlýlegra en ég hafði vonað. Þér virðist bara hafa liðið
nokkuð vel þarna á þessu skítablaði.“
Skítablað. Kemur þetta orð aftur. Ég stóð upp, tók töskuna mína og fór
fram í anddyri.
„Ertu að fara?“ spurði Arna.
„Já, ég þarf aðeins að velta þessu öllu fyrir mér,“ sagði ég.
„Já, gerðu það. Leggstu bara yfir handritið og kíktu svo til mín einhvern
tímann í vikunni. Komdu bara á skrifstofuna til mín. Það ætti að vera óhætt
núna. Hringdu bara á undan þér.“
„Jæja, þú myndir sem sagt svara símanum ef ég hringdi?“
„Já, en ekki hvað?“ sagði Arna hissa. „Hafðu samband, illskan, þetta
verður algjört æði hjá þér. Ég veit það.“
34
RÓLURNAR Á LEIKVELLINUM á Klambratúni sveifluðust til og frá eins og í
þeim sætu draugabörn. Ég fékk mér sæti á köldum bekk og hjó hælunum
ofan í sandinn. Gerði mynstur um leið og ég hugsaði um það hvernig mér
hafði tekist að koma mér í þessa vitleysu. Skrifa svo langa grein að hún
líktist helst bók og hafa nú ekki hugmynd um hvað mig langaði til að gera
við hana. Það eina sem ég vissi var að ég kærði mig ekkert lengur um að
láta hana í hendurnar á Örnu. Hún myndi örugglega bæta einhverju við hana
af eigin skoðunum á Jóhanni eða taka eitthvað út sem ég kærði mig ekki
um. Ömurlegt samt að hafa lagt á sig alla þessa vinnu. Hvað hefði Fay
Orton gert?
Strákur kom hlaupandi framhjá mér. Snarstansaði allt í einu, sneri sér við
og sagði: „Hæ.“
„Hæ,“ svaraði ég annars hugar.
„Sérðu ekki hver þetta er?“
Ég rýndi framan í barnið en sá varla í andlitið fyrir blárri lambhúshettu.
„Manstu, Bjartur sem á kisuna.“
„Þú hér?“
„Já, amma Sirrý á heima þarna,“ sagði hann og benti í áttina að
Flókagötunni. „Hún er að koma. Ég stakk hana af.“
Bjartur settist við hliðina á mér á bekknum. Horfði til skiptis framan í
mig og á mynstrið sem ég var að gera með fætinum. Ég ætlaði að þegja
þangað til hann skildi sneiðina og færi en þögn beit ekki á þennan dreng.
„Bjartur, hvað myndir þú gera ef þú hefðir búið til eitthvað fínt fyrir
einhvern, segjum ömmu þína, en svo ætlaði hún bara að eyðileggja það?“
spurði ég þegar mér fannst við hafa þagað of lengi.
„Eins og hvað?“
„Bara ... til dæmis bát og svo ætlaði hún bara að taka hann í sundur og
nota hann sem blómapott.“
Bjartur velti málinu svolítið fyrir sér áður en hann spurði: „Hvernig
bát?“
„Bara svona flottan bát með segli og allt.“
„Má hann vera hvítur með brjóstakonu fremst?“
„Já, já.“
„Og líka blárri rönd?“
„Já, auðvitað. Hvað myndirðu gera við bátinn ef þú værir búinn að eyða
mörgum dögum í að smíða hann og svo ætlaði amma þín bara að skemma
hann?“
„Amma Sirrý eða amma Rúna?“
„Bara báðar.“
Bjartur setti stút á munninn og þagði dágóða stund.
„Ég myndi bara eiga bátinn sjálfur.“
„Auðvit ...“
Drengurinn var ekki búinn: „Og sigla á honum í kringum allan heiminn.“
Hann rétti hendurnar upp til himna og hljóp nokkra hringi fyrir framan
mig. Tók á rás að rólunum en var líklega kominn lengra en hægt var að
ímynda sér.
Strákar eru frábærir. Án þeirra væru engar bílskúrshljómsveitir. Þá
mundi ég eftir öðrum litlum strák sem ég átti eftir að tala við. Ég dró fram
farsímann og hringdi í Fornhagann. Heppnin var með mér. Gunnar Birnir
svaraði.
„Halló.“
„Hæ, þetta er Odda. Ertu einn heima?“
„Nei, þær eru inni í stofu.“
„Mig langaði eitthvað svo til að hitta þig. Það er svo langt síðan við
höfum talað saman og mér fannst svo leiðinlegt hvað þú varst leiður síðast
þegar við hittumst.“
„Já, ég veit.“
„Heldurðu að þú megir skreppa út með mér? Ég gæti boðið þér upp á
pizzu á Horninu, eins og þegar þú varst lítill.“
Gunnar Birnir var óðara horfinn úr símanum. „Mamma!“ heyrði ég hann
kalla. Síðan heyrðist talað í hálfum hljóðum og Gunnar Birnir segja: „Já, en
mig langar svo og það er bara slátur í matinn.“ Ég hafði komið honum í
vesen. Ég hefði ekki átt að hringja. Svo kom hann aftur í símann: „Já, ég
má! Ég verð samt að vera kominn heim fyrir klukkan hálftíu. Mamma segir
það.“
Ég bað hann um að labba upp að kaþólsku kirkjunni, ég kæmi á móti
honum. „Já, hittumst bara á leiðinni,“ sagði hann spenntur. „Eins gott að þú
komir ekki hingað.“
„Nei, ekki ef ÞÆR eru inni í stofu,“ sagði ég draugalegri röddu. „Aldrei
að vita hverju ÞÆR geta tekið upp á.“
Frændi minn flissaði.
Ég man hvenær ég varð fyrst hrædd um hann. Gubba hafði farið með
hann til tannlæknis. Það þurfti að gera við tvo jaxla. „Tannlæknirinn ætlaði
fyrst ekki að deyfa hann en um leið og borinn fór í gang gat ég ekki meira
og bað um deyfingu handa stráknum. Hann kveinkaði sér ekki einu sinni,“
sagði móðir hans glöð. „Það heyrðist ekki eitt múkk frá honum.“
Þá fór ég að fylgjast með honum og það reyndist rétt sem mig grunaði.
Alltaf þegar afi hans brýndi raustina til að ráðskast með dóttur sína eða
eiginkonu slaknaði á andlitsdráttum drengsins og augnaráðið varð fjarrænt.
Hann var farinn eitthvað annað. Vorum við að missa hann? Yrði hann eins
og við? Reiður og dofinn.
Það voru fáir á ferli. Líklega voru allir farnir út úr bænum. Einstaka
útlendingur að leita að veitingastað. Ég reyndi að labba rösklega svo
strákurinn þyrfti ekki að bíða eftir mér en varð það samt á að stoppa fyrir
utan Þrúði til að virða fyrir mér nýju útstillingarnar. Þar gat að líta
megrunarkrem og augnskugga. Maður gæti eflaust allt eins makað
skuggunum á lærin á sér og beðið eftir því að þau grenntust. Ég fann til
léttis yfir að vera hætt að vinna þarna. Það er ljótt að skrökva og það var
einmitt það sem mér fannst ég vera að gera þar á hverjum degi.
Gunnar Birnir veifaði mér glaður þegar hann sá mig koma upp
Túngötuna og valhoppaði á móti mér. Hann var í nýrri úlpu sem ég hafði
ekki séð hann í áður. „Hún er fyrir skólann. Er hún ekki flott?“ spurði hann
og sneri sér í hring. Hann er svo fallegur.
Á Horninu neitaði hann að hengja af sér, vildi heldur hafa úlpuna á
stólbakinu. „Einhver gæti stolið henni,“ sagði hann alvarlegur. Mér varð
litið á þessa örfáu rosknu ferðamenn sem sátu í kringum okkur og gat ekki
séð í fljótu bragði hvern hann hafði grunaðan um að ágirnast utan af honum
spjarirnar. Hann vildi sitja sem næst eldhúsinu til að geta fylgst með
bökurunum þeyta pizzunum upp í loft.
Síðan pöntuðum við okkur gos og hvort sína pizzuna. Gunnar Birnir
vildi ekki þistilhjörtu, ekki skinku og alls ekki lauk. Eftir langa mæðu valdi
hann eina með hakki, sveppum og papriku, gott ef það er ekki sama
uppskrift og var á Óla-partýpizzunum hér um árið. „Oj,“ sagði drengurinn
þegar ég bað um pizzu með sjávarréttum.
„Veistu hvað mér finnst skemmtilegast núna?“ spurði hann síðan glaður.
„Það er að hlusta á kassetturnar með lögunum sem þú tókst upp úr
útvarpinu þegar þú varst lítil. Þá veit maður aldrei hvaða lag kemur næst.“
Kvöldin yfir Lögum unga fólksins rifjuðust upp og harmurinn sem það
olli þegar kynnirinn talaði yfir lögin.
„Þú hefur líka greinilega tekið oft yfir sömu spólurnar og til þess að það
séu ekki einhverjir svona lagabútar í lokin hefurðu tekið þögn yfir þá og þá
getur maður heyrt þig dunda þér inni í herberginu þínu. Ég er alltaf að reyna
að ímynda mér hvað þú sért að gera.“
Gunnar Birnir sagði mér frá íþróttanámskeiðinu, þjálfaranum og hinum
krökkunum þar til þjónninn skellti pizzunum á borðið okkar. Hann tók
hraustlega til við sína. Reif sér sneið með fingrunum og stakk upp í sig bita.
Á bak við mig heyrði ég staðinn fyllast smám saman. Skvaldrið jókst í
kringum okkur. Á að minnsta kosti fjórum tungumálum.
„Manstu þegar við komum hingað þegar þú varst lítill?“
„Já, svo kom ég líka hingað einu sinni með afa.“ Síðasta orðið var sagt á
innsoginu. Gunnar Birnir lagði frá sér pizzusneiðina og leit síðan
sorgmæddur á svip út um gluggann.
„Gunnar minn, ertu enn svona leiður?“
Stórt tár lak niður kinnina á drengnum og neðri vörin skalf. „Æ, mér
líður svo illa þegar ég hugsa um afa,“ sagði hann niðurlútur. „Svo fóru
einhverjir kallar í KR -heimilinu að tala um hann um daginn og spyrja hvort
hann hefði ekki verið afi minn og allt í einu fór ég að grenja og varð bara að
hlaupa inn í búningsklefa. Þeir héldu örugglega að ég væri algjör hálfviti.“
„Nei, þeir halda það aldeilis ekki,“ sagði ég hughreystandi. „Fullorðið
fólk er ekki þannig. Þeir hafa strax áttað sig á því að eitthvað var að.“
„Samt, af hverju gat hann ekki bara ... bara dáið inni á spítalanum? Ha?“
„Af hverju mátti hann ekki deyja heima? Sumt fólk vill það.“
Drengurinn með tárið þurrkaði sér um augun með servíettunni sinni, reif
upp í sig bita og tuggði ótt og títt. Á meðan lét hann augun reika um
staðinn. Horfði á strákinn sem var að baka pizzurnar, þjónustustúlkuna taka
við pöntun á bjagaðri dönsku og plakötin á veggnum. Hann leit aldrei á
mig. Ég beið róleg. „Af hverju hefðirðu viljað að hann hefði dáið inni á
spítalanum?“
„Bara, betra fyrir hann ... kannski,“ sagði drengurinn, plokkaði í
paprikubita og stakk honum upp í sig.
„Gunnar Birnir, sástu afa þinn deyja?“
Hann leit út um gluggann. „Það er farið að dimma svo mikið úti núna á
kvöldin,“ sagði hann og reisti sig upp í sætinu.
„Gunnar Birnir, horfðu á mig. Sástu afa þinn deyja?“
Hann leit hikandi á mig. Bitinn velktist uppi í honum.
„Kyngdu bara fyrst,“ sagði ég róleg en ákveðin. Gunnar Birnir horfði
órólegur á mig, fékk sér loks vænan sopa af gosinu og þá gekk bitinn niður.
Ég vorkenndi honum.
„Gunnar minn, ég verð að fá að vita þetta. Þetta er nú einu sinni pabbi
minn sem við erum að tala um.“
Hann horfði bara þögull á mig svo ég ákvað að hjálpa honum aðeins
áfram. „Þú varst búinn að segja mér að hann hefði beðið um vatn, manstu?“
„Já, ég var inni í herberginu mínu að lesa Ástríksbók, þessa um
labbkássuna, þegar ég heyrði hann allt í einu kalla á ömmu.“
Hann ætlaði að fara að bíta aftur í pizzuna. Ég lagði höndina rólega á
handlegginn á honum. Hann var ekki búinn.
„Ég fór inn til afa og sagði honum að amma hefði skroppið út. Hann var
svona eins og hann var búinn að vera, svona hvítur í framan og gat varla
hreyft sig. Ég hafði ekki þorað inn í herbergið hans í marga daga. Ég stóð
bara í dyrunum þegar ég þurfti að tala við hann. Þetta var eitthvað svo
ógeðslegt allt saman. Ég ætlaði að fara en þá kallaði hann aftur og bað mig
um að fara inn á bað fyrir sig og sækja lyfin hennar ömmu. „Hvaða lyf?“
spurði ég auðvitað. Þau eru svo mörg en afi sagði mér bara að koma með
þau öll. Svo varð ég að setjast á rúmstokkinn hjá honum og lesa nöfnin af
glösunum.“
Í þeim svifum vatt þjónninn sér að okkur og spurði hvernig maturinn
hefði bragðast og ég sagði: „Bara vel, þakka þér fyrir.“
Gunnar Birnir horfði ofan í pizzuna sína. Við biðum eftir því að þjónninn
færi en hann var ekki alveg á þeim buxunum. „Má ég kannski taka
diskana?“ spurði hann. Ég sá fátt því til fyrirstöðu og þá spurði hann okkur
hvort við vildum eftirrétt. Gunnar Birnir hristi höfuðið en ég pantaði kaffi.
Þá loksins pillaði maðurinn sig.
„Og?“ sagði ég við Gunnar Birni.
„Já, svo þegar ég sagði eitthvert nafn á einhverju lyfi gerði hann svona.“
Gunnar Birnir hermdi eftir kunnuglegu tákni með vísifingri og löngutöng.
„Hann vildi þetta lyf.“
„En þetta var ekki hans lyf.“
„Nei, nei, þau voru öll geymd inni hjá honum en hann sagði mér samt að
sækja lyfin hennar ömmu inn á bað.“
„Já, allt í lagi. Haltu áfram. Hvað gerði hann við lyfið?“
„Hann bað mig um að hella úr glasinu á sængina hjá sér og setja allar
krukkurnar síðan aftur inn á bað, líka þá sem var tóm. Síðan bað hann um
vatn.“ Gunnar Birnir yppti öxlum. „Svo hélt ég bara áfram að lesa og setti
heyrnartólin á hausinn. Allt í einu varst þú bara komin og fullt af fólki líka.“
Hann þagnaði eitt andartak. „Ég vissi ekkert hvað var að gerast fyrr en
mamma kom og sagði mér að afi væri dáinn.“
Líklega var það bara nálægðin við pizzuofninn en allt í einu varð mér
sjóðandi heitt. Ég þurfti að komast út en umfram allt vildi ég að Gunnar
Birnir fengi aldrei hugmynd um hvað hann hafði aðstoðað pabba við. Ég
var skíthrædd um að ég léti eitthvað uppi. „Jæja, nú ætla ég að borga. Svo
förum við,“ sagði ég og mímaði „reikninginn“ framan í þjóninn.
„Og ég fer í úlpuna,“ sagði Gunnar Birnir og vandaði sig við að smokra
henni af stólbakinu. „Sjáðu, það er vasi líka hér innan á.“
Ég þræddi mig í gegnum Þingholtin á leiðinni heim og reyndi að hugsa
sem allra minnst um það sem drengurinn hafði sagt. Þess í stað einbeitti ég
mér að því sem biði mín í vinnunni í vikunni, velti því fyrir mér hvort ég
ætti ekki að fara að hafa samband við Kristínu og hvort ekki væri komin
tími til að fara með eitthvað í hreinsun. Það tókst samt ekki betur en svo að
áður en ég vissi af var ég komin með grátstafinn í kverkarnar yfir því að
pabbi skyldi ekki hafa látið mig vita hvað stóð til. Að hann skyldi ekki hafa
beðið mig um að hjálpa sér frekar en Gunnar Birni. Ég kom það reglulega
til hans. Oftast bara til að athuga hvernig hann hefði það en stundum til að
hjálpa honum að snyrta á sér skeggið eða láta hann hafa hljóðbækur. Það
hefði verið erfitt að gera það sem hann hefði beðið um en það hefði samt
verið allt í lagi. Ég hefði skilið hann og við hefðum getað talað saman áður
og kvaðst. Mér var alveg sama þótt hann hefði tekið þessa ákvörðun en ég
hefði viljað vera hjá honum og fá að rétta honum „the salmon mousse“.
Auðvitað hefði ég líka átt að geta sagt mér að pabbi hefði haft töglin og
hagldirnar fram á síðustu stundu. Hann datt aldrei svo auðveldlega úr
karakter.
Svört límúsína nam staðar fyrir framan Hótel Óðinsvé og ósjálfrátt
hægði ég á mér til að sjá hvort einhver frægur stigi út. Kannski Christian
Slater. Bílstjóri með kaskeiti snaraðist út til að opna og ung brúðhjón birtust
hálfringluð á svipinn af hamingju, bæði með fangið fullt af brúðarkjól
dömunnar. Lófatak barst út í kvöldkyrrðina um leið og þau hurfu inn á
hótelið.
Á leiðinni upp Þórsgötuna fannst mér eins og ilmur af nýbökuðum
vöfflum seytlaði út úr einu húsanna.
35
FJARKINN LEIÐ Í gegnum Vesturbæinn með mannabein í maganum. Fimmtán
ár síðan og mikið sem ég man þetta vel. Blaðburðartaskan var tóm og ég sat
með hana í kjöltunni. Sem betur fór hafði ég ekki þurft að bíða lengi eftir
strætó því það var orðið svolítið kalt. Það var líka orðið dimmt en
bílstjórinn hafði kveikt á útvarpinu og fjörug djasstónlist sáldraðist yfir
okkur. Reyndar hafði bílstjórinn verið svo utan við sig að hann gleymdi að
hleypa konu með tvö börn út á Hofsvallagötunni. Hún hafði orðið að kalla
til hans og það var ekki fyrr en allir hinir farþegarnir tóku undir að
maðurinn rankaði við sér. Þá var annað barnanna farið að gráta. Ég var
svolítið hrædd um að mér yrði heldur ekki hleypt út á réttum stað en sem
betur fór gerðist það ekki. Litlu síðar var ég því komin út með eldfjörugt
trompetsóló í höfðinu. Ætli ég hafi ekki náð að taka þrjú skref áður en
tónlistin snarþagnaði allt í einu, umferðarniðurinn tók við og það rann upp
fyrir mér að peningaveskið hennar mömmu var horfið úr
blaðburðartöskunni, svartur leðurpungur sem í hafði verið seðill og eitthvert
klink. Eitt andartak gat ég ekki andað. Kona með innkaupapoka rakst utan í
mig, hinum megin við götuna hentu hlæjandi unglingar snjóboltum hver í
annan, bílarnir héldu áfram að skvetta slabbi upp á gangstéttirnar og enginn
tók eftir tíu ára stelpu sem var svo óttaslegin að eitt andartak vissi hún ekki
hvað hún hét eða hvort hún hefði nokkurn tímann heitið eitthvað.
Veskið gæti hafa dottið úr töskunni í stigaganginum eða á leiðinni
þangað. Það gæti líka hafa týnst á leiðinni niður á Laugaveg, kannski fyrir
framan Sundhöllina. Kannski hafði það dottið upp úr töskunni í strætó. Eitt
andartak datt mér í hug að fara sömu leið til baka en það hefði verið
tilgangslaust ef ég hafði misst veskið í strætisvagninum. Síðan gat ég ekki
hætt á að koma of seint heim. Það var algjörlega bannað.
Klukkan var ekki nema rétt rúmlega þrjú. Tveir tímar þar til pabbi kæmi
heim, á meðan hefði mamma frítt spil og sjö tímar þar til ég gæti farið að
sofa. Á þeim tíma gæti margt voðalegt gerst. Og þar sem ég var lítil og
hafði ekki hugmyndaflug til þess að halda til fjalla eða fela mig í næsta
fraktara lagði ég af stað heim. Á leiðinni reyndi ég að tæma hugann. Ég
gerði mér ekki grein fyrir því þá en það var það sem ég gerði. Ég horfði
ofan í hvítan snjóinn, einbeitti mér að brakinu undir stígvélunum mínum og
ímyndaði mér að yfir mér væri engill eins og sá sem var á myndinni í
herberginu mínu. Að rétt yfir hvirflinum á mér svifi bleikklædd stórgerð
kona í víðum kjól.
Hjartslátturinn jókst eftir því sem ég nálgaðist húsið. Ég var hálfnuð upp
tröppurnar þegar mamma opnaði dyrnar. Píanótónar ómuðu út um gáttina
og hún lagði fingur að vörum sér.
„Nennirðu að fara með þetta fyrir mig?“ hvíslaði hún og rétti mér
ruslapoka. „Ég skal taka töskuna.“
Ég rétti henni hana, tók við ruslapokanum og sneri hægt aftur niður
tröppurnar.
„Hvar er mjólkin eiginlega?“ spurði mamma lágt fyrir aftan mig og ég
heyrði pokann velkjast í höndunum á henni. „Og veskið? Hvar er það?“
Ég snarstoppaði en þorði ekki að líta við.
„Hvað! Ertu blaut? Hvað kom eiginlega fyrir?“
Nú var mamma hætt að hvísla. Ég leit niður eftir mér og þá fyrst sá ég að
ég var rennandi blaut. Ég hlaut að hafa nuddast utan í eitthvað. Nú myndi
ég fá fyrir ferðina.
„Svona, hentu ruslinu og komdu svo strax aftur,“ sagði mamma og leit
upp í gluggana á næstu húsum til að athuga hvort einhver nágrannanna væri
að fylgjast með sér. Foreldrar Erlu jafnvel.
Pokinn fór út í tunnu og skrefin til baka voru ótrúlega erfið. Ég elti
mömmu inn. Hún hélt í öxlina á stakknum mínum á meðan hún
grandskoðaði mig frá hvirfli til ilja og sneri mér meira að segja í hring.
„Hvað kom fyrir? Dastu?“ endurtók hún. „Nei, heyrðu ...“
Svo strauk hún fingrunum eftir lærinu á mér og hnusaði. „Pissaðirðu á
þig?“ æpti hún upp yfir sig.
Kvíðahrollurinn breiddist upp eftir bakinu á mér og ég dofnaði öll.
Klaufi hafði ég verið. Ég hlaut að hafa pissað í buxurnar mínar þarna í
kjallaratröppunum við Egilsgötuna. Það hafði ekki verið þægilegt að húka
þarna í skotinu og ég var svo hrædd um að einhver kæmi að mér. Ég ætlaði
að fara að segja mömmu frá reiðu konunni í stigaganginum en tungan
þvældist bara uppi í mér.
Gubba kom fram í dyrnar með nótnabók í höndunum. „Hvað er að
ykkur? Ég er að reyna að æfa mig!“
Hún greip fyrir munninn þegar hún sá útganginn á mér og það tísti í
henni. Niðurlægingin var hafin.
Ég varð að segja eitthvað áður en Gubba kæmist lengra. „Veskið er týnt,“
tautaði ég niðurlút.
„Týnt?“ át mamma upp eftir mér og læsti hendinni um handlegginn á
mér. „Heyrðu, góða, maður týnir ekki peningum.“
Ég veit ekki enn hvað þessi setning þýðir en hún virtist hafa sterka
merkingu fyrir mömmu. Þetta hafði heyrst áður á heimilinu. Ég hafði aftur á
móti aldrei orðið vör við að maður gæti leikið sér að því að týna öllu öðru.
„Það er örugglega búið að ræna því núna,“ sagði Gubba og án þess að
velta því fyrir mér sagði ég: „Já, því var rænt. Af mér.“
„Elskan, og þú hefur orðið svona hrædd að þú pissaðir á þig?“ sagði
mamma og losaði gripið um handlegginn á mér. Þar með var það komið af
stað.
Mamma skvetti freyðibaðinu með appelsínuilminum sem Gubba hafði
fengið í jólagjöf út í baðvatnið og á meðan ég þvoði mér bölsótaðist hún út í
það hvað borgin væri orðin hættuleg. Síðan ristaði hún handa mér brauð og
ég heyrði hana líka hringja í vinnuna til pabba. Hann var kominn heim
stuttu síðar. Þá var ég í hreinum fötum, sat stíf af áhyggjum inni í stofu og
velti því fyrir mér hvað myndi gerast næst. Það litla sem ég skildi var að
það var undir mér komið.
Gubba sem helst aldrei missir af góðum hasar var send inn í herbergið
sitt. Mamma settist við hliðina á mér í sófann en pabbi í stólinn á móti.
„Jæja, elskan,“ sagði hann. „Hvað kom fyrir?“
Ég lét hugann reika. Sá fyrir mér hvernig ég hafði laumast inn í
stigaganginn, hangsað þar yfir fréttum af óeðli úti í heimi svo áskrifendur
fengu ekki blaðið sitt fyrr en eftir dúk og disk, angrað gamla konu sem gæti
þess vegna hafa hringt í Dagblaðið og kvartað, pissað í kjallaratröppur og
buxurnar í leiðinni og loks týnt veskinu. Kannski lá það núna einhvers
staðar í snjónum á Barónsstígnum. Eitt og yfirgefið. Einhver kannski búinn
að finna það og hirða peningana.
„Það komu strákar,“ sagði ég og bætti við: „Og ein stelpa. Svona hópur.“
„Og tóku þau af þér veskið?“ spurði mamma.
„Ekki trufla barnið, Magdalena mín,“ sagði pabbi og losaði
bindishnútinn.
Ég kinkaði kolli.
„Geturðu lýst þessum krökkum?“ spurði pabbi.
„Nei,“ sagði ég, „þau voru með húfur og hettur. Ég gat ekkert séð framan
í þau.“
„Kvikindin,“ sagði mamma og röddin brast.
„Þau vildu bara peningana og sögðu mér síðan að hlaupa í burtu,“ sagði
ég og sá fyrir mér atriði úr síðustu laugardagsmynd þar sem bófar höfðu
rænt öllum peningunum af manni nokkrum, sagt honum að hypja sig og
skotið síðan úr byssum á eftir honum. Eitt andartak fannst mér að ég hefði
sagt einhverja vitleysu. Pabbi hafði séð myndina með mér og mundi
kannski eftir þessu atriði en svo virtist ekki vera. Með samanherptar varir
hristi hann höfuðið.
„Finnst þér ekki að við ættum að hringja í lögregluna?“ spurði mamma.
Um leið og lögreglan var nefnd varð ég svo hrædd að ég réð ekki við
mig lengur. Ég gat varla andað. Ég rauk inn í herbergi, settist við
skrifborðið mitt og fór að grenja. Foreldrar mínir fylgdu forviða á eftir.
„Elsku Oddfríður mín, kom eitthvað meira fyrir sem þú hefur ekki sagt
okkur frá?“ spurði pabbi.
Ég velti því fyrir mér hvort það væri viðeigandi að grenja svona eins og
Rip, Rap og Rup gerðu. Þeir lögðust alltaf á magann, spörkuðu og börðu
krepptum hnefunum í gólfið. Fljótlega komst ég samt að því að best væri að
gera sem allra minnst. Tala helst ekki, þögnin gat verið merkingarþrungin á
þessu heimili.
Mamma sagði: „Almáttugur!“ og nokkru síðar: „Guð minn góður!“
„Oddfríður, horfðu á mig!“ sagði pabbi strangur. „Kom eitthvað meira
fyrir sem þú hefur ekki sagt okkur frá?“
Það var úr vöndu að ráða. Ef ég segði nei myndi enginn skilja af hverju
ég varð svona hrædd en ef ég segði já myndu þau sækja lögregluna og það
vildi ég alls ekki.
Loks hristi ég snöktandi höfuðið. Mig var farið að svima af vanlíðan.
„Nei, þau sögðu mér bara að hlaupa í burtu. Svo hlógu þau bara.“
Pabbi klappaði á axlirnar á mér og sagði mér að fara bara snemma í
háttinn og reyna að lesa góða bók til að róa mig. Hann hugsaði málið fram
eftir kvöldi en ákvað síðan að láta það eiga sig að hringja í lögregluna. Ég
gæti hvort sem væri ekki lýst krökkunum, auk þess sem það hefðu ekki
verið miklir peningar í veskinu. Mér létti óskaplega, lokaði mig af inni í
herbergi og las fullt af skemmtilegum bókum. Daginn eftir skilaði pabbi
blaðburðarpokanum upp í Dagblað. Konan sem tók á móti honum spurði
hann af hverju dóttir hans hefði hætt svona snögglega að bera út, venjulega
léti fólk vita með meiri fyrirvara. Hann sagði að Dagblaðið ætti að sjá sóma
sinn í því að tryggja öryggi útburðarbarnanna betur og ætlaði að láta þar við
sitja. En forvitni konunnar var vakin og áður en pabbi vissi af hafði hann
sagt henni frá unglingagerinu sem hafði ráðist á dóttur hans og rænt hana.
Hann dauðskammaðist sín fyrir málæðið þegar hann þurfti að útskýra fyrir
mömmu hvaðan litla baksíðufréttin kom um hettuklæddu unglingana. Þar
með heyrði útburðurinn sögunni til í lífi okkar systra. Mamma hringdi í
kennarann og sagði að ég væri veik og Gubbu var bannað að æfa sig á
píanóið því ég þyrfti að hvíla mig. Það var aldrei aftur minnst á þennan dag.
Allt var breytt en aðeins um nokkurra mánaða skeið. Ég þurfti ekki annað
en að setja upp alvarlegan svip til að fá mínu framgengt. Foreldrar mínir
hvísluðust á og áttu það til að þagna þegar ég gekk framhjá þeim. Þegar
Gubba fékk næst útborgað fylgdist mamma með því þegar hún greiddi mér
minn hluta. Þar sem við höfðum ekki klárað mánuðinn var upphæðin ekki
há. Gubba taldi fram fimm seðla og skoðaði hvern þeirra gaumgæfilega eins
og hún hefði aldrei séð svona miða áður. Síðan rétti hún mér einn og horfði
sem steinrunnin á eftir honum. Þetta var hluti af leiknum. Sá næsti kæmi ef
ég sæti kyrr og þegði. Þegar systir mín gerði sig líklega til að fara að telja
seðlana fjóra sem eftir voru missti mamma þolinmæðina.
„Æi, góða Gubba, láttu ekki svona við barnið,“ sagði hún, hrifsaði
seðlana af henni, sletti tveimur í mig og hinum í Gubbu.
„Já, en þá fær hún meira en helminginn,“ sagði Gubba skelfingu lostin.
„Guðbjörg!“ sagði mamma höst og veifaði framan í hana vísifingri. Þetta
var ekki mikil hreyfing en afar merkingarþrungin. Hún þýddi: „Þú slappst.
Hún ekki!“
Ég ætlaði varla að trúa þessu. Samt fann ég ekki til neinnar gleði yfir
nýfengnum auði. Gubba lét eins og hún sæi mig ekki næstu daga og ég lét
hana líka í friði. Svo kom loks að því að hana vantaði einhvern til að spila
við sig veiðimann. Ég man ekkert hvað ég gerði við peningana.
36
ÞAÐ HEFÐI EKKI komið Jóhanni meira á óvart þótt ég hefði breyst í jarðálf
fyrir framan hann.
„Segja upp? Hér? Af hverju?“ sagði hann og sveiflaði fótunum af
borðinu með þvílíkum krafti að annar klossinn þeyttist út í horn.
„Mig langar að snúa mér að öðru.“
„Öðru en blaðamennsku? Hverju?“
Góð spurning. Verst að svarið var mér algjörlega hulið. Ég vissi bara að
ég gæti ekki unnið lengur á þessu blaði.
„Mér leggst eitthvað til,“ sagði ég.
Jóhann hallaði sér fram á borðið með hnefann undir hökunni. „Er þetta
út af þessu ævintýri hans Steina?“ spurði hann.
„Nei, nei,“ sagði ég lágt.
„Við misstum auðvitað trúverðugleika almennings en bara um
stundarsakir. Hann kemur aftur. Fólk er svo fljótt að gleyma. Vittu bara til.“
„Er í lagi þótt ég hætti strax?“
„Já, já, það er allt í lagi. Við björgum okkur,“ svaraði Jóhann. „En þín
verður saknað hér á stassjóninni.“
Ég get svoleiðis svarið það að ég klökknaði við að heyra þetta en það var
örugglega bara af skömm. Ég vildi óska að ég hefði aldrei asnast til að hitta
Örnu. Jóhann reis upp úr stólnum. Klossinn lá enn úti í horni svo hann stóð
bara í annan fótinn, allur skakkur. „Leitaðu til mín ef mikið liggur við,“
sagði hann og rétti mér höndina. Hafi mér einhvern tímann fundist annað
augað í honum vera grænt hlýtur það að hafa verið missýn. Á þessari stundu
voru þau að minnsta kosti bæði brún.
Ég vildi að hann hefði rétt mér blístru sem ég gæti blásið í þegar ég skiti
á mig næst og þá bærist mér hjálp. Ég vildi að einhver gæfi mér þannig
blístru. Alveg sama hver. Ég fór inn í sal. Hann var auður. Strákarnir farnir
út í mat, nema þeir hafi ekki verið mættir. Ég var svo utan við mig þegar ég
mætti til vinnu að ég hafði ekki tekið eftir því hvort þeir voru komnir. Nína
sat úti í horni.
„Mig langaði bara til að kveðja. Ég er að hætta eða sko ég er hætt,“ sagði
ég og settist við hliðina á henni.
„Í alvöru, ertu búin að fá eitthvað annað að gera?“ spurði hún.
„Nei, nei, en mér leggst eitthvað til.“ Þetta var of góð setning til að segja
hana bara einu sinni á dag.
„Já, þú ert nú svo klár.“
„Takk.“
„Nei, ég meina þetta.“
„Mér líður samt ekki þannig.“
„Það skiptir engu því það á eftir að koma þér mun lengra að einhverjum
öðrum finnist það.“
Við kysstumst bless og hún ilmaði af Coco Chanel. Við létum það vera
að ljúga hvor að annarri að við ætluðum að vera í sambandi.
Úti á Ingólfstorgi stukku strákar á brettum og upp úr krakkahópi við
ísbúðina gnæfðu þeir Tómas, Villi og Steini. Tómas var ekki aðeins í grænu
adidas-treyjunni heldur buxunum líka. Svona í stíl. Til að sýna að hann ætti
allt settið. Eða eitthvað. Ég veit ekki af hverju fullorðið fólk klæðir sig eins
og börn.
„Þú verður bara að fara aftast,“ sagði Steini þegar hann kom auga á mig.
„Við getum ekki verið að hleypa þér inn í miðja röðina.“
„Æi, góði, láttu ekki svona,“ sagði Villi.
„Elsku strákar, ekki fara í slag út af mér,“ sagði ég. „Gott að ég hitti
ykkur annars. Ég var að segja upp.“
„Ertu hætt?“ spurði Tómas. „Á að yfirgefa liðið sitt í miðri keppni?“
„Já, ég ætla að snúa mér að öðru.“
„Svona fólk,“ sagði Steini. „Hleypur undan merkjum um leið og harðnar
á dalnum. Það tekur því að vera að segja þessu til.“
„Þetta er óþarfi, Steini,“ sagði Villi. „Viltu sjeik eða bara venjulegan ís?“
Ég ætlaði að fara að afþakka, væri hætt að borða ís, þegar það rann upp
fyrir mér að hann var að tala við kærustuna, eiginkonuna eða hvað hún nú
var. Að minnsta kosti stóð hún þarna fyrir aftan hann með barnið í kerru. Og
vildi venjulegan ís með dýfu og hrísi.
Tvær unglingsstelpur ruddust framhjá með sinn sjeikinn hvor og röðin
tók fjögur skref fram á við.
„Mig langar hér með til að þakka ykkur fyrir samstarfið. Gaman að hafa
kynnst ykkur,“ sagði ég og tók í hendurnar á strákunum. Þeir tautuðu
eitthvað fallegt sem ég gleymdi um leið. Annars myndi ég eflaust hafa fært
það í letur. Síðan nikkaði ég brosandi til konunnar og hún sömuleiðis til
mín. Ef ég skyldi einhvern tímann hitta hana á jóganámskeiði eða í
kvöldskóla seinna á lífsleiðinni yrðum við eflaust vinkonur.
Niðri við Tjörn voru fáeinir útlendingar á stjákli á útskitinni stéttinni. Ég
fann auðan bekk á bakkanum við Fríkirkjuveginn. Gæfar endur syntu við
fætur mína. Ég dró fram símann, hringdi í Fréttir og spurði eftir Örnu.
„Ég skal athuga það,“ sagði símadaman.
Aftur gerði hann vart við sig þessi hjartsláttur. Gott ef ég átti hann ekki
bara skilinn núna. Gæsahópur nálgaðist mig brauðlausa. Sjö gapandi
goggar. Fjórtán spyrjandi augu.
„Arna,“ var sagt þýðri röddu.
„Sæl, þetta er Oddfríður.“
„Sæl, gott að heyra í þér. Þú mátt bara skutlast hingað til mín núna.“
„Ha?“
„Með greinina.“
„Nei, veistu, ég er hætt við. Ég vil ekki að hún verði birt.“
„Nei, heyrðu mig nú,“ sagði Arna og hló klemmdum hlátri. „Þú veist
ekki hvað þú ert að kalla yfir þig núna.“
Fremsta gæsin var komin upp að mér og virtist ætlast til þess að ég legði
hana á brjóst mér fyrst ekkert bauðst brauðið.
„Það má vel vera en svona vil ég allavega hafa þetta.“ Ég ætlaði að
kveðja.
„Oddfríður mín, hlustaðu aðeins á mig.“ Hún var hætt að hlæja. „Sko,
þetta er hugmynd sem ég hef gengið með í maganum mjög lengi. Ég fól þér
að vinna hana vegna þess að ég hafði trú á þér. Mér væri það mikils virði að
þú skilaðir mér greininni. Ég skal taka við henni eins og hún er og bara
leiðrétta hana sjálf. Þú fengir að lesa lokapróförk.“
„Nei.“
„Ekki láta svona. Ætlarðu kannski að halda áfram að vinna á
Vikuskammtinum? Hvað heldurðu að Jóhann segi ef hann fréttir hvers
vegna þú réðst þig í vinnu hjá honum? Hann myndi alveg trompast.“
„Hann fréttir það nú líkast til hvort eð er ef greinin skyldi birtast
einhvers staðar. Annars káfar hann ekki mikið upp á mig lengur. Ég sagði
upp í morgun.“
„Og léstu Jóhann vita hvers vegna? Sagðirðu honum frá hugmyndinni
minni?“
„Átti ég að gera það?“
„Nei, alls ekki,“ flýtti Arna sér að segja. „Já, nei, veistu ...“ Hún var að
hugsa sig um. „Ég er ekki sátt við þessi málalok.“
„Arna, ég hljóp á mig. Ég hefði ekki átt að samþykkja það að skrifa
þessa grein en mér fannst forsendurnar fyrir samstarfi okkar vera brostnar
þegar þú lakst því að Steini hefði ekki byggt greinina sína á eigin reynslu.“
Forsendurnar fyrir samstarfi okkar brostnar. Ef Villi gæti heyrt í mér núna!
„Já, já, auðvitað má segja það en hittumst nú samt yfir kaffi og ræðum
þetta.“
Ég var búin að hafa það mikil samskipti við hana undanfarna mánuði að
ég gat nú varla neitað henni um það. Ég var að fara að segja já þegar ég sá
að mér. „Nei, nú er þessum kafla í lífi mínu lokið og ég ætla að snúa mér að
öðru. Ég óska þér bara velfarnaðar í framtíðinni.“
„Þú skellir ekki á mig!“ urraði konan með rödd sem ég hafði bara heyrt í
speedmetal-lögum.
„Hvar ertu stödd núna?“ spurði hún og var þá aftur komin með venjulegu
röddina sína.
Ég ætlaði að fara að ljúga einhverju til en gargið í freku gæsinni hefði
komið upp um mig.
„Ég sit hér niðri við Tjörn.“
„Við austur- eða vesturbakkann?“
„Ég er hérna við Fríkirkjuna.“
„Ég kem eftir smástund.“ Hún lagði á. Gæsirnar voru að átta sig á því að
hjá mér var ekkert að fá og lölluðu tuðandi í burtu.
Auðvitað hefði ég líka getað farið. Tekið stefnuna upp í Þingholt og
heim. Komið jafnvel við á Mokka og fengið mér vöfflu með rjóma til að
athuga hvort þær væru jafngóðar og á áttunda áratugnum. Mér lék hins
vegar forvitni á að vita upp á hverju Arna tæki til að fá mig til að afhenda
sér leynigreinina. Ég var alls óhrædd um að ég gæfi eftir. Í fyrsta lagi hafði
ég þegar ákveðið mig og í öðru lagi var ég ekki með greinina á mér svo það
var ekkert sem ég gat látið hana fá.
Ég fór upp á gangstétt svo Arna sæi mig örugglega þegar hún kæmi. Á
meðan skoðaði ég neglurnar á mér sem voru orðnar nokkuð langar. Ég ætti
skilið að kaupa mér naglalakk fyrir helgina, helst dumbrautt eða alveg ljóst.
Eitthvað frá Guerlain. Það eru til svo margir litir í þeirri línu og svo flagnar
það ekki strax af eins og lakkið frá Yves Saint Laurent. Yves er hins vegar
góður í varalitunum. Gott ef hann var ekki líka fyrstur til að framleiða
varalitahulstur sem hægt var að spegla sig í. Ég sló á þráðinn til Kristínar í
Skífunni sem alltaf gefur sér tíma í kjaftatarnir í vinnunni svo félagslífið
koðni nú ekki niður í öllu brauðstritinu.
„Mikið að gera?“ spurði ég.
„Nei, nei, búðin er full af japönskum ferðamönnum að kaupa
Bjarkardiska.“
„Eigum við ekki að fara út á lífið um helgina?“
„Ó, jú, rugl að gera það ekki.“
„Eitthvað annars að frétta?“
„Nei, eiginlega ekki og þó. Fann loksins mann sem mig langar í. Hann
hefur komið grunsamlega oft hingað í búðina að undanförnu. Það getur ekki
verið að hann komi bara hingað til að nýta sér tveir fyrir 2000-tilboðið.
Safndiskar með Billy Joel geta ekki verið það skemmtilegir. Ég er ekki frá
því að hann langi líka í mig. Ég veit að hann sækir 22 svo ég þarf eiginlega
að fara að sýna mig þar.“
Þar með var það fastmælum bundið. Svartur Land Cruiser sigldi fram
með Tjarnarbakkanum, tók U-beygju og var lagt við Listasafnið. Arna
snaraðist út með svarta tuðru á öxl og sólgleraugu á nefi. Hún hefði orðið að
einni klessu oj bara hefði gulur Passat ekki snarhemlað fyrir henni. Konan
fipaðist ekki frekar en þaulæfður áhættuleikari, heldur sveiflaði lyklakippu
tígulega aftur fyrir sig svo small í dyralæsingu jeppans.
„Jæja, bara verið að njóta góða veðursins?“ sagði Arna brosandi. Ég játti
því og vonaðist til þess að grísa á augun í henni þegar ég reyndi að rýna í
gegnum sólgleraugun.
„Fáum okkur sæti,“ sagði hún, tók undir handlegginn á mér og leiddi
mig að bekknum eins og hún hefði verið send af Öldrunarþjónustu
Reykjavíkurborgar. „Sniðugt að hittast hér. Sjáðu bara veðrið.“
Kannski vorum við frekar eins og tvær gamlar vinkonur að reyna að
drepa tímann áður en hann dræpi þær. Og það var ekkert að sjá við þetta
veður. Himinninn var skýjaður og tiltölulega hlýtt. Þetta var kallað
peysuveður þegar ég var að alast upp í Vesturbænum.
„Já, það er búið að vera ótrúlegt veður í sumar,“ samsinnti ég svona til
að vera með.
Arna hafði sleppt handleggnum á mér en hvíldi olnbogann á bekknum
fyrir aftan mig. Ég sat fremst á bekknum og þorði varla að hreyfa mig af
ótta við að steypast fram yfir mig ofan í Tjörnina.
„Ég var eina helgi á fjölmiðlaráðstefnu í Róm núna í lok júlí,“ hélt Arna
áfram, „og mér fannst alveg ferlegt að þurfa að fara héðan jafnvel þótt þetta
væri bara ein helgi. Maður á auðvitað bara að vera heima á Íslandi yfir
sumarið en skreppa út á veturna. Í janúar fór ég til Sviss á skíði í þrjár vikur.
Var þar alein. Það var yndislegt. Hefurðu komið til Sviss?“
Hún beið ekki eftir svari: „Það er voða gaman þar. Rosalega gott líka að
vera ein. Manni hættir til að gleyma því í öllu þessu stressi.“
„Gaman, Arna, gaman hvað það er gaman í Sviss.“ Þetta var farið að
taka heldur langan tíma.
„Oddfríður mín,“ sagði Arna og strauk mér yfir axlirnar. Ég færði mig
frá henni. Það var aldrei mikið um neitt óþarfa kjass á mínu bernskuheimili
og ég veit ekkert hvernig ég á að láta þegar svoleiðis nokk dembist yfir mig.
„Ræðum aðeins saman. Sko, ég vil allt til vinna til að greinin þín birtist í
Fréttum. Hvað viltu fá fyrir? Ég skal greiða þér sérstaklega fyrir auk þess
sem ég skal setja þig bara strax á launaskrá þótt þú byrjir kannski ekkert að
vinna fyrr en eftir, hvað eigum við að segja, tvær vikur. Þarftu ekki gott
frí?“
Svei mér, hvað þetta ætlaði að skipta konuna miklu máli.
„Nei, veistu, þú skilur þetta bara ekki. Ég vil alls ekki birta þessi skrif í
neinu blaði,“ sagði ég og leit með festu, að ég ímyndaði mér, á
sólgleraugun.
Arna kippti að sér handleggnum. „En hvað ætlarðu þá að gera við þetta?
Finnst þér ekki leiðinlegt að hafa lagt á þig alla þessa vinnu án þess að þetta
verði birt? Þetta var svo efnilegt hjá þér.“
„Nei, nei,“ sagði ég.
Hún tók af sér sólgleraugun. Hún hafði haft fyrir því að smyrja á sig eye-
liner en hann var mun þykkari öðrum megin. Maður þarf að vera í góðu
jafnvægi til að geta gert þetta jafnt. „Ertu með greinina á þér?“
Ég hristi höfuðið en hún trúði mér auðsjáanlega ekki.
„Leyfðu mér að kíkja á þetta aftur, kannski þarf ekki að breyta neinu.“
Hún rétti fram höndina svo það hringlaði í tveimur gullarmböndum.
„Arna, vertu ekki að þessari vitleysu. Ég ætla að vinna þessa grein
svolítið betur, bæta fullt af dóti við og athuga síðan hvort hægt sé að gera
eitthvað við hana. Kannski gefa hana út.“
„Gefa hana út? Á bók? Hvað er eiginlega að þér?“
„Á ég ekki mína eigin reynslu? Má ég ekki gera það sem ég vil við
hana? Þú sagðir það einu sinni.“
„Þú getur ekki bara gengið inn á einhverja bókaútgáfu og veifað þrjátíu
síðum.“
„Hvers vegna ekki?“
„Ja, þeir vilja alveg örugglega eitthvað meira en það.“
„Eins og ég sagði þá á ég eftir að bæta heilmiklu við.“
„Jæja, góða, og verð ég þá í bókinni?“
Ég velti svarinu fyrir mér. „Ég skal lýsa þér sem grannvaxinni og
fíngerðri konu og láta þig búa í Hlíðunum,“ bauð ég. „Það er nú ekki svo
lítið.“
„Hlíðunum? Hverju heldurðu að það breyti? Það eiga allir eftir að þekkja
mig.“
„Þetta verður allt í lagi, Arna. Ég þarf að fara. Þakka þér bara voða vel
fyrir allt,“ sagði ég og lagði af stað í átt að Iðnó. Ég átti allt eins von á því
að Arna kæmi á eftir mér.
Ég var komin fáeina metra þegar ég heyrði hana hrópa: „Við tölum betur
saman síðar.“ Botnlaus afneitun. Ég gat ekki látið vera að líta við. Hún stóð
á Tjarnarbakkanum. Grannvaxin og fíngerð og aftur búin að setja upp
sólgleraugun. Gæsirnar sjö spígsporuðu í áttina til hennar.
Á Austurvelli sátu unglingar með bongótrommur í grasinu. Í glugganum
á snyrtivörubúðinni við Austurstræti kom ég auga á gulan hálsklút sem ég
bara varð að eignast svo ég keypti hann. Hann var rándýr og ég vissi ekkert
hvar ég yrði í vinnu á næstunni en þetta hlaut að reddast. Það gat ekki annað
verið en að bjartir tímar væru framundan og eins gott að vera við þeim búin
með gulan klút um hálsinn.
Í þristinum hélt ég áfram að dekra við sjálfa mig og settist í sjálft óléttu-
og gamalmennasætið fyrir aftan vagnstjórann. Gerður G. Bjarklind kynnti
síðasta lag fyrir hádegistilkynningar. „What a Wonderful World“ með
Louis. Fyrir utan gamla Landsbókasafnið við Hverfisgötuna þar sem ég las
einu sinni fyrir próf blöktu fánar í golunni og gegnt 10–11 kom kona með
barnavagn inn. Það þarf ekki lengur að standa upp til að aðstoða fólk með
svoleiðis græjur. Vagninn lækkar sig bara svo það geti bjargað sér sjálft án
þess að vera upp á náð og miskunn samborgara sinna komið.
Ég gat ekki fengið af mér að stíga út fyrr en laginu var lokið. Vagninn
var kominn langleiðina framhjá dularfullu kartöflugeymslunum við
Háteigsveginn þegar Louis rumdi: „Oh, yeah.“ Mér fannst ég vera stödd
inni í þessu „Oh, yeah“ miðju.

You might also like